Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Mánudagur, 22. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 23:06 0 0°C
Laxárdalsh. 23:06 0 0°C
Vatnsskarð 23:06 0 0°C
Þverárfjall 23:06 0 0°C
Kjalarnes 23:06 0 0°C
Hafnarfjall 23:06 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Kringla Torfalækjarhreppi. Mynd: HAH
Kringla Torfalækjarhreppi. Mynd: HAH
Pistlar | 07. nóvember 2021 - kl. 20:21
Þættir úr sögu sveitar: Fáfróð systkini á Kringlu
14. þáttur. Eftir Jón Torfason

Sem fyrr sagði var búfénaður á Kringlu í algjöru lágmarki um 1790 en í næstu búnaðarskýrslu, sem varðveist hefur, þ.e. frá vorinu 1803 hefur hagur systkinanna sem bjuggu hér vænkast mjög. Þá eru hér 2 kýr, 19 ær og 4 lömb og svo einn hrútur , 2 hestar, 1 meri og 1 folald.

Um haustið fengu systkinin svolítinn arf eftir móðurbróður sinn, Einar Bjarnason sem þá var á Litla-Búrfelli en reitum hans var skipt í október1803.[1] Erfingjar hans voru tvær systur, sem ekki koma hér við sögu enda báðar barnlausar, og svo þau börn Elínar, þriðju systurinnar, sem þá voru á lífi, Jónas og Guðrún Ólafsbörn á Kringlu og Kristín systir þeirra sem virðist lengst af ævi hafa verið á flökti um byggðina, stundum húskona, stundum vinnukona og stundum á flakki.

Jónas Ólafsson fékk í sinn hlut andvirði 13 ríkisdala og 28 1/6 skildings. Þar á meðal voru 2 ær og 1 sauður, síðhempa, silfurskeið, pottur, kista, Vídalínspostilla (vetrarpartinn), Hallgrímssálmar og skrína. Kristín og Guðrún fengu 6 rd., 62 1/12 sk. hvor. Guðrún fékk 2 ær og blátt klæðispils en Kristín  jarpskjóttan kapal, nokkuð af ull og grallara. Allt virkar þetta frekar fáfengilegt en fátækt fólk munar um allt.

Í búnaðarskýrslu tíu árum síðar, árið 1814, er hagur búsins orðin töluvert betri; áfram eru kýrnar tvær, 3 hestar tamdir og 1 ótaminn, væntanlega hryssa, ærnar eru 20 og 20 lömb og loks talið saman 8 sauðir og gimbrar, þ.e. veturgamlar kindur. Með ám er átt við mylkar ær, þ.e. ær sem er fært frá og gefa þannig af sér mjólk, en nú eru komnir nokkrir sauðir, sem tvímælalaust lifa á útigangi. Hin háa lambatala er vísbending um að ætlunin sé að fjölga sauðunum, því ekki hefur þurft nema 4-5 lambgimbrar til að halda við tölu ánna.

Heimilismenn árið 1814 eru fimm að tölu. Í mats- og álagningarskýrslum frá þessum árum er, eins og áður er getið, talið hæfilegt að eitt kúgildi dugi til að framfæra einn mann. Þar sem kýrnar eru tvær ættu 18 ær þeim til viðbótar að duga til að framfæra hina fimm íbúa heimilisins. Þannig er kominn alldrjúgur búpeningur og má ætla að systkinin hafi getað nýtt umfram afurðir, þótt litlar hafi verið, til að „eignast“ eitthvað fyrir utan allra brýnustu nauðsynjar.

Ein afleiðing fellisins í móðuharðindunum var að leigukúgildum fækkaði verulega, mjög víða um helming, sem mun þegar til lengdar lét hafa verið landsetunum til hagsbóta. Gögn um kúgildafjöldann eru svolítið óljós en nokkrum árum síðar, 1829, eru ¾ hlutar jarðarinnar leigðir með einu ásauðar kúgildi sem samsvarar 6 ám og ekki hefur verið óyfirstígandi kvöð. Má ætla að leigukúgildin á Kringlu hafi verið 1 til 2 eftir móðuharðindin.

Þar sem búnaðarskýrslunum sleppir má nota hreppsbók Torfalækjarhrepps til að fá hugmynd um hvernig búskapur hafi gengið hjá einstökum bændum. Hún hefst 1790 og er þar gerð grein fyrir gjöldum hvers bónda og annarra íbúa til hreppsins, eða réttara sagt til fátækraframfærslunnar. Gjöldin eru annars vegar fasteignartíund, sem er miðuð við mat jarðarinnar og því alltaf sú sama, og lausafjártíund sem er lögð á lifandi pening í eigu hvers gjaldanda, þ.e. fyrst og fremst kindur og kýr. Ef árferði er gott hækkar lausafjártíundin en þegar áföll dynja yfir í hörðum árum og fénu fækkar lækkar hún að sama skapi.

Allt til 1798 borgar Kringlufólk 1 hundrað í lausafjártíund, sem gefur til kynna að bústofninn hafi verið 1 kýr eða 6 ær. Árin 1799 til 1802 er tíundin 2 hundruð; árið 1803 og 1804 orðin 3 hundruð og 3 ½ hundrað 1805, sem gæti samsvarað 1 kú og 12 ám og einhverjum hrossum. Þessi tíund hækkar næstu ár og kemst í 7 hundruð 1809 og 1810 en lækkar svo aftur í 5 hundruð næstu ár, til 1815, er eftir það milli 4 og 5 hundruð. Eins og áður var bent á má ætla að lausafjártíund upp á 5 hundruð þýði að mylkar ær sé um 30 en 6 eða 12 færri ef gert er ráð fyrir einni eða tveimur kúm.

Miðað við aðra hreppsbændur eru Jónas og Guðrún vissulega með þeim fátækari, tíund flestra bænda er milli 10 og 15 hundruð. En þrír til fjórir aðrir bændur eru þó á svipuðu róli og systkinin hvað þetta varðar og staðan er að minnsta kosti snöggtum betri en á allsleysisárunum eftir móðuharðindin.

Ekki er margt að hafa um heimilishaldið á Kringlu á þessum árum og svo sem ekki mikið vitað hvernig það var á öðrum bæjum. Helst er að fara yfir ummæli prestsins við árlegar húsvitjanir þar sem oft er gerð grein fyrir guðsorðabókum og heimilisfólki gefnar einkunnir. Slíkt verður auðvitað að taka með nokkrum fyrirvara, en t.d. segir presturinn, séra Sæmundur Oddsson í Steinnesi, árið 1789 að þau Elín, Jónas og Guðrún séu öll ólæs og engar bækur til á bænum. Næstu ár er einkunnagjöfinni sleppt, en 1798 og 1799 eru þau öll sögð læs. Árið 1801 er komin vinnukona á bæinn, Ingveldur Rafnsdóttir og er vel læs, hún er hér til 1803 en það ár er kominn til árs dvalar þriggja ára drengur, Guðmundur Guðmundsson, sveitarlimur en faðir hans, bóndinn á Akri, varð úti fyrr á árinu, en það er önnur saga sem verður rakin síðar.

Á þessum árum eru líka komnar á heimilið nokkrar guðsorðabækur, og eru þessar tíundaðar 1805: Vídalíns postilla, Harmonía, Sjöorða bók, Passíusálmar, Þórðarbænir, allt góð og gegn guðfræðirit. Mætti nú ætla að þessi rit yrðu heimilisfólkinu til siðbótar og innrættu því góða siði, en því var ekki alveg að heilsa því nú vildi svo til, að Jónas bóndi, þessi hálffimmtugi karlmaður sem aldrei hafði verið við konu kenndur að því er ætla má, fær hug á vinnukonunni og afleiðingarnar verða þær venjulegu, að Ingveldur vinnukona elur stúlkubarn í lausaleik 22. febrúar 1804, sem hlaut nafnið Helga við skírnina, raunar þriðja lausaleiksbarn Ingveldar. Jónasi fór líkt og mörgum öðrum, að hann varð seinn til að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Hann neitar faðerninu, rekur vinnukonuna burt og kemur króganum fyrir upp á Hæli, næsta bæ við Kringlu.

Ekki er vitað um viðbrögð Ingveldar en yfirvöldin gripu í taumana og var Jónasi stefnt fyrir dóm fyrir brot sitt. Það er greinilegt að sveitarmenn hafa vel vitað hvernig hlutirnir voru í pottinn búnir því þegar Jónas hyggst sverja fyrir barnið er honum meinað það. Séra Sæmundur Oddsson í Steinnesi gefur út svohljóðandi vottorð til sýslumannsins 29. apríl 1804:

Ekki vill Jónas Ólafsson á Kringlu gangast við faðerni að barni Ingveldar Rafnsdóttur. Þann 18da mars næstliðna aðspurði ég hann, að nærstöddum og áheyrandi mr. Ólafi Björnssyni á Reykjum og Jóni Magnússyni á Sveinsstöðum, um það hvort hann vildi ekki meðkennast sannur faðir barnsins, en hann þverneitaði, vildi og ekki heldur lofa að eftirláta Ingveldi eiðinn, sem mér sýnist þó mikið ráðlegra, því hún er betur tilfallin að sverja en hann, svo sem af náttúru skýrari og betur grunduð í Guðs orði. Og að því vilda ég að herra sýslumaðurinn vildi lúta láta sínar aðgjörðir, svo að maðurinn gjöri sig sjálfan hvorki af einfeldni eður of miklu stýfsinni ólukkulegan með að afsverja fyrir barnið.[2]

Eftir áframhaldandi þrýsting gugnaði Jónas loksins og Ingveldur sór eið sinn við réttarhald á Tindum 13. júní 1804:

Ég Ingveldur Rafnsdóttir sver fyrir almáttugum Guði og þessum rétti, að ég ei hefi haft nokkurt holdlegt samræði með nokkurri annarri karlmanns persónu en Jónasi Ólafssyni, bónda á Kringlu, á þeirri tíð sem ég er þunguð orðin að því stúlkubarni sem ég í heiminn fæddi þann 22. febrúar þessa árs, og að enginn annar en hann er minn barnsfaðir, svo sannarlega hjálpi mér Guð og hans heilaga orð.[3]

Frillulífi og hórdómur kostaði sitt og menn urðu að greiða sektir til yfirvalda og kóngs fyrir brot sín. Sýslumenn innheimtu sektirnar og í skýrslu sýslumannsins um hórsektir úr Húnavatnssýslu 1804 segir svo um Jónas á Kringlu: „Ógiftur bóndi á Kringlu, 44 ára gamall. Efnaður til að betala.“ Um Ingveldi segir á hinn bóginn, að hún geti ekki borgað vegna fátæktar.[4] Hún hverfur síðan úr lífi fólksins á Kringlu en Jónas bóndi eða þau systkinin virðast hafa sætt sig við orðinn hlut, þau tóku Helgu litlu til sín og þar ólst hún síðan upp en átti sér raunar ekki mikil örlög. Hún hefur verið þægðarbarn, fær þessar einkunnir í húsvitjun sóknarprestsins árið 1811: „Þekkir stafi, meinhæg, dauf, kann þó nokkuð.“ Árið 1812 segir klerkur: „Þekkir stafi, kann boðorðin“ og 1814: „Kann fræðin, stafar.“ Helga er skráð í manntali 1816 á Kringlu og er þá orðin 12 ára en þá fór að styttast í hennar litla jarðlífi, hún dó 20. janúar 1817: „Deyði af langvaranlegri innvortis meinsemd,“[5] segir í prestsþjónustubókinni. Meira er ekki vitað um þessa hálfsystur Agnesar Magnúsdóttur sem hvílir í ómerktri gröf í gamla kirkjugarðinum á Þingeyrum.

Sagan endurtekur sig er stundum sagt eða kannski var Jónas líka „kominn upp á bragðið“ eins og líka er stundum sagt. Hvað um það, árið 1806 kom ný vinnukona að Kringlu, Guðrún Arnbjörnsdóttir, 34 ára. Hún ól sveinbarn 26. febrúar 1810 sem Jónas viðurkenndi faðerni að, mótmælalaust að því er virðist. Barnið var andvana þannig að ekki þurfti að hafa áhyggjur af framfæri þess, en það þurfti samt að borga sektina fyrir lausaleiksbrotið. Sagan endurtók sig hins vegar að því leyti, að Guðrún vinnukona fór burt af bænum og varð síðan samkvæmt islendingabok.is „ekta“ vinnukona á ýmsum bæjum, síðast vestur í sýslu þar sem hún dó 1840, ógift og barnlaus. En Jónas virðist hafa lært þá lexíu, að „drátturinn“ kostar sitt og brotin geta komið við pyngjuna. Hann virðist a.m.k. ekki hafa leitað á vinnukonur sínar oftar.

Þetta  síðara barneignarár komu að Kringlu í húsmennsku gömul hjón, Þórarinn Guðbrandsson og Sólveig Jannesdóttir, bæði 63 ára að aldri. Þau höfðu búið á Hæli, næsta bæ við Kringlu frá 1792 og tekið Helgu Jónasdóttur í fóstur fyrsta árið. Þannig að milli þessa fólks hafa verið einhver vináttutengsl. Þórarinn hefur sennilega dáið stuttu síðar því hans sést hvorki staður í skrám geistlegra né veraldlegra yfirvalda eftir þetta. Sólveig Jannesdóttir deyr á Kringlu haustið 1819 og þá sögð ekkja. Guðný dóttir þeirra Þórarins er síðast talin í húsvitjunarbók á Hæli 1803, þá 16 ára, en hefur líklega dáið stuttu síðar þó þess sjáist heldur ekki getið. En það vantar allmikið í kirkjubækur Hjaltabakka frá þessum árum eins og fyrr hefur verið nefnt. Sólveig Jannesdóttir hefur samt haft nægjanlegt fyrir sig að leggja því ekki þurfti hún á hreppsstyrk að halda þótt hún væri orðin einstæðingur.

Svo áfram sé skyggnst í húsvitjunarbókina eru einkunnir systkinanna ekkert glæsilegri en áður. Jónas er, árið 1811, sagður „lítt læs, ei illa liðinn, fáfróður,“ en Guðrún systir hans og bústýra er „lítt læs, vinnusöm, fáfróð.“ Og vinnukonan er „lítt læs, meinhæg, dauf, kann þó nokkuð,“ og er þá átt við kristindóminn. Þessi vinnukona hét Ingibjörg Halldórsdóttir (1790-1846)  og var á Kringlu fram yfir 1820 en var upp úr því send á „sína sveit“ fram í Vatnsdal. Það er þarflaust að rekja þessar umsagnir lengra, þær eru svipaðar ár frá ári. Húskonan Sólveig Jannesdóttir er hins vegar „lesandi, fróm og fáskiptin, ei illa að sér.“ Það má vel hugsa sér að hún hafi kenni Helgu litlu faðirvorið á sínum tíma og að þekkja stafina.

Árið áður en Jónas dó vorið 1823 fær hann þessa einkunn hjá presti, þá orðinn 62 ára: „Svo gott sem ekkert læs, hrekkjalítill, fáfróður.“ En um Guðrúnu systur hans segir: „Lítt lesandi, ei illa liðin, ei vel kunnandi.“

Nú er fátt eftir ótíundað úr skjallegum heimildum um Jónas bónda Ólafsson, nema að hann kemur lítillega við sáttabók Tindaumdæmis, sem náði yfir Torfalækjarhrepp og Svínavatnshrepp.

Þegar Elín Bjarnadóttir dó, móður systkinanna, Jónasar og Guðrúnar á Kringlu, og Kristínar vinnu- og flökkukonu, virðist svo að í hlut Kristínar hafi komið þrjár ær eftir móður hennar. Jónas hefur haft þessar ær í sinni vörslu og ekki viljað afhenda þær og ekki heldur borga neina leigu fyrir afnot af þeim. Hreppstjórinn í Þorkelshólshreppi, Jón Jónsson á Miðhópi, gerði kröfu til ánna fyrir hönd Kristínar og var haldinn fundur í sáttanefndinni 30. janúar 1804. Síðan segir:

Jónas við kannast skuldina en hefur óeftirréttanleg og ómeðtækileg undanbrögð. Nefndur sækjandi uppástendur fyrir Kristínar hönd, að Jónas betali áminnstar þrjár ær með gildum og góðum þremur ám nú strax og láti og svo einn gemling í góðu standi til Kristínar á næstkomandi fóðra skildaga sem þægilegheit fyrir þá gagnsmuni sem Jónas fyrir téðum ám haft hefði, hvar til Jónas lætur sig fyrir langsamar fortölur sáttanefndarinnar leiða og lofar að betala þetta eftir sem mr. Jón uppástendur.
Skildust svo partarnir að öllu leyti sáttir og sammála, sama stað, ár og dag og upphaflega greinir.
Testera [staðfesta] Rafn Jónsson, Ólafur Björnsson forlíkunarmenn, sem partar Jón Jónsson, Jónas Ólafsson.[6]

Þetta er óskup smáskitlegt og ómerkilegt. Tíu árum síðar er Kristín systir Jónasar og Guðrúnar þrotin að kröftum og komin á sveitarframfæri. Árið 1814 er hún til húsa á Kringlu og þá lagt með henni útsvar Jónasar, 128 fiskar, sem er nálægt því að vera hálft meðlag með gamalmenni eða lítt vinnufærum sjúklingi. Í ljósi fyrri og síðari samskipta er líklegt að systkinunum hafi ekki samið vel enda er Kristín árið eftir komin að Kagaðarhóli, þeim bæ í hreppnum sem er einna lengst frá Kringlu, og þá sögð í hreppsbókinni „vesældarskepna,“ þó tekin þangað aðeins með þessu hálfa meðlagi svo eitthvað hefur hún getað unnið, en árið 1816 er hún sögð „ónýt“ og 1817 „löt og liðlétt.“ Þetta er umsögn hinna veraldlegu yfirvalda í hreppsbókinni en þau geistlegu segja í húsvitjuninni 1815 að Kristín sé „niðurseta“ á Kagaðarhóli, að vísu er hún læs og kann sinn kristindóm en bætt við hún sé „amlóði.“ Árið eftir er hún að vísu til húsa á Kagaðarhóli en sögð „umrenningur,“ og þar með hverfur hún úr Hjaltabakkasókn að sinni.

Arfurinn sem Kristín fékk eftir Jónas bróður sinn, þegar hann dó 1823, dugði henni til framfæris næstu tíu árin og hún virðist þá vera á flækingi um hreppinn og líklega nálægar sveitir, er t.d. talin til húsa á Skinnastöðum í manntali 1835, þá sögð „tómthúskerling, lifir talsvert á flakki.“ En nú voru fémunir hennar á þrotum og segir svo í hreppsbókinni 1837: „Kristín Ólafsdóttir sem meir en fyrir 20 árum var komin hér á hrepp hefur síðan sér til styrktar lifað á lítilfjörlegum arfi eftir bróður sinn, sem nú er að mestu eyddur utan 4 ær sem nú leggjast með henni framvegis, samt 5 rbd. í peningum sem nú færast hreppskassanum til inntektar.“ Nú er henni komið fyrir í Köldukinn og hækkar meðlagið með henni fljótlega í 240 fiska sem var nálægt því venjulega með óvinnufæri fólki. Kristín dó 16. júní 1843 „af yfirgangandi kveflandfarsótt.“ Síðast er hennar getið í hreppsreikningunum 1843-1844 þegar bókfærðir eru 160 fiskar sem var útfararkostnaður hennar, en síðasta kveðja hreppstjóranna í Torfalækjarhreppi til gömlu konunnar var „alla ævi ódugleg.“


[1] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED1/1. Skiptabók 1803-1805. Gögn um þetta dánarbú eru einnig í ED2/49. Skiptaskjöl 1803-1805 (nr. 90 skv. skrá Más Jónssonar).
[2] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GB/1, örk 4. Legorðsbrot 1804.
[3] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/3. Dómabók 1797-1806.
[4] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GB/1, örk 4. Legorðsbrot 1804.
[5] ÞÍ. Kirknasafn. Þingeyraklaustur BC/2. Sóknarmannatal 1809-1839 og BA/2. Prestsþjónustubók 1817-1854, dánir 1817.
[6] ÞÍ. Skjalasafn sáttanefnda. XVI, E. Tinda sáttaumdæmi. Með „partar“ er átt við að Jón í Miðhópi og Jónas séu málsaðilar.

Þættir úr sögu sveitar

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið