Kort af Orrastaðatúninu
Kort af Orrastaðatúninu
Pistlar | 05. nóvember 2022 - kl. 10:43
Þættir úr sögu sveitar: Hannes og Björg á Orrastöðum
36. þáttur. Eftir Jón Torfason

Fyrr hefur verið lýst húsakynnum á Orrastöðum (Þáttur nr. 33. Búskapur á Orrastöðum) þegar Sigríður Hákonardóttir, ekkja Gísla Einarssonar, hvarf þaðan vorið 1805 og mátti heita að bæjarhúsin væru fallin að viðum og veggjum, burðarviðir og árefti flest fúið og bilað. Við þessum kofum tóku Hannes Hannesson (1770-27. júlí 1853) og Björg Jónsdóttir (1778-25. júlí 1843) sem bjuggu hér 1805-1815 en fluttu þá að Tindum og voru þar til 1831. Þá færðu þau sig að Ásum þar sem þau bjuggu frá 1831 til 1838 að þau brugðu búi. Björg dó 19. júlí 1843 á Skeggsstöðum. Hannes dó 27. júlí 1853 á Víðimýri í Skagafirði.

Á þessum tíu árum tekst þeim rækilega að endurbyggja bæjarhúsin á Orrastöðum og bæta tún og engi myndarlega svo metið er á um 100 ríkisdali sem var mikið fé í þá daga.

Við[1] brottför þeirra 1815 er baðstofan 3 stafgólf allstór, ca. 5 metrar á lengd en 2 ½ á breidd, reft með annars vegar dönskum (innfluttum) trjám og hins vegar rekaviðar langröftum en þverreft á milli með tunnustöfum, „allt sterkviðað.“ Búr, eldhús og göng eru líka nýlega uppgerð af góðum viðum. Andyrið er ekki stórt en þar er nýlegt þil að framan með vindskífum. Veggir góðir og þak brúkanlegt. Einnig fylgir lítill geymslukofi og fjós fyrir 4 naut, með vænum veggjum, bássteinum og flór og „sinni hellu hvörju megin milli kúa,“ þ.e. hellur reistar upp á rönd hafa verið notaðar til að afmarka básana, rétt eins og sjá má í sögualdarfjósinu á Stöng í Þjórsárdal. Þá er traustlegt fjárhús yfir 24 fjár. Síðan talin fram nýjung, að því er virðist: „Alflóraðar kvíar, hlaðnar úr tómu stórgrjóti.“ Og bætt er við: „Allar peningshúsa tóftir hlaðnar af stórgrýti af snilld.“ Loks hefur verið hlaðinn „nýr kálgarður, 18 álnir á hvörn veg.“ Matjurtagarður sem er nærri tólf metrar á kant ætti að geta gefið góðan jarðar gróða. Þarna hefur grjótið, sem nóg er af í holtunum kringum bæinn á Orrastöðum, komið í góðar þarfir.

Hannes og Björg höfðu byrjað „sjálfstæðan“ búskap í Skyttudal aldamótaárið 1800 í samstarfi við foreldra Bjargar Jón Jónsson (1747- 23. apríl 1824) og Ingibjörgu Pétursdóttur (1742-1821). Á Orrastöðum búnaðist þeim hjónum vel. Fyrsta búskaparárið (1805) tíundar Hannes 18 hundruð og er þá með næsthæsta tíund allra gjaldenda í hreppnum. Hún hækkar upp í 23 og 24 hundruð næstu tíu árin og er hann alla tíð meðal hæstu gjaldendanna.

Til er búnaðarskýrsla frá árinu 1814. Þá voru á Orrastöðum 14 manns í heimili en bústofninn var 4 kýr og 1 kálfur, mylkar ær voru 84 og lömb 80 en veturgamlir sauðir og gimbrar 40. Tamdir hestar voru 11, ótamið 4 og loks er talinn sáðgarður. Þessi bústofn taldist meir en nógur til að framfæra 14 manneskjur, eins og þá voru á bænum, og því hafa verið nokkrar umframtekjur. Undir þetta mikla bú þurfti mikið land og Hannes hafði jörðina Hamrakot líka undir, leigði hana af Erlendi bónda á Holtastöðum en Hamrakot taldist eign Holtastaðakirkju frá fornu fari.

Ekki veitir af miklum mannskap við svo stórt bú og þáttur í efnalegri velferð Orrastaðahjónanna var örugglega að þau voru hjúasæl, á þann veg að nánast alla þeirra búskapartíð á Orrastöðum var hjá þeim sama vinnufólk. Fyrst er að nefna Kristján Brandsson (4. júlí 1787-16. september 1847), sonur svonefnds Kjafta-Brands Brandssonar (1754-1826), en Kristján bjó síðar um 30 ára skeið á Hurðarbaki. Hefur hann starfað með Hannesi bónda að grjótburði og steinhleðslunum sem fyrr voru nefndar.

Mikil vinna var að mjólka ær um fráfærurnar og sinna um mjólkurafurðirnar, „hafa ljósaverk“ eins og það er kallað í Njálu. Það kom í hlut kvennanna og skal fyrsta telja Margréti Árnadóttir (1772-9. desember 1838) sem var hjá þeim hjónum öll árin á Orrastöðum, en þegar þau fluttu að Tindum 1815 brá hún sér eina bæjarleið og gerðist ráðskona hjá Guðmundi Helgasyni á Reykjum, sem nefndur hefur verið fyrr (sjá þátt nr. 32. Kvennamaðurinn á Reykjum).

Málmfríður (f. 1766) systir Hannesar kemur með þeim að Orrastöðum og er þar til 1810 en þá flutti hún sig á næsta bæ, að Hurðarbaki, og varð sá flutningur örlagaríkur fyrir hana og þá fjölskyldu sem þar bjó og verður rakið síðar.

Í hennar stað kom Ingibjörg Jónsdóttir (um 1760-8. janúar 1843) sem var ekki alveg ókunnug Hannesi bónda því hún var barnsmóðir föður hans Hannesar Jónssonar í Holti og móðir Elínar hálfsystur hans (sjá 6. þátt. Af harðabónda ættinni). Ingibjörg er ýmist talin vinnukona á Orrastöðum næstu ár eða til heimilis í Hamrakoti sem húskona. Hvernig sem því var varið er hún þessi ár að einhverju leyti á vegum Hannesar og Bjargar.

Að síðustu skal nefna Þuríði Jónsdóttur (1794-5. ágúst 1877), sem í fyrstu er talin tökustúlka en síðari árin vinnukona og fylgir þeim Hannesi og Björgu að Tindum. Þuríður og Björg voru þremenningar, með því móti að Guðmundur Gunnarsson móðurafi Þuríðar og Helga Gunnarsdóttir föðuramma Bjargar Jónsdóttur voru systkini.[2] Þuríður fylgir þeim að Tindum og er þar í manntali 1816 en fer úr sveitinni 1822, þá frá Stóra-Búrfelli að Ystu-Grund í Skagafirði (28 ára að aldri) og gerist bústýra Jóns Jónssonar (25 ára) bónda þar og átti síðan alla ævi heima í Skagafirði.

Í Húnavöku 1976 gerir Bjarni[3] í Blöndudalshólum góða grein fyrir barnaláni Hannesar Hannessonar og Bjargar Jónsdóttur en þau áttu 7 börn sem upp komust og eignuðust afkomendur og verður það ekki endurtekið hér, en þau hjón eiga fjölda afkomenda í sýslunni. Börnin voru Ingibjörg, Þuríður, Sigþrúður, Einar, Jóhannes, Björn og Jón. Tvö þeirra settust að í Torfalækjarhreppi. Jón Hannesson (1816-15. maí 1894), kvæntur Margréti Sveinsdóttur (3. október 1816-20. desember 1870) og bjuggu þau á Hnjúkum. Sigþrúður (1801-31. maí 1866) var seinni kona Gísla Jónssonar (24. febrúar 1797-21. apríl 1887) bónda í Köldukinn, og verður þeirra síðar getið.

Það er einstaklega notalegt að fylgjast með þroska barnanna á Orrastöðum í húsvitjunarbók Þingeyraklausturs á þessum fyrstu árum þeirra. Árið 1805 eru dæturnar þrjár, Ingibjörg (7), Þuríður (6) og Sigþrúður (4) allar orðnar læsar og kunna fræðin, þ.e. meginatriði kristindómsins. Fjórum árum síðar fá allar systurnar sömu umsögn: „Læs, næm, skýr og auðsveip,“ og þær kunna kverið allt og „eins allan smáa stílinn,“ en það voru smáleturskaflar í kverinu þar sem farið var dýpra í ýmis atriði en ekki var nauðsynlegt að kunna til fermingar. Einar er þetta ár 6 ára, er þá læs, „skýr og efnilegur.“ Árið 1811 eru öll börnin „efnileg og auðsveip“ og vel upp frædd. Nú hefur Jóhannes bæst við og 5 ára gamall þekkir hann stafi og kann boðorðin og bænir. Uppeldið hefur því tekist vel hjá þeim Björgu og Hannesi en hafa má í huga að foreldrar Bjargar, Jón og Ingibjörg, eru þessi ár á heimilinu og má ímynda sér að þau hafi lagt hönd að kristindómsfræðslu barnanna. Síðasta sinn sem Þingeyraklerkur húsvitjar á Orrastöðum er umsögn hans um Hannes og Björgu: „æruhjón“ og „sómaforeldrar,“ og skal með þeim orðum skilið við þau að sinni.


[1] ÞÍ. Skjalasafn umboðanna. Þingeyraklaustursumboð VII/1.
[2] Tölvupóstur frá Svövu Sigurðardóttur hjá islendingabok.is.
[3] Bjarni Jónasson í Blöndudalshólum: Svipast um í Svínavatnshreppi. Húnavaka 1976, bls. 50-52.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga