Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Föstudagur, 29. mars 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Mars 2024
SMÞMFL
252627282912
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 05:10 0 0°C
Laxárdalsh. 05:10 0 0°C
Vatnsskarð 05:10 0 0°C
Þverárfjall 05:10 0 0°C
Kjalarnes 05:10 0 0°C
Hafnarfjall 05:10 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
27. mars 2024
71. þáttur. Eftir Jón Torfason
24. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
22. mars 2024
Eftir Bjarna Jónsson
17. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
15. mars 2024
Eftir Bjarna Jónsson
11. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Bréf Hannesar Þorvaldssonar
Bréf Hannesar Þorvaldssonar
Pistlar | 03. desember 2022 - kl. 09:46
Þættir úr sögu sveitar: Dóttir Guðrúnar Jakobsdóttur
38. þáttur. Eftir Jón Torfason

Eftir lát Geirlaugar (d. 1818, sbr. síðasta þátt) Bjarnadóttur móður Guðrúnar Jakobsdóttur Egilssonar frá Hamrakoti má segja að Guðrún hafi líka snúið „heim“ eins og Hildur, eldri systirin, en samkvæmt þeim heimildum sem nú eru til hafa þær systur næstum alla ævi verið nánast á sama blettinum. Fæddar í Hamrakoti, flytja að Tungunesi, síðan aftur í Torfalækjarhrepp þar sem Guðrún er eftir það í Holti og allrasíðast á Hjaltabakka. Mér er mjög til efs að systurnar hafi nokkurn tíma farið út fyrr þessa tvo hreppa, þær áttu ekkert erindi neitt annað, og þarf svo sem ekki að vorkenna þeim það því á fáum stöðum á landinu er jafn mikil náttúrufegurð og hér, nefni bara sólarlagið á sumrin eða heiðskír næturhiminn að vetri til.

Árið 1819 er Guðrún Jakobsdóttir skráð vinnukona í Holti, og er þá 27 ára en árið eftir er hún orðin niðursetningur. Hún getur þó unnið fyrir sér að einhverju leyti því meðlagið með henni er ekki nema 90 fiskar, sem er ca. þriðjungur úr fullu meðlagi, samt fær hún árið 1823 umsögnina: „Fákunnandi og lítt nýt til verka.“ Eftir móður sína fékk hún nokkrar kindur í arf og afurðirnar af þeim duga til framfærslu hennar nokkur ár, en vorið 1823 eru ær Guðrúnar illa fram gengnar og varð endirinn sá að þær voru reknar norður í Skagafjörð og þar látnar ganga upp í meðlag með aldraðri sveitarkerlingu, Ástríðar nokkurrar Eiríksdóttur. Eftir það renna tekur af þessum ám ekki lengur til framfæris Guðrúnar, má segja að þær séu upp étnar. Smám saman skýrist af umsögnum í hreppsbókum og sóknarmannatölum að Guðrún hefur verið „daufskyggn,“ eins og það er orðað, og sýnist manni að sjóndepurðin skýri a.m.k. að hluta til hvað hún var duglítil til vinnu, að áliti hreppshöfðingjanna.

Þannig virðist ævi Guðrúnar hafa liðið tíðindalítið í Holti,[1] sem niðursetningur að hálfu en vinnukona að hálfu, en síðustu árin flytur hún sig (eða er flutt) frá Holti niður að Hjaltabakka þar sem hún sálaðist sumarið 1846, „deyði af tæringu,“ ritar séra Ólafur Guðmundsson í prestsþjónustubókina. Ekki var þó ævi Guðrúnar alveg tíðindalaus því að „holdsins vana byrði,“ eins og Gísli Konráðsson orðaði það einu sinni og batt í rím, komst í bólið hjá Guðrúnu og hún eignaðist dóttur 21. nóvember 1834, sem hlaut í skírninni nafnið Steinunn (d. 17. mars 1919). Faðirinn var Guðmundur nokkur Guðmundsson sem fyrr hefur komið hér við sögu (sjá 23. þátt, Yngstu börnin frá Akri). Guðmundur er vinnumaður í Holti árið 1831 (31 árs að aldri) og hafa þá væntanlega tekist kynni með honum og Guðrúnu, en hann fer þaðan 1832 að Geirastöðum. Ef farin er beinasta leið er ekki langt á milli þessara bæja, fyrst á vaði yfir Húnavatn og svo upp hjá Húnsstöðum en þá er komið að Holti.

Það er ekki ókeypis að eiga börn og framfæri Steinunnar litlu lenti að mestu leyti á ábyrgð hreppsins. Hreppstjórinn, Hannes Þorvaldsson, skrifaði tvö athyglisverð bréf um málefni Steinunnar árið 1835.

          Þann 1. febrúar skrifar hann Blöndal sýslumanni á þessa leið.

Sauðanesi þann 1. febrúar 1835
Veleðla hr. sýslumaður.

        Með innilegasta þakklæti fyrir allt gott undanfarið tilsendi ég nú yður þá 100 rbd. silfurs Torfalækjar fátækra kassa viðkomandi, til að komast í rentu í kóngsins kassa, með Oddi Sigurðssyni vinnumanni mínum.

        Nú læt ég yður hér með vita, að ekkert hef ég enn nú út lagt til Þorsteins [Steindórssonar] í Holti með barni Guðmundar á Geirastöðum. Hann vill fá 7 fiska um viku með nefndu barni og vil ég nú ekki láta fyrst um sinn utan að móðurinnar parti, svo sem frá því barnið fæddist til næstu vordaga, því að sagt er að nefndur Guðmundur á Geirastöðum láti borginmannlega yfir að barn sitt muni ekki fara á sveitina að sínum parti.

        Nú bið ég yður hér með auðmjúkast að láta mig vita til baka hvað mr. Þorsteinn í Holti eigi að fá með þessu barni um vikuna að móðurinnar parti. Ekki vil ég heldur vera á móti því, ef yður svo líst, að Þorsteinn fái sitt uppástand, nefnilega 7 fiska um viku að móðurinnar parti, þar hún hefur verið einstakur maður hér í hrepp, að hjálpa upp á þegar einhvör sveitarvandræði hafa komið fyrir, og það hefði verið tilfellið með þetta barn, að það hefði verið ómögulegt að koma því fyrir hér í hrepp, hefði ekki Þorsteinn viljað lofa því að vera.

Yðar veleðlaheita auðmjúkur þénari, 
Hannes Þorvaldsson

Hér er þess fyrst að gæta, að fátækrakassi hreppsins virðist standa allvel um þessar mundir því 100 rd. voru miklir peningar og hér er verið að leggja þá inn í ríkissjóð (kóngsins kassa) upp á rentu en vextir voru vanalega 4% um þessar mundir.

Meðlagskrafa Þorsteins í Holti verður að teljast nokkuð há. Venjulegt meðlag virðist oft hafa verið um 5 fiskar á vikuna en hér er beðið um 7 fiska, að vísu með hvítvoðungi sem þarf meiri umönnun en stálpuð börn.

Það sem sagt er um móðurina, Guðrúnu, „hún hefur verið einstakur maður hér í hrepp, að hjálpa upp á þegar einhvör sveitarvandræði hafa komið fyrir“ o.s.frv. veit ég ekki hvernig á að skilja, því lengst af ævi er greitt með henni úr sveitarsjóði og hún ekki verið talin fullvinnandi. En eftir orðanna hljóðan virðist hún hafa hlaupið undir bagga þegar „vandræði“ steðjuðu að í sveitinni og má láta sér detta í hug að henni hafi verið vel lagið að hlynna að sjúklingum. Maður stendur á gati gagnvart þessu.

Ekki virðist sýslumaður hafa svarað þessu bréfi, a.m.k. ekki skriflega en gæti hafa gert það munnlega. Undir lok ársins ritar Hannes enn til sýslumanns og virðist þá komin niðurstaða um upphæð meðlagsins með barninu, en þá er eftir að ná þeim hluta sem föðurnum bar að greiða:

Sauðanesi þann 28. desember 1835
Veleðla herra sýslumaður.

        Nú er lagt með Steinunni Guðmundsdóttur að Holti af Torfalækjar fátækra kassa 120 fiskar og hefi ég uppástaðið af Erlendi [Jónssyni] á Geirastöðum eins mikið af kaupi Guðmundar vinnumanns hans sem leggist að Holti með barni nemds Guðmundar. Þar eftir lét Erlendur Guðmund reka hingað 2 ærbrenglur hvörjar bóndi Þorsteinn í Holti meðtók og vildi ei antaka báðar utan á 40 fiska sem ég var ekki fjær felldur þar þær skárust ei utan með níu merkum til samans.

        Ásamt skrifaði Erlendur mér svoleiðis að einskis væri framað að vænta og ekki fyndi hann skyldu sína í að skenkja til Torfalækjarhrepps, en Guðmundur sagðist ekkert hafa meðtekið í kaup skyni fyrir yfirstandandi ár og væru þessar ær fyrir víst önnur vorðin eign sín áður fyrri.

        Þar hjá sagði nemdur Guðmundur, að Pétur [Einarsson] á Helgavatni hefði lofað sér upp á 5 ærvirði ef hann færi til hans næstliðið vor en Erlendur þá ginnt sig til að vera kyrran og lofað sér fyrir víst eins miklu kaupi. Nú veit ég fyrir víst að ekkert fæst hjá Erlendi framar utan ef þér vilduð svo vel gjöra og hlutast til um þetta.

Yðar auðmjúkasti þénari,
Hannes Þorvaldsson

Af þessu bréfi má ráða að vinnufólki hafi á stundum reynst örðugt að fá kaup sitt greitt út þegar til átti að taka, ekki síst þegar menn stóðu höllum fæti á einhvern hátt, eins og Guðmundur Guðmundsson mun hafa gert lengst af ævi sinnar. Af hreppsbókinni sést að árið 1835 greiðir hreppurinn 120 fiska með Steinunni litlu og má því ætla að framlag Guðmundar hafi á endanum fyllt það hálfa meðlag sem honum var ætlað að greiða. Guðmundur fer svo frá Geirastöðum vestur að Hrísakoti í Vesturhópi árið 1836 og er þar með úr þessari sögu, dó 1839, en Steinunn komst alfarið á framfæri Torfalækjarhrepps, greiddir með henni 240 fiskar árlega.

Steinunn Guðmundsdóttir er fyrstu árin í Holti ásamt móður sinni en um 10 ára aldur, árið 1845, var henni komið fyrir á Blálandi í Hallárdal og er ekki ólíklegt að henni hafi verið ætlað að gæta þar barna og sinna snúningum. Seinast er gefið með henni árið 1846 (er þá á Blálandi) 40 fiskar. Síðan ekki eftir það og hefur þá líklega talist fullgild vinnukona þótt hún væri ekki fermd fyrr en 1851, þá orðin 16 ára, „kann vel, skikkanleg.“

Það að barnið var sent að Blálandi á sér e.t.v. þá skýringu, að bóndinn þar, Sigurður Jónsson, var bróðir Sigríðar konu Jóns Sveinssonar í Sauðanesi sem tók við hreppstjórastöðunni í Torfalækjarhreppi um þessar mundir eftir andlát Hannesar Þorvaldssonar.

Meðlagið með Steinunni var ekki hátt þegar hún kom að Blálandi, en ekki sést hvort hún hafi beinlínis verið boðin niður, sem ekki þarf að vera, og a.m.k. er hún þar nokkur ár fram yfir tvítugsaldur sem væntanlega þýðir að henni hafi ekki liðið illa þar. Um þetta er í raun ekkert hægt að segja en hér skal í lokin sett óvanalega löng rolla í islendingabok.is um Steinunni eftir að hún fer frá Blálandi: „Vinnukona á Finnstöðum 1860. Fer frá Finnstöðum að Haga 1861 og frá Þingeyrum að Vatnsenda 1864. Fer frá Vatnsenda að Þingeyrum 1868. Fer 1869 frá Þingeyrum að Ásbjarnarnesi, vinnukona þar 1870. Vinnukona á Stóru-Borg 1880. Lausakona á Stóru-Borg 1890. Húskona á Refsteinsstöðum 1901 og 1910. Fer frá Refsteinsstöðum 1910 að Litlu-Borg.“ Af þessu sést að Steinunni hefur auðnast að vinna sig upp úr vinnukonustöðunni, verður lauskona og húskona sem þýðir að hún er sjálfri sér ráðandi. Síðasta árið þrýtur hana mátt og hún dó sem þurfamaður á Stóru-Borg 17. mars 1919.


[1] Guðrún er skráð í Holti frá 1819-1823 en ekki nefnd í sóknarmannatali fyrr en 1829 og samfellt fram yfir 1845. Hún er þó hvorki skráð burtvikin né innkomin í prestsþjónustubók og öll árin er henni ætlað meðlag í hreppsbók Torfalækjarhrepps þannig að væntanlega hefur hún líka verið í Holti á árunum 1823-1828.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið