Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Fimmtudagur, 18. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 05:21 0 0°C
Laxárdalsh. 05:21 0 0°C
Vatnsskarð 05:21 0 0°C
Þverárfjall 05:21 0 0°C
Kjalarnes 05:21 0 0°C
Hafnarfjall 05:21 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
27. mars 2024
71. þáttur. Eftir Jón Torfason
24. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Orrastaðir. Mynd: HAH
Orrastaðir. Mynd: HAH
Pistlar | 24. september 2022 - kl. 10:49
Þættir úr sögu sveitar: Búskapur á Orrastöðum
33. þáttur. Eftir Jón Torfason

Orrastaðir hafa örugglega orðið sjálfstætt býli mjög snemma, gætu verið landnámsjörð. Þetta var 20 hundraða jörð að fornu mati og taldist því í meðallagi að gæðum. Henni er lýst svo við jarðamat 1849:

Túnið er meira þýft en slétt, grasgefið í meðallagi, töðugott, fóðrar 3 kýr. Slægjur eru reytingslegar en ekki mjög litlar, sumar heyslæmar og allar mjög erfiðar afflutnings, bæði vegna fjarlægðar en þó einkum vegna rótlausra forarflóa, sem flytja þarf yfir. Sumarhagar eru sæmilega kjarngóðir og nærtækir en gagnsmunir af sauðfé minnka mjög á sumrum vegna mýbits. Vetrarbeit er góð og hæg og nægileg að víðáttu.[1]

Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, nærri hálfri annarri öld fyrr (1706) var túnið talið fóðra 3 kýr og fóðrast kynni að auki 20 lömb og 20 ær, plús 1 hestur til bjargar, „hinu öllu er á útigang vogað“[2] eins og var löngum venjan í íslenskum búskap, en sjaldan mun hafa tekið fyrir beit á Orrastöðum. Það taldist stór galli á þessari jörð og raunar Hamrakoti líka, að kirkjuvegur var „yfirmáta langur og illur“ og er einkennilegt að þessum tveimur bæjum var ætlað að sækja kirkju að Þingeyrum þar sem auðveldara hefði verið að fara niður á Hjaltabakka, raunar er enn styttra að kirkjunni á Svínavatni. En skipan kirkjusókna var stundum nokkuð einkennileg í gamla daga.

Gísli Einarsson (1746-15. janúar 1804) tók við búi á Orrastöðum að föður sínum Einari Gíslasyni látnum, en sá hafði búið hér frá því fyrir miðja öldina. Kona Gísla var Sigríður Hákonardóttir (1752-9. júlí 1816) og bjó hún áfram eitt ár eftir lát Gísla 1804, en þess má geta að dánarmein Gísla var „landfarsótt með taki.“ Sigríður var í Hamrakoti eitt ár og hefur þá öll börn sín hjá sér en síðan tvístraðist hópurinn. Sigríður var síðar nokkur ár aftur heima á Orrastöðum sem vinnukona. Árið 1813 er hún orðin vinnukona í Holti, árið eftir talin niðurseta og þar dó hún 9. júlí 1816, dánarmeinið „elliburðir, kvef og landfarsótt.“

Þau hjón fá þokkalega góða dóma í húsvitjunarbók prestsins. Gísli t.d. 1785 sagður: „Læs. Frómur. Einfaldur, kann nokkuð,“ en Sigríður: „Nokkuð læs. Ekki illa lynt. Skýr nokkuð.“ Og viðlíka eru umsagnirnar næstu árin.

Nokkrum árum eftir að Bjarni Halldórsson sýslumaður á Þingeyrum dó (7. janúar 1773) voru jarðir Þingeyraklausturs teknar út í sambandi við uppgjör á dánarbúi hans.[3] Haustið 1776 komu úttektarmennirnir að Orrastöðum og hafði Gísli þá fyrir nokkru tekið við jörðinni. Bæjarhús, sem fylgdu jörðinni, voru með líku móti og víða tíðkaðist, baðstofa í 3 stafgólfum,[4] búrhúsið var líka 3 stafgólf en eldhúsið minna, taldist 3 lítil stafgólf. Athygli vekur tiltölulega stórt fjós sem var fyrir 6 naut og er talið rammbyggilegt. Loks er talið fjárhús úti á velli fyrir 20 sauði. Hafa þarf í huga að þetta voru hús sem fylgdu jörðinni og leiguliði tók við, þegar hann tók jörðina á leigu og bar að skila þegar hann flutti burt, var sum sé lágmarks húsakostur. Oft byggði ábúandinn kofa sem hann átti sjálfur, t.d. fleiri fjárhús, skemmu eða smiðju, og voru þau mannvirki þá metin við burtför hans. Öll þessi hús eru sögð með greni upprefti, sem hefur þá verið rekaviður og tosað fram í sveitina utan af Skaga, en ofan á raftana og undir torfþekjuna hefur verið lagt hrís sem reytt var upp úr holtunum í kringum bæinn.

Eftir fjárkláðinn fyrri, sem var útrýmt með niðurskurðarátaki á árunum milli 1770 og 1780 ─ eitt mesta afrek íslenskrar stjórnsýslu fyrr og síðar ─ var bústofn landsmanna í lágmarki og meðal annars hafði kúgildum á jörðum í Þingeyraklaustursumboði stórfækkað, kindurnar ýmist drepist eða verið skornar og étnar. Þannig hafði kúgildum á Orrastöðum fækkað úr fimm, eins og var lengst af 18. öldinni, niður í eitt árið 1779, hefur að líkindum verið ein kýr. Upp úr 1780 tók fénaði aftur að fjölga og af skýrslum má ráða að bú Gísla og Sigríðar hafi verið nálægt meðallagi í sveitinni. Vorið 1783 voru taldir fram fjórir nautgripir, 40 ær mjólkandi og 11 hross sem er fullnægjandi bústofn fyrir eina fjölskyldu og vel það. En 8. júní þetta sumar hófust móðharðindin með gosinu í Lakagígum og eitraðri öskumóðu, sem lagðist yfir landið, og 17. apríl 1784 voru á bænum tveir nautgripir, 8 ær mjólkandi og aðeins eitt hross.[5] Séra Sæmundur Oddsson í Steinnesi, sem gerði skýrslu um jarðir Þingeyraklausturs í hreppnum, segir almennt um skepnurnar: „Eru nú tórandi, þó dauðvona.“ Afurðir af hungruðum búpeningi eru ekki miklar og enn átti ástandið eftir að versna á Orrastöðum því 1785 virðast kýrnar dauðar en taldar fram 2 ær og 2 lömb og 1 meri og jörðin sögð eyðijörð í búnaðarskýrslu þetta ár.[6] Samt bjuggu þau Gísli og Sigríður áfram á jörðunni, hírðust þar er líklega réttara orðalag, með tvö börn og eina vinnukonu. Trúlega hefur silungurinn í Svínavatni verið helsta bjargræðið.

Þarna var þó botninum náð, ef svo má segja, tveimur árum síðar (1787)[7] er komnar á bæinn tvær kýr sem gáfu blessuðum börnunum mjólkina, en ekki nema þrjár kindur. Í búnaðarskýrslunni þetta ár er tekið fram um Gísla: „Bjargaði sér við sjó,“ þannig að hann hefur væntanlega annað hvort farið suður í verið eða róið út á Skaga, e.t.v. í Hafnabúðum. Enn snýst lífsbaráttan um að bægja hungurvofunni frá og leiguliðinn Gísli hefur ekki burði til að greiða neitt af afgjaldi jarðarinnar til umboðsmannsins á Þingeyrum. Á manntalsþingi 11. júní 1788 er spurt um afgjaldagreiðslur: „Eftir[8] spurði sýslumaðurinn hvort jarðirnar Meðalheimur, Holt og Orrastaðir hafi undanfarið ár svoleiðis byggðar orðið að nokkur landskuld hafi af nokkurri þeirra svarast kunnað þá? Svara nálægir þingsóknarmenn að þó bygging hafi á þeim kallast svo vítt þar hafi menn félitlir inni lafað, einungis til að verja kofa, næstum því með annarra peninga, þá hafi þar þó engin landskuld kunnað af þeim svarast.“ Raunar taka þingsóknarmenn fram að líkt sé á komið fyrir öðrum landsetum, og þeir geti tæplega eða með naumindum greitt afgjöld sín.

Smám saman fjölgaði þó skepnunum á Orrastöðum skv. búnaðarskýrslunum. Árið 1788[9] eru kýrnar enn 2 en ærnar orðnar 8 og 1790 hefur bæst við 1 kálffull kvíga, mylkar ær eru 14 og hrossin 2. Næsta áratug, síðustu 10 ár 18. aldar, taldist árferði nokkuð gott og réttu þá landsmenn úr kútnum. T.d. telur Björn á Brandsstöðum nokkur þau ár hin bestu og talar um mikla „árgæstku.“[10] Gísla á Orrastöðum virðist þó ekki hafa auðnast að rétta hag sinn mikið við. Í búnaðarskýrslu 1803,[11] síðasta árið sem hann lifði, eru kýrnar 2, ærnar 19 og 2 lömb en hrossin 4.

Lausafjártíundin er nothæfur mælikvarði á hag bænda, þegar vantar búnaðarskýrslur, og skv. þeim mælikvarða hækkar tíund Gísla á Orrastöðum úr 2 hundruðum árin 1791 og 1792 upp í 4-6 hundruð næstu árin, fer raunar hæst í 8 hundruð 1799 en fellur aftur niður í 3 og 4 hundruð eftir aldamótin enda harðnaði þá í ári.

Einn mælikvarða enn má nota til að meta búhag Gísla og Sigríðar. Það er að bera úttekt á bæjarhúsunum 1805, þegar Sigríður Hákonardóttir fór frá jörðinni að Gísla látnum, saman við áðurnefnda úttekt frá 1776. Bæjarhúsin eru sömu og áður og virðast af svipaðri stærð. Meira að segja hefur bæst við geymsluhús og smiðjukofi sem sannarlega má kallast kofi, um 3 metrar á lengd en ekki nema 1 ½ á breidd. En sammerkt með öllum húsum á jörðinni er að þau eru í afar lélegu ástandi. Veggir eru flestir ónýtir, uppreftið fúið, gisið og brotið og þegar lýst er burðarvirki húsanna, eru þeim gefin smækkandi einkenni, talað um „stúfa“ og „nefnur,“ t.d. er baðstofan með „átta stoðastúfum, fjórum bitanefnum og sperrunefnum.“ Öðrum húsum er lýst á svipaðan veg. Hvorki er hurð fyrir fjósinu né búrinu, fyrir baðstofunni er „hurðarflak“ og fyrir eldshúsinu „brotið hurðarflak.“ Ekkjan krafin um stórfé í uppbót á bæjarhúsin, 70 ríkisdali, og hæpið hún hafi átt nokkuð upp í þá skuld.[12] Úttektarmenn klykkja út með athyglisverðri athugasemd um misbrúkun jarðarinnar gæða: „Hér að auki er jörðin stórlega fordjörfuð af þeim sem á henni hafa verið. Allra helst með því mikla hrísrifi sem af leiguliða hefur verið leyft þar í landi nú í mörg ár.“ Einhverjir nágrannar hafa sum sé fengið leyfi Gísla til að rífa upp hrís og runna í eldivið og hugsanlega líka í árefti á sín hús og hafa væntanlega goldið honum fyrir. Enn eitt dæmi þess að af fátækt sinni þurfi menn að ganga á auðlindir móður jarðar.

Um vinnufólk eða annað heimilisfólk á Orrastöðum á árum Gísla og Sigríðar er ekki ýkja margt að segja. Þar er um árabil Guðrún Einarsdóttir (1732-3. október 1813) systir Gísla bónda. Hún var gift Árna Hákonarsyni (1730-12. október 1803) og áttu þau son, Guðmund að nafni (f. 1777) sem var bóndi í Böðvarshólum í Vesturhópi og hjá honum dó Guðrún að lokum, 82 ára og var dánarmein „aldurdóms veikindi.“

Eiginmaður hennar, Árni Hákonarson, var hins vegar kominn að Hamrakoti, líklega þrotinn að heilsu því hann er sagður „tekinn“ í húsvitjunarbókinni en þó verður ekki séð að gefið hafi verið með honum. Í manntalinu 1801 er hann hins vegar titlaður „börnelærer“ og kannski ekki mikill munur á hvort maður er kennari eða niðursetningur, skv. þessum vitnisburði. Árni dó hins vegar í Vesturhópshólum 12. október 1803 og kallaðist þá húsmaður. Einnig er á Orrastöðum um árabil (1796-1802) vinnumaður Hákon sonur Árna og Guðrúnar.

Loks er að nefna systur Sigríður húsfreyju, Guðrúnu Hákonardóttur (1755-6. nóvember 1798), sem er talin til heimilis á bænum 1785, sögð „Læs. Skikkanleg. Vel kunnandi.“ Hún er hér til dauðadags en dánarmein hennar er skráð „forstíflun.“ Verður hennar getið að nokkru síðar.

[1] Jarðamat 1849-1850. Aðgengilegt á vefslóðinni „heimildir.is.“
[2] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VIII, bls. 319.
[3] ÞÍ. Skjalasafn umboðanna. Þingeyraklaustur VII, 2.
[4] Reikna má með að stafgólf hafi verið um 180 cm, var þó ekki föst stærð.
[5] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu SC/1, örk 1.
[6] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu SC/1, örk 2.
[7] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu SC/1, örk 3.
[8] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/2, örk 3. Dóma- og þingbók 1781-1788.
[9] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu SC/1, örk 3.
[10] Björn Bjarnason: Brandsstaðaannáll, bls. 26.
[11] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu SC/1, örk 4.
[12] ÞÍ. Skjalasafn umboðanna. Þingeyraklaustursumboð VII/1.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

 
Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið