Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Þriðjudagur, 23. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 00:18 0 0°C
Laxárdalsh. 00:18 0 0°C
Vatnsskarð 00:18 0 0°C
Þverárfjall 00:18 0 0°C
Kjalarnes 00:18 0 0°C
Hafnarfjall 00:18 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Mynd: Úr hreppsbók Torfalækjarhrepps frá 1809.
Mynd: Úr hreppsbók Torfalækjarhrepps frá 1809.
Pistlar | 09. október 2022 - kl. 09:07
Þættir úr sögu sveitar: Af börnum Orrastaðahjóna
34. þáttur. Eftir Jón Torfason

Eins og áður var rakið tókst Gísla Einarssyni og Sigríði Hákonardóttur ekki að rétta úr kútnum eftir áföllin í móðuharðindunum. Vinnulúi og heilsuleysi hafa kreppt að þeim og eftir að Gísli fellur frá kemur í ljós að barnalán Orrastaðahjónanna er talsverðum takmörkunum háð. Þau höfðu mátt t.d. sæta því að missa a.m.k. sex barna sinna í æsku eða nýfædd sem var raunar hlutskipti æði margra foreldra á fyrri árum.

Þessi börn voru: Aldís (1777-1. janúar 1787). Árið 1786 í húsvitjun sögð „ABC. Efnileg. Kann fræðin,“ þ.e. hún kann að stafa og hefur lært talsvert í kristindómskverinu. Einar Gíslason (1779-19. júní 1784). Gísli (f. 11. júlí 1783) hefur dáið mjög ungur, og Guðmundur (12. október 1787-29. október 1787). Má ráða af dánarárunum að þrautir móðuharðindanna hafa dregið þessi börn til dauða. Síðan fæddust andvana sveinbarn á Orrastöðum 17. mars 1794 og Sigríður Ingibjörg fæddist 12. september 1795 en dó 2. janúar 1796. En börnin sem lifðu áttu líka misjöfnu æviláni að fagna.

Það kemur á daginn að elsti sonurinn, Hákon (1781-1821), er eitthvað skertur því ekki tekst að kenna honum að lesa. Þannig færir prestur til bókar árið 1794 og er pilturinn þá orðinn 13 ára: „Óskiljandi í tali. Verður ekkert kennt.“ Mál Hákonar kom inn á borð biskupsins á Hólum, Sigurðar Stefánssonar, og segir í bréfi frá honum til séra Sæmundar Oddssonar í Steinnesi 18. maí 1795:

Hvað Orrastaða piltbarnið áhrærir þá er guðs en ekki vort að skapa manneskjuna með fullu ráði. Finnist ekki vanrækt foreldranna við barnið er gott, en það hafið þér nákvæmlega upp á yðar embættis vegna og eftir bestu samvisku að rannsaka og síðan gefa prófastinum eður mér til vitundar hvað miklum framförum þessi guðs vesælingur kann að geta tekið.[1]

Eitthvað hafa Sigríður og Gísli getað kennt drengnum sínum því við húsvitjun í Hamrakoti 1805 er hann 24 ára, „kann fræðin og fáeinar spurningar,“ og árið 1812 kann hann „pater noster“ (faðirvorið).

Eftir lát föður síns kemst Hákon undir forsjá sveitarinnar og þá er brugðið á það ráð að „jafna“ honum niður á einstaka bæi, frá 5-6 vikum upp í 3 mánuði í senn á hverjum stað. Þessi háttur virðist hafður á næstu 15 ár lífs hans. Í húsvitjunarbókinni er hann oftast talinn til heimilis á Orrastöðum en líka í Sauðanesi og á Reykjum, stundum sagt „var hér um tíma“ eða eitthvað álíka við einstaka bæi. Af hreppsbókinni má hins vegar ráða að hann hafi verið á flestum eða öllum bæjum í hreppnum tíma og tíma. Loks deyr þessi „guðs vesælingur“  21. júlí 1821, 41 árs að aldri, og er ekki tekið fram á hvaða bæ hann var þá staddur. Dánarmeinið er „af flogi“ sem er væntanlega vísbending um að hann hafi verið flogaveikur fyrir utan annað sem hefur bagað hann.

Framfærsla Hákonar lagðist á sveitina, venjulegt meðlag með honum var um 240 fiskar á ári sem dró sig saman í allmiklar upphæðir í tímans rás. Upp í þennan kostað fékkst úr sterbúi (þ.e. dánarbúi) Gísla á Orrastöðum eftir uppboð 1805 einungis 35 ríkisdalir og 72 skildingar. Sú upphæð hefði líklega dugað fyrir framfæri Hákonar í 3-4 ár.

Maður veit ekkert hvort Hákon var erfiður í umgengni eða ljúfur maður, en varla getur talist heppilegt að láta vangefinn og flogaveikan mann vera á sífelldu flakki um sveitina án samastaðar. En úrræðin voru ekki mörg.

Þroski hinna barnanna virðist hins vegar betri og t.d. við húsvitjun 1801 er Sigríður Gísladóttir 12 ára vel læs og kann að blaðsíðu 55 í kverinu. Guðrún 9 ára er líka læs og kann að 3. kafla en Guðlaug 4 ára er búin að læra Faðir vorið, sem er raunar meiri kunnátta en mörg börn á vorum guðlausu dögum nokkru sinni ná. Eftir að Gísli fellur frá, Sigríður stendur uppi sem eignalaus ekkja og þrjú barnanna komast alfarið á framfæri sveitarinnar, verður myndin nöturlegri.

Ekki þurfti að kosta upp á tvær eldri stúlkurnar; Guðrún eldri og Sigríður eru fermdar 1803 og fara eftir það í vinnumennsku og sjá fyrir sér sjálfar. Guðrún Gísladóttir eldri (2. september 1792-19. apríl 1854) var vinnukona á ýmsum bæjum framan af fullorðinsárum en árið 1835 er hún orðin húsfreyja á Holtastöðum. Maður hennar var Gísli Guðmundsson (1798-9. nóvember 1884), upprunninn úr Skagafirði. Þau áttu a.m.k. 2 börn en flytja vestur á Snæfellsnes, búa í Böðvarsholti í Staðarsveit þegar manntal er tekið 1845, og bera beinin þar vestra.

Sigríður Gísladóttir fæddist 24. september 1789. Hún er síðast með móður sinni í Hamrakoti 1805 en fer þá í vinnumennsku, fyrst að Holti en síðan upp í Svínavatnshrepp þar sem hún átti heima það sem eftir var ævinnar, lengst af á Guðlaugsstöðum. Þar er hún ýmist skráð vinnukona eða niðurseta allt til æviloka. En eitthvað er að. Í húsvitjunarbók Auðkúlu 1844 er hún sögð vinnukona á Guðlaugsstöðum, lesandi og skikkanleg í hegðun en bætt við „ekki með fullu ráði“ og árið eftir sögð „fáráðlingur.“ Árið 1866 er hún enn á Guðlaugsstöðum, 77 ára, „vitskert,“ en 1870 er hún sögð „galin.“ Hún deyr 26. september 1872, „niðurseta frá Guðlaugsstöðum,“ 82 ára. Af þessum færslum má ráða að Sigríður hafi fyllilega staðið sína pligt fram um miðjan aldur en þá misst tökin á lífinu og endað sem „galinn“ niðursetningur.

Tvær yngstu systurnar frá Orrastöðum lentu á framfæri hreppsins, Guðrún yngri (27. apríl 1799-29. maí 1866) og Guðlaug (1797- 13. maí 1859). Það vantar talsvert í prestsþjónustubók Hjaltabakka í upphafi 19. aldar svo þeirra er ekki getið í húsvitjunarbók fyrr en 1807 en þær voru framfærðar í Hjaltabakkasókn. Um þær báðar er sagt „málhölt“ sem hlýtur að hafa stafað af heyrnardeyfu því það má sjá í húsvitjunarbókinni að þær eru ágætlega læsar og kunna fræðin vel. Eftir að þær komast til fullorðinsára er ekki minnst á neins konar mál- eða talgalla.

Meðlagið með þeim systrum er frá 200 til 240 fiskar á ári en minnkar um helming þegar þær eru farnar að geta unnið eitthvað fyrir sér. Guðlaug er fermd 1812 og síðast gefið með henni 1814-1815. Guðrún er fermd 1814 og líka síðast nefnd í hreppsbókinni sama ár og Guðlaug. Þessar systur eru að því leyti lánsamari en Hákon bróðir þeirra, að þær eru alla sína tíð á sama bænum.

Guðrún er í Holti en fer þaðan í vinnumennsku 1815. Hún giftist vestur í Strandasýslu, er orðin húsfreyja á Hlaðhamri í Prestbakkasókn árið 1845.[2] Maður hennar hét Jón Jónsson og áttu þau a.m.k. þrjú börn sem upp komust. En áður en Guðrún flutti á Strandirnar gerðist hún, árið 1816, vinnukona á Orrastöðum hjá Birni Björnssyni bónda þar. Þegar Björn flutti vestur að Efra-Núpi í Miðfjarðardölum árið 1818 fylgdi Guðrún fjölskyldunni þangað. Þar aflaði hún sér barns með húsbóndanum, eitt af mörgum börnum Björns, sonar sem fékk nafnið Ólafur (15. nóvember 1821-21. mars 1898) og bjó lengi á Hlaðhamri en líka ýmsum jörðum í Hrútafirði.

Guðlaugu Gísladóttur var komið fyrir á Torfalæk og kölluð niðurseta langt fram eftir aldri en um og upp úr tvítugu er hún farin að vinna fyrir sér. Hún var á Torfalæk a.m.k. til 1821 og þá talin fullgild vinnukona. Hún fær heldur leiðinleg og beinlíns hrakleg ummæli í hreppsbókinni, er kölluð „pasturslítil, afstyrmi“ og fleira í viðlíka dúr. Í húsvitjunarbók prestsins fær hún hins vegar alla tíð sæmilegustu einkunnir fyrir kunnáttu og hegðun, eini ágallinn er málleysið eða óskýrt tal sem fyrr var nefnt að hafi hugsanlega stafað af heyrnardeyfu.

Guðlaug mun komin að Stóru-Giljá 1827 og er viðloða þar um langt árabil. Þar varð henni það á, eins og oft er tekið til orða, að eignast barn í lausalauk, stúlku sem fékk nafnið Kristín, f. 12. janúar 1834.

Faðirinn hét Kristján Ólafsson (1778-24. september 1845). Eitthvað er dularfullt við þennan barnsföður Guðlaugar. Ef flett er upp í Strandamönnum er maður með þessu nafni talinn bóndi í Stóru-Ávík nokkur ár upp úr aldamótunum en hverfur síðan úr Árneshreppi og Strandasýslu og Jón Guðnason, sá glöggi ættfræðingur, veit ekki hvert maðurinn fór.[3] Sennilega hefur Kristján einfaldlega brugðið sér yfir flóann og gerst vinnumaður á ýmsum bæjum þar og hann var talinn húsmaður á Húnsstöðum þegar hann dó haustið 1845.

Skv. hreppsbókinni var gefið ca. hálft meðlag með Kristínu í æsku hennar en foreldrarnir hafa þá unnið fyrir henni að hálfu, líklega mest Guðlaug því stundum virðist hafa gengið tregt að innheimta meðlag af Kristjáni.

Guðlaug og Kristján virðast ekki hafa verið neitt samvistum eftir að Kristín fæddist en hún fylgir móður sinni í vinnumennskunni. Þegar Kristín er orðin læs fer hreppstjórinn að huga að kristindómsfræðslu hennar og árið 1845  gjaldfærir hann 36 skildinga í hreppsreikninginn fyrir kver handa henni. Óvíst er hvort Kristínu entist eldur til að læra allan sinn kristindóm því vorið 1846 eru mæðgurnar komnar að Akri og þar ferst Kristín í Húnavatni, þá nýorðin 12 ára, þann 18. maí og einu orðin sem hafa verið fest á blað um þetta slys eru þegar presturinn skráir: „Hjá móður sinni í vinnumennsku á Akri, drukknaði í Húnavatni.“

Guðlaug lifði rúman áratug eftir lát dóttur sinnar, var á Kringlu eitt ár, síðan á Litlu-Giljá og loks á Beinakeldu þar sem hún dó 13. maí 1859, 62 ára að aldri, „vinnukona og sjálfrar sín.“

Eftir á þýðir ekkert að segja „hefði, hefði,“ hlutirnir fóru eins og þeir fóru og því verður ekki breytt. Manni finnst þó óneitanlega að hefði Gísli Einarsson lifað nokkrum árum lengur „hefðu“ þau hjón, þrátt fyrir fátæt og basl, getað hlúð betur að börnum sínum en raun varð á og búið þau farsællegar úr garði. Það er líka hugsanlegt að betri efnahagur hefði gert líf þessara barna farsælla en varð og verður hugað lítillega að þeim möguleika í næsta þætti.


[1] Bps. B V, 12. Bréfabók biskups á Hólum 1789-1796, bls. 306-307.
[2] Jón Guðnason: Strandamenn, bls. 65-66.
[3] Jón Guðnason: Strandamenn, bls. 487.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið