Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Mánudagur, 15. júlí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Júlí 2024
SMÞMFL
30123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031123
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 07:52 0 0°C
Laxárdalsh. 07:52 0 0°C
Vatnsskarð 07:52 0 0°C
Þverárfjall 07:52 0 0°C
Kjalarnes 07:52 0 0°C
Hafnarfjall 07:52 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
28. júní 2024
Verum upplýsandi
Ég er sólginn í að lesa alls konar fundargerðir, t.d. frá sveitarstjórnum, nefndum og ráðum. Í þeim má finna margt áhugavert og annað minna áhugavert.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Eyjólf Ármannsson
08. júlí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
03. júlí 2024
77. þáttur. Eftir Jón Torfason
01. júlí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
25. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
23. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
21. júní 2024
76. þáttur. Eftir Jón Torfason
15. júní 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Breiðabólsstaður Sveinsstaðahreppi. Mynd: HAH
Breiðabólsstaður Sveinsstaðahreppi. Mynd: HAH
Pistlar | 05. mars 2022 - kl. 11:17
Þættir úr sögu sveitar: Kvonbænabréf Guðmundar Jónssonar III
19. þáttur. Eftir Jón Torfason

Það hefur heldur hallað á Guðmund Jónsson í þeim bréfum, sem áður hafa verið birt, og rétt að heyra hans sjónarmið sem hann setur fram í bréfi[1] til sýslumanns og prófasts fáum dögum eftir reiðilestur séra Jóns frá 13. desember. Rithöndin er skýr og stafsetning með ágætum. Þótt hugsanlegt sé að alþýðumenn hafi látið aðra skrifa fyrir sig sýnist mér engin ástæða til að efast um að Guðmundur hafi ritað þetta bréf sjálfur:

Auðmjúklegast Pro mermoria

Þar eð mín aðþrengjandi nauðsyn og einstæðingskapur með ómegð hefur knúð mig að snúa mínum þanka til hjúskaparlags að nýju með einhvörjum dugandi kvenmanni, er treystast kynni til að vera mín aðstoð og meðhjálp, hvar um æruprýdd sæmdastúlka, Sigríður Ásgrímsdóttir í Grímstungu, hefur engin afsvör veitt svo framt náungar hennar stæðu þar ekki í móti, en þvert á mót reynast þeir nú, einkum S.T.[2] fósturfaðir hennar, prófastur sr. Jón Jónsson, mér úrtöku[3] torveldur með fullum afsvörum er ég meina framar orsakist af efablandaðri einþykkni fyrir utan nokkur viss rök, heldur en minna tilstilli, því jafnvel þó börnin séu mörg, samt eru færri af þeim kornung, og þó stúlkan sé vel að sér til vinnu, samt er hún fátæk og á ekki, svo ég viti, þá náunga er í standi séu að efla hana að fémunum, en foreldrar mínir,[4] svo sem góðir menn vita, eru svo við efni og ekki síður mér og mínum börnum góðviljug. Mér og mínum verður, næst guðs hjálp, hagkvæmur styrkur bæði að þeim lífs og liðnum, og sér í lagi lofa þau Sigríði, í staðinn þess hún mig að sér taki, svo nákvæmri hugulsemi og léttir í sérhvörju því er henni kynni á liggja og þau frekast megna, svo sem þeirra eigið barn væri. Allt svo upp á grundvöll að ofanskrifuðu innfellur hér með mín auðmjúkust bón til S.T.[5] sýslumannsins og prófastsins í þessu héraði, að þeir báðir vilji að yfirlögðum kringumstæðum í krafti konglegrar Majstates allranáðu[g]ustu forordning[ar] af 3. junii 1746,[6] gunstigast leyfa okkar hjúskapar samtök, svo framt ekkert lögum gagnstætt sjáið okkur þar frá hindra. Hér upp á vænti ég náðugs álits og úrlausnar, svo ég neyðist ekki til að sleppa búskap og íþyngja öðrum með fóstri og fjárhaldi minna ungbarna, og forblíf með skyldugri virðingu minna háttvirðandi yfirmanna auðmjúkur þénari.

Breiðabólstað d. 18. desember 1793,
Guðmundur Jónsson

Lestina í þessum samtíningi rekur bréf frá Jónasi Benediktssyni prófasti á Höskuldsstöðum sem hefur samúð með Guðmundi hinum einhleypa.

Veleðla háttvirðandi elskulegi hr. sýslumann!

Í mesta hasti hripa ég línur þessar með hér stöddum Guðmundi Jónssyni á Breiðabólstað, sem þungaður[7] gengur með áhyggjufulla löngun til hjúsk[apar]lags við Sigríði Ásgrímsdóttir, fósturdóttur og frændstúlku prófasts[8] sr. Jóns í Grímstungu sem ekki tekur létt á né dæmir mjúklega um slíkan ráðahag, sem glögglega má sjá af hr. prófastsins 2 hér innlögðum memorialer, hvörja ég nú sendi yður til álits og yfirvegunar, inntil að ég (D.S.)[9] kann geta notið þeirrar æru að eiga munnlegt samtal um þetta og aðskiljanlegt fleira við yður, sem líklegast verður ekki fyrr en eftir ársins enda.

Prófastur sr. Jón hefur að vísu til fært allmörg obstacula[10] sem ég neita ekki að primo intuitu[11] kynnu sýnast af virði, en hvað angengur hneykslið og hans conscientiæ læsuram[12] við persónanna egtaskap sýnist mér eitt merkil[ega] lakast, nl. að hann sjálfur er ekki frí fyrir að hafa lagt veginn til þess í fyrstu með því að senda stúlkuna nokkrum sinnum á grasafjall með Guðmundi í fárra annarra samför, þegið að honum hestalán og aðra þénustu til sama etc. Og er þó nú öngvu að síður svo harður upp á þeirra undanfarinn með téðum hætti inngenginn kunningskap, hvar undir máske ekkert illt búið hafi með fyrsta. Yrði nú þessi accidentaliter et apparenter malo[13] nokkurn veginn ærlega mederað juris regulis illaesis,[14] svo vildi ég ekki gjöra mig þar til óljúfan, einkum þar uggandi er um að stærra malum[15] kunni máske fljóta út af því að hindra með magt þeirra beggja samþykkilegan vilja, svo að lækningin sem til þenkt er kunni verða þessum veslingum að skæðara sjúkdómi. Guðmundur hefur í höndum sinn memorial til okkar og góðviljugt loforð sinna foreldra[16] sem ég álít best að blífi eftir hjá yður inn til v[íðara]. Máske yður sýnist ekki óráðlegt að hann fram færði sína skriflega einka málaleitun til móður og bróður Sigríðar, foreldranna góða fyrirheit og sína ærl[ega] vitnisburði fyrst, án hvörs þeim sýnist vorkunn þó drátt hafi í svörunum, svo sem móðurin hefur og allareiðu gefið þetta mál í prófasts sr. Jóns vald, eftir því sem merkja er af hennar bréfi til dóttur sinnar.

Þetta hastigt og einlagt bið ég pardone rest.[17] sem með ástsemdarkveðju minni og minna, samt bestu farsældaróskum, er veleðla hr. sýslumannsins höjstærede vens þénustu[skyldugur] þénari.

Höskuldsstöðum d. 21. desember 1793,
Jónas Benediktsson

Þrátt fyrir jákvæða afstöðu Jónasar prófasts virðast þeir sýslumaðurinn ekki hafa skipt sér frekar af málinu og á endanum hafði séra Jón sitt fram. Sigríður Ásgrímsdóttir var gift öðrum manni, Haraldi Ólafssyni, þann 9. september 1794 og sonur þeirra, Sigvaldi, fæddist 10. apríl 1795. Hann hefur komið undir sumarið 1794 (áður en þau giftust) og hálfu ári eftir að umræddum bréfaskiptum lauk.

Það rættist þó brátt úr konumálum Guðmundar Jónssonar því hann giftist Helgu Jónsdóttur frá Akri 17. maí 1796, sem fyrr var nefnt. Elsta barn þeirra, Björn, fæddist 5. júní 1796, hefur sum sé komið undir haustið 1795, þannig að ekki leið löng stund þar til hjónaleysin, Guðmundur og Sigríður, höfðu stofnað til nýrra sambanda.

Áður hefur verið gerð lítillega grein fyrir börnum Guðmundar en Sigríður og Haraldur eignuðust aðeins eitt barn sem upp komst, Sigvalda, bónda í Litluhlíð og Dæli í Víðidal. Meðal afkomenda hans er fólkið á Hnjúki,[18] Sigurbjörn Sveinsson rithöfundur og Sigvaldi Jóhannesson bóndi í Enniskoti, svo fátt eitt sé nefnt.

Ekki er hægt er að meta hvort Sigríði hefði orðið farsælla að ganga að eiga Guðmund heldur en hún varð í sambúðinni með Haraldi. Um það eru einfaldlega engar heimildir til. En það sem er kannski eftirtektarverðast við þessi bréfaskrif eru yfirráð þau sem yfirvöld, bæði geistlegtleg og veraldleg, höfðu yfir almúgafólki og hvernig fólki var oft skákað til og fékk litlu ráðið um örlög sín.


[1] Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/1, örk 3.
[2] Þ.e. „Salvo Titulo“ = með fyrirvara um að rétt sé farið með titla.
[3] Þ.e. „afar“ eða „mjög.“
[4] Foreldrar Guðmundar voru Jón Ísaksson og Helga Bárðardóttir sem bjuggu á Hjallalandi 1778-1793 en síðar á Haukagili. Þau voru vel efnuð og hafa trúlega liðsinnt Guðmundi. Sbr. Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 507-508.
[5] Þ.e. „Salvo Titulo.“
[6] Vísað er í „Anodning om et og andet i ægteskabs sager og mod Lösagtihge m.v. paa Island,“ prentað í Lovsamling for Islands II, bls. 600-605. Hægt er að nálgast þetta í rafrænu formi á netinu, slóðin er: https://baekur.is/bok/000195669/2/606/Lovsamling_for#page/n605/mode/2up.
[7] Verður varla lesið á annan hátt.
[8] Séra Jón í Grímstungu hafði verið prófastur í Skagafirði, var það ekki lengur en hélt titlinum.
[9] Þetta mun vera skammstöfun á latínu fyrir „ef Guð lofar.“ Fyrri stafurinn „D“ stendur fyrir „dominus“ en ekki er öruggt hvernig lesa á síðari stafinn.
[10] Þ.e. „hindranir.“
[11] Þ.e. „við fyrstu sýn.“
[12] Þ.e. „samvisku sköddun.“
[13] Þ.e. „tilfelli sem virðast slæm.“
[14] Þ.e. „eftir lögunum ósköðuðum.“ „ilaesus (lo.) = ómeiddur, óskaðaður.“
[15] Þ.e. „ólán“ eða „mein, skaði.“
[16] Foreldrar Guðmundar bjuggu á Hjallalandi og síðar á Haukagili. Þau voru vel efnuð eins og nefnt var framar.
[17] Þ.e. „afsakið“ en „rest.“ mun skammstöfun fyrir hið dansk-latneska „resterandi,“ þ.e. „eftirstandandi,“ „skuldar,“ eða „sem vantar.“
[18] Sbr. Ættir Austur-Húnvetninga bls. 1059.
Mynd: https://atom.blonduos.is/index.php/01000-breidabolsstadur-sveinsstadahreppi 

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið