Pistlar | 14. nóvember 2022 - kl. 11:45
Alvarlegir öryggisbrestir í fjarskiptum
Eftir Bjarna Jónsson

Sú hættulega staða sem kom upp fyrir nokkrum dögum þegar net og símasambandslaust varð á Skagaströnd og í Skagabyggð afhjúpar alvarlega veikleika í fjarskiptaöryggi byggðarlaga á landsbyggðinni. Þá lá netsamband niðri í 6 stundir og var með öllu símasambandslaust í 3 tíma og ótraust þess fyrir utan eftir að grafinn var í sundur ljósleiðari vegna framkvæmda í Refasveit. Þennan tíma var ekki hægt að hringja í neyðarlínuna 112 eða eiga samskipti fólks í milli vegna aðstæðna eða atvika sem kynnu að kalla á neyðaraðstoð. Því miður hafa einmitt átt sér stað allnokkur neyðarlínuútköll af svæðinu að undanförnu, eitt þeirra degi eftir þennan atburð, vegna rjúpnaskyttu sem slasaðist og þurfti á sjúkraflugi að halda frá Blönduósflugvelli.

Fjarskiptaöryggi tryggt með tvítengingu

Það verður að tryggja tvítengingu fjarskipta við alla byggðakjarna landsins og varaleiðir á landsvísu til að koma í veg fyrir svo alvarlega öryggisbresti. Eftir að hætt var að þjónusta eldri tengingar í gegnum kopar og gömlu heimasímana, samhliða því að skipta átti yfir í ljósleiðara og aðrar fjarskiptaleiðir, hefur skapast óviðunandi millibilsástand fyrir marga vegna þess hve umskiptin eiga sér stað hægt, eða ekki eru til varaleiðir til að tryggja fjarskipti á ögurstundu.

Ég hef áður minnt á að gott fjarskiptasamband er forsenda búsetuöryggis. og þessir grunninnviðir hafa grundvallarhlutverki að gegna fyrir almannaöryggi og uppbygging þeirra á að vera órjúfanlegur hluti af þjóðaröryggisstefnu Íslands. Í dag er fjarskiptakerfið ekki skilgreint sem öryggisfjarskiptakerfi en til þess að tryggja öryggi allra hvort sem er á heimilum sínum, þjóðvegum, fjallvegum eða í dreifbýli almennt, skiptir máli að svo sé.

„Markaðsbrestur“ í öruggum fjarskiptum

Það þjóðaröryggi sem ég tala hér um verður ekki tryggt á markaðslegum forsendum af þeim fyrirtækjum sem nú höndla með það fjöregg þjóðarinnar sem fjarskiptin eru. Eitt er að ná að fá einstök svæði tengd, annað og meira að ráðist sé í þær ráðstafanir sem til þarf svo ekki geti átt sér stað slíkt öryggisrof og varð á Skagaströnd og í Skagabyggð.

Mikilvægir áfangar hafa náðst á undanförnum árum í að ljósleiðara væða landið. Stefnt er að því að búið verði að leggja ljósleiðara um alla þéttbýlisstaði landsins árið 2025. Nú er í gangi átak í að bæta varaafl fjarskiptasenda og fjármagni varið í það verkefni til að vera betur í stakk búin að takast á við afleiðingar óveðurs á innviði. Skemmst er að minnast þess þegar varð 72 stunda rafmagnsútfall vegna óveðurs í byggðarlögum á Norðurlandi. Allt þetta er vel, en enn vantar samt mikið upp á gagnvart dreifbýlinu og farleiðum um hættulega vegi. Í tilvikum sem þessum þegar leiðarar eru rofnir eins og hér gerðist, þarf fleira að koma til en vel hlaðin batterí fyrir fjarskiptasenda. Eins mikilvægt það er að koma á góðu fjarskiptasambandi um landið, þá verður einnig að tryggja að það sé öllum stundum til staðar þegar á þarf að halda.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna í NV kjördæmi.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga