Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Sunnudagur, 3. mars 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Mars 2024
SMÞMFL
252627282912
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 03:03 0 0°C
Laxárdalsh. 03:03 0 0°C
Vatnsskarð 03:03 0 0°C
Þverárfjall 03:03 0 0°C
Kjalarnes 03:03 0 0°C
Hafnarfjall 03:03 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
69. þáttur. Eftir Jón Torfason
25. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
25. febrúar 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
25. febrúar 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
19. febrúar 2024
Frá Leikfélagi Dalvíkurbyggðar
16. febrúar 2024
68. þáttur. Eftir Jón Torfason
11. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
11. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
08. febrúar 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Kringla Torfalækjarhreppi. Mynd: HAH
Kringla Torfalækjarhreppi. Mynd: HAH
Pistlar | 09. október 2021 - kl. 21:23
Þættir úr sögu sveitar: Öreigarnir á Kringlu
12. þáttur. Eftir Jón Torfason

Elín Bjarnadóttir (1734-1800) flutti ung kona að Kringlu, um 1757. Maður hennar hét Ólafur Jónsson og eignuðustu þau að minnsta kosti fimm börn. Búskapurinn virðist hafa gengið skrykkjótt, og þau verið með þeim fátækustu í hreppnum. Hjá þeim eins og fleirum hefur fjárkláðinn, sem geisaði grimmt um stóran hluta landsins á sjöunda og áttunda áratug aldarinnar, höggvið stór skörð í bústofninn svo þegar Ólafur deyr, annaðhvort 1781 eða 1782, mega þau teljast öreigar. Við fjárkláðanum var brugðist með því að skera niður allt fé á Suður-, Vestur- og Norðurlandi, sýslu eftir sýslu, á árunum 1772-1779 og var það í sjálfu sér mikið skipulagsafrek en fjártalan hafði ekki rétt sig við þegar móðuharðindin dundu yfir 1783. Í þeim féll næstum allt sauðfé sem eftir var og hross á flestum bæjum en um helmingur kúnna í landinu lifði.

Vorið 1784, nánar tiltekið 17. apríl, gerði séra Sæmundur Oddsson prestur í Steinnesi skrá um bústofn í sinni sókn, Þingeyrasókn. Til glöggvunar skal þess getið að gosið í Lakagígum hófst 8. júní 1783 og fljótlega barst öskumökkur norður og vestur yfir en „móðan,“ þ.e. mistrið með eitruðum lofttegundum úr gosinu, lagðist yfir allt landið í kjölfar öskunnar. Askan gerði í sjálfu sér ekki stórvægilegan skaða nema á ákveðnum svæðum, en móðan eitraði gróðurinn alls staðar. Grös spruttu lítið sumarið 1783 en menn reyndu samt að reyta saman einhver hey, var helst hægt að heyja í blautum mýrum en túngresi varð sáralítið.

Það má hafa sem nokkurs konar þumalfingurreglu að eitt kúgildi nægi til framfærslu eins heimilismanns, þannig að ein kú eða sex mylkar ær komi á mann. Skv. skýrslu séra Sæmundar voru fimm heimilismenn á Kringlu haustið 1783, það er Elín og börn hennar fjögur. Fimmta barnið, dóttirin Kristín (f. 1764, d. 1843), hefur verið farin að heiman, en ekki er vitað hvar hún ól manninn þessi ár. Á Kringlu var bústofninn 2 kýr, 6 kindur og 4 hross. Þessi fénaður samsvaraði rúmlega þremur kúgildum og var í knappara lagi til að framfleyta þessu fólki miðað við ofangreinda þumalfingursreglu, en var allur fallinn vorið 1784, nema ein kýr.

Tveir synir Elínar, Ólafur og Þorleifur, eru taldir „daufir“ í húsvitjunarbók Þingeyra haustið 1784 við lok fyrsta hörmungarársins. Líklega hafa þeir einfaldlega verið orðnir vanmegna af hungri og vannæringu því þeir dóu báðir veturinn eftir, Þorleifur, 18 ára, dó 16. janúar 1785, úr „ófeiti“ og „bólgu,“ en Ólafur, 21 árs, dó 4. febrúar. Dánarorsök: „Hlustarverkur. Lá 1 dag,“ færir séra Sæmundur í Steinnesi í prestsþjónustubókina.

Við húsvitjun árið eftir, haustið 1785, er þrennt lifandi á Kringlu: Elín, ekkja, 51 árs; sögð lítið læs, fróm, ærið dauf.

Jónas Ólafsson, sonur hennar 26 ára; stafar nokkuð, ei of frómur, hirðulítill.

Guðrún Ólafsdóttir, 14 ára, hennar dóttir; ólæs, hegðar sér nokkurn veginn, hefur lært Spurningar Jóns biskups Árnasonar [nefnt vegna fyrirhugaðrar fermingar stúlkunnar]. Guðrún er svo fermd vorið 1786 og er þá enn ekki læs en tekið fram að hún sé fermd með prófasts leyfi. Henni hefur því tekist að læra utan að fróðleikinn úr kverinu og eitthvað hefur hún hlotið að geta stautað.

Næsta áratuginn til aldamótanna, þegar Elín deyr, býr þetta fólk við þröngan kost. Umsagnir um Elínu, Jónas og Guðrúnu við húsvitjanir eru svipaðar lengi vel, þau eru einföld, skilningslítil, fáfróð, fákunnandi, ærið dauf og stundum talin ólæs, enda engin bók á heimilinu til að lesa í, a.m.k. ekki guðsorðabók. Sem betur fer hættir presturinn þessum einkunnagjöfum og kannski hefur ástandið á bænum líka batnað smám saman því við húsvitjun 1798 eru þau öll talin læs.

Svona ummæli eða einkunnir einstakra presta verður jafnan að taka með fyrirvara og geta vissulega verið ósanngjörn, en ýmsir aðrir vitnisburðir renna stoðum undir heldur lítilfjörlegt andlegt atgervi heimilisfólksins á Kringlu á þessum árum.

Kringla tilheyrði Þingeyraklausturumboði eins og átta aðrar jarðir í Torfalækjarhreppi. Um 1550 átti klaustrið á Þingeyrum um 60 jarðir í sýslunni og við siðaskiptin sölsaði Danakonungur þær allar undir sig. Varð þá til svonefnt Þingeyraklaustursumboð með þessar 60 jarðir og höfuðbólið Þingeyrar sem konungur taldist nú eiga. Sá sem hélt umboðið af hendi konungs fékk allt að þriðjungi afgjalda leiguliðanna í sinn hlut og var því févænlegt að hafa umsjón með svona umboðum, enda tókst mörgum að efnast á slíkum rekstri. En þegar hér var komið var reksturinn orðinn þungur, ærkúgildin á leigujörðunum höfðu víðast hvar fallið í fjárkláðanum og sumar jarðir voru komnar í eyði en illa gekk að innheimta afgjöld af því örsnauða fólki sem eftir hjarði. Gísli nokkur Thorlacius hafði farið með umboðið í um áratug en nú hafði Oddur Stephensen, hálfbróðir Ólafs stiftamtmanns Stefánssonar, fyrir fáum árum tekið við. Höfðu bæði Gísli og Oddur nokkrum sinnum fengið fríun frá að standa skil á fullum afgjöldum af umboðinu til landfógetans, það sem nú er kallað að skuldir séu afskrifaðar.

Oddur var áfram um að koma eyðijörðunum í ábúð og fyrra hungurárið, 1784, mætti hann á manntalsþing í hreppum sýslunnar til að fá yfirlit um ástand umboðsjarðanna. Í dóma- og þingbók sýslumanns segir svo, við manntalsþing á Torfalæk 29. júlí, 9. liður:

Kom fyrir réttinn not[arius] O. Stephansson og eftir spyr 1: Hvört nokkrar Þingeyraklaustursjarðir séu í eyði í þessari þingsókn? Svar: Skinnastaðir og Kringla, þó fólk enn nú þar við lafi, þar einkis betalings sé að vænta til forpaktarans og meinist þá og þá að ganga frá fyrir atvinnuskorti svo sem alls laust.

Forpaktari er umboðsmaður; betalingur er borgun og notarius var titill Odds Stephensen, merkir eiginlega skrifari. Undir þennan gjörning ritar sýslumaðurinn Magnús Gíslason og átta bændur.[1]

Fólkið á Kringlu „lafði“ áfram á jörðinni eins og sveitungarnir orðuðu það. Árið eftir, þegar búpeningur í hreppnum er tíundaður á hreppaskilum, er Kringla sögð í eyði en þar eru þó taldar fram 2 kýr. Engin önnur skepna virðist vera á bænum þetta ár. Sömu sögu er að segja tveimur árum síðar, 1787, þá eru hér 2 kýr en komið eitt folald en það sem er kannski athyglisverðast er, að þetta ár hefur verið hlaðinn túngarður, 8 faðma langur.

Árið 1788 eru enn 2 kýr og komin ein ær og 1890 eru báðar kýrnar ennþá til staðar og 1 folald, 1 ær og 2 gimbrar þannig að segja má að örlítið líf blakti þótt á veiku skari sé. Svo illa vill til að búnaðarskýrslur úr Húnavatnssýslu eru mjög slitróttar framan af, hafa líklega brunnið á amtmannssetrinu á Möðruvöllum 1826, þannig að ekki er unnt að rekja búfjárfjöldann á Kringlu næsta áratuginn.

Það vekur eftirtekt við þetta búfjártal, ef hægt er að nota svo stórt orð um þessar fáu skepnur, að í skepnufelli móðuharðindanna lögðu menn allt kapp á að halda lífi í kúnum til að fá mjólkina að nærast af. Sauðfé og hross drapst unnvörpum (80-90%) eins og áður er nefnt en um helmingur kúnna í landinu lifði.

Leiguliðar eins og Elín þurftu náttúrulega að borga afgjald fyrir jarðnæðið og þótt hún hefði í raun ekkert sér til framfæris kom fram innheimtukrafa ár hvert. Árið 1788 var Elín komin í  skuld upp á 3 rd. og 36 skildinga (96 skildingar gerðu einn ríkisdal). Raunar voru fleiri landsetar klausturumboðsins undir sömu sök seldir og á manntalsþingi 8. júní 1789 var ráðslagað um innheimtuna. Skipaði sýslumaður hreppstjórunum árið eftir að framkvæma lögtak með þessum orðum:

Tilsegist yður hér með án veigrunar að fara í þeirra bú  og við lögformlega execution [framkvæmd/löggjörningur] að úttaka og virða af þeirra peningum, ef nokkrir fyrirfinnast, svo mikið sem kann við þurfa, bæði til afbetalings sjálfum restantzerne [efirstöðvar/skuld] og billegum launum fyrir yður þar við hafandi fyrirhöfn og ómak. Frá þessari execution meina ég þó megi undantakast lítilfjörlegur hversdags fatnaður og nauðsynlegustu búshlutir, án hvörra þeir geta ómögulega verið né við jörð eður búskap haldið, en öngvan veginn þeirra lifandi skepnur eður málnyta, af hvörju þeir geta eins eftir sem áður haft brúkun og gagn við að taka það til leigu með jörðunum, svo lengi þeir halda við búskap á þeim. Það sem upp á þennan máta verður af dauðum aurum útlagt, svo vel sem það af lifandi skepnum er landsetarnir vilja ei sjálfir taka til leigu og búa við, skal við action [uppboð] burt seljast til hæstbjóðanda fyrir sem mest verð og kunni það þá hlaupa meira en fyrir skuldunum og yðar ómakslaunum kemur það þeim til góða hjá hvörjum það var úttekið. Á þessu að vera aflokið innan júlí mánaðar útgangs og executions forrettingin innsendast til notarius O. Stefánssonar, en skyldi hér af yður mót von minni ske nokkur forsómum megi þér vænta að standa hans Majst. kassa til andsvars fyrir þann skaða sem þar af kann fljóta.

Stóradal þann 16. júní 1790,
Björn Jónsson[2]

Hreppstjórarnir, Erlendur Guðmundsson á Torfalæk og Sigurður Gíslason á Reykjum, létu mánuðinn líða þar til þeir heimsóttu Elínu, athuguðu bú hennar og lýstu eigum hennar svo í skýrslu:

Hjá Elenne Bjarnadóttir á Kringlu:
1 ær og tvö lömb.
1 orf, 1 hrífa.
1 pottur með tveimur götum á botninum.
1 kistuskrifli loklaust.
Ein 10 marka fata.
1 grasspík [stuttur ljár] og önnur lítt nýt.

Aðra fjármuni fundum við þar hvorki úti né inni til nokkurs hlutar nýtandi og aldrei höfum við séð lélegri klæðnað á nokkrum mannslíkama en á Elenne og hennar börnum.

Og þar beggja[3] þessara persóna ástand og efni eru á allan máta svo vesælt og aumt, svo innstillum við hér með til yfirvaldanna úrskurðar og náðugs álits, hvort þessara þeirra fáu sauðkindur sem þeim hafa verið gefnar, skulu útleggjast í meir nefnda þeirra landskulda og leigna restantir [skuldir/eftirstöðvar].

Þetta framan og ofan skrifað hafa svoleiðis fram farið, vitna undirskrifaðir, Kringlu þann 17. júlí 1790.

Erlendur Guðmundsson, Sigurður Gíslason[4]

Við þetta var látið sitja og þessir fáeinu ríkisdalir sem Elín skuldaði hafa á endanum verið gefnir eftir. Hreppstjórarnir, Erlendur á Torfalæk og Sigurður á Reykjum, voru nágrannar Kringlufólks og fullkunnugt um aðstæður þess. Þeir hafa ekki fengið orð fyrir harðdrægni og Oddur klausturhaldari ekki heldur. Um þessar mundir fékk Elín líka lítilfjörlega fátæktaraðstoð frá hreppnum, sem fólst einkum í því að útsvar, sem hún hefði átt að greiða, var fellt niður. Á næstu fimm árum var styrkurinn til hennar samanlagt 112 fiskar sem gerir tæplega 3 ríkisdali. Síðast fékk hún 12 fiska í „styrk“ árið 1794 en þá var fólk almennt tekið að rétta úr kútnum.

Síðustu ár 18. aldar var tíðarfar nokkuð gott, gras spratt á túnum og í úthaga og hagur manna vænkaðist á ný eftir hörmungar níunda áratugarins. Svo var einnig um litlu fjölskylduna á Kringlu og skv. búnaðarskýrslu 1803 eru þar eins og áður 2 kýr, en einnig 2 tamdir hestar, 1 meri og 1 folald, en það sem mest er um vert 19 mylkar ær og 4 lömb.


[1] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/2, örk 3. Á þessum árum rita nær alltaf átta bændur undir þingbókina með sýslumanni á manntalsþingum. Þeir sem rita nöfn sín hér undir voru:  Jón Þorvarðsson sem bjó í Köldukinn. Þá eru tveir Jónar Jónssynir, annar er sennilega sonur Jóns Þorvarðssonar og þá í Köldukinn en hinn væntanlega Jón Jónsson á Kagaðarhóli. Síðan eru Þorsteinn Benediktsson sem bjó á Reykjum og var nefndur hér fyrr í þætti um Stóru-Giljá, Þórður Helgason á Torfalæk, Ólafur Helgason  á Hnjúkum, Ásgrímur Jónsson á Hurðarbaki og Guðmundur Árnason  sem bjó á Húnsstöðum.
[2] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/2, örk 3. Björn var sonur séra Jóns Björnssonar á Auðkúlu en kominn af Bólstaðarhlíðarfólki í móðurætt. Hann nam við háskólann í Kaupmannahöfn og gerðist auðmaður mikill þegar heim kom, bjó í Stóradal. Var settur sýslumaður í Húnavatnssýslu 1791 en andaðist árið eftir. Hann átti eina laundóttur sem upp komst, Rósa Björnsdóttir, sem þótti lítt viti borin og tókst fjárhaldsmönnum hennar að sólunda arfi hennar þannig að hún lauk ævinni sem allslaus niðurseta á Vatnshorni í Línakradal árið 1860.
[3] Hreppstjórarnir höfðu líka átt að gera lögtak hjá Hannesi Jónssyni í Holti en hann var álíka báglega staddur og Elín og hefur fyrr verið sagt frá honum.
[4] ÞÍ. Rentukammer B27/21, örk 2. Hreppstjórar Torfalækjarhrepps gera grein fyrir vanskilum landseta Þingeyraklausturs, 17. júlí 1790. Plaggið virðist vera uppkast og ekki ritað eftir ströngustu málfræðireglum.

Þættir úr sögu sveitar

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið