Fyrri mynd
Nćsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Húnahornið
Open Menu Close Menu
Húnahornið
Föstudagur, 22. september 2023
   m/s
C
Ókeypt
huni.is - RSS-efnisveita
 
September 2023
SMÞMFL
272829303112
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 13:40 N 5 3°C
Laxárdalsh. 13:40 ANA 6 4°C
Vatnsskarð 13:40 ANA 4 2°C
Þverárfjall 13:40 NNA 4 2°C
Kjalarnes 13:40 92.0 7 7°C
Hafnarfjall 13:40 NNA 4 7°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Bjarna Jónsson
19. september 2023
Eftir Svölu Runólfsdóttur, Elínu S. Sigurðardóttur og Dagnýju Sigmarsdóttur
13. september 2023
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
12. september 2023
57. þáttur. Eftir Jón Torfason
10. september 2023
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
09. september 2023
Eftir Sigurjón Þórðarson, varaþingmanns Flokks fólksins í NV-kjördæmi
04. september 2023
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
03. september 2023
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. ágúst 2023
N 65° 39' 32.04" V 20° 16' 55.2"
Sigurður Norland. Mynd: ismus.is
Sigurður Norland. Mynd: ismus.is
Pistlar | 25. ágúst 2022 - kl. 18:16
Sögukorn: Út á Vatnsnes er ég kominn
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Samkomur þessar í Húnaþingi falla niður:
Brúarhátíð við Hrútey lau. 27. ág. kl. 13-15
Hestamessa á Undirfelli lau. 27. ág. kl. 16
Afmælismessa í Tjarnarkirkju sun. 28. ág. kl. 14 

„Tryggð sr. Sigurðar við ættargarð sinn var órjúfandi, enda fagurt víða á Vatnsnesi, ekki síst í Hindisvík, þótt með tvennu móti sé.  Þegar norðanáttin geisar haust og vetur og brimið svarrar um bjarg og drang og þeytir löðri á land upp, er grimmúðuga tign og fegurð að líta. Á hinn bóginn er friðsælt og vorfagurt í Hindisvík, þegar miðnætursólin varpar rauðgullnum bjarma á hafflötinn, lognkyrr aldan leikur við stein og jörðin og böm hennar hvílast“ segir Guðjón á Ásbjarnarstöðum í minningaorðum eftir klerkinn í Vík en lýkur þeim þannig: 

„Sr. Sigurður segir í litlu kvæði sínu Norður yfir:

Út á Vatnsnes er ég kominn
ýmsan þekki stig.
Þeir sem eiga hérna heima
heilsa upp á mig. SN

Nú er hann kominn út á Vatnsnes, síðustu ferðina. Við gömlu sóknarbörnin hans erum þakklát að geta heilsað upp á hann í síðasta sinn og kvatt hann að leiðarlokum. Við þökkum starfið, við þökkum allar góðar og glaðar stundir, við þökkum órofa tryggð við ættarból og ættarsveit, við þökkum allt í blíðu og stríðu.“

Sigurður var kominn vel á níræðisaldur þegar hann lést seint í maí 1971 og Guðjón Jósefsson ritaði þessa hlýju kveðju til hans, nágranna og sóknarprests.

Guðjón lýsir honum þannig: „Sr. Sigurður Norland var hár maður á vöxt og þrekinn vel, hinn myndarlegasti að vallarsýn, burðamaður og göngugarpur mikill. Hann var alþýðlegur í háttum, kurteis í framkomu, fróður með ágætum og skemmtilegur í viðræðum, heima og heiman. Söngvinn og söngelskur, var lagið tíðum tekið er gesti bar að garði. Leið þá tíminn skjótt við söng og viðræður.

Ekki var sr. Sigurður útausandi á fé sitt, þekkti hann glöggt að oft hafði þjóðin liðið skort og tíðast ekki haft meir en málungi matar.
Mun honum því hafa fundist hverjum skylt að halda vel á sínu. Eigi að síður hélt hann stórar veislur, að höfðingjasið til forna og sparaði þá ekki til. Sýnir þetta, ásamt fleiru, hin traustu tengsl hans við fortíðina og höfðingslundin var rík, á forna vísu.“

En hverjum þykir vænst um víkina sína? Hún getur heitið Bálkavík, Fagravík, Grafarvík, Sandvík, Lambhúsvíkur, Brimilsvík og er þá komið að sjálfri Hindisvíkinni – svo ég nefni víkurnar úr þætti Eðvarðs á Stöpum, þessar sem hann telur upp í Húnaþingi I. Sigurður Norland þekkti vel þá góðu vík, Hindisvík og keypti jörðina, af ekkjunni móður sinni, þar sem hann hafði verið alinn upp við ystu sker og úthafsbláma.

Sigurður var fæddur 16. mars 1885, sonur Jóhannesar Sigurðsson bónda og borgara í Hindisvík og Helgu Björnsdóttur konu hans, afkomandi skáldkonunnar snjöllu, Helgu Þórarinsdóttur á Hjallalandi, höfundur vísunnar kunnu, er hún orti sem barn út á Geirastöðum:

Litla Jörp með lipran fót
labbar götu þvera.
Hún mun seinna á mannamót
mig í söðli bera. HÞ

Eðvarð bóndi og fræðimaður á Stöpum lýsir svo Hindisvík:„Hún er stór og rúmgóð þegar inn á víkina er komið, um sund á milli bjargs og boða. Á grundunum við vestari lendingarvíkina voru búðarústir.  Frá Vík réru venjulega eitt til tvö skip en oft fleiri þegar fiskur gekk á grunnmið. Nú er löggilt höfn á Hindisvík og leiðin vörðuð inn á víkina.“

Í Hindisvík ólust upp bræðurnir þrír, sr. Sigurður elstur, Jón læknir í Reykjavík og svo Jóhannes sem var lausamaður heima á Vatnsnesi, en bjó annars með Sigurði bróður sínum í Hindisvík.

Nágranni Hindisvíkurmanna austan við flóann, var sr. Pétur á Höskuldsstöðum, f. 1911 á Rauðará í Reykjavík, sá ungur Sigurð á götu í borginni og segir þannig frá:

„Ég sá mann, vel á sig kominn að vallarsýn og fyrirmannlegan, klæddan klæðisfrakka með flauelskraga og harðan hatt. Það var eitthvað hetjulegt við þennan mann og framgangan festuleg. Ég taldi að þar færi útvegsbóndi sunnan með sjó en síðar frétti ég að þetta væri sr. Sigurður Norland prestur í Húnaþingi. Mátti segja að hugmyndir mínar um manninn ættu vel við, því að löngum stunduðu klerkar búskap til sjós og lands, jafnhliða boðun fagnaðarerindisins. Kynni okkar sr. Sigurður Norlands hafa staðið í 30 ár og verið bæði mikil og góð. “

Þetta skrifaði sr. Pétur Ingjaldsson um nágrannaprest sinn vestur á Vatnsnesi, sem hafði lesið menntaskólann heima í Hindisvík og var nokkuð óráðinn hvað taka skyldi sér fyrir hendur að því loknu og fór þá í mikið ferðalag vestur um haf árið 1907-1908 og auk þess til Danmerkur og Englands. Er Sigurður kom heim, fór hann á prestaskólann, lauk þar prófi 1911 ásamt Magnúsi Jónssyni prófessor og voru þeir síðustu guðfræðingarnir frá þeim skóla.

Háskóli Íslands var stofnaður 1911 en þá sameinuðust Presta-, Lækna- og Lagaskólinn. Í prófbók prestaskólans segir:

„Kandidat Sigurður Jóhannesson hefur árin 1908-11 stundað guðfræðisnám við Prestaskólann og einkar kostgæfilega fært sér í nyt þá kennslu sem þar hefur verið veitt. Við burtfararpróf fékk hann aðra aðaleinkunn með 71 stigum. Fyrir hegðun sína á skólanum verðskuldar hann hinn besta vitnisburð.

Þegar biskup Jón Helgason hafði lokað prófbók Prestaskólans í síðasta skiptið kom hann að máli við hinn unga kandidat og bað hann að verða kapellán austur á Hofi í Vopnafirði, því presturinn þar var á leið til borgarinnar að verða dósent við nýja háskólann og þar var Sigurður um veturinn en fékk veitingu fyrir Tjörn vorið eftir, þ.e. 1912 og settist þá að á föðurleifð sinni Hindisvík, ættaróðalinu. Og hefur síðan alltaf verið heima segir í minningarorðum eftir hann, en höf./G.Br. bætir við:

„Hann brá sér að vísu suður í Landeyjar til 4 ára dvalar 1919-1923. Og hann dvaldist í borginni á veturna hin síðustu ár ásamt ráðskonu sinni, Ingibjörgu Blöndal. En þegar komið var heim til þeirra á Þórsgötunni var auðséð, að þar var bara tjaldað til einnar nætur, ekki búið um sig til frambúðar. Þar var fátt húsgagna og lítið um hýbýlaprýði. Húsbóndinn hvíldi á fornum legubekk með sæng sína fyrir ofan sig og las klassískar bókmenntir á grísku eða latínu. Ingibjörg sýslaði um góðgerðir handa gestinum. Þar var gaman að koma.“

Í minningarorðum sínum rifjar sr. Pétur á Höskuldsstöðum upp ljóðasmíð Sigurðar:

„En sr. Sigurður átti fleiri hugðarefni en á verklega sviðinu. Hugur hans dvaldi við bókmenntir, skáldskap og guðfræði. Hann var maður fjöllesinn á sinni feðratungu og á erlendum málum. Hafði yndi af skáldskap, orti ljóð og kastaði fram léttri stöku. Þýddi íslensk ljóð á enska tungu. Sigurður var hrifnæmur um fegurð náttúrunnar og mannlífsins og bera ljóð hans þess vott. Hann var margfróður og skilningsskarpur og naut sin vel i hópi fárra útvaldra. Í fjölmenni var hann hlédrægur, en vakti strax eftirtekt manna og eins hinna erlendu Guðsmanna, sem heimsóttu prestafundi hér. Þá óskuðu þeir stundum að fá viðtal við þennan útnesjaprest, er var liðlegur að tala á þeirra máli, eða á latínu.

Óður, eða kvæði sr. Sigurðar um Akureyri, er góðkunnur. Kom hann þar að kvöldi og vakti við ljóðagerðina um nóttina. Kom hann þá næsta dag til mín og þuldi mér fyrstum þetta kvæði. Dvöldum við þar lengi upp í Höskuldsstaða-Núpum og lofuðum gæzku skaparans og fagrar himinlindir. Var Húnaflói þá hinn fegursti og fagur fjallahringur. Höfðum við þá yfir rímur og sálmaljóð.“

Gunnlaugur Haraldsson sagnfræðingur rekur starfsannál sr. Sigurðar þannig í guðfræðingatali 1847-2002:

Haustið 1911: Vígður aðstoðarprestur að Hofi Vopnafirði
Vorið 1912: Veitt Tjörn á Vatnsnesi
Sumar 1919: Veitt Landeyjaþing
Sumar 1923: Veitt Tjörn.
Sumar 1955: Lausn frá embætti.
Bjó í Hindisvík til æviloka, en dvaldist í Reykjavík á veturna.

Í Húnaþingi og Skagafirði, varð föðursystir Hindisvíkurklerks mikil ættmóðir, hún Ástríður Helga Sigurðardóttir á Beinakeldu, en börn hennar og manns hennar Erlends Eysteinssonar voru: Eysteinn á Beinakeldu, Jósefína klæðskeri og húsfreyja á Sauðárkróki og bræðurnir á Stóru-Giljá, þeir Sigurður og Jóhannes.

En nú er komið að því að skoða skáldskap sr. Sigurðar:

Skáldahróður

1.
Enginn lærir atómljóð
eða syngur rímlaus kvæði.
Enda þó þau þyki góð
þau eru bara lesin hljóð
án þess svelli í æðum blóð
eða nokkuð fjörið glæði.
Enginn lærir atómljóð
eða syngjur rímlaus kvæði.

2.
Beri enginn á það skyn
orð með söng að kveða af munni
mörgum þætti þetta kyn
það er meiri ósköpin
ef svo verður listin lin
lengst og best sem þjóðin unni
beri enginn á það skyn
orð með söng að kveða af munni.

3.
Íslensk þjóð er allt of slyng
að hún hafni sínum kvæðum.
Ýmsir þekkja Íslending
út um heimsins víðan hring
varla telja hann vesaling
vanti sumt af heimsins gæðum
hann er frægur fyrir þing
frægstur þó af eigin kvæðum.

Vel fögnuðu Húnvetningar sr. Valdimar Eylands f. 1901, komnum í heimasveitina úr Vesturheimi, og héldu messu í Víðidalstungu sumarið 1964 þar sem sr. Sigurður flutti kvæði:

1.
Vér sem byggjum út við Íshafs
ægilegu strönd,
þekkjum engin yndislegri
eða fegri lönd
heldur en okkar ættarbyggðir,
aldna Húnaþing,
þegar eygló aldrei hverfur
út við sjónarhring.
2.
Ættarbyggðin okkar hefur
átt sér margan son
þann sem eigin braut sér brautir
brást ei hennar von,
flutti hennar hróður víða
hvar sem vegur lá,
kom svo heim með frægð og frama
fósturland að sjá.

Ljóðabók Sigurðar Norlands hefst með ljóðinu Reykjavík og dást má að því hvað öfundlaust Vatnsnesingurinn ávarpar borgina og kallar hana öðrum borgum yndislegri. Ljóðinu lýkur þannig:

4.
Því örlög valda, ýmiskonar
að örðug verða bónda kjör
í bænum Ingólfs Arnarsonar
mun áfram verða líf og fjör
en yngri borgin er en sveitin
og órjúfandi böndum tengd
við fjarlæg héruð, fornu heitin
og feðra arf í bráð og lengd.

5.
Í faðmi þínum farmenn hljóta
þá fyllstu rausn, er verða má
og skip og bátar næðis njóta
því nóg er hlé hjá þér að fá.
Hér stendur öllum opin bryggja
í óðal fyrsta landnámsmanns
og enn er færi bæ að byggja
og blett að fá af landi hans.

Ekki skorti skáldið í Hindisvík hrósyrði handa Akureyri:

1.
Fyrir löngu leit ég hérna
lítinn bæ á strönd.
Aftur kom ég svo í sumar.
Sólin gyllti lönd.
Til að sjá með eigin augum
óraveg ég fór.
Hvað þú værir, Akureyri
orðin rík og stór.

2.
Valdi stað með víðsýn fríða
Vaðlaheiðarbrún
horfði á þína höfn og skóga
hús og grænu tún.
Höfuðborg hins bjarta norðurs
byggðir tengjast þér.
Borgin syðra er þér eigi
æðri í huga mér.

3.
Ekki er von að óskabörnin
yfirgefi þig.
Ef þú hefðir, unga borgin
átt og fóstrað mig
held ég ei, ég hlypi frá þér
hrós mitt værir þú
alla daga yndi hjá þér
aldrei flytti bú.

4.
Um þig bjartur ljómi leikur
lífgar bæ og fjörð.
Einhver sem er orðinn smeykur
um hið fagra á jörð
ætti að koma, ætti að sjá þig
einhvern sólskinsdag
svo hann geti eins og áður
unað sínum hag.

5.
Þú ert fögur, Akureyri
Eyjafjarðar bær.
Aðrir bæir eru meiri
enginn samt þér nær.
Þú ert veitul vinum glöðum
vinnur huga manns
framar öllum öðrum stöðum
yndi þessa lands.

Ímugust hafði skáldið Sigurður á nýmóðins ljóðasmíð eða atómkveðskap eins og sést af þessum stökum hans:

Meðan áttir þekkir þjóð
- þagni sláttur nýrri. -
Héðan láttu óma óð
öllum háttum dýrri.

Rímlaust kvæði að réttum sið
ritgerð fyrr var kallað
en sem kvæði álitið
ákaflega gallað.

Þeir sem geta ekki ort
af því rímið þvingar
ættu að stunda annað sport
eða hugrenningar.

En flóinn bjarti stóð hjarta hans næst eins og Guðjón á Ásbjarnarstöðum staðhæfir í minningagrein sinni. Í ljóði sínu af Vatnsnesfjalli segir Sigurður:

Húnaflóa Furðustrendur,
firðir, eyjar, sker,
þetta er allt í augsýn, stendur
opið fyrir þér.
Lítum austur, opnast geimur
eins og sjónhverfing,
þetta er engin „annar heimur“,
aðeins Húnaþing.

Meira efni:
Minningagreinar í Mbl. 5. júní 1971 https://timarit.is/files/57547457 
og https://timarit.is/files/57547512
Ljóð og vísur Sigurðar Norland á vefsíðunni Húnaflói: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/hofundur.php?ID=15930
Elsta stökuspjall í Húnahorni, „Drottning Húnaflóa“: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=12080
Sögumessa á Tjörn 2017: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=14000
Nýlegt stökuspjall af Vatnsnesi: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=19393

Ingi Heiðmar Jónsson
 

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2023 Húnahornið