Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Laugardagur, 13. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 11:14 0 0°C
Laxárdalsh. 11:14 0 0°C
Vatnsskarð 11:14 0 0°C
Þverárfjall 11:14 0 0°C
Kjalarnes 11:14 0 0°C
Hafnarfjall 11:14 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
27. mars 2024
71. þáttur. Eftir Jón Torfason
24. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
22. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Tryggvi Jónasson. Mynd: HAH
Tryggvi Jónasson. Mynd: HAH
Pistlar | 02. janúar 2023 - kl. 12:39
Sögukorn úr Tunguplássi 1953
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
 1. Athafna- og eljumaðurinn Jónas Tryggvason arfleiddi okkur yngri kynslóðir með ótrúlegum hætti, þó hann ætti mismikið í aurasjóði, en heimili hans fyrstu 32 árin var Finnstunguheimilið, þangað sem afi hans og nafni, Jónas Jónsson flutti 1879 með Aðalheiði Rósu konu sinni og heimilismönnum fleiri. Haustið 1948 flutti Jónas með Jóni bróður sínum, Sigríði Ólafsdóttur mágkonu sinni og Inga Heiðmari ársgömlum að Ártúnum. Þau fluttu reyndar nokkru fyrr en Jónas sjálfur.
     Síðast flutti Jónas til Blönduóss síðla hausts 1959 í nýbyggt hús sitt að Húnabraut 26 þar sem hann rak Blindraiðjuna Björk.
   
 2. Jónas skrifaði dagbók árum saman. Fyrstu dagar ársins 1953 – þ.e. fyrir 70 árum nákvæmlega fengu eftirfarandi frásögn, en faðir systkinanna, Tryggvi í Tungu lést skömmu fyrir jól eftir nokkurra vikna vist á sjúkrahúsi syðra:
   
 3. Nýársdagur 1953
     „Veðrið þennan fyrsta dag ársins milt og stillt. Við  bræðurnir fórum allir til kirkjunnar, gengum uppeftir en komum með Bóasi til baka.
  Séra Pétur hefur verið settur til þess að þjóna hér í vetur, messaði í Bólstaðarhlíð í dag, en á Bergsstöðum í gær.
     Fremur fátt fólk kom til kirkju, eitthvað milli 20 og 30 manns.
  Séra Pétur kom hingað með okkur í kvöld og verður hér fram á laugardaginn en hann jarðsetur þar sem nú er vitað að hvorugur þeirra sr. Gunnars eða sr. Björns muni koma. Fram að þessu höfðum við von um að annarhvor þeirra sæu sér fært að koma.

Sr. Gunnar sendir ræðu og frétti ég í dag til bréfsins frá honum á pósthúsinu. Leyfi ráðuneytisins fyrir heimagrafreitnum barst prófasti í gær og hringdi hann til mín í dag og lét mig vita um þetta."
 

 1. Fö. 2. jan. „Nonni var í allan dag í Tungu. Þeir bræður voru að ganga frá gröfinni og öðrum undirbúningi undir morgundaginn. Séra Pétur var hér um kyrrt í dag nema hvað hann skrapp upp að Tungurétt fyrir rökkrið.
     Kyrrt og gott veður var og þýtt í kvöld. Er útlit fyrir suðlæga átt á morgun og vonandi að hægviðri verði og ekki úrfelli.
     Í svona veðri og færi má búast við miklu fjölmenni á morgun því að víða átti pabbi góða samferðamenn."
   
 2. Lau. 3. jan. „Þá er þessi dagur að kveldi kominn. Oft hefur verið einstakt blíðviðri á þessum vetri en þó finnst mér enginn dagur hafa verið þessum jafnfagur. Það var bjart í lofti og sólfar sem á vori og leysing allan sólarhringinn.
     Mér fannst sem þessi hlýi og bjarti miðsvetrardagur innsiglaði á táknrænan hátt líf þess góða drengs, sem borinn var til hinstu hvíldar í þeirri mold sem hann unni mest.
     Að Tungu kom í dag meira fjölmenni en þangað hefur sennilega komið nokkru sinni áður komið á einum degi. Ég veit ekki með vissu hve fólkið var margt, en eitthvað hátt á öðru hundraði mun það hafa verið og um helmingur þess utansveitar.
     Fólkið byrjaði að koma um ellefuleytið og klukkan sjö voru síðustu gestirnir farnir. Má segja að dagurinn entist vel þar sem veitingar voru bæði fyrir og eftir útfararathöfnina. Þótt mikið húsrými sé í Tungu var þar þröngt í dag.
     Útfararathöfnin var látlaus og hlýleg. Hafsteinn á Gunnsteinsstöðum las ræðu sr. Gunnars, ágæta mannlýsingu og sanna sem vænta mátti og sr. Pétri sagðist vel í sinni ræðu. Sigurður á Skeggsstöðum flutti kvæði og Pétur á Höllustöðum las kvæði eftir Guðmund Jósafatsson sem ekki treystist til að flytja það sjálfur, hvorttveggja hlýjar vinarkveðjur. Karlakórinn söng og held ég að söngurinn hafi verið allgóður.
     Við bræðurnir, Kiddi og feðgarnir, Sigurjón og Jón Baldurs bárum kistuna að heiman og út á hólinn, en þaðan út í grafreitinn báru hana gamlir samstarfsmenn og vinir, þeir Hafsteinn á Gunnsteinsstöðum, Bjarni í Hólum, Stefán á Gili, Pétur á Höllustöðum, Guðmundur í Austurhlíð og Guðmundur á Fossum.
     Áður en grafreiturinn var vígður sungum við Mikli Guð en eftir að rekunum var kastað síðasta erindið af Allt eins og blómstrið eina.
     Stundinni, sem dvalið var við gröfina, gleymi ég aldrei. Enn var ei rokkið nema til hálfs. Stafalogn og sem vorylur í lofti.
     Kyrrð og friður augnabliksins gagntók mig og ég fann innra með mér traust og öryggi, ólíkt öllu því sem ég áður þekkti.
     Svo er enn blaði flett í lífsins bók."
   
 3. Má. 5. jan. „Þenna dag í fyrra var hér ofsaveður, eitthvert mesta, sem hér hefur komið. Í dag var veðrið hægara, norðaustanéljagangur fram eftir en hefur lygnt og létt til í kvöld með meira frosti en áður.
     Áslaug litla í Tungu er tveggja ára í dag."
   
 4. Þri. 6. jan. „Þá er nú jólahátíðin enn einu sinni að telja út. Oftast nær hef ég fundið til einhvers saknaðar þenna dag, yfir stundum sem eru liðnar og koma ekki aftur en í skipti finn ég til einskis slíks. Þau voru eitthvað svo ólík öllum öðrum þessi síðustu jól.
     Ég er að hugsa um að bregða mér til Varmahlíðar í kvöld, á samkomu karlakórsins."
   
 5. Miðvd. 7. jan. „Ég kom ekki heim fyrr en á sjötta tímanum í morgun úr norðurferðinni. Margt var um manninn í Varmahlíð eins og oft er þar. Var talið að í gærkveldi hefðu verið þarna full fjögur hundruð manns.
     Það var gaman að hlusta á Heimi núna enda þótt þeir væru ekki öfundsverðir af því að syngja í þessum þrengslum og loftleysi.
     Ég held að kórinn sé nú hvað bestur sem ég hef heyrt til hans, einkum eru efri raddirnar góðar. Þeir hafa haft þjálfara um þriggja vikna skeið í vetur og hafa án efa haft af því stórmikið gagn.
     Um þrjátíu manns fóru norður hér úr dölunum og voru á fjórum bílum.
     Ég hef lagt mig í dag, en annars er ég nú farinn að grúska í ýmiskonar uppgerð um áramótin, er búinn að ganga frá bóksölunni fyrir kaupfélagið og byrjaður á sjúkrasamlagsreikningunum, en þar er nú allt í grænum sjó. Verður afkoma samlagsins á síðasta ári sú langsamlega versta sem enn hefur orðið."
   
 6. „Ég skrapp til Blönduóss með Bóasi í dag og var eini farþeginn að þessu sinni."
   
 7. 9. jan. „Giftingardagurinn þeirra mömmu og pabba. Þau giftu sig fyrir 38 árum."
   
 8. 11. jan. Sunnudagur. „Enn blotaði í nótt og var hér sunnanhvassviðri um tíma. Í kvöld er aftur að frysta og svellar nú mikið upp á nýtt.
     Ég skrapp upp að Tungu fyrir rökkrið og fannst hált að ganga, hefði sjálfsagt ekki farið, ef ég hefði búist við svo mikilli hálku."
   
 9. 12. jan. „Í kvöld var boðað til fundar í karlakórnum til þess að ræða framtíðarstarfið ef tiltækilegt þykir að halda því áfram. ...
     Vonandi sjá þeir nú einhver ráð til að halda þessu gangandi í vetur. Félagsskapurinn má ekki líða undir lok. Það væri – held ég – óbætanlegt áfall fyrir félagslíf þessarar sveitar. Ég efast um, að nokkur félagsskapur hafi unnið sveitinni meira gagn þegar á allt er litið."
   
 10. 14. jan. „Við Nonni fórum út í Gunnsteinsstaði í dag, en þar voru þrír fundir haldnir: Hreppsnefndarfundur og fundir í stjórn sjúkrasamlagsins og læknisvitjanasjóðsins. ...
     Hreppsnefnd ákvað að kosning eins manns í nefndina í stað séra Gunnars skyldi fara fram síðari hluta vetrar og fyrir lok aprílmánaðar. Í skattanefndinni tekur Bjarni í Hólum sæti séra Gunnars, en hann var varamaður hans þar. Ólíklegt þykir mér, að hann telji sig geta sinnt skattanefndarstarfinu meðan hann enn hefur kennsluna á hendi, en hann er raunar farinn að hafa við orð að hætta henni hvort sem úr því verður.
     Í húsbyggingarráð var Nonni bróðir kosinn í stað sr. Gunnars. Hann var einnig kosinn varaoddviti."
   
 11. Sunnudagur 18. jan. Kyrrt og milt veður, en orðið mjög hált að komast yfir.
     Þau komu hér og stönsuðu stundarkorn í kvöld, Hólahjónin og létu illa af gangfærinu en það er nú eflaust hálla leiðina sem þau komu – en þau komu frá Tungu – heldur en eftir veginum hér fram að neðan.
     Bóas hefur orðið að fella niður öðru hvoru mjólkurferðirnar framan við Hóla, þar sem vegurinn er allur í glæru og svo mjór að ekkert má út af bera. Af og til hefur þó hálkuna tekið af með storku og er svo nú í bili að hann klöngrast fram eftir.
   
 12. „Stella kom með Bóasi í kvöld og verður hér næstu vikurnar. Hún á að taka fullnaðarpróf í vor."
   
 13. „Litla austurherbergið, beint inn af ganginum hefur að þessu verið ófrágengið og notað fyrir geymslu. En nú er búið að rýma úr því og Nonni er byrjaður að ganga frá því. Er ætlunin að mamma fái þetta herbergi því ég býst við að hún kjósi helst að hafa hér fastan samastað þótt sennilega verði hún eins og áður eitthvað til skiptist hjá systkinunum. ... Norðvesturstofan uppi væri rúmbetri en þá kemur stiginn til og þótt hann sé ekki erfiður fullfæru fólki mundi hann verða til mikils erfiðisauka fyrir mömmu, eins og hún er oft slæm af gigt."
   
 14. Ég kalla Jónas frænda minn athafnamann, hugur hans var sístarfandi, þurfti enda að leita annarra leiða til að sjá sér farborða en bændur og bóndaefni í kringum hann. Sjóndepran hindraði hann við þau áform þó hann hirti sínar kindur framan af ævi og hirti í fjósi á fyrstu árum sínum í Ártúnum.
     Jónas náði góðum tökum á iðn sinni, færði hana út, burstagerð í fyrstu, þá dívana, nýsmíði og uppgerð þeirra svo komu sófar og djúpir stólar. En hann átti hauka í horni þar sem voru húsmæður í nágrenninu, þær lögðu honum lið og unnu við bólstrunina, s.s. Ástdís frænka okkar frá Dalsmynni, Ninna Steingrímsd. grannkona Jónasar við Mýrabrautina o. fl. 
   
 15. Jólin 1952 hafa verið þungbær fjölskyldunum í Ártúnum og Tungu vegna andláts Tryggva afa þó við, lítil börn á bæjunum, fögnuðum jólum líkt og börnum er lagið, ég er 5 ára og elstur okkar Ártúna- og Tungubarna.
     Prestfjölskyldan á Æsustöðum er nýflutt suður og sr. Pétur Ingjaldsson á Höskuldsstöðum tekur við kallinu þar til sr. Birgir birtist síðla febrúarmánaðar en það sá enginn fyrir í ársbyrjun 1953. En sr. Gunnar sendir ræðu, sem oddvitinn á Gunnsteinsstöðum, vinur prests og Tryggva afa, les og sr. Pétur flytur aðra og sagðist vel segir JT í dagbókinni.
     Stella Skaftadóttir kemur frameftir í mjólkurbílnum með Bóasi, hún var systurdóttir mömmu, 15 árum yngri en hún og nokkur tengiliður milli kynslóða. Stella ólst upp hjá foreldrum mömmu, ömmu okkar og afa, Jósefínu og Ólafi í Holti. Foreldrar Stellu og systkini bjuggu í Hnjúkahlíð, þau Helga María Ólafsdóttir og Skafti Kristófersson.
     Bóas Magnússon kemur víðar við sögu í dagbókum JT og fleiri gögnum. Hann var lausamaður í Bólstaðarhlíð, átti mjólkurbílinn, ók framan úr sveit að morgni þrisvar í viku, tók brúsana af pallinum, flestir voru þeir þrjátíu lítra, skilaði þeim í mjólkurstöðina og kom heim að kveldi með tómu brúsana sem hann skilaði svo á pallinn í næstu ferð. Oft voru mjólkurferðir notaðar sem kaupstaðarferðir, hentaði vel þegar bílinn fór heim að kveldi.
   
 16. Þau Tunguhjónin, Guðrún amma og Tryggvi afi hvíla í grafreit heima í Tungu, í trjálundi gerðum af áhuga og með höndum Tryggva afa. Ósk hans var að fá að hvíla þar.
     Og dagbók Jónasar er yndislegur arfur frá þessum elsta syni Tunguhjóna. Jónas dró fram dag eftir dag – og ár eftir ár – ritvélina gömlu og lúnu og skrifaði á hana nokkrar línur um viðburði dagsins, kannski hans eigin þanka, einstaklega aðgætinn að setja ekki blett á nokkurs nafn, en segja frá því markverða.
     Hér hafa verið rifjaðir upp nokkrir dagar frá upphafi ársins 1953, erfiðir dagir í fjölskyldunni, en þau stóðu ekki ein systkinin, þau stóðu saman og áttu eftir að eldast saman við árnið Blöndu: Jónas dó fyrstur 1983, þá Jón og Anna Margrét 2007 en Guðmundur 2009. Þeir bjuggu alla tíð í Blöndudalnum, bræðurnir og bændurnir, Jón og Guðmundur, Anna Margrét giftist og bjó síðan alla tíð á Blönduósi en Jónas, elsti bróðirinn og dagbókarhöfundur, flutti þangað 1959.
   
 17. Ljóðabók Jónasar, Harpan mín í hylnum, kom einnig út 1959, tveimur árum eftir vígslu Húnavers, en þar hittust þeir Guðmundur Frímann skáld og Langdælingur sem kom frá Akureyri og átti síðan góðan þátt í útkomu þessarar einu ljóðabókar Jónasar.
     Stundum verður allt senn.
   
 18. Og búferlaflutningar Jónasar 1959 urðu til þess að leiðir þeirra Þorbjargar kennara Bergþórsdóttur frá Fljótstungu lágu saman og hún flutti til hans á Húnabrautina. Þau giftu sig 5 misserum eftir að Jónas flutti út að ósnum.
     Og þá hófst líka trjárækt í garðinum þeirra.   
   
 19. Viðauki frá árinu áður: Sunnud. 16. nóv. 1952. Prestshjónin komu hér við í kvöld eftir messuna á Svínavatni og var litla frænka skírð. Hún hlaut nafnið Klara Sólveig.
     Þessi síðasta messa séra Gunnars hér nyrðra er sama sunnudaginn og hans fyrsta messa í prestakallinu fyrir 27 árum, en hún var á Holtastöðum.
     Síðustu dagarnir hafa verið talsvert erilsamir fyrir prestinn, skírnir og giftingar, síðast í gærkveldi gifti hann þau Maríu og Sigurjón á Brandsstöðum en nú bjóst hann við að þessu væri lokið og yrði skírnin hér síðasta prestverkið sitt fyrir norðan. Ákveðið mun nú að flutt verði suður á fimmtudaginn kemur.
   
 20. Ljóð að lokum – úr bókinni Jónasar. Hann mátti kalla skáld vorsins:


Vor í blænum

1.
Ég opnaði alla glugga
sem unnt var á gamla bænum
því vorylur vakti í blænum
og vorið á enga skugga.

2.
Þó voru nú enn að verki
þær vetrarins hljóðu nætur
sem höfðu í hjartarætur
sín helköldu skorið merki.

3.
Sem væri þar ennþá vetur
var von minni þungt um sporið.
Ég veit það er aðeins vorið
sem vermt hana að nýju getur.

4.
Nú inn bar um opinn glugga
þess yl um mín húsakynni.
Og bjart varð þar aftur inni
er áður ég sat í skugga. JT

 

Ingi Heiðmar Jónsson

 

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið