Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Laugardagur, 15. júní 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Júní 2024
SMÞMFL
2627282930311
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
30123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 12:31 0 0°C
Laxárdalsh. 12:31 0 0°C
Vatnsskarð 12:31 0 0°C
Þverárfjall 12:31 0 0°C
Kjalarnes 12:31 0 0°C
Hafnarfjall 12:31 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
76. þáttur. Eftir Jón Torfason
15. júní 2024
Eftir Guðmund Inga Guðbrandsson
15. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
13. júní 2024
Eftir Ásgerði Pálsdóttur
09. júní 2024
Eftir Dagnýju Rósu Úlfarsdóttur
05. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
03. júní 2024
75. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. maí 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Kringla Torfalækjarhreppi. Mynd: HAH
Kringla Torfalækjarhreppi. Mynd: HAH
Pistlar | 24. október 2021 - kl. 13:06
Þættir úr sögu sveitar: Bæjarhús á Kringlu 1801
13. þáttur. Eftir Jón Torfason

Bjarni Halldórsson sýslumaður, sem dó 1773, hafði lengi haft Þingeyraklaustursumboð á sínum snærum. Nokkrum árum eftir andlát hans, þ.e. 1776, var umboðið tekið út við uppgjör dánarbúsins. Jarðirnar í umboðinu voru um 60 að tölu og fylgdu hverri þeirra nokkur bæjarhús sem leigjandi þurfti að skila í sómasamlegu standi, eins konar verðtrygging þess tíma. Þetta voru baðstofa, eldhús, búr, bæjardyr og fjós. Þessi fimm hús voru lágmarks húsakostur, en stundum voru að auki stofa, skemma, smiðja eða kofi, einstaka sinnum eru nefnd fjárhús. Við úttektir var einkum horft til viðanna, timbursins í byggingunum, en einnig hvort veggir væru stæðilegir. Fyrir utan þessi hús hafði leiguliði oft reist aðrar byggingar, eins og fjárhús og einhverja kofa, sem voru við brottför hans metnar sérstaklega. Þegar svona úttektir eru skoðaðar þarf sum sé að hafa í huga að á jörð geta verið byggingar sem ekki eru skrifaðar upp eða gerð grein fyrir. Þegar leið á 19. öld fóru að tíðkast byggingarbréf þar sem skilmálar þeir sem leiguliði átti að hlíta voru tíundaðir nákvæmlega.

Frá því á miðöldum hafði tíðkast að setja svokölluð leigukúgildi á jarðir umboðsjarðanna, og raunar einnig jarðir sem voru í einkaeigu. Jarðareigandinn átti þannig nokkurn bústofn, ýmist kýr eða mjólkandi ær, sem fylgdi viðkomandi jörð og leiguliðinn hafði afnot af en þurfti eðlilega að greiða leigu fyrir og var leigan vanalega greidd í smjöri. Stundum komu menn líka slíkum kúgildum fyrir á öðrum jörðum sem voru í eigu annarra. Þetta fyrirkomulag gat verið hagstætt ungum bændum sem voru að koma undir sig fótunum en áttu fátt kvikfé. Gallinn var hins vegar sá að leigan eftir þennan fénað var býsna há. Algeng leiga eftir ásauðarkúgildi var 2 fjórðungar af smjöri [hátt í 10 kíló, fjórðungur er tæp 5 kíló] en gera mátti ráð fyrir að úr sumarmjólk frá 6 ám mætti vinna 6 fjórðunga smjörs, þannig að um þriðjungur afurða hvers kúgildis fór í leiguna. Ef hins vegar eitthvað bjátaði á, ef t.d. komu hrakvirðri þannig að nytin í ánum féll, gat farið svo að meginhlutinn af afurðunum færi í að greiða leiguna og lítið væri eftir handa leiguliðanum til sinna nota. Í hallærum drápust svo leiguærnar stundum og jafnvel kýrnar og þá var togast á um hver ætti að „bæta upp“ leigukúgildin, þ.e. ala upp nýjar ær eða kýr í stað þeirra sem drápust úr elli eða fórust í harðindum eða fyrir slys. Raunin varð sú að eignamönnunum tókst smám saman að velta þeirri ábyrgð yfir á leiguliðana þannig að þeirra kostur varð sífellt harðari.

 Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín var tekin fyrir Torfalækjarhrepp árið 1706 voru á Kringlu 5 leigukúgildi, þ.e. 5 sinnum 6 ær = 30 ær eða 1 kýr og 24 ær eða þá 2 kýr og 18 ær. Innbyrðis hlutföllin eru ekki tilgreind. Síðan segir: „Fóðrast kann 2 kýr, 12 lömb, 30 ær og 3 hestar.“ Samkvæmt þessu hefur leigupeningurinn, sem leiguliðinn varð að fóðra og gjalda leigur fyrir, verið um 2/3 hlutar af þeim bústofni sem jörðin var talin geta framfleytt. Þau kjör hafa sett leiguliðanum þröngar skorður. Við áðurnefnda úttekt árið 1776 segir svo um Kringlu, eftir að gerð hafði verið grein fyrir ástandi bæjarhúsanna:

Eftir undirretningu [skýrslu/frásögn] bónda hér, Ólafs Jónssonar, skal hann hafa meðtekið með þessari jörðu í innstæðu 24 ær í uppbyrjun síns búskapar hér af sýslumanni sáluga, Bjarna, en segir þann velnefndan sýslumann síðar við bætt hafa einu ásauðar kúgildi, hver öll séu nú útdauð í fjárpestinni og sandfokinu og hvorki höfuðstóll eður renta sé af sér svarað til velnefnds sýslumanns eður hans erfingja, utan hvað hann hafi í leigna nafni svarað 20 álna virði árlega eftir þessi útdauðu kúgildi til hans frá því þau dáið hafi, allt til tveggja ára fyrir hans afgang, en hann hafi aftur gefið sér miklu meira. Eina kú segir Ólafur þessi sig goldið hafa í landskuld til velnefnds sýslumanns, Bjarna, sem hann hafi aftur sett hér í kúgildi og nú sé jörðunni fylgjandi í leigufæru standi fyrir nærverandi.[1]

Þarna kemur fram að upphaflega hefur Ólafur leigt 24 ær en Bjarni fjölgað þeim í 30, þ.e. 5 kúgildi í samræmi við það sem segir í Jarðabókinni 1706. Af þessu yfirliti má líka ráða að Ólafi hafi ekki tekist að standa að öllu leyti í skilum með jarðar afgjöldin en orðið að láta mjólkurkú upp í þau, sem síðan var sett á jörðina sem kúgildi þannig að þau hafi þá verið 6. Það er sárgrætilegt að sjá hvernig eigur fátæklingsins rýrna þannig jafnt og þétt og hann verður sífellt fátækari meðan auðmaðurinn fitnar, sem er gömul saga og ný. Stephan G. Stephansson kvað svo um þetta: „Iðjulaust fjársafn á féleysi elst, sem fúinn í lifandi trjám.“

Eftir að Ólafur bóndi dó lafði Elín áfram með sinn öreigabúskap eins og rakið var í síðasta þætti. En á tíunda áratug 18. aldar var árferði nokkuð gott og margir gátu rétt ögn úr sér í fátæktar bóndabeygjunni, þeirra á meðal Kringlufólk. Elín naut þess þó lítt því hún lést á annan í jólum aldamótaárið, 26. desember 1800.

Sumarið eftir eru bæjarhúsin tekin út, líklega í sambandi við dauða Elínar og að þau Jónas og Guðrún börn hennar tóku við jörðinni til leigu. Enn er Erlendur Guðmundsson hreppstjóri á Torfalæk mættur og með honum Ólafur Björnsson (Mála-Ólafur) sem mikið kom við sögu í málefnum sveitar og héraðs næstu árin. Í úttektinni er bæjarhúsum lýst svo:

Anno 1801, þann 18.  nóvember, er jörðin Kringla skoðuð og yfirlitin og fyrirfannst hún í því standi sem hér eftir greinir:

1  Baðstofa, frek 3 stafgólf. Með 4 bitum, 4 sperrum, 8 stöfum, syllum og vegglægjum, langböndum og mænitróðu. Reft með greniviðar upprefti. Hús þetta var byggt í hittifyrra að viðum. Er því álitið í sæmilegu standi til viða og veggja. Dyrastafir og hurð fylgja.

2  Búrhús, tvö stafgólf á lengd. Með 1 bita, 2 stoðum, langreft og þverreft á ás og þverrafta. Fyrir dyrum hurð á járnum með hespu og keng.

3  Eldhús, 2 stafgólf á lengd. Með 1 bita, 2 stoðum, langreft og þverreft með gömlum við. Hús þetta er stæðilegt að viðum og veggjum.

4  Kofi norðan til í bænum, 4 ½ alin á hvörn veg. Reftur með langröftum helst. Þessi kofi er lélegastur en þó nokkuð stæðilegur.

5  Göng frá baðstofudyrum til bæjardyra. 1 ½ faðmur framan til af göngunum er í sæmilegu standi en innri partur ganganna er með lélegum þverröftum fúnum. Veggir moldrunnir og snaraðir. Fyrir bænum hurð á járnum við tvo dyrastafi. Lítið bjórþil er yfir dyrum.

6  Fjós yfir 3 naut. Með einlægum mæniás og stoð undir, þverreft með gömlu greniviðar upprefti. Að norðan- og vestanverðu eru veggir stæðilegir en suðurveggurinn laslegur. Ranghali fram af fjósinu til útidyra nokkurn veginn í standi. Fyrir dyrum hurðarflak við tvo dyrastafi.

        Á hér að framan skrifuðum húsum eru þök í góðu standi.
        
Þessari jörðu fylgir 1 kýr í góðu standi.

        Erlendur Guðmundsson, Ólafur Björnsson.[2]

Þetta eru sömu hús og tíunduð voru 1776 en þar var þó getið um smiðju fyrir sunnan bæinn sem nú er horfin. Eins og fyrr var nefnt er líklegt að á jörðinni hafi verið fjárhús og heygarðar sem þá hafa verið eign ábúendanna.

Stafgólf gátu verið misstór en vanalega munu þau hafa verið nálægt 3 álnum, þ.e. 62,7 cm sinnum 3, sem gerir 1,80 metra. Þrisvar sinnum 1,80 metrar er 5,40 metrar. Breidd baðstofa er sjaldan tiltekin í elstu úttektunum en hefur trúlega verið 3 til 3 ½  metri. Síðan er búrið og eldhúsið skv. úttektinni um 3 sinnum 3,50 metrar á kant. Kofinn nr. 4 er 4 ½ alin á hvern veg, þ.e. um 2 ½ metri á kant eða 5 fermetrar.

Þessi hús eru að verulegu leyti hlaðin úr torfi og grjóti. Þegar nefndur er ranghali, eins og í fjósinu, má reikna með að þar í sé enginn viður heldur veggir hlaðnir úr torfi og látnir lykjast saman að ofan eins og gert er í bogagluggum. Timbrið í þessum húsum er eingöngu stoðir og bitar og svo raftviður til að halda uppi torfþakinu. Húsin eru sögð langreft eða þverreft en þá eru grennri spækjur og renglur lögð á burðarrafta ýmist langs eða þvers undir torfið. Þessi hús eru örugglega ekki þiljuð innan því það hefði verið tekið fram. Líklega er mestallur viðurinn rekaviður en trúlegt að víðitægjur eða hrís sem óx í landinu hafi verið haft ofan á áreftið undir torfþökin.

Það eru litlar skjallegar heimildir til frá fyrri öldum um verslun með rekavið en vitað að reki taldist til meiri háttar hlunninda á sjávarjörðum. Viðskipti með rekaviðinn hafa líklega að mestu leyti farið fram í einhvers konar neðanjarðarhagkerfi á þessum tíma og bændur eða jarðeigendur á rekajörðum selt timbur fyrir búmat eins og smjör, eða þá kindur og sauði.

Þessi hús eru lítil, reyndar með þeim smærri í úttektum Þingeyraklaustursjarðanna. Það er svolítið hæpið að reikna heildar flatamál þessara húsakynna en giska má á 35-40 fm, þ.e. öll innanbæjarhúsin og reyndar fjósið að auki. Þarna bjuggu þó um þessar mundir aðeins þrjár manneskjur og má segja að það sé ekki hlutfallslega þrengra en margt það húsrými sem stundum hefur tíðkast að bjóða erlendu vinnuafli að gera sér að góðu hér á landi á vorum dögum.


[1] ÞÍ. Skjalasafn umboðanna. Þingeyraklaustur VII, 2. Kringla er jörð nr. 15 á jarðalista.
[2] ÞÍ. Skjalasafn umboðanna. Þingeyraklaustur VII, 1.  Kringla er jörð nr. 4 á jarðalista.

Þættir úr sögu sveitar

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið