Pistlar | 21. nóvember 2022 - kl. 09:03
Styrkingar raforkukerfisins á Norðvesturlandi
Eftir Gný Guðmundsson
Nú stendur yfir undirbúningur að byggingu nýrrar háspennulínu, Holtavörðuheiðarlínu 3, sem mun liggja á milli Blöndustöðvar og nýs tengivirkis á Holtavörðuheiði. Línan er ein af fimm línum sem saman mynda fyrri hlutann í nýrri kynslóð byggðalínu, og munu ná frá Hvalfirði og austur á land.
 
Framkvæmdum hraðað
Upphaflega stóð til að framkvæmdir við Holtavörðuheiðarlínu 3 hæfust árið 2028 en vegna stöðunnar í raforkukerfinu hefur framkvæmdinni verið flýtt og stendur til að hefja framkvæmdir eins fljótt og undirbúningsferli framkvæmdanna leyfa. Nú þegar eru tvær línur af nýrri kynslóð þegar fullbúnar og komnar í rekstur. Þær eru Kröflulína 3 og Hólasandslína 3 sem mynda samfellda tengingu á milli Fljótsdalsstöðvar og Akureyrar. Línurnar hafa nú þegar sannað gildi sitt í óveðrum nú í haust þar sem að skemmdir urðu á gömlu byggðalínunni á þessari leið án þess að raforkunotendur á svæðinu urðu varir við truflanir á afhendingu. Eins er þegar hafin atvinnuuppbygging á Akureyri sem ekki hefði verið möguleg nema með tilkomu línanna. Hinar þrjár eru Blöndulína 3 frá Akureyri að Blöndustöð og Holtavörðuheiðarlínur 1 og 3 sem ná frá Hvalfirði til Blöndu með viðkomu í tengivirkinu á Holtavörðuheiði. Þær eru nú allar í komnar í undirbúningsfasa en eru mislangt komnar í undirbúningnum.
 
Samtal við hagsmunaaðila
Undirbúningur að byggingu háspennulína er langt og vandasamt ferli og náið samráð haft við hagsmunaaðila, landeigendur og aðra íbúa svæða sem línur munu ná yfir. Landsnet hefur síðustu ár verið að móta sína verkferla varðandi undirbúning línuframkvæmda og hefur það skilað sér í styttri undirbúningstíma og meiri sátt um nauðsynlega innviðauppbyggingu.
 
Þjóðhagslegur ávinningur
Með byggingu línunnar næst fram mikið hagræði fyrir raforkukerfið í heild sem m.a. stuðlar að bættri nýtingu virkjana á norður- og austurhluta landsins auk þess sem flutningstöp og líkur á aflskorti munu minnka. Þetta stafar af því að með tilkomu hennar greiðist úr flöskuhálsi í flutningskerfinu sem hefur afmarkast af línum í vestur af Blöndustöð og í austur af Fljótsdalsstöð. Með Holtavörðuheiðarlínu 3 munu Norðurland vestra og Vestfirðir færast undir áhrifasvæði virkjana á Norður-, Norðaustur- og Austurlandi sem eykur nýtingu þeirra og minnkar rennsli um yfirfall lóna á svæðinu með tilheyrandi orkutapi.
 
Sveitarfélögin á Norðvesturlandi í eftirsóknarverðri stöðu
Línuleiðin hefur ekki verið ákveðin ennþá en nokkrir valkostir verða teknir til skoðunar í
umhverfismatsferlinu. M.a. valkostir sem snúa að því að minnka vegalengdina á milli endapunkta línunnar og valkostir þar sem línan verður lögð í nágrenni núverandi flutningslína á svæðinu. Áætlanir um þróun flutningskerfisins gera ráð fyrir því að núverandi línur, þ.e. Laxárvatnslína 1 og Blöndulína 1 verði áfram í rekstri og muni þá öðlast nýtt hlutverk sem felst í því að fæða landshlutann með raforku frá meginflutningskerfinu. Með því munu sveitarfélögin á svæðinu verða í eftirsóknarverðri stöðu þar sem tvær 132 kV flutningslínur munu fá það hlutverk að fæða svæðið raforku með flutningsgetu á við uppsett afl Blönduvirkjunar með tvöföldu afhendingaröryggi. Mun það auka möguleika svæðisins til vaxtar og orkuskipta til muna , enda um margföldun á tiltækri afhendingargetu orku að ræða frá því sem nú er. Munu þá íbúar Norðvesturlands loksins geta notið nálægðarinnar við Blönduvirkjun að fullu, en það hefur verið takmörkunum háð fram að þessu vegna flutningstakmarkana á gömlu byggðalínunni. Til að viðhalda þeirri stöðu svæðisins þarf einnig að huga að endurnýjun núverandi kerfis en Laxárvatnslína 1 og Blöndulína 1 voru teknar í rekstur árið 1977 og nálgast því fimmtugt. Þær hafa því verið settar á endurnýjunaráætlun Landsnets og stendur til að endurnýja þær á næsta áratug. Munu þær þá verða endurnýjaðar sem loftlínur á sterkum stálröramöstrum sem þola verri veður en tréstauralínur og/eða sem jarðstrengir, eftir því sem tæknilegt svigrúm leyfir. Hvert svigrúm til jarðstrengslagna í flutningskerfi raforku verður í einstökum landshlutum fer eftir þróun raforkukerfisins á næstu árum og áratugum, en auknar styrkingar kerfisins og uppbygging orkuvinnslu auka almennt möguleika á að leggja línur á háum spennustigum
í jörðu.
 
Gnýr Guðmundsson
Yfirmaður greininga og áætlana í raforkukerfinu
Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga