Fyrri mynd
Nćsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Húnahornið
Open Menu Close Menu
Húnahornið
Miðvikudagur, 18. maí 2022
   m/s
C
Olís
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2022
SMÞMFL
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
2930311234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 00:00 N 4 3°C
Laxárdalsh. 00:00 A 4 4°C
Vatnsskarð 00:00 ASA 3 10°C
Þverárfjall 00:00 SSV 1 8°C
Kjalarnes 00:00 ANA 11 11°C
Hafnarfjall 00:00 SA 5 13°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
03. apríl 2022
Vorið kemur
"Vorið er komið og grundirnar gróa," segir í texta Jóns Thoroddsen sem fjallar um vorið. Vorið er svo sem ekki alveg komið hér um slóðir en eitt er víst að það kemur. Í maí verður kosið til sveitarstjórna í öllum sveitarfélögum landsins, þar á meðal í sameinuðu sveitarfélagi Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps.
::Lesa

SSNV

Leita í netfangaskrá
 
24. þáttur. Eftir Jón Torfason
15. maí 2022
Eftir Zophonías Ara Lárusson sem skipar 3.sæti lista sjálfstæðismanna og óháðra.
13. maí 2022
Eftir Guðmund Arnar Sigurjónsson
13. maí 2022
Eftir Elínu Aradóttur
13. maí 2022
Eftir Eyjólf Ármannsson
13. maí 2022
Eftir Halldór Skagfjörð Jónsson
13. maí 2022
N 65° 39' 32.04" V 20° 16' 55.2"
Pistlar | 19. janúar 2022 - kl. 11:26
Sögukorn: Ungi flaug úr Ásbyrgi
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Læknirinn Valdimar Erlendsson fæddist í Garði í Kelduhverfi 1879, en foreldrar hans bjuggu á fleiri jörðum, s. s. Sultum og Ási. Valdimar rifjar upp af fjöri og hlýju endurminningar sínar frá skólaárunum í Latínuskólanum í Reykjavík og þeim langferðum sem Keldhverfingar/Norður-Þingeyingar þurftu að leggja á sig til að komast þangað og þaðan. Það var níu daga ferðalag.

Valdimar rifjar upp minningar um kennara sína og skólafélaga og við skulum hefja ferðina með honum á bls. 51, kaflinn heitir Skólaárin:

 1. Um vorið 1897, er ég lagði af stað með strandferðaskipi frá Húsavík til Reykjavíkur með þeim ásetningi að taka próf upp í 2. bekk í Latínuskólanum, var ég tæplega átján vetra gamall. Það var víst gamla strandferðaskipið Hólar, sem ég sigldi með suður. Af samferðamönnum á skipinu man ég eftir séra Matthíasi, sem var á leið til Seyðisfjarðar. Hann var fullur af fjöri að vanda og sagði okkur margar sögur frá æskuárum sínum. Annar samferðamaður var Guðmundur Friðjónsson, skáld frá Sandi. Við höfðum kynnst á Húsavík um veturinn þegar hann hélt fyrirlestra eða las upp kvæði sín í málfundafélaginu. Stundum lét hann mig lesa kvæðin á undan fundi, vildi heyra álit mitt.
  Ég kvaddi Guðmund á Sandi við bryggjuna í Reykjavík og sá hann aldrei síðan, en hef fylgt honum á skáldabraut hans og keypt flestar bækur hans.
 2. Það var rigning þegar ég sté á land og mjög skýjað svo að útsýn yfir bæinn var slæm þegar við sigldum inn í höfnina. En þegar ég kom í land og fór að ganga um göturnar, óaði mig við öllum þessum stórhýsum, eins og Alþingishúsinu og dómkirkjunni. Ég hafði meðmæli til Hannesar Þorsteinssonar ritstjóra Þjóðólfs frá séra Jóni á Húsavík og fór að leita að húsi hans. Við Ísafoldarprentsmiðju, eitthvert stærsta húsið við Austurstræti, mætti ég manni og spurði hann hvar Hannes byggi.

„Hann býr hérna rétt við hornið í Mjóstræti, dánumaðurinn.“

 1. Við Þórður Sveinsson seinna yfirlæknir á Kleppi og prófessor gegnum samtímis upp í 2. bekk. Þórður var gagnfræðingur frá Möðruvallaskóla og vel að sér í mörgum greinum, einkum ensku. Við fengum allgóðar einkunnir báðir og komumst sómasamlega upp í bekkinn. Okkur kom ekki alltaf vel saman því Þórður var stríðinn, en ég nokkuð bráðlyndur svo að samkomulagið var ekki hið besta meðan við vorum í skóla. En vorið 1927 þegar ég kom heim til að taka þátt í 25 ára stúdentafagnaðinum, tók hann og kona hans, frú Ellen Johanne Kaaber, á móti okkur hjónunum opnum örmum.
 2. Ég borðaði miðdegismat fyrsta árið hjá frú Sigríði Eggerz, móður þeirra bræðra Guðmundar og Sigurðar Eggerz, en frú Guðrún, móðir sr. Friðriks Friðrikssonar matreiddi fyrir okkur allmarga skólapilta kvölds og morgna. Við lögðum fram smjör, ost og kæfu en hún brauð, sykur og te. Við greiddum 5 krónur fyrir þetta og matreiðsluna á mánuði og mundi það nú þykja gjöf en ekki gjald. Maturinn var þannig alltaf sá sami: einar fimm sex rúgbrauðssneiðar með smjöri, osti og kæfu og sætt te. Þetta var í raun og veru ágætt fæði, þótt ekki væri það fjölbreytt.

Í 3. og 4. bekk borðaði ég miðdegisverð hjá þeim Hannesi ritstjóra og Jarðþrúði (Jónsdóttur Péturssonar háyfirdómara frá Víðivöllum). Það var mikið happ fyrir mig, ég fékk góða og holla fæðu og kynntist betur því góða heimili. Auk hjónanna og Þorsteins voru þau systkinin, Bogi Brynjólfsson og Helga Brynjólfsdóttir, börn séra Brynjólfs Jónssonar á Ólafsvöllum, bróður frú Jarþrúðar, á heimilinu. Bogi brautskráðist einu ári síðar en við Þorsteinn. Bogi lauk lögfræðinámi á stuttum tíma í Höfn og var lengi sýslumaður Húnvetninga (þ.e. 1918 -´32 og var tengdasonar Árna Á. Þorkelssonar Geitaskarði, en seinni kona Boga var Sigurlaug Jóhannsdóttir frá Torfustöðum f.1905).

 1. Frú Jarþrúður var lífið og sálin á heimilinu. Hún mælti með mér þegar frú Þóra, systir hennar, og Jón Magnússon síðar forsætisráðherra, óskuðu eftir eldri skólapilti til að lesa með systursyni frú Þóru, Sturlu Guðmundssyni læknis í Laugardælum Guðmundssonar, en hann var fóstursonur þeirra.

Við Sturla höfðum ágætt herbergi, alltaf vel upphitað. Sturla var fluggáfaður og góður námsmaður, en heldur latur við lestur. Við þráttuðum oft um, hve marga klukkutíma við ættum að lesa á hverju kvöldi undir næsta dag. Sturla sagði:„Við byrjum klukkan 5 og verðum búnir klukkan 6. “ „Nei, við byrjum klukkan 5 og reynum að verða búnir með leskaflana klukkan 8 og þá getum við farið út í göngu, heimsótt Þorstein eða lesið skáldsögu.“

Frú Þóra studdi mál mitt svo að ég gekk vanalega með sigur af hólmi. Verst var að vekja Sturlu á morgnana. Ég varð stundum að kasta blautum svampi framan í hann eða hella köldu vatni á hann. Hann þaut upp í bræði og flaug á mig og varð aðgangurinn oft harður.

 1. Frú Þóra sagði við mig: „Ó, elsku Valdimar, þú skalt nú ekki vera að reyna að yrkja því að flestir sem gefa sig að því, fara í hundana og verða aldrei að mönnum. Það eru bara þeir fáu útvöldu, sem verða skáld og geta komist áfram í heiminum.“
  Ég gerðist félagi í skáldafélaginu Stella Nova að hvötum Guðmundar skólaskálds, Jóhanns Sigurjónssonar og Benedikts Sveinssonar frænda míns, sem þó var bara eitt ár í því, að mig minnir. Ég var atkvæðalítill í félaginu, en orti þó nokkur kvæði og birti ein tvö í málgagni skólafélagsins, Framtíðinni. Þau voru gagnrýnd svo miskunnarlaust og tætt sundur, að ég hætti við að birta fleiri, en las einstöku sinnum upp kvæði í skáldafélaginu og eru þau nú glötuð. Ég hélt áfram að hnoða saman vísum og kvæðastúfum og þegar Þorleifur Bjarnason, sögukennari, trúlofaðist svissneskri ungfrú, báðu bekkjarbræður mínir mig að ávarpa hann í bundnu máli þegar hann kæmi í kennslustund daginn eftir opinberunina. Ég lét leiðast til þess, af því að ég bar alltaf hlýjan hug til Þorleifs og þegar hann var sestur í kennarastólinn, stóð ég upp og las upp þessar vísur:
 2.      
  1. Um aftan og sólríka árdegisstund
   í anda þú líður á heitmeyjar fund.
   Hljótir þú ávallt við elskandans hlið
   ástanna sólbjörtu gleði og frið.
  2. Gæfan þér fylgi um ævinnar ár!
   – Ástanna himinn er víður og blár. –
   Sameining andanna er sælan í heim.
   Sólin er tindrar í ómælisgeim.

Unnusta hans var ekki komin heim til Íslands er þetta gerðist. Þorleifur þakkaði mér innilega fyrir vísurnar og öllum bekknum fyrir árnaðarorðin, sem ég lét fylgja vísunum.

Auðvitað hlaut ég magnaða krítik, bekkjarbræður mínir tættu þennan skáldskap sundur og drógu dár að og hafði ég ekki búist við öðru. Einkum hneykslaði þá orðið elskandi um ástmeyjuna en ég sýndi þeim fram á að sjálfur Steingrímur Thorsteinson notaði orðið í sömu merkingum í kvæðum sínum. Í skóla situr gagnrýnin í hásæti og er það víst gott og blessað ef ekki keyrir fram úr hófi.

 1. Einhver besta skemmtun mín í skóla var þó að fara í langar gönguferðir með þeim Sturlu og Steina – en svo kölluðum við Þorstein Þorsteinsson ávallt – um götur bæjarins eða suður á Mela, inn að Laugum, upp á Öskjuhlíð eða vestur á Seltjarnarnes.

Einu sinni mættum við gamla Benedikt Gröndal, skáldi, þar úti í fjöru. Hann var í háum stígvélum og var að safna skordýrum. Við hjálpuðum honum að bera hálffulla fötu með þessum dýrum heim til hans á Vesturgötu. Hann þakkaði okkur vel hjálpina, bauð okkur inn og sýndi okkur hið mikla náttúrugripasafn sitt og var kátur og skrafhreifinn.

 1. Að minni hyggju voru allir skólakennararnir góðir kennarar, skylduræknir og vel að sér. Bjarni Jónsson frá Vogi sem var stundakennari í dönsku og þýsku var í mesta uppáhaldi hjá piltum. Þótt hann kæmi á margan hátt fram sem félagi okkar, þoldi hann engin strákalæti í kennslustundunum og gat verið harður í horn að taka og þess vegna ríkti jafnan ró og friður í tíma hjá honum.

Þótt þeir Bjarni Sæmundsson, Þorleifur Bjarnason og Geir Zoega væru ágætir kennarar og vel að sér, var aginn þó ekki sem bestur hjá þeim.

Hið sama má segja um Pálma Pálsson. Hann var mjög bráðlyndur og vandlætingarsamur hvað stílagerð varðaði. Það var erfitt að fá góða einkunn hjá honum. Ég á enn eina stílabók, sem leiðrétt er af Pálma. Undir einum stílnum var þessi vísa:

Vel er hér af Valda skráð
viði hraustum álma
en hlýtur fyrir fyllstu náð
fjóra og tvo hjá Pálma.

Ég get séð á skriftinni, að Einar Arnórsson(ráðherra og prófessor) er höfundur vísunnar.

 1. Steingrímur Thorsteinson yfirkennari var hátt á sjötugsaldri þegar ég var í skóla. Allir báru virðingu fyrir honum sem þjóðskáldi. Hann kenndi mest gömlu málin, grísku og latínu. Hann var mjög hrifinn af ljóðum latnesku stórskáldanna, Virgils, Hórats og Ovids og allur á lofti er við lásum kvæði þeirra. Þýðingar hans voru dásamlegar. Í rauninni leiddist honum kennslan, einkum málfræðistaglið og flýtti sér að hlýða okkur yfir leskaflana. Þegar því var lokið fór hann að segja okkur ýmsar skrýtlur um nafnkennda menn, bæði innlenda og erlenda.
 2. Ég bar djúpa virðingu fyrir Birni Magnússyni Ólsen, rektor. Hann var kennari með ágætum. Gáfurnar svo skarpar og lærdómurinn svo mikill, að hið erfiðasta verkefni varð honum leikur einn og hver meðalgreindur piltur gat fylgst með skýringum hans. Og á því er heldur enginn efi, að hann vildi vera góður og réttlátur skólastjóri. Ég bar og mun ætíð bera vinarhug til hans. Ég vil því ekki í þessum endurminningum minnast mikið á róstur þær, sem urðu í skóla á skólaárum mínum.
 3. Ferðalögin haust og vor, til og frá skóla, voru að mörgu leyti hressandi og skemmtileg, þótt oft væru þau þreytandi. Oftast fylgdumst við að, Þingeyingarnir fjórir: Benedikt Sveinsson, Jóhann Sigurjónsson, Haukur Gíslason og ég. Fyrsta dagleið mín var inn á Húsavík, en þar slóst Benedikt í förina. Stundum fórum við suður að Laxamýri um kvöldið og gistum hjá foreldrum Jóhanns, Sigurjóni og Snjólaugu og fengum þar höfðinglegar viðtökur. Sigurjón var víst efnaðasti bóndinn í Þingeyjarsýslu um þær mundir.Næsta dag héldum við, ásamt Jóhanni, inn á Akureyri, en gistum þó stundum á Kaupangi, ef dimmt var orðið er við komum yfir Vaðlaheiði og óráðlegt þótti að ríða Eyjafjarðará í myrkri.

Á Akureyri bættust nokkrir piltar við hópinn, þeirra á meðal Haukur, sem var kominn frá Skútustöðum, en þar var hann á sumrin í heyvinnu hjá mági sínum, séra Árna Jónssyni og Jakob Möller norðan frá Hjalteyri.

Þriðji áfanginn var upp í Hörgárdal eða Öxnadal og gistum við þá á Bægisá, Bakka eða í Bakkaseli. Fjórða daginn gistum við í Skagafirði, á Silfrastöðum, Miklabæ, Glaumbæ eða Víðimýri, en einum tvisvar sinnum riðum við alla leið út að Sauðárkróki og gistum hjá Valgarði Claessen, kaupmanni, föður þeirra systkina: Ingibjargar, konu Jón Þorlákssonar forsætisráðherra, Eggerts Classens og Gunnlaugs Claessens. Þar fengum við hinar ágætustu viðtökur og voru okkur búin rúm í stórum og fallegum gestaherbergjum. Um morguninn slóst Gunnlaugur svo í för með okkur.

Frá Skagafirði var haldið yfir Vatnsskarð, fimmta dag ferðarinnar og gistum við annaðhvort á Bergsstöðum hjá séra Ásmundi bróður Hauks eða á Auðkúlu eða þá riðið alla leið norður á Blönduós og gist hjá Jóhanni Möller, kaupmanni, föðurbróður Jakobs Möller og fengum einnig þar hinn besta beina. Þar slóst svo Jóhann, sonur kaupmanns, í förina.

Sjötta dag ferðarinnar komumst við til Víðidalstungu og stundum alla leið til Hrútafjarðar og gistum á Melstað, Melum eða einhverju öðru stórbýli. Sjöunda daginn var svo haldið yfir Holtavörðuheiði og gistum við venjulega í Sveinatungu. Næsti áfangi var inn að Hvalfirði og gistum við þar annað hvort í Saurbæ eða á Þyrli og níunda daginn var komið til Reykjavíkur, venjulegast seint um kveldið.

Oftast vorum við bæði þreyttir og svangir þegar við komum í áfanga en okkur var alls staðar vel fagnað; gestrisnin dæmalaus. Heimafólk gekk úr rúmum sínum fyrir okkur og lá sjálft á gólfinu. Stundum var þess enginn kostur að útvega okkur öllum rúm og urðu þá nokkrir að sofa út í heyhlöðu.

Við fengum bæði- kvöld og morgunverð á bæjunum og stundum var kind slátrað er við komum svo að við gætum fengið sem bestan beina.

 1. Einu sinni á suðurleið mættum við hvatlegum manni í Hörgárdalnum. Hann hljóp af baki, kastaði á okkur kveðju og sagðist gruna að við værum skólapiltar.

Þetta var Guðmundur Hannesson læknir.

„Hvað er í fréttum og hvaðan eruð þið piltar mínir og hvað heitið þið?“

Við nafngreinum okkur og dró Guðmundur þá flösku upp úr vasa sínum, lét hana ganga milli okkar og var hinn kátasti. Síðan fór hann að tala um stjórnmál, einkum Valtýskuna, sem þá var efst á baugi og sneri máli sínu helst til Benedikts, sem var okkar fyrirmannlegastur. Seinna barst talið að skólanum og framhaldsnámi. Allt í einu sagði hann við mig:

„Hvað ætlið þér að stúdera Valdimar?“

„Ég veit það ekki, en ef til vill læknisfræði.“

„Ó, verið ekki að því, þetta er versta púl, bæði námið og svo starfið síðar. Nei sjáið þér til, lesið heldur guðfræði og heimspeki, ritið svo bækur og hrekið allar villukenningar klerkanna, það er meiri þörf á því.“ Þetta var í fyrsta skipti, sem ég sá þennan gagnmerka ágætismann og þjóðkunna lækni og gáfumann. Seinna bar fundum okkar saman bæði hér heima og í Danmörku. Sumarið 1933 heimsótti hann mig sem snöggvast hér í Friðrikshöfn, en dvöldin varð allt of stutt, því að skipið stóð svo lítið við.

 1. Einu sinni vorum við Jóhann, Haukur og ég á norðurleið og gistum í Bakkaseli, efsta bænum í Öxnadal. Við komum þar seint um kvöldið og gestir voru þar fyrir svo að við urðum að sofa úti í hlöðu, í gömlu mygluðu heyi en kalt og hráslagalegt þar inni. Við sváfum svo sem ekkert um nóttina og urðum að fljúgast á til þess að geta haldið á okkur hita.

Snemma morguns lögðum við af stað syfjaðir, þreyttir og hálfsvangir á þreyttum og mögrum hestum. Það kom einhver galsi í þá Jóhann og Hauk svo að þeir fóru að kveða og syngja og berjast um á bikkjunum. Leiguklár minn var latur og stirður, varð ég því dálítið á eftir. Allt í einu ríður Jóhann aftur fyrir mig, reiðir upp svipuna og slær í jálkinn undir mér, en honum varð svo bilt við höggið, að hann hnaut og datt á hliðina, en ég veltist niður í poll milli tveggja þúfna við götuna og lá þar afvelta á bakinu. Þetta var víst heldur kátleg sjón og þegar þeir sáu, að hvorki klárinn né ég höfðum meiðst, fóru þeir að hlæja að mér, skella upp yfir sig og tóku síðan að kyrja þessa gömlu vísu:

Hlaut að stauta blauta braut
bikkjan skrykkjótt nokkuð gekk
hnaut og þaut, hann hraut í laut 
hnykk með rykk í skrokkinn fékk.

Er þeir höfðu japlað lengi á henni sagði Haukur, að nú skyldu þeir kveða aðra fallega rímnavísu, t.d. þessa:     

Öxnadalinn ofan reið
unda kvalinn harmi.
Taumavalur vakur skreið
vindur svalar barmi.

„Já er hún kannski ekki ágæt,“ sagði Jóhann, „þeir kunnu að ríma gömlu rímnasmiðirnir.“

Ég fór svo að kveða og syngja með þeim, en þrumuraust Hauks glumdi í dalnum og bergmálaði frá Hraundranga Jónasar þegar við riðum fram hjá Hrauni.

Jónas Hallgrímsson var uppáhaldsskáld Jóhanns.

 1. Mamma fylgdi mér inn á Húsavík og næsta dag suður á Hvammsheiði. Þar skildu leiðir og varð aðskilnaðurinn þungur okkur báðum, en þó latti hún mig ekki að sigla, enda þótt ég vissi vel, að heitasta ósk hennar var, að ég færi í Prestaskólann. Ég sá mömmu aldrei framar, en hve dýrmæt minning hennar er mér og hefur alltaf verið vil ég ekki reyna að tjá í orðum.

Þessi koma mest við sögu í sögukorninu:     

Valdimar Erlendsson f. 1879 læknir í Friðrikshöfn Danmörku – bókarhöfundur.
Jóhann Sigurjónsson Kaupmannahöfn, f. 1880 skáld frá Laxamýri.
Þórður Sveinsson Rv. f. 1874 prófessor og yfirlæknir frá Geithömrum.
Guðmundur Hannesson Rv. f. 1866 frá Guðlaugsstöðum, héraðslæknir norðanlands, prófessor við Háskóla Íslands.
Guðmundur Friðjónsson á Sandi f. 1869 skáld og bóndi.
Matthías Jochumsson f. 1835, prestur og skáld á Akureyri.
Hannes Þorsteinsson Rv. f. 1860 ritstjóri, alþm. og þjóðskjalavörður.
Jarþrúður Jónsdóttir Rv. f. 1851 k.h., systir Þóru , sjá neðar.
Sturla Guðmundsson f. 1883 skólapiltur frá Laugardælu.
Þóra Jónsdóttir Rv. f. 1858 eiginkona Jóns Magnússonar forsætisráðherra.

Meira efni:

Endurminningar Valdimars Erlendssonar Ak. 1950

Grein um VE í 17. júní: https://timarit.is/page/5204693#page/n0/mode/2up

Ingi Heiðmar Jónsson
 

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2022 Húnahornið