Fyrri mynd
Nćsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Húnahornið
Open Menu Close Menu
Húnahornið
Miðvikudagur, 26. janúar 2022
   m/s
C
Olís
huni.is - RSS-efnisveita
 
Janúar 2022
SMÞMFL
2627282930311
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
303112345
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 10:00 SSV 3 -5°C
Laxárdalsh. 10:00 S 1 -3°C
Vatnsskarð 10:00 SSA 3 -6°C
Þverárfjall 10:00 SSV 0 -6°C
Kjalarnes 10:00 ASA 4 -2°C
Hafnarfjall 10:00 ANA 1 -2°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
29. október 2021
Spennandi tímar
Alþingiskosningarnar eru yfirstaðnar og eins og gengur eru sumir sáttir og aðrir ósáttir og enn aðrir mjög ósáttir.
::Lesa

SSNV

Leita í netfangaskrá
 
Eftir Eyjólf Ármannsson
24. janúar 2022
16. þáttur. Eftir Jón Torfason
22. janúar 2022
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
22. janúar 2022
Eftir Lilju Rafneyju Magnúsdóttur og Ara Trausta Guðmundsson
21. janúar 2022
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
19. janúar 2022
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
16. janúar 2022
Eftir Birgi Þór Haraldsson
13. janúar 2022
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
10. janúar 2022
N 65° 39' 32.04" V 20° 16' 55.2"
Pistlar | 13. desember 2021 - kl. 10:30
Stökuspjall: Að meitla rím
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Að meitla rím og móta brag
margur gat og vildi:
Aldagamalt íslenskt fag
enn í fullu gildi. ÓS

Fyrir rúmum 15 árum voru samferða á hagyrðingamótið í Hólmavík þeir Jói í Stapa og Óskar í Meðalheimi. Þetta árlega mót (þau voru haldin frá 1989-2012) átti heima á Vestfjörðum þetta árið, var haldið laugardagskvöldið 26. ágúst 2006 og allvel sótt.

Jón á Kirkjubóli, fulltrúi Vestfirðinga í landsnefnd, undirbjó mótið ásamt félögum sínum við Sauðfjársetrið í Sævangi, fékk Berg Torfason vestan af Fjörðum til að vera siðameistari kvöldsins en Bjarna Guðleifsson náttúrufræðingur á Möðruvöllum varð heiðursgestur.

Fyrrnefndur Jón Jónsson sá líka til þess að hljóðritaðar væru vísur og ávörp frá mótinu svo það var tiltækt þegar Ragnar Böðvarsson safnaði til hagyrðingarits um mótin 2006, 2008 og 2009.

Við höfðum fengið augastað á Blönduósi sem vænlegum mótsstað næsta haust, svo Húnvetningarnir Óskar Sigurfinnsson, Guðmundur Valtýsson, Einar Kolbeinsson og Hafdís Vilhjálmsdóttir voru góðir fulltrúar okkar þarna hjá nágrönnunum vestan flóans, gátu hugað að framkvæmd þessa móts ásamt landsnefndarmanni Norðlendinga, Stefáni Vilhjálmssyni á Akureyri og fóru svo að láta á sér bera þegar vísnasendingar hófust milli gesta um kvöldið.

Einar sat á móti Friðriki Mývetningi Steingrímssyni og hlýddi þar á inngangsorð siðameistara sem varð tíðrætt um frið í ræðu sinni – og Einar samdi óðara kersknisvísu – og flutti:

Veislustjórann víst ég styð
sem var á svið hér dreginn
en hvernig á að finna frið
með Friðrik hinu megin. EK

Litlu síðar steig Óskar Sigurfinnsson á pall til að svara spurningu um landkosti á Ströndum. Hann gerði fyrst grein fyrir hvernig nóttin gafst honum:

Illa hefur að mér sótt
ekki hress né glaður
eg hef ort í alla nótt
eins og vitlaus maður. ÓS

Um landkostina:

Þó fólkið hér sé frítt að sjá
finnst mér vandi á höndum.
Ég hef lítið litið á
landkosti á Ströndum.

Fólkið býr í friði og ró
flestir búskap stunda.
Aðrir fara á saltan sjó
og sumir veiða lunda. ÓS

Hjörtur Þórarinsson á Selfossi steig í pontu á mótinu og ávarpaði IHJ sem Jón Jónsson leiðtogi landsnefndar hafði nokkru áður gefið þá einkunn að hann ætti vanda til starfa á bak við tjöldin.

Ekkert saknæmt er í kvöld
einn þó taki völdin
og Heiðmar vaki öld af öld
áfram bak við tjöldin. HÞ

Hjörtur á Selfossi ávarpaði líka gamlan nemanda frá því að hann kenndi hjá Borgfirðingum:

Í skóla Hjartar skeði margt
margt skáldið barst í röðum
hagmálsartin hverfur vart
hjá Helga á Snartarstöðum. HÞ

Næsta yrkisefni voru vestfirskir stjórnmálaskörungar og Óskar sagði:

Lítið man ég mannaval
margur burt er fallinn.
Helst ég man þó Hannibal:
Hann var ljótur, kallinn! ÓS

Eitt efnið var Hrædd þjóð:

Ýmsir hafa enn um sinn
áhyggjur til muna.
Margur óttast maðurinn
að missa náttúruna. ÓS

Guðný Þórarinsdóttir, eiginkona Óskars, lést fyrir skömmu, en hún átti góðan hlut að ráðagerðum bónda síns og hvatti mjög til þess að Óskar færi vestur á Strandir á mótið 2006 sem varð þá líka undirbúningur fyrir næsta mót. Þangað söfnuðu þeir Óskar og Gísli Geirsson á Mosfelli hópi af húnvetnskum hagyrðingum sem fluttu þar vísur sínar á sviði, þ. e. á mótinu á Blönduósi haustið 2007.

En eins og Guðný hvatti mann sinn til að fara á mótið fyrir 15 árum þá hefur óvænt fráfall hennar fyrir fám dögum orðið mér hvatning til að rifja upp þessar vísur Óskars og fleiri félaga okkar frá mótinu og eins árangursríkan þátt hennar í því að leggja mótunum lið. Það lið þurftum við sannarlega og þar lét Óskar ekki sitt eftir liggja.

Guðný var fædd 1. ágúst 1943 og lést 29. nóv. s.l. Eftir að við kynntumst sumarið 2006 og þessi ráðagerð um Strandaferð á hagyrðingamót hófst, fór hún að hringja til mín á afmælisdegi mínum sem við áttum raunar sameiginlegan - til að óska mér til hamingju með daginn. Ég vissi af fleiri vinum hennar sem fengu frá henni símtal af sama tilefni og var þetta hennar leið að nota tækni samtímans til að tengjast frændum og vinum.

Já, og ekki má ég gleyma Guðmundi heitnum Inga, prentaranum okkar á Dalvík, miklum liðsmanni mótanna og systursyni Jóa, en hann hafði kennt á Húnavöllum þegar þau Guðný og Óskar áttu þar börn í skóla og höfðu þau miklar mætur á honum.

Og þeir Óskar hittumst einmitt þarna vestur á Hólmavík.

Það verður ekki lengur hringt í Guðnýju, þegar maður finnur sig minnistæpan, en hlýtt er að hugsa til góðra stunda og kynna við þau Meðalheimshjónin.

Óskar dvelur nú á Héraðshælinu á Blönduósi, er orðinn nokkuð farin að heilsu, en kemst þó um í hjólastól síðast þegar ég frétti af honum.

Fyrir einu ári safnaði Árni Geirhjörtur/Bændablaðið saman vísum Óskars á hljómdisk sem nánar er sagt frá í krækju í Feykisblað hér að neðan.

Viðauki:

Nágranni Óskars, Jón sagnfræðingur á Torfalæk, gerði þátt af byggingu brúar yfir lækinn sem rennur þar hjá þeim Ásamönnum og jörðin Torfalækur heitir eftir. Lækurinn  getur orðið að fljóti þegar snjó leysir ört svo byggja þurfti heilmikið mannvirki til að tryggja umferð austur að Meðalheimi og Hurðarbaki.

Og nágrannarnir þar á bæjunum tóku sig saman um að gera þetta sjálfir því langt gat verið að bíða eftir að brúin kæmist inn á áætlun hjá Vegagerðinni.

Jón var fluttur suður og við hlýddum á ágætan þátt hans í Húnabúð, en hann hafði vantað mælingar á brúnni svo hann hringdi í Óskar og leitaði liðsinnis. Óskar fór með tommustokkinn niður að brúnni, kom aftur með umbeðnar tölur – og vísu:

Undir brú ég áðan skaust
aðstæður að kanna
það var ekki þrautalaust
í þágu vísindanna. ÓS

Meira efni:

Vísa Óskars: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/visur.php?VID=29414
Fleiri vísur Óskar í Meðalheimi: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/hofundur.php?ID=17538 Kynning í Feyki á diski með vísum Óskars – í maí 2020: https://www.feykir.is/is/frettir/visnasafn-oskars-sigurfinnssonar-i-medalheimi-gefid-ut-a-hljoddiskum

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2022 Húnahornið