Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Laugardagur, 13. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 11:19 0 0°C
Laxárdalsh. 11:19 0 0°C
Vatnsskarð 11:19 0 0°C
Þverárfjall 11:19 0 0°C
Kjalarnes 11:19 0 0°C
Hafnarfjall 11:19 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
27. mars 2024
71. þáttur. Eftir Jón Torfason
24. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
22. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Páll Kolka héraðslæknir á Blönduósi. Mynd: HAH
Páll Kolka héraðslæknir á Blönduósi. Mynd: HAH
Pistlar | 04. janúar 2023 - kl. 20:14
Sögukorn frá Páli Kolka lækni
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
 1. Fljótt sækist leið yfir fitjar og gil
  fjörðurinn hverfur að ásanna baki.
  Tindarnir speglast í tjarnanna hyl
  tíbráin hvikar í vordagsins yl
  Berast um heiðina ómar af álftanna kvaki. Páll Kolka f. 1895/Á Holtavörðuheiði fyrsta vers

   
 2. Engan mánuð ævi minnar vildi ég síður hafa farið á mis við að lifa en þennan tíma, sem spænska veikin var í algleymingi. Hún varð mér, ungum, tilfinninganæmum og óhörðnuðum sú eldraun, sem hefur sjálfsagt verið mér nauðsynleg. Það verður enginn óbarinn biskup. Þessi mánuður í fiskiþorpunum á Suðurnesjum var lærdómsríkari og meira þroskandi en nokkur, sem ég hef setið á háskólabekk. Maður kynntist mannlífinu með öllum þess hetjuskap og vesaldómi. Mér þótti vænt um þetta fólk eftir að hafa tekið þátt í hörmungum þess og erfiðleikum og lengi var það óskadraumur minn að verða læknir í Keflavík, þótt forlögin höguðu því á annan hátt. Ég hef aldrei verið í vafa um að starf mitt þar varð að talsverðu gagni, þótt ég væri fákunnandi og reynslulítill unglingur, enda er ekki hægt að vera læknir án þess að hafa trú á sjálfan sig, áhöld sín, pillur og mixtúrur. Maður þarf að gera tekið undir með Ambroise Paré, hinum mikla brautryðjanda skurðlæknisfræðinnar og sagt eins og hann:„Je le pensai, Dieu le guarist“ – ég stundaði manninn, en Guð græddi hann. Páll Kolka f. 1895/Úr myndabók læknis bls. 49
   
 3. Til eru þeir sjúklingar og aðstandendur, sem aldrei er hægt að gera til geðs og aldrei koma til móts við lækni sinn, en fátt er jafn lamandi og sljóvgandi í læknisstarfi sem að fast við slíkar vandræðamanneskjur. Páll Kolka f. 1895/Úr myndabók læknis bls. 48
   
 4. Ég átti heima á Smiðjustíg 11 þegar spænska veikin hófst ásamt konu minni og drengnum okkar, sem orðinn var alveg nýlega ársgamall, en auk þess áttu þar heima tengdaforeldrar mínir ásamt yngstu dóttur sinni og mágur minn, Gísli Guðmundsson gerlafræðingur, ásamt konu sinni og tveimur ungum börnum. Tengdafaðir minn var sá eini í þessu húsi, auk gamallar og farlama vinnukonu, sem ekki lagðist og gat hann því verið hjálplegur við að ná í meðul og eitthvað matarkyns. Auk þess kom síra Friðrik Friðriksson til okkar daglega, en hann var á ferðinni frá morgni til kvölds, hjálpandi og hughreystandi, matarlítill og oft blautur í fætur. Á hann beit ekkert, enda hef ég engan þekkt, sem hefur tekist jafnvel og honum að beygja líkama sinn og þarfir hans til hlýðni með andlegri orku einni saman. Páll Kolka f. 1895/Úr myndabók læknis bls. 39
   
 5. Á Smiðjustíg 11 veiktist enginn alvarlega né lá til lengdar nema kona mín, sem fékk brjósthimnubólgu. Sjálfur lá ég aðeins í tvo daga, en var mjög máttfarinn,er ég koma á fætur. Spánska veikin 1918. Páll Kolka f. 1895/Úr myndabók læknis bls. 40
   
 6. Reykjavíkurjepparnir fóru um Blönduós 1951:
  Þegar heim kom úr Ameríkuferðinni beið mín bréf frá landlækni með þeim gleðifregnum, að flytja ætti inn um 100 landbúnaðarjeppa og yrði læknum úthlutað nokkrum þeirra, en innrétta mætti þá svo að hægt væri að nota þá sem sjúkrabifreiðar. Ég á fimm ára gamlan jeppagarm, sem gekk sér mjög til húðar í ófærð og illviðrum síðasta vetrar, en læknisferðir í héraði mínu síðasta ár voru hátt á þriðja hundrað, þegar með voru taldar fastar áætlunarferðir til Skagastrandar, skólaskoðanir og þær ferðir, sem ég fer út fyrir hérað mitt til aðstoðar við nágrannalækna.
  Ég sótti því um einn hinna nýju jeppa, enda er hérað mitt eitt af fjölmennustu sveitahéruðum landsins, með nálægt 200 sveitaheimili fyrir utan kauptúnin. Ég fann ekki náð fyrir augum úthlutunarnefndarinnar, sem var skipuð fulltrúum frá Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda og sé því ekki fram á annað en ég verði enn næsta vetur að flytja sjúklinga úr sveitum héraðs míns á opnum bílpalli, þó að þeir séu með sprungin iður og lífhimnubólgu.
  Aftur á móti komst ég að því, að ýmsum, sem aðallega vinna innivinnu í Reykjavík, hafði verið úthlutað af þessum svonefndu landbúnaðarjeppum, þ.á.m. nokkrum verslunarfyrirtækjum og einkennilega margir þeirra hafa farið hér um á Blönduósi í sumar og haft á sér einkennismerki lögsagnarumdæmis Reykjavíkur. Er þetta eitt dæmi af mörgum um það hve sjúkramál sveitanna mæta miklum skilningi hjá þeim nefndum og ráðum, sem sækja verður allt undir.
  Páll Kolka f. 1895/Úr myndabók læknis bls. 110

   
 7. Langsamlega örlagaþrungnastar eru forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og er kosningabaráttan þar nú svo harðvítug, að minnir á verstu prestkosningar á Íslandi.  Páll Kolka f. 1895/Úr myndabók læknis bls. 145
   
 8. Það var gömul regla, að bændur þeir, sem sendu vinnumenn til vers, t.d. vestur undir Jökul, áttu að fá þeim í nestið fyrir vetrar og vorvertíð 12 fjórðunga af smjöri eða 60 kg og verður það um 1/3 úr kílói á dag …
  Smjörátið var auðvitað minna hjá fátæklingum, sem fóru til vers, einkum þegar kom fram yfir miðja 18. öld. og lifðu sumir þeirra nær eingöngu á nýjum fiski og vatni, enda varð allmikill mannfellir undir Jökli á hallærisárunum.
  Til dæmis um smjörátið skal ég geta þess, að Jón Sveinsson, hreppsstjóri í Sauðanesi hér á Ásum, merkur bóndi á sinni tíð og forfaðir ýmissa núlifandi Húnvetninga, gerði eitt sinn út mann á grasafjall til viku og fékk sá 9 merkur af smjöri í nestið, en varð uppiskroppa og varð að fá til láns hjá nágrönnunum. Síðar gerði Jón annan mann út með 14 merkur af smjöri og stóðst það á endum, að smjörið var búið, er hann kom heim, en ekki hafði hann þurft að fá til láns.
  Páll Kolka f. 1895/Úr myndabók læknis – Íslensk matarmenning – bls. 172

   
 9. Stórskáldin eru skyggn á framtíðina og þá eru þau ekki hlutlausir áhorfendur, því að þau skapa ekki aðeins ljóð, heldur skapa þau einnig sjálfa framtíðina með því að móta hugsunarhátt fólksins og þar með athafnir komandi kynslóða, vekja sofandi þjóð af svefni vanans, dáðlausa öld af dofa kjarkleysis. Það er hið mikla lán Íslendinga, að aldir fátæktar og eymdar gerðu oss ekki heyrnarlausa, heldur hljóðnæma. Brageyrað var sú Guðs gjöf, sem gerði þjóðinni mögulegt að tileinka sér huggun úr Hallgrímssálmum, herhvöt Bjarna Thorarensens og ást Jónasar Hallgrímssonar á náttúru landsins, dauðri og lifandi.
  Páll Kolka f. 1895/Úr myndabók læknis – Skógur og menning – bls. 189

   
 10. Ég var svo heppinn, þegar ég kom í skóla, að ná í Reykjavík eins og hún var áður en nútíminn og tækni hans fóru að umturna henni. Þetta var 1908 og þá voru hér engin ljós á götum nema steinolíuljós, engin vatnsveita, heldur vatnskerlingar, engin holræsi, heldur opnar göturennur í miðbænum, sem leiddu skólpið frá húsunum, þegar þær voru ekki stíflaðar, niður í Lækinn fyrir neðan Menntaskólann, en hann var þá opinn alla leið úr Tjörninni til sjávar.
  Steindór Einarsson hefur heiðurinn af því að hafa komið mér hér á land. Hann átti þá engan bíl, sem varla var von, því þá voru hér engir bílar, en hann átti bátkænu, sem hann notaði til að flytja fólk frá og að skipshlið og á því farartæki hélt ég innreið mína í höfuðstaðinn. Ég var þá 13 ára strákur, rauðhærður, freknóttur og sennilega eitthvað álappalegur, a.m.k. sáu götustrákarnir hér í Reykjavík það fljótt, að þarna væri sveitastrákur, sem ekki veitti af að kenna mannasiði. Þetta var áður en sú viska var fundin upp að ekki mætti nota hnefa eða jafnvel barefli sem kennslutæki. Við þetta bættist, að ég datt beint inn í einhverja þá hatrömmustu kosningabaráttu, sem hér hefur verið háð, því að það átti að fara að kjósa um sambandslagafrumvarpið og frændi minn, Guðmundur Björnsson landlæknir, sem ég var til heimilis hjá, var í kjöri fyrir frumvarpsmenn. Hann féll með miklum glans, þrátt fyrir vinsældir sínar og glæsileik sem mælskumaður. Páll Kolka f. 1895/Úr myndabók læknis bls. 13

   
 11. Páll Kolka fæddist á Pálsmessu 25. jan. 1895, en faðir hans kostaði hann til náms, hann átti frændsemi við Guðmund Björnsson landlækni sem líka var skáld og bjó á því læknisheimili í Reykjavík á menntaskólaárum sínum.
   
 12. Ágætt skáld var Páll Valdimar, snjall rithöfundur og héraðslæknir Húnvetninga í 26 ár. Áður var hann læknir í Vestmanneyjum, mánuð í Keflavík í spænsku veikinni – á námsárunum – en hafði vorið áður leyst af lækninn og Langdælinginn, Magnús Pétursson á Hólmavík en Magnús var einnig þingmaður Strandamanna og þurfti því til alþingis í nokkrar vikur.
   
 13. Eitt ljóða Páls Kolka rataði til Þorkels tónskálds Sigurbjörnssonar, sem samdi sterkt og áhrifamikið lag við sálminn sem eignaðist síðan stað í hjörtum þeirra sem fást við sálmasöng og tónleika:

  Til þín, Drottinn hnatta og heima,
  hljómar bæn um frið.
  Veittu hrjáðum, hrelldum lýðum
  hjálp í nauðum, sekum grið.
  Þegar skjálfa skorðuð fjöllin,
  skeika flest hin dýpstu ráð,
  lát oss veika fá að finna
  fasta bjargið, þína náð.

   
 14. Páll Kolka samdi líka ljóðið Húnabyggð sem verið hefur héraðssöngur Austur-Húnvetninga við lag Guðmanns Hjálmarssonar Blönduósi, en Guðmann var einn af stofnendum Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps árið 1925.

  Húnabyggð! Þinn hróður gjalli
  heill í skaut þér jafnan falli..
  Búi sæld um bændalönd.
  Blanda meðan sjávar leitar
  eygló sendir öldur heitar
  yfir dali, fjörð og strönd.
  Yrki máttug húnvetnsk hönd
  haga fríðrar ættarsveitar.

  Heitið Húnabyggð var svo á síðasta ári valið sem heiti á nýtt og sameinað sveitarfélag Húnvetninga sem nær frá jöklum og háfjöllum út að Víðidal að norðan og öðrum að vestan, Gljúfurá, vatninu Hópi og Laxá á Refasveit.

   
 15. Föðurtún, héraðssögu og lýsingu Húnaþings, skrifaði Páll Kolka auk þess að vera forystumaðurinn, hugmyndasmiður og grjótpáll við byggingu Héraðshælisins á Blönduósi.
   
 16. Föðurtún komu út 1950. Þar segir Páll að komið hefðu tilmæli til hans frá Húnvetningafélaginu í Reykjavík um héraðslýsingu fyrir austursýsluna og yrði annar fenginn til að skrifa um vestursýsluna. En þannig fór að Páll skrifaði lýsingu á allri sýslunni og safnaði til þess myndafjöld, sem varðveittar eru nú á Héraðsskjalasafninu á Blönduósi. Páll segir í formála:
   
 17. Í þau sex ár, sem ég hef unnið að bók þessari, hef eg sífellt verið að fá ýmsar nýjar upplýsingar um menn, atburði og ættir, sem eg hef bætt inn í lesmálið. Bókin ber þess og nokkurn keim, að hér er víða sett bót á bót ofan, en allar hafa þær samt þann tilgang að klæða vanþekkinguna af  mér og lesendum mínum. Þá tók eg síðar en skyldi þá ákvörðun að geta dánarára sem flestra þeirra sem nefndir eru, enda er það mikil bókarbót, en hefur kostað mikla vinnu og tafið útkomuna um heilt ár, því að leita þurfti m. a. í öllum þeim kirkjubókum héraðsins sem eru til á Þjóðskjalasafninu, en einnig varð eg að gera mér ferð heim til allra presta héraðsins til þess að skrifa upp úr kirkjubókum þeirra. Hefur þetta verið mjög tafsamt og ekki beinlínis skemmtilegt, enda þótt slík leit kveiki í manni þann veiðihug, sem flestir grúskarar hafa til brunns að bera. Páll Kolka f. 1895/Föðurtún bls. ix
   
 18. Saga, störf og ævi Páls Kolka er alveg einstök!

Fleiri ljóð Páls Kolka: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/ljod.php?ID=4721

Fyrsti pistill IHJ á Húnahorni, um PK&Pálsmessu, skr. á Blönduósi: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=10635&fbclid=IwAR3Mywk7t-n_oEHKXvsx66mLcUpPpiUa78fT6SBSi0kxfUI3k5FTJ-G4O1A

Grjótpáll – skýringar frá Árnastofnun: https://ordanet.arnastofnun.is/fletta/yfirlit/grj%C3%B3tp%C3%A1ll/no_kk

Pistlaskrá/IHJ fyrir árin 2014 -´15:  https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=19296&fbclid=IwAR0OxreiTyPSFUbj-2EkfLJr-p-9jBMGILqp_97PyVibADfyIVSNOsZ6eKI 

Ingi Heiðmar Jónsson 

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið