Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Fimmtudagur, 18. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 21:59 0 0°C
Laxárdalsh. 21:59 0 0°C
Vatnsskarð 21:59 0 0°C
Þverárfjall 21:59 0 0°C
Kjalarnes 21:59 0 0°C
Hafnarfjall 21:59 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
27. mars 2024
71. þáttur. Eftir Jón Torfason
24. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Kærubréf Guðrúnar Jónsdóttur
Kærubréf Guðrúnar Jónsdóttur
Kærubréf Guðrúnar Jónsdóttur
Kærubréf Guðrúnar Jónsdóttur
Pistlar | 10. september 2022 - kl. 10:03
Þættir úr sögu sveitar: Kvennamaðurinn á Reykjum
32. þáttur. Eftir Jón Torfason

Í byrjun 19. aldar voru stofnaðar svonefndar forlíkunarnefndir, þ.e. sáttanefndir, í hreppum landsins og áttu þær að fjalla um ágreiningsmál milli manna, var eins konar fyrsta dómstig eða réttur.[1] Voru að jafnaði tveir valinkunnir menn úr hverri sveit kosnir í nefndina, presturinn mjög oft annar þeirra. Þessar nefndir tóku á minni háttar málum og spöruðu hlutaðeigendum bæði kostnað og fyrirhöfn við að vísa málum til sýslumanns. Voru þessar nefndir virkar fram yfir miðja síðustu öld.

Öðlingurinn séra Þorsteinn B. Gíslason í Steinnesi sat lengi í sáttanefnd sinnar sveitar og segir að mörg mál þar hafi orðið sér minnisstæð. „Deildu menn stundum mikið, einkum fyrri ár mín í Steinnesi. Oftast tókst þó að sætta deiluaðila þótt ekki gengi það alltaf átakalaust. Yfirleitt fannst mér betra ef menn rifust heiftarlega í upphafi sáttafunda og tóku harðar sennur. Þá var oftast betra að ná sáttum en þegar menn þumbuðust við og vildu lítt tjá sig í málinu.“[2]

Árið 1811 átti Guðmundur Helgason bóndi á Reykjum í þrætu við nágranna sinn Jónas Ólafsson á Kringlu út af einstaklega ómerkilegu máli. Séra Jón Jónsson á Auðkúlu reyndi að miðla málum sem formaður sáttanefndar í Tinda sáttaumdæmi en það tók yfir Torfalækjar- og Svínavatnshrepp. Miðað við lýsingu Jónasar á Kringlu í fyrri þáttum (sjá þætti nr. 12-15) er þess ekki að vænta að hann hafi rifist heiftarlega heldur þumbast við, því svo segir í sáttabókinni:

Þann 12. janúar 1811 mætti fyrir settum forlíkunarrétti að Reykjum sem anklagandi Guðmundur Helgason bóndi sama staðar og sem andsvarandi Jónas Ólafsson bóndi á Kringlu. Er misklíðarefni að Jónas hafi átt kú í láni hjá Guðmundi um 18 vikna tíma, að hans sögn, en Guðmundur uppástendur meðgjöf nokkra sem Jónas innfinnur sig ekki til að betala og commissionin álíst og svo allt of stíf. Guðmundar fellur og svo á endanum frá sínu svera uppástandi og innlætur sig til commissionarinnar sanngjarnra atkvæða. Í lítilvægu efni þessu fæst það á unnið eftir langt millital, að sakarhöfðun hreint niður falli, þá Jónas lofar góðlátlega að auðsýna Guðmundi þénustusemi og liðsinna framvegis í því orka kynni, og honum sín leitandi[3] yrði svo sem góður vinur, hvar upp á báðir sáttir og sammála skilja og undirskrifa til staðfestu sín nöfn, sama stað, ár og dag sem upphaflega greinir.

        Jón Jónsson, Guðmundur Helgason, Jónas Ólafsson[4]

Guðmundur Helgason (1777-1855) var nýkominn að Reykjum þegar þetta var, flutti þangað 1810 þegar Mála-Ólafur færði sig að Beinakeldu sem fyrr er rakið. En Guðmundur var engum ókunnur, hafði lengi dvalist í þessum sveitum, var fæddur á Stóru-Giljá, líklega árið 1777. Móðir Guðmundar var Kristín Jónsdóttir, þá ógift vinnukona á Stóru-Giljá, átti síðar og Magnús Einarsson bónda á Litlu-Giljá og síðast Illuga Þorvarðsson svarta. Var Guðmundur sammæðra hálfbróðir Kristínar Grímsdóttur húsmóður í Vatnsdalshólum.

Guðmundur ólst upp hjá móður sinni á Litlu-Giljá og fermdist frá henni vorið 1791. Hann var vinnumaður á Stóru-Giljá 1798-1800 og Þingeyrum 1800-1801 og gekk þá að eiga Guðrúnu Jónsdóttur (1782-1834) sem ættuð var úr Skagafirði en vinnukona á Stóru-Giljá þegar þau kynntust. Þau bjuggu á Litlu-Giljá 1801-1803, á Bjarnastöðum 1803-1808, á Brekku í Þingi 1808-1810 og á Reykjum 1810-1812 en um þær mundir yfirgaf Guðrún bónda sinn, enda hafði hann haldið framhjá henni oftar en einu sinni. Eftir að Guðrún gekk frá Guðmundi bjó hann áfram á Reykjum með ráðskonum 1812-1822, að hann flutti búferlum að Grund í Svínadal og þar sem hann bjó til 1847.  Við þann bæ er hann jafnan kenndur en hann dó á Eyjólfsstöðum í Vatnsdal 20. júní 1855.

Guðmundur komst í nokkur efni þó að gengi á þau seinni árin. Hann var í meira lagi upp á kvenhöndina og varð hinn mesti barnakarl. Átti börn með öllum eiginkonum sínum, sem urðu á endanum þrjár, og auk þess með fjórum öðrum konum, hefur líklega sett „met“ í barneinum í sveitinni á þessum fyrstu áratugum 19. aldarinnar. Um Guðmund  skal að öðru leyti vísað á ítarlega grein Bjarna Jónassonar í Blöndudalshólum  í Húnavöku 1981 þar sem gerð er grein fyrir ævi hans og niðjum,[5] en hér hugað að skilnaðarmáli hans og Guðrúnar. Það byrjaði með réttarhaldi út af barneignarbroti Guðmundar.

Þann 27. janúar 1814 setti Björn Olsen, settur sýslumaður, pólitírétt á Þingeyrum út af barneignarbroti Guðmundar Helgasonar bónda á Reykjum og Ingibjargar Magnúsdóttur vinnukonu í Sólheimum. Lagt var fram attest séra Magnúsar Árnasonar í Steinnesi 2. júní 1813 um sökina þar sem segir að Ingibjörg hafi fætt barn í heiminn þann 21. febrúar 1813, þetta sé hennar annað frillulífisbrot en hans annað hórdómsbrot:

        Þá var Ingibjörg fyrir réttinn kölluð og aðspurð hvort hún stæði ennnú við sína strax upplesnu barnsfaðernislýsingu  upp á Guðmund? Sv.: „Já.“ Þá var Guðmundur aðspurður 1: Kannastu við að vera faðir að umt[öluðu] Ingibjargar barni: „Já.“ Þá voru téðar persónur aðspurðar hvort þær væru ánægðar að líða dóm eftir forþénun fyrir þetta brot og svara þar til bæði „já.“ Og þar partarnir höfðu ei meira fram að færa þá var sökin til dóms upptekin og fellur uppá hana svolátandi ályktun og dómur:

        Guðmundur Helgason bóndi á Reykjum, Tinda þingsókn, skal fyrir meðkenndan og framinn hórdóm í annað sinn betala þær við þetta brot liggjandi lagasektir, 18 ríkisdali til þessarar sýslu sakafallskassa og tvo ríkisdali til jústitskassans. En barnsmóðir hans, Ingibjörg Magnúsdóttir, betali sömuleiðis til sakafallskassans 36 álnir. Þetta hvorutveggja eftir kóngsbréfi frá 25. júlí 1808, & 10 og 11, saman bornu við Stóradóm, staðfestan 13. apríl 1565. Fyrir hér við orðsakaðan málskostnað betali þessar persónur til jafnaðar 64 sk. Það ídæmda lúkist innan þriggja sólarhringa undir aðför eftir lögum eftir þessa dóms auglýsing.

        Dómurinn var fyrir réttinum upplesinn og játtu þau sig, nefnilega Guðmundur og Ingibjörg, ánægð með hann.

        Ut supra.

        B. Olsen, Gunnar Gunnarsson, Bjarni Bjarnason[6]

Guðrún Jónsdóttir var nú komin norður í Skagafjörð og hugðist giftast aftur en þá þurfti að ganga lögformlega frá skilnaði hennar við Guðmund. Í september 1814  sendi hún svohljóðandi kæru til sýslumanns, raunar ennþá setts sýslumanns, Björns Olsen á Þingeyrum. Hún hljóðar svo:

        Rétt álíka og ég hefi í prívat bréfi til constitueraðs sýslumanns, hr. B. Ólafssonar, í Húnavatnssýslu gefið til vitundar vilja minn um hjónabands aðskilnað frá manni mínum, Guðmundi Helgasyni á Reykjum í Þingeyrasókn, svo óska ég og begjöri hér með yfivaldsins rétta hjónabands aðskilnaðar að lögum milli mín og egtamanns míns, Guðmundar Helgasonar, þeirrar orsakar vegna að hann hefur brotið við mig egtabands skilmála með hórdómsbroti árið 1813, sem ég vona lögin gjöri mér fullkomna orsök að fá aðskilnað eftir lögum og dóm við nefndan mann minn, Guðmund Helgason. Þegar yfirvaldið hefur mildilegast álitið framfærðu orsök og begering, hið fyrsta skeð getur, þá ég mín vegna kýs mér til talsmanns hreppstjóra mr. Ólaf Björnsson á Beinakeldu í Þingeyrasókn, ef þörf gerist, að svara fyrir rétti máli mínu. Vænti ég þá að rétturinn láti mig vita hvönær þessi sök afgjörist.

        Þverá í Hrolleifsdal, innan Skagafjarðarsýslu, þann 5. október 1814.

        Guðrún Jónsdóttir[7]

Það er athyglisvert að kærubréf Guðrúnar er ritað aftan á eyðublað fyrir manntalsskýrslu þannig að sennilega hefur einhver forráðamaður í Hrolleifsdal aðstoðað hana við að stíla kæruna. Sýnir líka nýtni manna á pappír á þessum árum sem var sýnu meiri en á vorum dögum.

Björn Olsen lét jólahátíðina líða áður en hann tók skilnaðarmálið fyrir, Væntanlega heima hjá sér á Þingeyrum. Hér á eftir er útskrift úr dómabókinni en spurningum þeim, sem talsmaður Guðrúnar, Ólafur Björnsson, lagði fyrir Guðmund, er skotið inn í hornklofum og síðan tilfærð svör Guðmundar:

        Anno 1815, þann 27. janúar setti Björn Ólafsson, constitueraður sýslumaður í Húnavatnssýslu, með tveimur undirskrifuðum þingsvitnum einn extrarétt í hjónaskilnaðarmáli bónda Guðmundar Helgasonar á Reykjum og konu hans Guðrúnar Jónsdóttur, hvör eð gefur manni sínum að sök að hann hafi brotið við sig hjónabands skilmála og tekið fram hjá sér og hefur um þetta efni skrifað til mín sem þénandi hér í sýslumanns embættinu undir dato 5. október f.á., hvört bréf ég hefi nýlega meðtekið. Þetta bréf hér nú í rétt lagt og upp lesið, markast litra A. Í tjáðu bréfi er beiðni Guðrúnar, að henni skikkist til að tala hennar máli hreppstjórinn í Torfalækjarhrepp, mr. Ólafur Björnsson. Allt svo er Guðmundur Helgason stefndur að mæta hér í dag. Stefnan er af dato 23. þ.m. og er hann þar innstefndur að svara til þessarar sakar og dóm að líða, hún lesin markast litra B, og kveðst Guðmundur eftir henni mæta. Þá mætti hreppstjóri mr. Ólafur fyrir réttinn og fram lagði skikkun til að útfæra þessa sök til dóms, skikkanin lesin markast litra C. Actor [sækjandi] lagði fram spursmál til Guðmundar sem markast litra D.

        [Svör Guðmundar innan gæsalappa]

        Sem til 1 [Hefur þú tekið framhjá konu þinni, Guðrúnu Jónsdóttur?]: „Já.“

        Til 2 [Hvað oft og hvör ár?]: „Tvisvar 1807 og 1813.“

        Til 3 [Var það með sama kvenmanni?]: „Nei.“

        Til 4 [Var kona þín nokkur orðsök þar til?]: „Nei.“

        Til 5 [Hefur þú beðið hana að það sundur slíti ei ykkar hjónaband og hún tilgæfi þér þessa þína yfirsjón?]: „Ónei.“

        Til 6 [Treystir þú þér ei til að lifa með konu þinni eins og einum manni bera að lifa með sinni konu og taka hana að þér aftur?]: „Ekki treysti ég mér til þess. Við gátum ei komið okkur vel saman lengur og ég sé mig ei í standi að geta varið börn okkar frá að fara á sveit.“

        Til 7 [Hefur þú átt mörg börn með henni í hjónabandi?]: „Fimm og lifa þrjú af þeim.“

        Til 8 [Hvað mörg ár voruð þið saman?]: „11 ár.“

        Til 9 [Hvað gömul er hún nú?]: „Hún er á milli 30 og 40 ára.“

        [Til] 10 [Hvað gamalt er ykkar yngsta barn?]: „Tíu vetra.“

        Til 11 [Hefur þú ei samsængað[8] með konu þinni, Guðrúnu Jónsdóttur, síðan þú saurgaðir hjónabandið í fyrra sinni?]: „Nei.“

        Honum sinn framburður upp lesinn og játar hann rétt inn færðan.

Enn nú var Guðmundur að spurður hvort kona hans hefði hann tekið eftir fyrra brotið og svarar þar til: „Já,“ og þau hafi þar eftir átt eitt barn saman. Þá fram lagði actor innlegg af dags dato, hans uppástand á móti Guðmundi, eftir sem það lesið var, markast litra E. Og þá partarnir höfðu ei meira fram að færa var sökin til dóms upp tekin og innfærist hann orðrétt í dómprótokollinn[9] og alleina hans atriði hér.

        Dæmist fyrir rétt:

        Bóndi Guðmundur Helgason á Reykjum í Torfalækjarhrepp  ─ sem 2 börn hefur átt fram hjá konu sinni, Guðrúnu Jónsdóttur, það fyrra ár 1807 og síðara 1813, og hann hefur ei frá þeim tíma óskað af konu sinni að sig aftur tæki (nefnil. frá ári 1813) og sér þessa hjónabandssök tilgefi, að því leyti í hennar valdi stóð ─ skal fyrir þessa sína yfirsjón, þar kona hans hefur upp á klagað, vera frá henni að lögum skilinn og þeirra hjónaband eftir N.L. [Norsku lögum] 3-18-15 algjörlega verða upphafið frá því þennan dóm heyrt hefur og þeirra bú, eftir sem það nú fyrirfinnst, skiptast til jafnaðar þeirra í millum að löglega bevísuðum skuldum kláruðum, sömuleiðis að þau til jafnaðar kosti til sinna barna forsvaranlegs uppeldis þar til úr ómegð eru. Einnin gjörist Guðmundi vitanlegt að sig má ei aftur gifta fyrri en hann þar til hefur fengið kóngs leyfi.

        Dómurinn var fyrir réttinum upp lesinn, actor og Guðmundi áheyrandi, og játa sig með hann ánægða.

        Ut supra.

        B. Olsen, Gunnar Gunnarsson, Bjarni Bjarnason[10]

Síðari eiginmaður Guðrúnar Jónsdóttur var Þorsteinn Þorsteinsson á Heiði í Sléttuhlíð, mikill og annálaður bókamaður.[11] Guðmundur Helgason þurfti að greiða Guðrúnu sinn hlut úr búi þeirra en hann virðist samt hafa allgott bú eftir sem áður. Lausafjártíund hans lækkar lítillega eftir skilnaðinn en réttist fljótlega við og hann er skv. tíundarskýrslunum jafnan í betri bænda röð. Guðmundur bjó áfram nokkur ár á Reykjum en það er útlátasamt að búa með nýjum og nýjum bústýrum, einfaldara að giftast þeim bara. Guðmundur sótti um leyfi til giftingar 1818 en hlaut ekki náð til þess í augum yfirvalda, en þremur árum seinna, 9. maí 1821, fékk hann loksins konungsleyfið  og kvæntist þá Björgu Ólafsdóttur (1787-1840) frá Geithömrum.[12]


[1] Sjá t.d. Lovsamling for Island 6. bindi, 15. júní 1799, bls. 378-380; sbr. Vilhelm Vilhelmsson: Sakir útkljáðar. Sáttabók Miðfjarðarumdæmis ... 1799-1865. Reykjavík 2017.
[2] Magnús Ólafsson: Prestur, bóndi og kennari í hálfa öld. Húnavaka 1979, bls. 39.
[3] Óljóst.
[4] ÞÍ. Skjalasafn sáttanefnda XVI, E. Tinda sáttaumdæmi.
[5] Bjarni Jónasson í Blöndudalshólum: Litast um í Svínavatnshreppi (framhald). Húnavaka 1981, bls. 111-120.
[6] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/4, örk 1. Dóma- of þingbók 1812-1818.
[7] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GB/2, örk 10.
[8] Þessi síðasta spurning er mikilvæg því ef Guðrún hefði samsængað Guðmundi eftir að brot hans komst upp hefði það skoðast sem eins konar „fyrirgefning“ af hennar hálfu og að minnsta kosti veikt töluvert málstað hennar í skilnaðarmálinu.
[9] Sýslumaðurinn hélt sérstaka dómabók, þar sem dómar voru færðir inn, dómprótokoll. Þar eru aðeins dómur einstakra mála en ekki málareksturinn, yfirheyrslur og sóknar- eða varnarræður.
[10] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/4, örk 1. Dóma- og þingbók 1812-1818.
[11] Skagfirskar æviskrár 1850-1890 VII, bls. 295.
[12] Konungsleyfin voru gefin út af Kansellí, en vanalega undirrituð af konungi. Sjá: ÞÍ. Kansellískjöl. KA/84, örk 14 (þar er afrit af skilnaðardóminum) og KA/91, örk 56 (þar er giftingarleyfið).

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið