Pistlar | 02. desember 2021 - kl. 09:11
Ljós lífsins
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Í upphafi Jóhannesarguðspjalls Nýja testamenntisins standa þessi orð: Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er. Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.

Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.
Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.
Af gnægð hans höfum við öll þegið, náð á náð ofan. Náðin og sannleikurinn kom með Jesú Kristi. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er í faðmi föðurins, hann hefur birt hann.“

– Já lof og dýrð sé Guði. Höfundi og fullkomnara lífsins.

Guð elskar þig

Þú sem fæðst hefur inn í þennan heim, hvort sem þér líkar það svo betur eða verr, hefurðu gert þér grein fyrir að þú ert valin í lið lífsins. Þú hefur verið valinn í sigurliðið.

Í augum Guðs ert þú óendanlega dýrmæt manneskja sem verður ekki skipt út af og sett bekkinn. Jafnvel þótt þér kunni að vera mislagðar hendur. Jesús Kristur kom til að varða þér veginn til lífsins og hann vill fá að viðhalda lífi þínu. Hann sem sigraði dauðann og sagði: "Ég lifi og þú munt lifa."

Frelsarinn Jesús segir við okkur í Biblíunni: "Komið til mín öll sem erfiði hafið og berið þungar byrðar og ég mun veita ykkur hvíld.“ "Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“ "Verið í mér, þá verð ég í ykkur.“ Ég verð með ykkur alla daga, allt til enda veraldar.“ "Ég mun ekki yfirgefa ykkur né skilja ykkur eftir munaðarlaus.“

Látum því um okkur muna og segjum frá því sem jólabarnið, Jesús, kom til að færa okkur og hughreysta okkur með og lifum í auðmýkt og þakklæti.

Bústaður Jesú á lífsins leið

Látum ekki ræna okkur jólunum. Tökum á móti frelsaranum, ljósinu í lífi okkar. Opnum fyrir honum og bjóðum hann velkominn inn í daglega tilveru okkar. Leyfum honum að setjast að í hjörtum okkar og varða veginn til lífsins. Honum sem segir að okkur sé óhætt þótt við vissulega kunnum að búa við þrengingar, vonleysi og ótta. Því hann kom til að sigra heiminn. Allt hið illa, myrkur og ótta. Hann sem kom til að veita okkur von og frið af sínum ómótsæðilega og óviðjafnanlega lífsins kærleika.

Biðjum þess að trúin á hann verði okkur til heilla svo við getum orðið erindrekar hans. Honum til dýrðar og fólki til blessunar. Biðjum þess að andi Jesú Krists, frelsara okkar mætti tendrast frá hjarta til hjarta og verða þannig að eilífu óslökkvandi og blessandi kærleiksbáli.

Hann er að koma

Jesús er að koma. Reynum að finna honum stað um jólin. Gerum hann að raunverulegu aðal atriði á aðventunni og um jólin og alla daga. En ekki að einhverri afgangsstærð. Gefum honum tækifæri, því við höfum engu að tapa en allt að vinna. Höfnum honum ekki eins og við höfum haft svo ríka tilhneigingu til að gera í gegnum árin og þá ekki síst nú þau allra síðustu.

Kærleikans Guð, höfundur og fullkomnari lífsins er að minna á sig og veita okkur tækifæri til að bregðast við honum.

Guð gefi okkur ánægjulega og friðsama aðventu, kærleiks- og innihaldsrík jól, í Jesú nafni.

Takk Guð fyrir Jesú. Takk fyrir fyrirgefninguna, kærleikann, vonina og lífið. Hjálpaðu okkur að velja ljósið sem lýsir okkur upp veginn til lífsins, veginn heim. Hins eilífa lífs.

- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga