Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Fimmtudagur, 30. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 01:25 0 0°C
Laxárdalsh. 01:25 0 0°C
Vatnsskarð 01:25 0 0°C
Þverárfjall 01:25 0 0°C
Kjalarnes 01:25 0 0°C
Hafnarfjall 01:25 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
75. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
19. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
17. maí 2024
74. þáttur. Eftir Jón Torfason
09. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
07. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Bréf Guðrúnar Erlendsdóttur
Bréf Guðrúnar Erlendsdóttur
Pistlar | 03. apríl 2022 - kl. 11:12
Þættir úr sögu sveitar: Hjálmar og Þórdís Guðmundar- og Steinunnarbörn, frá Akri
21. þáttur. Eftir Jón Torfason

Hjálmar Guðmundsson fæddist 6. ágúst 1790[1] en þá bjuggu foreldrar hans á Hólabaki. Hann elst síðan upp hjá foreldrum sínum og er á Akri fyrsta árið eftir dauða föður síns (1803) en fer þá að Steinnesi og síðar Hnausum þar sem móðir hans var vinnukona, eins og fyrr var getið. Þessi ár greiðir Sveinsstaðahreppur eitthvað smávegis með honum og raunar líka Guðmundi (eldri) bróður hans en þó langt í frá fullt meðlag að því er virðist. Hjálmar fermist 1807 og byrjar þá hefðbundinn vinnumannsferil.

Á Hnausum bjuggu þá Jón Illugason (1771-1851) og Þórunn Gísladóttir (1778-1812) kona hans og er stuttlega frá þeim sagt í þætti nr. 3 (Brestasamt vinnufólk á Stóru-Giljá). Eftir ferminguna er að sjá að Jón hafi ætlast til að Hjálmar ynni hjá sér, e.t.v. var ætlunin að hann „greiddi þannig fósturlaunin.“ En Hjálmar hefur trúlega viljað fá meira frjálsræði og vorið eftir ferminguna hyggst hann ráða sig hjá ekkjunni Guðrúnu Erlendsdóttur (1744-1815) sem bjó á næsta bæ, Másstöðum. Jón Illugason kvartar yfir þessu við sýslumanninn í bréfi 20. maí 1808. Bréfið er skrifað í belg og biðu og ekki öruggt hvernig kommur og punktar eiga að vera:

Veleðla herra, þénustusamleg heilsan.[2]

Þar eð Hjálmar Guðmundsson, er hjá mér hefur verið nú næstliðin fjögur ár, er fyrir utan mitt leyfi burt farinn til vistar eður dvalar að Másstöðum, til Guðrúnar, þá vildi ég yður að spurja hvört ég ætti ei tilkall til hans öðrum framar, þar móðir hans vill líka heldur að hann hjá mér sé. Drengurinn kom til mín svo lítið sem ekkert búinn að læra af sínum kristindómi en var nú næstliðið vor confirmeraður. Hann var mikið[3] tornæmur og þurfti góða uppápössun en viðurgjörning og atlæti sem hann hefur hjá mér haft, greini ég ekki svo mitt sambýlisfólk veit það bæði nú og fyrri ég hef ei getað það betur. Fyrir því vildi ég fá yðar góð orð með vissu hér um það allra fyrsta þér getið, því ég fæ hvörki léttúðugan[4] smaladreng. Látið svarið ei lengi bíða því tíminn er naumur.

Forlátið hastinn. Ég forblíf yðar veleðlagöfugheita þénustuskyldugur alla tíma.
Hnausum d. 20. maí 1808,
Jón Illugason

Guðrún Erlendsdóttir var ekkja eftir Tómas nokkurn Hafsteinsson (1730-1802) og bjó sex ár eftir lát hans á Másstöðum. Bréf Jóns á Hnausum þurfti ekki langt að fara, því Sigurður Snorrason sýslumaður bjó á Stóru-Giljá, og hann hefur líka brugðið snart við því strax þarnæsta dag, 22. maí, svarar Guðrún honum:

Auðmjúkust Pro memoria.[5]

Upp á yðar veleðlaheita fyrirspurn af 21. þessa mánaðar, nefnilega um heimild á vistráðum Hjálmars Guðmundssonar, þá svara ég því svoleiðis, að ég vissi ei betur en mér væri það leyfilegt, þegar húsbóndi hans, Jón Illugason, var búinn að gefa honum leyfið til að vista sig og Hjálmari gagnast þar vitni til að hann sagðist ei halda hann. (En um það að móðir hans væri það á móti að hann hjá mér vistaðist eður öðrum kann ég ei í þetta sinn að svara). En fyrrgreind vitni Hjálmars upp á burtferðar leyfi hans eru monsr. Jón Ólafsson á Hnausum og Guðmundur Helgason á Bjarnastöðum, er báðir segja að Jón Illugason hafi sagt, að Hjálmar yrði ei hjá sér. Þar fyrir hugði ég mér óhætt að ráða hann til vistar hjá mér. En í öngvan máta var það mitt áform að lokka hann eður tæla í burt frá Jóni.

Finnst ég yðar veleðlaheita þénustuskyldug.
Másstöðum d. 22. maí 1808,
Guðrún Erlendsdóttir

Ekki er ljóst hvernig þessu ráðningarmáli lauk, enda urðu nú nokkrar tilfærslur, Jón Illugason fer að Breiðabólstað hinum megin við Flóðið þetta sumar og hætti stuttu síðar búskap en Jón Ólafsson, sem Guðrún nefnir í sínu bréfi, flytur að Hnausum. Guðrún Erlendsdóttir hætti líka að búa og gerðist húskona hjá áðurnefndum Jóni Ólafssyni en lést nokkrum árum síðar á Þverá í Miðfirði hjá dóttur sinni. Hjálmar er ekki í sókninni, þ.e. Þingeyrasókn, þetta ár (1808-1809) og er vel hugsanlegt hann hafi staðfest á Másstöðum einhver ár. Það er ekki hægt að vita því sóknarmannatal Undirfellssóknar frá fyrstu árum 19. aldar er glatað.

Ekki verður annað séð en Guðrún Erlendsdóttir riti bréfið sjálf, og þótt hálfvegis sé komið út fyrir efnið er eftirtektarvert að ca. tuttugasta hvert bréf í skjalasafni sýslumanns í Húnavatnssýslu á þessum árum er ritað af konu. Það er hærra hlutfall en búast mátti við, því hafa þarf í huga að meginhluti bréfa úr héraðinu til sýslumannsins er ritaður af örfáum mönnum, þ.e. hreppstjórunum, en sumir þeirra skrifa sýslumanni einu sinni til tvisvar í mánuði og jafnvel oftar.

Hjálmar er vinnumaður í Grímstungu 1816 en færir sig síðar í Vesturhópið og er orðinn bóndi á Sigríðarstöðum, hjáleigu frá Breiðabólstaðarkirkju, við húsvitjun 1817 (28 ára) með konu sinni, Rósu Gunnlaugsdóttur (29 ára) og  dóttur þeirra, Steinunni (1/2 árs). Þar er þá líka vinnukona 17 ára en ekki annað heimilisfólk. Svipað mannahald er næstu árin nema þeim hjónum bætast börn. Alla búskapartíð Hjálmars er tíund hans tiltölulega lág þannig að hann hefur verið með þeim fátækari í hreppnum. Þau Hjálmar og Rósa búa á Sigríðarstöðum til dauðadags Hjálmars 4. október 1836 og Rósa eftir það með sonum sínum eitt ár, en síðan er hún húskona á Sigríðarstöðum um árabil. Hún er sjálfrar sín alla tíð, hrapar aldrei niður í vinnukonustétt, er komin að Stóru-Giljá í manntali 1850 en Akri 1855 og þar deyr hún 11. febrúar 1856. Þá búa á Akri tvö börn hennar, Björn[6] (32 ára) og Sigríður[7] (29 ára) gift Þorláki Sigurðssyni, þannig að afkomendur Guðmundar Guðmundssonar og Steinunnar Jónsdóttur tróðu grundir á Akri 50 árum eftir að þau hurfu þaðan.

Þórdís Guðmundsdóttir (1793- 9. nóvember 1859) er fædd í Katadal í Þverárhreppi þar sem Guðmundur og Steinunn bjuggu en eftir lát Guðmundar er hún eitt ár með mömmu sinni í Hnausum 1803-1804 (11 ára). Skv. íslendingabok.is og manntalinu 1835 er hún þá gift kona á Kambhóli í Víðidal og á sex ára gamla dóttur, Sigurbjörgu Sigurðardóttur (1829-20. júní 1901). Ekki var með vissu hægt að finna Þórdísi í manntalinu 1816, enda eru nokkur göt í því, og kirkjubækur úr sumum sóknum þar sem hennar var helst að vænta eru sumar býsna skörðóttar, einkum úr Breiðabólstaðarsókn. Hennar er ekki getið í hreppsbókum Þverárhrepps, Sveinsstaðahrepps eða Torfalækjarhrepps svo líklegt mátti teljast að hún hefði verið tekin í fóstur af einhverjum fésterkum ættingja.

Í síðasta þætti var rakið að Þórdís Jónsdóttir, systir Steinunnar á Akri, hefði gifst séra Jóni Oddsyni sem var orðinn prestur á Kvíabekk í Ólafsfirði. Mér flaug í hug að Þórdís prestsfrú hefði tekið þessa systurdóttur og nöfnu sína að sér og alið hana upp en þrátt fyrir talsverðar flettingar á kirkjubókum Kvíabekks var nafn hennar hvergi að finna þar. Fyrir hálfgerða tilviljun rakst ég fyrir skömmu á bréf sem Jón nokkur Árnason í Kirkjuhvammi hafði skrifað árið 1808 til sýslumanns um ómagaframfærslu sína og þar var nefnt „stúlkubarn sem heitir Þórdís Guðmundsdóttir frá Akri,“ 10 ára gömul sem var að öðrum og þriðja við Jón þennan. Þarna var „týnda“ stúlkan komin og nafn hennar mátti finna í kirkjubókum Melstaðar en Kirkjuhvammur var útkirkja frá Melstað.

Jón Árnasyni (1743-19. mars 1817) var duglegur og hygginn bóndi og bjó alla sína búskapartíð í Kirkjuhvammi. Móðir Jóns var systir Guðmundar Jónssonar föðurafa Þórdísar Guðmundsdóttur, þannig að þau voru að öðrum og þriðja að skyldleika. Þórdís er í sóknarmannatali jafnan titluð „fósturbarn“ í Kirkjuhvammi og örugglega var ekki greitt með henni úr fátækrasjóði Þverárhrepps. Hún var fermd vorið 1806 og er í Kirkjuhvammi fram um tvítugsaldur, til 1812, en fer þá í vinnumennsku á ýmsum bæjum í sveitinni.

Þórdís giftist Sigurði Guðmundssyni (1794-28. maí 1850) og bjuggu þau fyrst á Syðri-Þverá í Vesturhópi en síðar á Kambhóli í Víðidal og loks á Stóru-Borg. Eftir lát Sigurðar fór Þórdís til Sigurbjargar dóttur sinnar, eina barn hennar sem upp komst og þá bjó á Súluvöllum. Þar dó Þórdís 9. nóvember 1859 úr „brjóstveikinni m.m.“

Fóstri Þórdísar, Jón Árnason í Kirkjuhvammi, ritaði bréf til Sigurðar Snorrasonar sýslumanns þann 18. janúar 1808.[8] Þar biðst hann undan því að styðja tiltekinn fjarskyldan ættingja sinn og telur upp fólk sem hann hefur framfært án stuðnings úr hreppssjóði. Þórdís Guðmundsdóttir er hér talin í lið nr. 11:

Pro memoria

Fyrrum sýslumaður Krog[9] hefir með einni skikkan, hverrar datum ég nú ekki man þar ei hefi séð hana nema einu sinni, ákvarðað mér að leggja framfærisstyrk ómaganum Ingimundi Jónssyni, sem þar er sagður fjórmenningur við mig að frændsemi. En að ég hingað til ekki hefi eftir lifað téðri skikkan, þar til eru fylgjandi orsakir:

A. Er þessi skyldugleiki með okkur Ingimundi rangt talinn. Eru víst 5 liðir þeim megin, sem hann er, ef ei fleiri. Þar fyrir meina ég að mér sé ólöglega skipað svo fjarskyldum framfærisstyrk að leggja.

B. Þykjumst ég hafa að undanförnu svo mikið styrkt og enn nú styrkja náunga mína og konu minnar, að eftir lögum hefði slíkt ei kunnað af mér að heimtast og enn síður meira. Þetta vil ég hér nú stuttlega upp telja herra sýslumanninum til yfirvegunar.

1. Sama vorið, nefnilega 1768, og ég fátækur reisti bú á Gröf hér í hrepp var á undan mér komið þangað stúlkubarn þriggja ára gamalt, bróðurdóttir konu minnar, Kristín að nafni, sem ég upp ól þar til hún giftist og gaf henni þá upp á virta 50 rd.

2. Tveim árum síðar, eður 1770, tók ég föðursystur mína félausa, er Ingibjörg hét 60 ára að aldri, og framfærð hana í 14 ár þá hún deyði.

3. Nokkrum árum síðar en nefnd Ingibjörg til mín kom tók ég systurbarn konu minnar og undirhélt það 3 ár, ásamt áðurnefndum ómögum, að hverjum liðnum móðir þess gat við því aftur tekið.

4. Þessu næst tók ég pilt, fjögra vetra gamlan Svein að nafni, hvers afasystir kona mín var, og framfærði hann undir eins og þá 2 fyrst töldu ómaga, allt þar til hann giftist. En hann deyði á sama ári og voru eigur hans þá upp á 30 rd., er hann hjá mér uppborið hafði. Ætlaði ég þá að gefa honum meira hefði hann lengur lifað, þar ásett var að hann bú reisti á næsta vori, gaf ég samt með barni hans öðru um 2 ár, 12 rd. specie.

5. Árið 1784 uppáféll hinn stóri peningamissir og þar af leiðandi eymd og manndauði. Þá um haustið deyði áðurnefnd föðursystir mín. En á sama hausti eftir veturnætur tók ég aftur föður minn bjargþrota og undir sömu árslok móður mína eins á sig komna. Deyði hún hjá mér á næsta sumri 1785 en hann lifði hjá mér 8 ár fyrir víst, þar til hann deyði.

6. Vorið 1786 tók ég enn nú Helgu Jónsdóttur, móðursystur mína, sem þá var orðin einstæðingsekkja. Sterfbúið eftir mann hennar voru 30 rd., hvar af henni bar helfningur, sem ég meðtók þó ekki allan, með henni. Þessa ekkju hefi ég síðan undirhaldið nú á tuttugasta og annað ár, 81 árs gamla.

7. Árið 1787 tók ég Oddnýju systur mína holdsveika, félausa sem ég annaðist um 13 ár, hvern tíma mestallan hún var þyngsti karar ómagi.

8. Meðan Oddný ennnú lifði tók ég Ragnhildi Illugadóttur, systurdóttur konu minnar, fullorðinn meinlætafullan þyngsla ómaga, með nokkrum fémunum, hver hjá mér lifði full 7 ár og deyði á undan Oddnýju.

9. Að þeim báðum, Oddnýju og Ragnhildi lifandi, tók ég móðurbróður minn, Guðmund Jónsson[10] 70 ára gamlan, félausan og nakinn, sem ei lá annað fyrir en sveitar framfæri á Víðidalshrepp. Hann annaðist ég í 7 ár, að hverjum liðnum hann deyði.

10. Ofan á þá 4 næsttöldu ómaga tók ég þann fimmta dreng, 9 vetra gamlan, hvers afasystir kona mín er, og hefi hann síðan uppalið til þessa.

11. Loksins haustið 1803 tók ég af Vesturhópshrepp stúlkubarn sem heitir Þórdís Guðmundsdóttir frá Akri, 10 ára gamla, sem er öðrum og þriðja við mig og hefi uppfóstrað hana hingað til.

Hér fyrir utan hefi ég oftsinnis gefið og greitt fyrir ýmsum náungum mínum og konu minnar, með aðskiljanlegum hlutum, svo sem kindum, peningum, fatnaði m.m., sem ég fæ ei í stuttu máli upp talið, og einkum ennnú tilþurfandi náunga minn, Þorgerði dóttur áðurnefnds Guðmundar, félaus ekkja sem ei er lengur vistfær, hverri ég að undanförnu liðsinnt hefi, vil því sama einnig fram halda meðan get og hún við þarf.

Annars liggur við borð, að ég slái frá mér búskap þar ég 65 ára gamall er svo yfirkominn af brjóstmæði, að oftlega kemst ei lengd mína, og kona mín, sem hefir 74 ár og hefir oft með ýmsu móti heilsuveik verið, er lítt fær orðin til búskapar umsýslu.

Að ég hafi svoleiðis, sem hér að framan framfært er, breytt við greinda náunga okkar konu minnar, vil ég með vitnum bevísa, ef á þarf að halda, hvers vegna ég meina, að ég hafi meira hér í gjört en lagaskylda býður, er ég þó í engan máta þykist ofgjört hafa, heldur þakka Guði, sem gaf mér bæði vilja og efni þar til. Þó vona ég og beiði, að mér þyrmt verði frá að leggja uppheldisstyrk áðurnefndum Ingimundi, hvað ég og þekki ekki mína skyldu að lögum, þar hann er mér ekki tengdari en áður sagt er. En vil aftur á móti ljúflega styrkja og hjálpa náungum okkar konu minnar, sem þess með þurfa meðan ég get, án þess að þar þurfi yfirvalds skikkan til að koma.

Kirkjuhvammi þann 18. janúar 1808,
auðmjúklega,
Jón Árnason
Til herra sýslumanns S. Snorrasonar


[1] Sbr. Ættir Austur-Húnvetninga bls. 1026.
[2] Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/1, örk 9.
[3] Hér er blaðið rifið en mun eiga að lesast svo.
[4] Stendur svo. Ýmislegt fleira er einkennilega orðað hér.
[5] Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/1, örk 9.
[6] Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 1436.
[7] Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 548.
[8] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/1, örk 9.
[9] W.F. Krog, norskur maður, var sýslumaður í Húnavatnssýslu 1801-1805. Hann reyndi á embættisárum sínum að framfylgja reglum um að efnaðir ættingjar styrktu fátæka ómaga sína, en með misjöfnum árangri.
[10] Þessi Guðmundur (1723-27. september 1799) mun vera faðir Guðmundar á Akri og hefur þannig verið afi Þórdísar Guðmundsdóttur sem hér er talin í lið nr. 11.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið