Bréf Einars, 1. október 1806, til hreppstjóranna í Áshreppi
Bréf Einars, 1. október 1806, til hreppstjóranna í Áshreppi
Pistlar | 15. maí 2022 - kl. 14:19
Þættir úr sögu sveitar: Næstu ábúendur á Akri
24. þáttur. Eftir Jón Torfason

Eftir að Guðmundur Guðmundsson lést og Steinunn Jónsdóttir ekkja hans flutti burt með börn sín, eins og rakið hefur verið í undanförnum þáttum, komu hingað hjón frá Þorbrandsstöðum í Langadal, Gísli Ólafsson (1762-1810) og Solveig Sigurðardóttir (1773-1838). Þau voru hér tvö ár 1803-1805 en fluttu þá aftur búrferli sín að Þorbrandsstöðum og lést Gísli skömmu síðar en Solveig bjó þar áfram. Gísli var ekki ókunnugur í Torfalækjarhreppi því faðir hans, Ólafur Helgason, bjó um hríð á Torfalæk og Skinnastöðum en lengst á Hnjúkum. Bróðir Ólafs þessa var Þórður Helgason silfursmiður á Brandsstöðum sem síðar verður getið.

Þess má einnig geta að eftir lát Gísla eignaðist Sólveig ekkja hans barn með þeim nafnkunna Natani Ketilssyni, var það Hans Natansson (1816-14. nóvember 1887) skáld, oftast kenndur við Þóreyjarnúp.

Skv. búnaðarskýrslu 1803 höfðu þau Gísli og Sólveig á Akri 2 kýr, 1 kvígu, 24 mylkar ær, 2 lömb og 2 hrúta eða sauði, en tamdir hestar voru 5. Tíundin var 6 hundruð bæði 1803 og 1804 sem er svipað og hjá mörgum öðrum, þó heldur í lægri kantinum, en bústofninn hefði átt að nægja til að framfæra þá sex heimilismenn sem hér eru taldir við húsvitjun 1803. Meðal barna Gísla og Solveigar voru Danhildur (f. 1802) og Lilja (f. 1807) en um afkomendur þeirra má m.a. finna í Ættum Austur-Húnvetninga, bls. 81, 829 og 1489. Ólafur, faðir Gísla, fylgdi þeim að Akri og fór ekki erindisleysu því hann dó nýkominn þangað, þann 13. júní 1803 á Akri, dánarmein skráð „ellimæði.“

Á eftir Gísla og Sólveigu komu hingað Illugi Halldórsson og Bríet Snæbjarnardóttir sem áður er getið við Beinakeldu (10. þáttur) og bjuggu hér til vors 1808. Árferði var hart um þessar mundir og sést það nokkuð af bágbornu útliti bæjarhúsa og jarðar við úttekt 27. júní 1808 þegar Illugi afhenti jörðina:

1. Baðstofa, 8 álna löng, 3 ¾ álnar breið, 4 ½ alin á hæð. Bálkur hlaðinn undir pall í næstum hálfu öðru stafgólfi. Með fjórum grönnum bitum, fjórum sperrum, sex stöfum og tveimur hálfstöfum er standa á bálki. Þunnar syllur í tveimur stafgólfum úr fjölum. Áfellur ogsvo í tveimur stafgólfum, tvö langbönd aukin á hvörja hlið, þríaukin mænirtróða. Uppreftið þverreft af lélegu upprefti og fúnu. Lélegir og grannir dyrustafir, hurðarflak brotið og næstum ónýtt, með járnlykkjum brotnum og lítilfjörlegum, krókar í dyrustaf, fjöl fyrir ofan hurð og lítil þrep fyrir neðan. Veggir gamlir, grafnir og sumstaðar hrundir að innan, grafið í jörð að utan, þak ónýtt. Álag 10 rd.

2. Búrhús, 6 ½ alin langt, 2 ½ alin breidd. Með tveimur bitum, tveimur dvergum undir auknum mænirás, langreft og þverreft með fúnu og gömlu upprefti, sumstaðar brotnu, einn máttarraftur sloppinn af skorðraft sem næstum því er sloppinn af bita. 2 dyrutré, dyrustafir og hurð á járnum með hespu og keng. Veggir að þessu húsi gamlir og næstum fallnir, þak eins. Álag 4 rd.

3. Eldhús, 5 álna langt, 3 álna breitt. Með einum bita og dverg undir auknum mænirás. Langreft og þverreft með sæmilegu upprefti, tveir raftar yfir dyrum. Veggir nokkurn veginn, þak ónýtt. Álag 48 sk.

4. Húskofi fram í bænum, 5 ½ alin langt, tæpar þrjár álnir á breidd. Með einum bita, tveir dvergar undir auknum hliðásum, langreft og þverreft með gömlu og lélegu upprefti, brotið dyrutré, dyrustafir. Veggir fallnir og þak eins. 2 stoðir lélegar undir bita. Álag 5 rd.

5. Göng frá baðstofu til útidyra, rúmar 12 álnir á lengd. Með sex máttar þverröftum, margaukinn og lélegur mænirás, upprefti lítið og næstum ónýtt. Fyrir útidyrum dyrutré og tveir dyrustafir, tveir litlir fjalastúfar yfir, dyrutré lélegt. Hurðarflak með einni járnlykkju, ólarhjörukrókar í staf, lítill kengur í öðrum staf. Syðri veggur nokkurn veginn, hinn næstum fallinn, þak betra, þó gamalt. Álag 3 rd.

6. Kofi fram í bænum norðan fram, byggður af Gísla er var fyrir Illuga, 4 ½ alin á lengd, 2 ½ alin á breidd. Með einum bita, einum dverg undir aukinn mænirás, langreft og þverreft með gömlu, gisnu og lélegu upprefti. Ranghali fram af í göngin vel 2 álnir, með nokkrum röftum. Veggir og þak stæðilegt.

7. Fjós yfir tvær kýr og tvo kálfa. Með tveimur stoðum undir brotnum og fúnum mænirás, með fáeinum fúnum og einum gagnlegum rafti. Tvö dyrutré, dyrustafir og hurðarflak af tunnustöfum. Fylgir ranghali fram af fjósinu með nokkrum röftum. Veggir fallnir að kalla svo heila húsið reiknast fallið að viðum og veggjum og þaki. Álag 6 rd., 80 sk.

Fjárhús upp á vellinum er virt í ofanálagið 2 rd., 48 sk.

12 ær fylgja jörðunni.

Þessu næst var af okkur yfirlitið túnið og kom það mikið fordjarfað fyrir sjónir, bæði stungið og rist í því torf og hnausar, og ei á það borið. En ei var af okkur fastsett álag á það en þó kom okkur saman að þess spjöll kunni ei minna reiknast en hundrað, eður sem eitt kúgildi nú kostar.

Heildar álagið, sem Illugi átti að greiða til að bæta upp bæjarhúsin, var nærri 30 rd. Um þessar mundir var leigufær kýr metin um 10 rd. en ærin á 2-2 ½ rd., þannig að álagið hefur samsvarað verðgildi þriggja kúa og til viðbótar námu svo skemmdirnar í túninu fjórða kýrverðinu.

Á árunum 1808-1815 bjuggu hér Arnbjörn Árnason og Sigurlaug Bjarnadóttir sem nefnd voru í þætti um Stóru-Giljá (2. þáttur), skal það ekki endurtekið hér. Hins vegar skal minnast lítillega á mann sem var í heimili á Akri a.m.k. um tveggja ára bil,1808-1809, séra Einar Eiríksson (1731-10. apríl 1810) fyrrum prest í Grímstungu. Þórdís móðir séra Einars var systir Valgerðar sem var amma Arnbjarnar Árnasonar, þannig að þeir voru skyldir að öðrum og þriðja og hafði Einar fyrr verið á vegum þeirra Arnbjarnar og Sigurlaugar meðan þau bjuggu á Stóru-Giljá.

Séra Einar var „gáfumaður sem frændur hans en undarlegur og þokkaður illa. Þótti hann hrekkjóttur og illmenni,“ segir Gísli Konráðsson í Húnvetninga sögu[1] og er fátt gott sagt frá honum þar. En orðhagur var hann og hefur Gísli fest á blað nokkur uppnefni hans um nágrannapresta sína: „Jónas prófast [Benediktsson] nefndi hann „Digra-Jút,“ Guðmund [Guðmundsson] prest að Undirfelli „Þyrilfaxa,“ Björn [Jónsson] prest í Bólstaðarhlíð „Hlíðarsneril“ og Rafn [Jónsson] prest á Hjaltabakka „Bakka-Krumma.“ Lagði hann og mörgum mönnum ýmsar svívirðingar til.“ Eru til nokkrar miður fallegar frásagnir um endemisverk Einars og fólsku.

Einar var dæmdur frá prestskap 1785 og bjó fyrst fáein ár í Öxl, síðan frá 1791 til 1804 í koti hjá Hvammi í Vatnsdal en var eftir það mest á flakki um héraðið þar til hans leitaði skjóls hjá Arnbirni frænda sínum sem fyrr segir. Ekki virðist hann hafa þegið umönnun Arnbjarnar með þökkum því Gísli Konráðsson segir frá því að hann var „eitt sinn spurður hversu honum félli vist á Akri. Svaraði hann þá: „Þar er aðgjörðalaust meinleysi, ánægjanlegur friður og yfirgnæfanlegt hungur.“ Þau hjón kallaði hann Skarnbjörn „pjaka“ og „Laugu nurtu.““[2]

Einar dó vorið 1810 og varð víst engum harmdauði. Hann var tvíkvæntur, hét fyrri kona hans Þóra og hrökklaðist hún frá honum og dó ekki löngu síðar, en síðari kona hans var Ingibjörg Guðmundsdóttir (1744-1813), giftust 1786. Sagnir eru um að hún hafi verið ráðskona hans og ólm viljað giftast honum, en Einar lék hana illa eins og aðra og gaf henni viðurnefnið „strympa“ og son sem þau áttu saman kallaði hann „drelli“ en hann hét Ólafur (f. 1786).

Séra Einar orti miður fallega um konu sína en óneitanlega nokkuð haglega, sést af vísunni að þetta er ort eftir að Einar var sviptur kjól og kalli:

Lengi hefir lúðurinn góma
látið fyrir eyrum hljóma
að hún vildi eiga prest.
Aldrei komst hún að þeim sóma,
af því missti meydóms blóma.
Í tómri tunnu bylur best.

Það liggur milli línanna að Ingibjörg hafi mátt þola margt af manni sínum enda lauk svo að þau skildu að skiptum árið 1804, dróst nokkur ár að ganga frá skilnaðinum því Einar viðhafði margs konar þras og undandrátt. Til eru nokkur skjöl um skilnaðarmál þeirra.[3]

Á meðal þeirra skjala er til „forboð“ Krogs sýslumanns, sem hann gaf út 15. febrúar 1805, og bannar mönnum að eiga kaup eða viðskipti við Einar „exprest,“ eins og hann er réttilega kallaður. Það er sýnilegt að hann hefur reynt að skjóta eignum undan skiptum til að minnka það sem kæmi í hlut Ingibjargar við skilnaðinn. Í forboðinu segir m.a.: „Fyrirbýðst hér með öllum upp á það strangasta alvarlegasta kóngsins háa nafn, að kaupa nokkuð af síðstnefndum Einari, hvörju nafni sem nefnast kann, eður veita nokkrum hlut móttöku af honum til geymslu eður varðveislu annarstaðar en á Stóru-Giljá hjá monsr. Arnbirni, eður upp á nokkurn annan máta hylja eður leyna nokkru af því góssi sem Einari við kemur og hann undir höndum hefur, þar sérhvör sem verður uppvís að því að hafa keypt, geymt eður undan komið nokkru af hans [Einars] góssi, leynilega og þannig styrkt hann í sínu ólöglega fyrirtæki, má búast við tiltali og hörðu straffi, sem sá er kaupir óheimilt og hefur mök við þjófa. Einnin aðvarast þeir sem kynnu að hafa keypt við Einar síðan þann 13. júní 1804 eður móttekið nokkuð af honum í geymslu eður pant, hvörju nafni sem heitir, eður hafa kynnu nokkra vissu eður grun á hvar sé niður komið, skulu gefa mér það til kynna svo fljótt sem mögulegt er, ef þeir vilja ei sæta tiltali og straffi eftir lögum.“[4]

Þetta forboð er sent hreppstjóranum í Þorkelshólshreppi og væntanlega hefur samskonar boðskapur verið sendur til annarra hreppstjóra. Ætlast er til þess að bréfið eða forboðið sé lesið upp við kirkjurnar í hreppnum og var það gert um veturinn, því á skjalið er ritað, að það hafi verið lesið upp við Víðidalstungukirkju 10. mars, við Breiðabólstaðarkirkju 24. mars og við Þingeyrakirkju 12. apríl 1805 og sýnir í hnotskurn hve kirkjurnar voru mikilvægir samkomustaðir til að koma upplýsingum á framfæri við almenning.

Í bréfasafni sýslumannsins í Húnavatnssýslu er að finna annað bréf sem snertir Einar, ritað ári síðar, 1. október 1806, til hreppstjóranna í Áshreppi. Hefur Arnbjörn Árnason, sem þá bjó á Stóru-Giljá og sat uppi með Einar, kvartað við sýslumann um að hann hefði undanfarin 2 ½ ár haft mikla fyrirhöfn og kostnað af þessum frænda sínum, sem honum bar lögum samkvæmt nokkur skylda til að annast. Er til tínt vöktun á búfénaði og hesti sem tilheyrði Einari, verkatöf, eldamennska, fóður, húsaleiga og fleira. Arnbjörn hefur beðið sýslumann að koma prestinum af sér með einhverju móti. Síðan segir í bréfinu: „En svo sem náungar Einars eru engir hér innan sýslu í þeim nauðum,[5] að aðstoða hann, það frekast ég viti, þá byrjar hreppstjórum í Áshrepp, hvar Einar fæddur og uppalinn er, að sjá honum fyrir samastað, sem forsvaranlegur sé, nú fyrst til næstkomandi fardaga.“

Á bréfið er ritað og svo sent aftur til sýslumannsins: „Framanskrifað skjal var upp lesið fyrir hreppskilaþingsréttinum á Ási þann 18. október 1806 og vilja ei bændur mr. Einari viðtöku veita. Finnum við undirskrifaðir ekki heldur skyldu okkar til að hafa neina tilhlutun eður afskipti af honum eður hans góssi, þar eð hann hefur enn töluverða fémuni og frændastyrkur er til.“[6]

Undir þetta rita hreppstjórarnir Guðmundur Guðmundsson, Bjarni Steindórsson og Jón Jónsson og eru sumir a.m.k. fyrrverandi sóknarbörn séra Einars. Arnbjörn Árnason mátti því sitja áfram uppi með Einar frænda sinn.

Ingibjörg, síðari kona séra Einars, var systir Guðmundar Guðmundssonar sem bjó í Meðalheimi frá 1790-1824 og síðar verður vikið að. Um þessar mundir lá fyrsta kona Guðmundar, Guðrún Oddsdóttir, fyrir dauðanum og kemur fram í skilnaðarskjölunum að Ingibjörg dvelst um þær mundir í Meðalheimi, væntanlega til að aðstoða mágkonu sína og bróður. Eftir að skilnaðurinn við Einar var loks frágenginn flutti hún sig með Ólafi syni sínum út að Ósi á Skaga, en sú jörð mun hafa komið í hennar hlut við búskiptin. Þar bjuggu þau mæðgin nokkur ár. Ingibjörg lést 1813 en Ólafur barst vestur á land og er síðast vitað um hann með vissu í manntali 1850 en þá bjó hann á Landbroti í Kolbeinsstaðasókn í Hnappadalssýslu, sennilega við lítinn kost.

Árið 1815 kom nýtt fólk að Akri, Sigurður Sveinsson og Þórunn Þorláksdóttir og bjuggu þar lengi en bíður síðari tíma að gera grein fyrir þeim.


[1] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 339.
[2] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 490
[3] Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED2/4, merkt nr. 300.
[4] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/1, örk 6.
[5] Verður helst lesið svona.
[6] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/1, örk 7.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga