Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Fimmtudagur, 28. mars 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Mars 2024
SMÞMFL
252627282912
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 23:37 0 0°C
Laxárdalsh. 23:37 0 0°C
Vatnsskarð 23:37 0 0°C
Þverárfjall 23:37 0 0°C
Kjalarnes 23:37 0 0°C
Hafnarfjall 23:37 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
27. mars 2024
71. þáttur. Eftir Jón Torfason
24. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
22. mars 2024
Eftir Bjarna Jónsson
17. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
15. mars 2024
Eftir Bjarna Jónsson
11. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Hamrakot Torfalækjarhreppi. Mynd: HAH/Guðmundur Arason
Hamrakot Torfalækjarhreppi. Mynd: HAH/Guðmundur Arason
Pistlar | 20. nóvember 2022 - kl. 12:36
Þættir úr sögu sveitar: Hamrakot
37. þáttur. Eftir Jón Torfason

Um miðja 18. öld bjuggu í Hamrakoti Þorbergur Jónsson (d. 1757 eða 1758) og kona hans Hildur Jónsdóttir (1714-27. september 1785). Eftir lát Þorbergs réðst til bús með Hildi og giftist henni Jakob Egilsson (1736-22. desember 1801) og bjuggu þau saman um 25 ár. Hildur lést í lok móðuharðindanna 27. september 1785. Dánarmein „Landfarsótt og tak. Átti ekkert barn, var kreppt,“ þannig að strit hversdagslífsins hefur leikið hana hart, eða átti hún kannski við beinþynningu að stríða? Að Hildi andaðri kvæntist Jakob á nýjan leik talsvert yngri konu, Geirlaugu Bjarnadóttur (1751-4. desember 1818). Hér bregður sum sé fyrir nokkuð algengu mynstri þegar ekkja eða ekkill giftist yngri maka, karli eða konu eftir atvikum og er aldursmunur oft 15-20 ár. Þetta var í rauninni nauðsynlegt fyrirkomulag til að viðhalda áframhaldandi ábúð á jörðinni og, sem var ekki síður mikilvægt, að tryggja framfærslu barna (og annarra ómaga) sem voru á ábyrgð hins eftirlifandi maka.

Eftir lát Jakobs kom þetta þó ekki til álita með Geirlaugu því hún mun hafa verið nær því eignalaus og hraktist frá Hamrakoti. Hún flutti upp í Svínavatnshrepp og gerðist húskona í Tungunesi þar sem hún lést 4. desember 1818.

Búskapur virðist hafa staðið með nokkrum blóma í Hamrakoti hjá Jakobi og Hildi í aðdraganda móðuharðindanna. Vorið 1783 voru þar taldar fram 4 kýr (hugsanlega hefur eitthvað af því verið kálfar), 40 mjólkandi ær og 10 hross sem var meir en vel viðunandi fyrir 5 manna heimili. En nú urðu snögg umskipti. Ári seinna, vorið 1784, var aðeins eftir ein kýr og 8 ær, hitt allt dautt. Uppbyggingin næstu ár var hæg, 1785 tórði kýrin enn, ærnar voru orðnar 10 og athyglisvert að 7 lömb eru talin fram, einnig 2 hross. Árið 1788 voru kýrnar 2 og kálffull kvíga að auki, ærnar þó ekki nema 9 og 1 gimbur, þannig að líklega hefur útigangurinn brugðist og eitthvað af kindunum fallið úr hor. En tveimur árum síðar ná ærnar tveimur tugum og fjórar gimbrar að auki en nautgripirnir eru áfram þrír og hrossin líka.

Fleiri búnaðarskýrslur eru ekki til frá árum Jakobs í Hamrakoti og skal því hugað að tíundaskýrslunum sem hefjast 1791. Það ár tíundar Jakob 5 hundruð í lausafjár eða búfjár tíund sem samsvarar að hann hafi haft undir höndum tvær kýr og 18 mylkar ær en afurðir af þeim fénaði ættu (mjög gróflega reiknað) að duga til að framfæra fimm manna fjölskyldu. Vafalaust hefur líka verið mikil björg að silungi í Svínavatni og Laxá. Næstu árin smáhækkar tíund Jakobs upp í 6 og síðar 7 hundruð 1795 og kemst í 9 hundruð aldamótaárið en þar með var sögu hans lokið enda leystist heimilið upp við andlát Jakobs í desember 1801. Borið saman við aðra bændur í sveitinni eru Jakob og Geirlaug í löku meðallagi þegar best lætur.

Á heimilinu er sjaldan vinnumaður en alltaf ein vinnukona og ómögum líka stundum komið þar fyrir. Hér skal aðeins nefnd ein vinnukona, Sigríður Hannesdóttir (um 1761-28. júlí 1824) dóttir Hannesar Jónssonar í Holti (sjá 7. þátt, Af harðabónda ættinni) sem er vinnukona hér 1784-1792 og fær einkunnina „geðþæg“ hjá presti. Þann 15. október 1793 giftist hún Magnúsi Guðmundssyni (f. um 1765) en ekki stóð hjónabandssælan lengi því næsta vor dó hann, 7. apríl 1894, og var þá við sjóróðra í Ytri-Njarðvík, í prestsþjónustubók Útskála sagður eiga heima í Holti í Svínadal.

Eftir lát Magnúsar hefur Sigríður lent á einhverjum hrakningi en árið 1796 er hún komin aftur að Hamrakoti og er hér til 1798, sögð „ekkja, tekin“ í húsvitjunarbókinni. Dóttir hennar fylgir henni, Guðný Magnúsdóttir (16. september 1794-13. janúar 1863). Þá giftist Sigríður seinni manni sínum, Jóni Jónssyni (um 1771-1840) Hálfdanarsonar og bjuggu þau eitt ár í Holti en lengst á Kárastöðum á Bakásum og eignuðust fjölda barna. Guðný var tvígift eins og móðir hennar og átti lengst af heima út á Skaga.[1]

Loks skal nefna Kristján Jónsson, „tekinn, 2 ára,“ segir í sóknarmannatalinu 1801. Þetta var sonur Sigríðar Hannesdóttur, fæddur 1. september 1799 í Holti, tvíburi á móti dreng sem hlaut nafnið Sigurður en lést rúmum mánuði síðar. Ekki er ólíklegt að Sigríður hafi komið hart niður eftir tvíburafæðinguna og Jakob og Geirlaug tekið drenginn til að létta undir með sinni gömlu vinnukonu. Eftir lát Jakobs í Hamrakoti fór Kristján aftur til foreldra sinna, Sigríðar og Jóns, og ólst upp með þeim. Hann var afi Élivoga-Sveins.

Jakob eignaðist tvær dætur með seinni konunni, Hildi (1788-21. janúar 1814) og Guðrúnu (7. desember 1792-29. júlí 1846), og fylgdu þær móður sinni upp í Svínavatnshrepp þegar hún fór frá Hamrakoti.

Hildur er 14 ára þegar faðir hennar deyr. Skv. ummælum í húsvitjunarbókinni verður ekki annað séð en hún hafi þroskast „eðlilega“ framan af ævi, er orðin læs árið 1801 og kann fræðin. Annað hvort er þetta skakkt metið hjá séra Sæmundi presti í Steinnesi eða eitthvað hefur komið fyrir stúlkuna því í húsvitjun í Tungunesi 1803, þar sem Geirlaug var þá húskona, segir um Hildi 16 ára. „Les nokkuð. Daufur aumingi.“ Kunnátta: „Kann dálítið, án skilnings.“ Yngri systirin, Guðrún þá 11 ára, fær viðlíka ummæli: „Stautar þó,“ en um kunnáttuna segir: „Kann fræði.“

Það tekst að ferma Hildi 1805, þó orðin 18 ára, og kann hún þá kristindóminn „dauflega“ og „les veiklega.“ Guðrún er fermd sama ár á réttum aldri ef svo má segja og „kann nokkurn veginn [kristindóminn]“ en les líka „veiklega“ svo væntanlega hefðu þessar systur ekki skorað hátt í Písakönnunum.

Það vantar mörg ár í sóknarmannatal Auðkúlusóknar en líklega hefur Geirlaugu tekist að hafa dætur sínar hjá sér í Tungunesi og þar er hún í manntali 1816 og Guðrún hjá henni. Geirlaug fær jafnan góðan vitnisburð hjá prestunum, sögð „fróm og ráðvönd,“ til dauðadags árið 1818.

Ætla má að Guðrún Jakobsdóttir hafi getið unnið fyrir sé framan af ævi en Hildur síður og árið 1813 megnar Geirlaug ekki lengur að hafa þessa dóttur sína hjá sér svo hún er send á fæðingarhreppinn, Torfalækjarhrepp, þar sem hún er komin á svo til fullt meðlag fjárhagsárið 1813-1814. Frændum mínum og sveitungum hefur ekki þótt þetta góð sending því ritað er í hreppsbókina að hún sé „ónýt óþokkakind.“ Henni virðist ætlað að fara á milli bæja, vera fjórar vikur á hverju heimili, m.a. um tíma í Hamrakoti og var þá aftur komin á æskuheimili sitt. En Hildur kembdi ekki hærurnar á bernskuslóðunum því hún dó 21. janúar 1814, var þá í Meðalheimi: „Veslaðist upp í megru,“ segir í prestsþjónustubók Hjaltabakka.


[1] Sbr. Bjarni Jónasson: Litast um í Svínavatnshreppi. Húnavaka 1976, bls. 58.

 

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið