Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Mánudagur, 17. júní 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Júní 2024
SMÞMFL
2627282930311
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
30123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 22:05 0 0°C
Laxárdalsh. 22:05 0 0°C
Vatnsskarð 22:05 0 0°C
Þverárfjall 22:05 0 0°C
Kjalarnes 22:05 0 0°C
Hafnarfjall 22:05 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
76. þáttur. Eftir Jón Torfason
15. júní 2024
Eftir Guðmund Inga Guðbrandsson
15. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
13. júní 2024
Eftir Ásgerði Pálsdóttur
09. júní 2024
Eftir Dagnýju Rósu Úlfarsdóttur
05. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
03. júní 2024
75. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. maí 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Grímstunga. Mynd: HAH
Grímstunga. Mynd: HAH
Pistlar | 05. febrúar 2022 - kl. 16:35
Þættir úr sögu sveitar: Kvonbænabréf Guðmundar Jónssonar I
17. þáttur. Eftir Jón Torfason

Guðmundur Jónsson (1753-1811) og Sesselja Sveinsdóttir (f. 1753, d. 14. nóvember 1792) fluttu frá Saurbæ í Vatnsdal að Breiðabólstað í Þingi vorið 1792. Sesselja lést þá um haustið og Guðmundur stóð uppi með börn á æskuskeiði en tvær elstu dæturnar voru um fermingu þegar móðir þeirra dó. Eitt eða tvö ár baslaðist Guðmundur með ráðskonu en þreyttist á því og leitaði ráðahags við unga stúlku í Vatnsdal, Sigríði Ásgrímsdóttur (1771-1837). Sigríður var ættuð úr Skagafirði en í fóstri hjá frænda sínum séra Jóni Jónssyni (1725-1799) presti í Grímstungu. Bónorði Guðmundar var á endanum hafnað en í sambandi við það urðu til nokkur bréf sem enduðu í bréfasafni sýslumannsins og verða rakin hér á eftir.[1]

Hafa skal í huga að séra Jón í Grímstungu var andlegur „þungavigtarmaður,“ ef svo má segja, hann hafði verið prófastur í Skagafirði um árbil og þá m.a. innt af hendi ýmis biskupsverk. Vegna giftingarhugleiðinga Guðmundar ritaði hann bréf til æðstu andlegra og veraldlegra yfirvalda sýslunnar, Jónasar Benediktssonar prófasts á Höskuldsstöðum og Ísleifs Einarssonar sýslumanns á Geitaskarði, þann 19. ágúst 1793, og segir þar:

Malo benefacere tantundem periculum est qvantum bono male facere, segir Cicero.[2] Um Guðmund Jónsson (sem var nágranni minn hér í Saurbæ allt þangað til í fyrra vor 1792 hann fór búferlum héðan úr sókn til Breiðabólstaðar í Þingeyraklausturs kirkjusókn) segi ég aldeilis ekkert annað en hann sé nógu góður maður, þó þykist ég hafa haft óþægð af kunningskap og greiðasemi við hann. Meðan hann var í nágrenni gjörði hann mér oft þénustu og ég vildi hafa gjört honum hið sama (sem vel mátti vera). Meðal annars lét ég stúlkukind mér áhangandi, Sigríði Ásgrímsdóttur, vera honum til þægilegheita, sérdeilis eitt skipti í lífsnauðsyn og barnsfæðingarneyð konu hans, þar hún var aldeilis hjálparlaus í hans fjarlægð, tók svo barnið til mín frá því það fæddist þann 30. martii[3] til þess 11. junii, aldeilis óbeðinn. Þetta gjörði ég í góðri meiningu og í grannleysi til þess in medio octobri[4] næstliðið haust, að kristilegur kærleiki þvingaði einn vissan góðan mann til að vara mig við, að stúlkan hefði stóran óhróður af þessum manni og þeirra kunningskapur og málbragð væri til stórhneykslis og ásteytingar út borið í fjarlægar sveitir. Þetta kom mér aldeilis óforvarandis og mikið illa, en hugsaði þó að láta ekkert á því bera, því þar sem maðurinn fjarlægðist mundi þetta vanrykti af sjálfu sér út af deyja, en þar skeði þvert á mót. Kona Guðmundar tók sína banasótt og andaðist og þá strax eftir hennar jarðarför kom hann hér bæði í eigin persónu og fyrir meðalgöngumenn og heimtaði stúlkuna gagngjört, fyrst til láns og síðan til ektaskapar með hentugleikum, hvað ég þá aldeilis afsagði. Ekki svo þess vegna, að mér þætti hún honum of góð, heldur hins að mér sýndist það bæði lögum gagnstætt, sem banna soddan fólk (sem ektast ætlar) samvistu fyrri en copulationen[5] skeður, og þar til sýndist mér það auka og staðfesta undanfarið hneykslanlegt vanrykti.

Loksins er sýnilegast af öllum kringumstæðum, að soddan ráðagjörð og forpligtan[6] hafi verið sken þeirra á milli löngu fyrir konunnar afgang og er þá vitanlegt hvað N.L. 3. b[ók], 18. cap.; 6. og 7. art.[7] segir þar um, sem ég hygg að hér eigi aldeilis heima.

Að svo vöxnu máli þá innfellur hér með mín auðmjúk bón til viðkomandi yfirvalda, prófastsins og sýslumannsins, að þeir eftir lögunum, samt forordning um ektaskap af 3. junii 1746, art. 1,[8] yfirleggi sökina og annaðhvört til eður af slái þetta giftumál, hið snarasta. Ég fyrir mitt leyti má það ekki eftir láta sökum minnar samvisku af því undanfarna, en ef mín scrupulositas[9] sýnist ekki af því verði, að í akt sé takandi, þá læt ég þau við blífa; mín samviska er þá frelsuð þegar aðrir æðri taka ráðin að sér.

Þessi angefning hefði átt að ske á hina síðuna en eftir því er ekki að bíða, því það fólk hugsar ei upp á annað en eintómis kapp, af hvörju hlotnast kann annað verra; ekki það ég misgruni mannsins ráðvendni sem mönnum er hér alþekkt.

Hér upp á vænti ég góðrar tilhlutunar hið fyrsta.
Grímstungu d. 19. augusti 1793,
Jón Jónsson
Til SS.TT.[10] prófastsins sr. Jónas Benediktssonar og sýslumannsins hr. Ísleifs Einarssonar

Móðir Sigríðar, Jófríður Gísladóttir (1742-1821) sem þá var orðin ekkja, blandaði sér í málið og ritaði dóttur sinni bréf með ágætri stafagerð en nokkuð óljósri greinarmerkjasetningu sem hér hefur verið löguð. Það er athyglisvert að Jófríður hefur átt innsigli og líka rétt að benda á að Sigríður hin unga hefur væntanlega kunnað að skrifa því Jófríður er að svara bréfi frá henni. Þar sem faðir Sigríðar var dáinn kom það í hlut bræðra hennar og móður að samþykkja giftingaráformin. Utanáskriftin er hlýleg: „Elskulegri og ástkærri dóttur minni, Sigríði Ásgrímsdóttur, móðurlega, Grímstungu:“

Mín elskulega og ástkæra dóttir, móðurleg heilsan.

Næst óskum bestu og farsælustu til þín fyrir sál og líf þakka ég þér tilskrifið sem mér var næsta ógeðfellt og læt þig vita að það, sem þú nefnir í bréfi þínu, gef ég þar ekkert leyfi til, og ásamt gefa mér í vald bræður þínir fyrir þessu að ráða. Með því kanntu ekki að ætla mig svo óærlega að segja þar til já, sem bróður[11] þinn og fósturfaðir segir nei, með því maðurinn er mér ókenndur og hefi ekkert gott af frétt og ég treysti þér ekki að taka að þér þá ómegð sem hann hefur eftir að draga, en ég býð þér þá bestu vist sem hér er og næst er þínu skyldfólki og sækja þig í vor. En vil[j]ir þú ei þiggja þetta boð og ganga á móti vilja allra þinna þá máttu vel fyrir sjá, því þótt ég hafi ei getað haft móðurlega umsorgun fyrir þér þá er þó mitt móðurhjart[a] til þín, hvað auðsýnt skal ef við nálægunst. En hvað þú meinar með í bréfi þínu, að þér muni bágt verða að standa eður spyrna á móti broddunum þá bið ég þig að láta mig það vita ef þér er nokkru hörðu heitið, það mun þá eitthvað í skirrast, en vilji fóstur-faðir þinn gefa þar til leyfi þá legg ég það í hans vald.

Forláttu hastinn og vertu ætíð af mér guði á hendur falin, til allrar umsjónar ævilangt og elskulega, ég ástunda að finnast þín einlæg og elskandi móðir meðan tóri.

Ásgeirsbrekku d. 28. september 1793,
Jófríður Gísladóttir


[1] ÞI. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/1, örk 3.
[2] „Að gera illum manni gott, því fylgir jafn mikill háski og að gera góðum manni illt.“ Þessi viska er ekki frá Cicero komin heldur gamanleikjaskáldinu Plátusi, úr leikriti hans Poenulus (Litli Púnverjinn) II, 633-634. „malo“ (undanskilið maður) = slæmum (manni); „tantundum“ = eins mikið/eins dýrt; „qvantum“ = mikið; „periculum est“ = slæmt er; „bono“ = vel;  male“ = illa, vondslega; „facere“ = kasta. Hugmyndin virðist vera, að það geti verið jafn mikill háski fólginn í því að gera slæmum manni velgjörning og að fara illa að ráði sínu gagnvart góðum manni. Þrír heiðursmenn hafa leiðbeint mér við þessa og aðrar latínuklausur í þessum texta, Gunnar F. Guðmundsson, Gunnar Skarphéðinsson og Gottskálk Jensson.
[3] Barnið var Sigurður, síðasta barnið sem Sesselju ól enda dó hún um haustið. Sigurður er í Steinnesi í manntali 1801 en síðan er óljóst um ævi hans.
[4] Þ.e. um miðjan október.
[5] Orðið „copulation“ er bæði haft um samfarir og giftingu.
[6] Þ.e. „skylda“ en átt mun við „samning“ eða „loforð.“
[7] Tilvísun til Norsku laga Kristjáns V Danakonungs, sem tóku gildi í Noregi 1687 og voru einnig notuð að hluta til á Íslandi þótt þau hafi aldrei formlega verið leidd í lög hér á landi. Norsku lögum var skipt í sex bækur (libra) sem síðan skiptust í allmarga kapitula og kapitularnir svo í articula eða paragröf.
[8] Vísað er í „Anodning om et og andet i ægteskabs sager og mod Lösagtihge m.v. paa Island,“ prentað í Lovsamling for Islands II, bls. 600-605. Hægt er að nálgast þetta í rafrænu formi á netinu, slóðin er: https://baekur.is/bok/000195669/2/606/Lovsamling_for#page/n605/mode/2up.
[9] Þ.e. „ráðvendni, varfærni.“
[10] „S.T.“ = Salvo Titulo = með fyrirvara um að rétt sé farið með titla. Fyrr á tíð var oft mikil nákvæmi um það hvernig aðrir voru ávarpaðir, sérstaklega menn í æðri stöðu.
[11] Stendur svo. Ýmis konar „óregla“ um beygingu frændsemisorða (móðir, faðir o.s.frv.) er algeng í skjölum á þessum árum.
Mynd: 
https://atom.blonduos.is/index.php/0833-grimstunga-ashreppi 

Þættir úr sögu sveitar

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið