Úr prestsþjónustubók Undirfells. Mynd: Þjóðskjalasafn Íslands
Úr prestsþjónustubók Undirfells. Mynd: Þjóðskjalasafn Íslands
Dánarmein Jóns úr prestsþjónustubókinni. Lýsing dánarmeinsins er torráðin.
Dánarmein Jóns úr prestsþjónustubókinni. Lýsing dánarmeinsins er torráðin.
Pistlar | 22. janúar 2022 - kl. 12:18
Þættir úr sögu sveitar: Við bakka Húnavatns
16. þáttur. Eftir Jón Torfason

Akur er sú jörð í Torfalækjarhreppi sem liggur næst sjávarmáli og standa bæjarhúsin á bökkum Húnavatns.

Á árunum 1777-1799 bjuggu hér Jón Árnason (1724-1804) og Katrín Bjarnadóttir (1736-1813), en brugðu búi rétt fyrir aldamótin. Þau hafa verið í fátækari bænda röð, lausafjártíundin er nokkuð stöðug á tíunda áratug aldarinnar, 4 hundruð, sem er lítið ─ meðalbændur með tíunda 10-15 hundruð. Eins og hjá fleirum er skýringin fellirinn í móðuharðindunum. Hér voru haustið 1783 taldar fram 3 kýr, 10 kindur og 4 hross en vorið eftir er allt dautt nema 2 kýr. Tveimur árum seinna, árið 1785, voru kýrnar enn 2, en við hafa bæst hestur, 3 ær og 3 lömb. Fjártalan þokaðist hægt, satt að segja mjög hægt, upp á við og 1790 voru mylkar ær 9, gimbrar 2 en kýrnar raunar orðnar 3.

Þetta eru sómahjón skv. einkunnabók sóknarprestsins, þ.e.  húsvitjunarbókinni;  nafni minn er „læs, ráðvandur, vel kunnandi“ en Katrín „læs, skikkanleg, ráðvönd, sæmilega kunnandi.“ Með svipuðu móti eru ummælin jafnan um þau. Dætur eru tvær, Helga (1770-1846)  og Ólöf (1771-1805), og báðar heimilinu til sóma; „efnilegar, skikkanlegar, dagfarsgóðar, geðþægar“ og kunna sinn kristindóm vel, svo ekki verður á betra kosið.

Árið 1792 var Guðmundur nokkur Jónsson (f. 1753, d. 6. júní 1811) að flytja að Breiðabólstað í Þingi frá Saurbæ í Vatnsdal og missti um þær mundir konu sína, Sesselju Sveinsdóttur (f. 1753, d. 14. nóvember 1792), og stóð þá uppi konulaus með börn sín ung. Eftir nokkurt millibilsástand  með ráðskonu réðist Helga Jónsdóttir frá Akri til hans. Þau giftust 7. júní 1796 og mátti ekki seinna vera því frumburður Helgu, Björn, fæddist 5. júlí um sumarið.

Við húsvitjun 1799 eru Jón á Akri, Katrín og Ólöf komin til Helgu á Breiðabólstað. Þar eru líka til heimilis Valgerður (18 ára) og Ísak (13 ára) Guðmundar börn og fjögur nýfædd börn Helgu og Guðmundar: Björn áður nefndur, Jón, Helga og Tyrfingur. Eftir aldamótin fluttist hópurinn fram í Vatnsdal að Haukagili þar sem Helga og Guðmundur bjuggu til 1809 en þá fluttu þau að Vatnsenda í Vesturhópi, þar sem Guðmundur dó 1811. Katrín Bjarnadóttir fylgdi dóttur sinni alla tíð og dó hjá henni á Vatnsenda 14. nóvember 1813 úr „ellikröm og máttleysi.“ Helga giftist aftur 22. október 1812 Jóni Jónssyni og er þá á Vatnsenda með 7 börn þeirra Guðmundar, yngsta Sigríði, sem fæddist 29. nóvember 1811,  haustið eftir lát föður síns, síðar bústýru Natans Ketilssonar á Illugastöðum og er saga hennar alkunn.[1]

Jón Árnason komst hins vegar ekki lengra fram í Vatnsdalinn en að Hnjúki og þar dó hann 17. október 1804. Tekið er fram að hann væri orðinn „mjög hrumur og máttfarinn af elliburðum,“ en lýsing dánarmeinsins er torráðin, virðist standa: „Lærvsk sem dreifðist um líkamann.“[2]

Örlög yngri systurinnar frá Akri urðu smærri en Helgu. Ólöf var á sinni stuttu fullorðinsævi vinnukona á bæjum yst í Vatnsdal, hefur fylgt föður sínum og verið mest á Hnjúki og Helgavatni, væntanlega til að hjúkra honum síðustu stundirnar. Þar verður henni það á að eignast barn í lausaleik[3] með gömlum nágranna sínum, Guðmundi Árnasyni (f. 1751, d. 19. ágúst 1825) sem hafði búið á Húnsstöðum til 1790, bjó nú í Saurbæ en flutti síðar vestur að Hvoli í Vesturhópi. Lönd Akurs og Húnsstaða liggja saman við Húnavatnið og bændur í nágrenninu hafa mikið sótt í vatnið eftir silungi og sel. Kannski hafa þau kynnst þar fyrr á tíð og Guðmundur rifjað upp gömul kynni við gistingu á Helgavatni á leið heim úr kaupstað, hefur þá stungið sér í bólið hjá vinnukonunni til að hlýja sér. Hvernig sem það hefur verið var drengurinn stimplaður „hórgetinn“ í bók prestsins um leið og hann var skírður Björn, f. 13. október 1802.  Hann náði ekki eins árs aldri, lést 6. september 1803 á heimili föður síns í Saurbæ.

Tveimur árum síðar barst slæm umferðarpest í sveitina sem lagði marga að velli. Einn þeirra var Ólöf Jónsdóttir, sem dó á Hnjúki 8. október 1805, tæpu ári eftir fráfall föður hennar, úr „yfirgangandi kvefsótt. Lá ei lengi, hafði mikinn uppg[an]g frá brjósti.“

Á heimilinu á Akri er árum saman Hákon Jónsson (1780-1845), talinn  „tökubarn“ þar í sóknarmannatali árið 1784, en lengra aftur nær sú heimild ekki.  Ekki er vitað um foreldra Hákonar en hann mun fæddur í Sveinsstaðahreppi því hreppurinn greiðir með honum til fermingar, skv. skýrslu sem Björn Ólsen á Þingeyrum tók saman 1823.[4] Hugsanlega var hann eitthvað skyldur eða tengdur Katrínu eða Jóni á Akri. Árið 1794 er hann orðinn 14 ára, „les nokkuð, tómlátur, kann 13. part af Pontopp.“[5] Hákon er fermdur í Þingeyrakirkju árið 1795 og  heldur þá út í lífið. Hann var vinnumaður á Þingeyrum 1801 og síðan ýmsum bæjum í sveitinni en er 1811 á Vatnsenda hjá Helgu fóstursystur sinni og eignast þá dótturina Guðrúnu með Marín Guðmundsdóttur (1779-1837) sem þá var vinnukona á bænum. Marín var ættuð af Snæfellsnesi og hefur það kannski valdið því að þau fluttu  þangað vestur. Áttu þau síðan heima á Rifi í Neshreppi og þar lést Hákon þrotinn að kröftum 4. janúar 1845. Hann eignaðist tvær dætur til viðbótar, skv. islendingabok.is en allar urðu dætur hans skammlífar.

Ásamt Hákoni var hér komið annað „tökubarn“ árið 1789, Sigríður Guðmundsdóttir (f. 27. desember 1787, d. 28. september 1823), dóttir hjónanna á Húnsstöðum, Sigríðar Sigurðardóttur og Guðmundar Árnasonar áður nefnds. Það var ekki greitt með Sigríði úr opinberum sjóðum þannig að líklega hefur það verið vinargreiði hjónanna á Akri að létta undir með Guðmundi og Sigríði sem voru smám saman að koma sér upp mikilli barnamergð.

Sigríði litlu er kennt ásamt Hákoni og í húsvitjun 1794 þegar hún er 8 ára er hún búin að læra aftur í fjórða kafla fræðanna og við lestur segir „A.b.c.“ sem merkir að barnið er farið að stafa.

Síðast er hún hjá þeim á Akri 1798, þá 12 ára og sögð „tekin.“  Hún er fermd í Þingeyrakirkju 1801 og er líklega vinnukona á Hnjúki 1801 en síðan hverfur hún heim til foreldra sinna sem eru komin að Hvoli í Vesturhópi. Hún var á Hvoli 1821, sögð „læs, skikkanleg og ekki óskynsöm,“ en tveimur árum síðar er hún vinnukona á Syðri-Þverá og þar lést hún haustið 1823. Hún er sögð „skylduhjú“ og dánarmeinið er „líkþrá.“  Líklega hefur þessi andstyggilegi sjúkdómur tekið hana mjög hratt því hún virðist full vinnandi þar til síðustu tvö árin, og hreppurinn hefur ekki þurft að greiða neitt með henni vegna veikindanna.

Í sambandi við Guðmund Jónsson, eiginmann Helgu frá Akri, verður að bregða sér um stund út fyrir hreppinn og gera nokkra grein fyrir kvonbænum hans sem verður vikið að í næstu þáttum.


[1] Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 1141 og 1196.
[2] Prestsþjónustubók Undirfells, hægt er að skoða hana á vefnum „heimildir.is“. Slóðin er: http://skjalaskrar.skjalasafn.is/c/IS-%C3%9E%C3%8D-0570-0000-245-B-BA-0001-01-001#lg=1&slide=26.
[3] Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 565.
[4] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/4, örk 3. Bréf Björns Ólsen dagsett 7. apríl 1823. Meðlagið með Hákoni 1790 var  384 fiskar; 1791 192 fiskar; 1792 192 fiskar; 1793 192 fiskar og 1794 135 fiskar, til samans 1095 fiskar.
[5] Stundum kallað Ponti, kristindómskver kennt við Pontoppidan nokkurn sem var biskup í Danmörku og samdi efni til uppfræðingar börnum.

Þættir úr sögu sveitar

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga