Pistlar | 18. október 2021 - kl. 13:47
Frá umhverfisnefnd Skotfélagsins Markviss

Eins og mörgum er kunnugt um þá tók Skotfélagið Markviss nú í ár þátt í skógræktar verkefni sem kallast „Vorviður“ og er á vegum Skógræktar ríkisins.

Félagið fékk úthlutað kr. 200.000 til verkefnisins úr sjóð sem settur var á laggirnar og eyrnamerktur fyrrgreindu verkefni,og lagði svo til kr. 100.000 á móti. Einnig fékkst styrkur úr Umhverfissjóð UMFÍ.

Plantað var um 1200 trjáplöntum, sitkagreni, lerki, stafafuru, íslenskum reyni og birki á 7 reitum umhverfis skotíþróttasvæði Markviss í sumar og haust og sá Snjólaug M. Jónsdóttir formaður Umhverfisnefndar um verkið ásamt hópi félagsmanna úr Markviss.

Þá var hrundið af stað verkefni þar sem fyrirtækjum hér á Blönduósi var boðið að kaupa trjáplöntur og kolefnisjafna hjá sér reksturinn. Viðtökur voru framar vonum og tryggt að áframhald verður á plöntun næsta sumar.

 Stefnt er að því að sækja aftur um styrk í Vorvið og Umhverfissjóð,og ef allt gengur að óskum verður hægt að ljúka plöntun á svæðinu á næstu 2 til 3 árum.

Þau tré sem vaxa munu á svæðinu á komandi árum auka svo skjól á völlum félagsins og draga úr hljóði sem berst frá starfseminni.

Hafi einstaklingar eða fyrirtæki áhuga á að koma að þessu skógræktarverkefni Markviss með einum eða öðrum hætti má hafa samband með því að senda tölvupóst á kronos@simnet.is. 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga