Frá Heimilisiðnaðarsafninu í gær.
Frá Heimilisiðnaðarsafninu í gær.
Sigríður og Jón
Sigríður og Jón
Pistlar | 31. október 2021 - kl. 15:06
Þrif og smit
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Sagnfræðingar voru laðaðir að sölum Heimilisiðnaðarsafnsins laugardaginn 30. okt.

Þangað komu Jón Torfason sagnfræðingur og Sigríður Sigurðardóttir lektor við Hólaskóla. Þau voru bæði á heimavelli, Sigríður upprunnin úr Blönduhlíð en Jón af Ásunum, sem áður skiptust milli Hjaltabakka- og Þingeyrasókna.

Fyrirlestrasalurinn fylltist af gestum sem hlýddu á fyrirlestra þeirra, erindi Sigríðar hét Þrif í torfbæjum en Jón fjallaði um sullaveiki, smitleiðir, áskoranir lækna og viðvaranir um smit frá hundum, aðstæður þeirra sem framfærðir voru á kostnað sveitarinnar og rakti að lokum sögu húnvetnsks drengs og niðursetnings, sem lést úr sullaveiki rúmlega tvítugur, var þá kominn suður til Reykjavíkur. Erindi Jóns var byggt á ferð hans  norður um Húnaþing með áhugamönnum um sögu baráttunnar við sullaveikina, allt fram að Kúfustöðum í Svartárdal, þar sem Jón Thorstensen landlæknir fæddist 1794.

Líflegar umræður og fyrirspurnir urðu í lok fundarins sem Elín forstöðumaður safnsins kveikti með því að fela fyrirlesurum fundarstjórn meðan hún sjálf undirbjó veitingar í kaffistofunni.

Í safninu voru haldnir tvennir tónleikar í júlí, Helga Rós, söngkona og kórstjóri, söng á þeim síðari við undirleik Evu Þyri Hilmarsdóttur en á fyrri tónleikunum fluttu Hafdís Bjarnadóttir og Passepartout Duo eins konar óð til kvöldvöku gamla tímans þegar fjölskyldur sátu saman í baðstofum, unnu úr ullinni og hlýddu á sögur og kveðskap.

Tónlistina  nefndu þau sauða- og prjónatóna og framkölluðu þá með gítar, slagverki, hljómborði og tölvu auk óhefðbundinna hljóða eins og braki frá hesputré, spunahljóði rokks, kembingu ullar og klið frá prjónum áheyrenda.

Síða Heimilisiðnaðarsafnsins: http://textile.is/heim/

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga