Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Föstudagur, 29. mars 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Mars 2024
SMÞMFL
252627282912
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 09:35 0 0°C
Laxárdalsh. 09:35 0 0°C
Vatnsskarð 09:35 0 0°C
Þverárfjall 09:35 0 0°C
Kjalarnes 09:35 0 0°C
Hafnarfjall 09:35 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
27. mars 2024
71. þáttur. Eftir Jón Torfason
24. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
22. mars 2024
Eftir Bjarna Jónsson
17. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
15. mars 2024
Eftir Bjarna Jónsson
11. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Úr Sáttabók Tinda umdæmis. Undirskriftir Páls Illugasonar og fleiri manna.
Úr Sáttabók Tinda umdæmis. Undirskriftir Páls Illugasonar og fleiri manna.
Pistlar | 17. desember 2022 - kl. 09:20
Þættir úr sögu sveitar: Páll Illugason og Guðrún Jónsdóttir
39. þáttur: Eftir Jón Torfason

Hamrakot var í eigu Holtastaðakirkju um aldamótin 1800 og hafði verið lengi, var metin 10 hundruð og hefur vísast borið „kot“ nafnið með rentu. Jörðinni er lýst svo í jarðamati 1849:

Túnið er allt þýft, í meðallagi grasgefið en fremur töðulétt, fóðrar 1 ½ kú. Slægjur reytingslegar og sumar heyslæmar en þær sem með ánni liggja eru heybetri, en þær liggja undir skemmdum af grjótáburði úr ánni. Fremur eru þær nærtækar og ekki erfiðar afflutnings. Sumarhagar eru sæmilega kjarngóðir en mýbit er til skemmda á sumrum. Vetrarbeit er góð og hæg og verst lengi jörð. Landið er sæmilega víðlent.[1]

Þegar talað er um að jörð verjist lengi mun átt við að seint taki fyrir útbeit fjár og hrossa. Það er hins vegar varla hægt að telja Hamrakotsjörðina víðlenda en landið er notadrjúgt og má heita að allt sé það gróið.

Næsta áratug eftir lát Jakobs Egilssonar 1801 lagðist sjálfstæður búskapur í Hamrakoti eiginlega af eins og fyrr var nefnt. Árin 1802-1805 hírðust hér Jón Jónsson  og Sigríður Jónsdóttir, sárfátæk með eina kú og 10 ær skv. búnaðarskýrslu 1803. Þeirra er hér fyrr getið, í þætti nr. 7 (Jón og Guðrún á Kagaðarhóli). Þau fluttu frá Hamrakoti upp að Hvammi í Laxárdal, voru þar 5 ár, síðan þrjá ár í Syðra-Tungukoti en frá 1813-1817 bjuggu þau á Þröm. Upp úr því fóru þau í húsmennsku í Gafli og enduðu loks í vinnuhjúastétt.

Sigríður Hákonardóttir, ekkja Gísla Einarssonar á Orrastöðum, var hér eitt ár með börnin sín fimm, en frá 1806-1815 hafði Hannes Hannesson bóndi á Orrastöðum jörðina á leigu og nytjaði hana, hefur vísast slegið túnið, notað útihús og bæjarhús til að hýsa féð og vafalaust beitt stýft.

En árið 1815, þegar Hannes á Orrastöðum flytur fram í Svínadal, hefst á ný búskapur í Hamrakoti, þótt það hafi ekki breyst, að heimilismenn hafi verið með þeim fátækustu í Torfalækjarhreppi á þessum fyrstu áratugum aldarinnar. Nýi bóndinn var Páll Illugason (1777-27. nóvember 1836) frá Tindum í Svínavatnshreppi og hafði verið þar í sambýli við föður sinn Illuga Illugason (d. 1819) um árabil. Kona hans var Guðrún Jónsdóttir (15. ágúst 1786, d. eftir 1845) dóttir Guðrúnar Þorsteinsdóttur og Jóns Þórðarsonar sem lengi bjuggu á Leysingjastöðum í Þingi.

Ekki varð skilnaður Páls við átthagana árekstralaus. Páll og Guðrún virðast hafa leitað til hreppstjórans í Svínavatnshreppi um smávegis aðstoð árið 1815 og dróst fyrir Páli um hríð að endurgreiða þetta lán. Lauk svo að Þorleifur hreppstjóri í Stóradal kærði Pál fyrir sáttanefnd og hélt Ólafur Björnsson sáttanefndarmaður fund á heimili sínu á Beinakeldu haustið 1821 þar sem niðurstaða fékkst í hvernig greiðslu skuldarinnar yrði hagað. Hinn sáttanefndarmaðurinn var séra Jón Jónsson á Auðkúlu. Af því sem segir í fundargerðinni í sáttanefndarbókinni má e.t.v. draga þá ályktun að Páll Illugason hafi kunnað að beita háði, og þá stundum meira en góðu hófi gegndi:

Anno 1821, þann 4. október, mættu á Beinakeldu fyrir settri forlíkunarnefnd í Tinda sáttaumdæmi, eftir fyrirkalli dagsettu þann 28. september, sgr. Þorleifur Þorkelsson hreppstjóri á Stóradal sem ákærandi og bóndi mr. Páll Illugason á Hamrakoti sem ákærður. Ber það á milli að hreppstjórinn hefur skriflega begjert af Páli endurgjald fyrir honum vorið 1815 lánaða 194 fiska af Svínavatnshrepps kassa og leigur eftir 3 ær Páli léðar af Svínavatnshrepps kassa eignum vorið 1816. Þetta allt í haust eður á næstkomandi vori. En Páll hefur í bréfi af 9. september afsagt þetta að betala nema til lagaréttar komi og þó þá með því móti, að hey kvitti hey, barneldi barneldi og æreldi æreldi undir líkum kringumstæðum. Í öðru lagi ákærir velnefndur hreppstjóri stílinn í áminnstu bréfi svo sem þann er sér finnist miða til háðs, rengingar og yfir höfuð í flesta staði krenkjandi sitt respekt til orða og verka.

        Eftir að hér um hafði ýmislega á báðar síður talað verið varð sú endalykt og sætt þeirra tvistandi parta á milli, að hreppstjórinn vill gjöra sig hreppsins vegna ánægðan með að Páll betali hverja 35 fiska með spesíu eða hennar gildi í silfurpeningum, er ei séu smærri en rixort, en í höfuðsummunni ringast fiskatalið um 1 smjörfjórðung or 20 fiska og 1 fjórðung rúg or 7 fiska, hverjir 27 fiskar dregnir frá 194 láta eftir 167 fiska. Þar með vill hreppstjórinn sleppa tilkalli til hálfra leigna eftir þær léðu 3 ær. Eru þá eftir hálfar leigurnar, 60 fiskar, sem lagðir saman við 167 gjöra 227 fiska, hvörjir kvittast eiga með 6 ½ spesíu. Lofar nú mr. Páll Illugason að betala þessar 6 ½ spesíur, 1 fjórðung smjörs og 1 fjórðung rúg fyrir næstkomandi veturnætur, en þær 3 léðu ær í næstkomandi fardögum.

        Hinni síðari ákæru um bréfs orðatiltækið sleppir hreppstjórinn, sgr. Þorleifur, öldungis og skilja svo þeir tvistandi partar sáttir og sammála, betala sessionina sameiginlega eftir forordningu af 20. janúar 1797 og undirskrifa ásamt forlíkunarmönnunum sín nöfn til staðfestu, sama stað, ár og degi sem upphaflega greinir.

        Jón Jónsson, Ólafur Björnsson, Þorleifur Þorkelsson, Páll Illugason[2]

Páll var í röð fátækustu bænda í Torfalækjarhreppi, tíundar 3 hundruð árin 1816-1819, sem er alveg við öreigamarkið, en hækkar í 6 hundruð 1820. Til dæmis er Páll sagður „við búhokur“ í sóknarmannatali árið 1818 og er líklega nokkuð lýsandi en þrátt fyrir baslið þurftu þau hjón ekki aftur að leita á náðir sveitarinnar. Þau Páll og Guðrún fóru að Auðunarstöðum í Víðidal 1823 og bjuggu þar tvö eða þrjú ár en upp úr því fara börnin að komast vistir eða vinnumennsku. Leiðir hjónanna hafa líka skilið og skv. manntali 1835 er Páll þá kominn aftur að Tindum í skjól Guðrúnar Illugadóttur systur sinnar og Árna Halldórssonar bónda. Páll dó 27. nóvember 1836 á Orrastöðum og mun hafa verið á ferðalagi, sagður í kirkjubókinni „örvasa maður, búlaus, staddur á Orrastöðum, [dó] af brjóstveiki með landfarsótt.“

Guðrún Jónsdóttir er vinnukona á Lækjamóti í manntali 1835 og tvö börn hennar hjá henni og 1845 er hún skráð til heimilis í Spákonufellskoti hjá Þorsteini syni sínum (1. október 1820-4. júní 1863) en eftir það er erfitt að rekja feril hennar. Kirkjubækur Hofs og Spákonufells eru götóttar og svo er nafnið Guðrún (og Jónsdóttir) eitt hið erfiðasta í fornum mannfræðigögnum, næstum ómögulegt að vita með vissu að maður sé með „rétta“ Guðrúnu.

Börn Páls og Guðrúna áttu misjöfn örlög, sum dóu ung, önnur eyddu ævinni í vinnumennsku en sum þeirra giftust og stofnuðu bú en það skal ekki rakið að þessu sinni.


[1] Jarðamat 1849-1850. Aðgengilegt á vefslóðinni „heimildir.is.“
[2] ÞÍ. Skjalasafn sáttanefnda. XVI, E. Tinda sáttaumdæmi.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið