Pistlar | 15. nóvember 2021 - kl. 11:33
Stökuspjall: Stöngulmenni Konungs-Björn
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Sveitaskáldið Friðgeir í Hvammi á Laxárdal f. 1827, orti bændarímu um sveitungana, fetaði sig bæ frá bæ, úthúðaði sínum eigin búskap og persónu eins og altítt var um hagyrðinga, sem áttu eigi að síður sannarlega stóran þátt í skemmtunum og afþreyingu meðan blaðaútgáfa var lítil eins og fjárráð alls þorra manna.

Vísur Friðgeirs urðu Jónasi Illugasyni í Brattahlíð f. 1865 tilefni að stinga niður penna og skrifa minningar og mannlýsingar af bændunum sem Friðgeir hafði ort um og heldur gjarnan áfram að segja frá þeim bændum sem síðar komu og tóku við búskap.

Hér segir frá Konungs-Birni, sem bjó með Guðrúnu Pálmadóttur langalangömmu minni, hafði misst Sigurð mann sinn, föður Pálma á Æsustöðum en Guðrún var amma Jósefínu í Holti, Guðrúnar á Bjarnastöðum og þriggja nafnkenndra sona.

Gautsdalur
17.
Björn sem glæðir gestrisne
Gautsdals ræður heimile,
hirðir bæði fólk og fé
fundinn gæða vefare.

Jónas skrifar:

„Vísan lýsir Birni ágætlega rétt það sem hún nær. Hann var hinn mesti gleðimaður og hrókur alls fagnaðar hvar sem hann var. Hann fann að vísunni við Friðgeir og skoraði á hann að gera aðra um sig. Varð Friðgeir við þeim tilmælum og kvað:

Gautsdal nennir veita vörn
væna spennir málakvörn.
Stórt með enni steytir görn
stöngulmennið Konungs-Björn.

Vísan var ort í gamni og góðri vinsemd  og líklega við öl því báðir mennirnir voru vínkærir og glaðværir.

Björn hafði keypt sér konunglegt lausamannsleyfi, sem þá var fátítt. Var hann því oft nefndur Björn kóngsins eða Konungs-Björn og gerði hann það ekki síður sjálfur en aðrir. Björn var Guðmundsson  

Björn var drengur hinn besti og kom sér vel í hvívetna, lesari góður með afbrigðum og skírleiksmaður, orðskár og meinyrtur ef því var að skipta, nokkuð hagorður en gerði lítið að. Orti helst glettnisvísur. Eftir lát Sigurðar Sigurðssonar gekk hann að eiga Guðrúnu ekkju hans. Ekki áttu þau börn en börnum hennar reyndist hann sem faðir. Ekki gerði hann neitt til umbóta á jörðinni hvorki að húsum né á annan hátt.   

Sem sýnishorn af vísnagerð hans set ég hér tvær stökur.

Maður sem Ólafur hét og var nokkuð kenndur við kvennasýsl kom þar sem Björn var fyrir ásamt fleirum, heilsaði hann sumum en ekki öllum, var Björn einn af þeim. Töluðu menn um að honum mundi miður til þeirra.

Kastaði Björn þá fram stökunni:         

Nógu frakkur er í orði
út sér snakka vildi kvon
auganu skakka á mig horfði
Ólafur pjakkur Stefánsson.

Annað skipti var það að sagt var að bóndi nokkur í sveitinni hefði komið heim til sín um nótt, nokkuð drukkinn en konu hans var lítt gefið um ölvaða menn. Settist bóndi á rúmstokkinn fyrir framan eina vinnukonu í frambaðstofu. Sagði vinnukonan honum að fara inn í hús til konu sinnar. Segir bóndi þá: Má ég ekki húka hérna. Sagan barst út þó lítil væri. En er Björn frétti þetta urðu honum ljóð á munni:

Vildi húka hjá henni
hafði brúk fyrir vífið
og að strjúka á henni
ofur mjúka lífið.

Björn lifði eftir konu sína nokkur ár og dvaldi þá mestu í Stóradal og dó þar.

Um Jón bónda veit ég ekkert að segja. Eftir Björn bjó Pálmi Sigurðsson í Gautsdal uns hann keypti Æsustaði af Guðmundi Erlendssyni og fluttist þangað. Fór þá að Gautsdal Margrét ekkja Einars Andréssonar, giftist hún aftur Guðmundi Björnssyni Halldórssonar. Bjuggu þau þar uns Margrét dó.

Fór þá Jón son Pálma Sigurðssonar þangað. Hafði hann jörðina og byggði þar upp – er teikningin af þeim bæ. Gjörði Jón margt margt jörðinni til góða. Seldi hana hann síðan Lárusi syni síra Stefáns á Auðkúlu en fluttist til Blönduóss. Var hann þar við verslunarstörf og fleira uns hann lést. Lárus bjó góðu búi í Gautsdal um nokkur ár þar til kona hans missti heilsuna. Hún var Valdís Jónsdóttir frá Ljótshólum, hin merkasta kona. Brá hann þá búi og seldi Haraldi þeim er þar býr nú." 

Og það var Haraldur Eyjólfsson sem þar bjó af rausn og snilld með Sigurbjörgu konu sinni og sonum þeirra.

Meira að skoða:
Bændaríman öll: https://bragi.arnastofnun.is/ljod.php?ID=2202&fbclid=IwAR3G30zlAoCqRAPLZWppX2wKxPGwQT37MkaPBiRHMJjUen5pZM3-Y3DIjlI
Merkurfréttir 2017: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=17850

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga