Skinnastaðir Torfalækjarhreppi. Mynd: Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu (1966).
Skinnastaðir Torfalækjarhreppi. Mynd: Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu (1966).
Pistlar | 15. janúar 2023 - kl. 11:30
Þættir úr sögu sveitar: Kvinna þægð búin
41. þáttur. Eftir Jón Torfason

Rannveig Helgadóttir kom aftur að Skinnastöðum vorið 1791 eins og fyrr var sagt. Fljótlega náði hún sér í ráðsmann, Björn Ísaksson (1728-1805), ekkjumaður eins og Rannveig.

Björn var ættaður framan úr Vatnsdal og hafði búið m.a. á Hnjúki, Marðarnúpi og í Melagerði sem var hjáleiga frá Marðarnúpi en líka var hann vinnumaður á Haukagili einhver ár. Ekki er kunnugt um fyrri konu hans, en hann átti a.m.k. þrjú börn sem komust upp, Arnþór (1758-8. mars 1830) sem lenti í hrakningunum með Erlendi á Holtastöðum haustið 1796,[1] Björn (f. 1761) og loks Ingunni (1770-1829) sem var lengst af vinnukona en endaði á hálfgerðum flækingi í Torfalækjarhreppi.

Í Húnvetninga sögu er frásögn af viðureign Björns Ísakssonar við séra Einar Eiríksson í Grímstungu, sem hefur verið nefndur hér áður, en sá brestasami guðsmaður átti það til að sögn að banna flækingum að fara yfir Álku og grýtti jafnvel á móti þeim, og segir síðan svo: „Björn Ísaksson tók á sig tötur og ... fór suður yfir ána. Ætlaði Einar hann förumann og grýtti að honum. Réðst Björn þá á hann og áttu þeir fangbrögð. Mátti Björn betur, kom presti undir, sleit niður brækur hans og barði á honum. Er mælt að Einar hvekktist við það.“[2]

Svona hljóðar sögnin eða munnlega sagan en e.t.v. er sannleikurinn eitthvað öðru vísi því í skjalasafni sýslumannsins í Húnavatnssýslu er uppkast að bréfi sem sýslumaðurinn ritar séra Einari og byggist á kæru Björns Ísakssonar yfir því að séra Einar hefði misþyrmt sér. Þetta er uppkast sem nokkuð víða er krotað í og óvíst um lestur, einnig talsvert um bæði dönsku- og latínuslettur, en merkingin er nokkurn veginn ljós:

        Til séra Einars Eiríkssonar á Grímstungu um hans viðurgjörning við Björn Ísaksson á Melagerði, dat. 23. september 1782.[3]

        Með því bóndinn á Melagerði, Björn, hefur í mermorial af dato 19. yfirstandandi mánaðar fyrir mér angefið það hann af yður hafi þann 10. júlí þessa árs mætt soddan misþyrming, að þar af hafi fótla[ma] orðið og við rúmið mátt þess vegna halda 4 ½ viku, næst afliðinn[4] bjargræðistíma; en þá hann hafi látið leita hjálpar og sannsýnilegrar forlíkunar til yðar hafi ekki orðin bætt mikið um fyrir verknaðinum, svo hann þess vegna að vonum vill ei við svo búið láta standa heldur begærir af mér þing og réttarhald í þessari primo letmtu[5] lítið álitlegu sök, hvörs ekki vil né kann honum synja. En áður lengra fer vil ég gefa yður í medelighed anmodet að forlíka yður við hann hið snarasta, sem vil því heldur gjöra mig vissan um í agt takið sem betur yfirvegið hvörsu óanstændig það vill falla út ef fyrir rétti megið heyra upp á yður sem sóknarpresti, kannski af yðar eigin fólki, svarið að limlest hafið einn sóknarmannanna að saklausu.[6] Þar eftir með óbljúgum æru hnekkirs orðum yfirfallið, hvört þeirra station klæða eigið, vildi engan veginn sambjóða heldur stórskammflekk sett upp á þá geistlegu orden, fyrir utan damni resarcitionem, er af rétt þenkjandi mun lítils metast hjá hinu og væri gott þér í tíma vilduð svo líka gjöra og ætíð nokkuð í þessu sem öðru lítandi til yðar eigin honeur.

Ekki finnst í dómabókum sýslunnar að mál hafi orðið úr þessu þannig að líklega hefur séra Einar gefið eftir og greitt Birni einhverjar bætur. Þremur árum síðar, 1785, var séra Einari vikið frá embætti og fékk aldrei aftur brauð en það var ekki út af þessu máli. En nú má velta fyrir sér hvort viðureign Björns og séra Einars hafi verið með öðrum hætti en (þjóð)sagan segir.

Hvað sem þessu líður þá gerist Björn kominn á sjötugs aldur ráðsmaður og síðar eiginmaður Rannveigar á Skinnastöðum. Eins og áður er rakið var búskapur Rannveigar og Björns ekki rismikill. Samkvæmt búnaðarskýrslu árið 1803 eru fjórir heimilismenn á Skinnastöðum, þau hjón og börnin Þórdís (1776-20. júní 1836) og Helgi Björnsson (16. júní 1793-27. febrúar 1849) sonur Rannveigar og Björns. Bústofninn er ein kýr og kelfd kvíga, einn sauður, einn gemlingur, fjórir tamdir hestar en aðeins 13 mylkar ær og má þetta nú ekki minna vera. Raunar verður hér að hafa í huga að upphafsár 19. aldarinnar voru afar hörð og erfið bændum og bændafólki.

Rannveig fær jafnan góðar umsagnir í sóknarmannatali prestsins, hún er „ráðvönd og fróm“ og „sæmilega kunnandi“ þegar kemur að kristnum fræðum og Þórdís litla virðist að vísu nokkuð sein að læra að lesa, kann t.d. ekki nema að stafa í húsvitjun 1789, táknað með „ABC“ í húsvitjunarbókinni, en það sama ár er sagt hún kunni fræðin. En nú er eins og þroski barnsins stöðvist, einmitt þegar hún kemst á táningsaldurinn, og 1794 þegar hún er orðin 18 ára er hún enn ófermd, lítt læs, kann þó að fjórða kafla í kverinu og loks gefur presturinn henni einkunnina „huglítil,“ væntanlega átt við að hún hafi verið feimin og lítil í sér. Vorið eftir hefur séra Sæmundur Oddsson í Steinnesi skrifað Hólabiskupi um stelpuna en biskupinn var Sigurður Stefánsson, hálfbróðir Odds klausturhaldara á Þingeyrum, þannig að segja mátti að honum væri málið talsvert skylt. Svarbréf biskupsins er hægt að lesa í bréfabók Hólabiskups en þar segir: [7]

        Pro memoria d. 18. maí 1795

        Upp á yðar æruverðugheita bréfs innihald af 12. apríl þ.á. áhrærandi sér í lagi unglinginn Þórdísi Magnúsdóttir, sem af móðurinni skal hafa verið forsómuð til bóklesturs nú allt á nítjánda ár, þá svarast að fyrir löngu síðan er kirkju inspections PM[8] til send biskupunum (í hvörs stað kancelliet er nú gengið), að láta enga undir nítjánda ár confirmerast nema ef orsakir séu inberettaðar hvar fyrir þvílíkt verk sé svo lengi undan dregið. Hefi ég nú ekki önnur úrræði í þessum kringumstæðum en befala yður pro officio að taka móður hennar, Rannveigu Helgadóttir, undir opinberlega aflausn fyrir forsómum á barni sínu og þess bóklestri, þar næst framvísa þetta mitt bréf hr. sýslumanni, Í.E.S.[9] sem að því yfirlesnu mun án dvalar skikka Torfalækjar hreppstjórum að ráðstafa þessu stúlkubarni í þann samastað hvar það verður ekki svo óguðlega forsómað heldur á næstkomandi vetri kenndur sæmilegur bóklestur.

Vanræksla Rannveigar stafar ekki af því að ekki sé til nóg af kristilegum bókum á heimilinu. Þar er til Postilla meistara Jóns Vídalín, sálmabók, Þórðarbænir, Hallgrímskver og Sjö hugvekjur á föstunni svo eitthvað sé talið.

Áminningarbréf biskupsins virðist hafa haft áhrif því Þórdís var fermd í Þingeyrakirkju næsta vor, 29. maí 1796, og er þá talinn 20 ára. Hún hafði með tveimur yngri fermingarsystrum sínum „lært Pont[oppidans] forklar[ing, þ.e. kverið] og skilja hana sæmilega,“ skrifar séra Sæmundur í Steinnesi. En hann sleppir ekki hendinni af Þórdísi og um haustið er hún til heimilis í Steinnesi, sögð „tekin,“ og næstu þrjú ár (1797-1799) er hún vinnukona á Þingeyrum hjá Oddi biskupsbróður.

Það lítur út fyrir að þessir fyrirmenn sveitarinnar hafi tekið sig saman, skikkað Þórdísi til sín, væntanlega til að koma henni til nokkurs þroska. Hvað um það þá er Þórdís komin aftur heim til móður sinnar aldamótaárið 1800 og átti eftir það heimili á Skinnastöðum til æviloka. Þar vinnur hún að búinu með móður sinni og yngri bróður, jafnan sögð „fróm og meinhæg“ og fær í rauninni hið besta orð skv. húsvitjunarbókinni.

Eftir að Rannveig móðir Þórdísar lét búið í hendur Helga syni sínum árið 1827 telst Þórdís sjálfstæður „bóndi“ við hlið bróður síns. Sést það m.a. af því að hún tíundar sérstaklega til sveitar og kirkju. Tíund Helga er að jafnaði um 7-9 hundruð en hennar um langt árabil 2 hundruð sem samsvarar því að hún hafi átt fjórðung búsins eða t.d. 12 ær í fullu gildi. Tíu árum síðar flutti Helgi út í Engihlíðarhrepp en Þórdís er áfram á Skinnastöðum með nýju sambýlisfólki og telst húskona, síðast telur hún fram árið 1839 og er þá orðin 63 ára en í manntali 1840 segir að hún lifi á sínu en er orðin skepnulaus. Nú fer hins vegar að halla undan fæti hjá henni því 1845 er sagt hún lifi af ölmusu en ekki þarf að taka það bókstaflega því aldrei þiggur hún þó af sveit.

Í raun er ekki mikið meira vitað um Þórdísi. Hún kemur hvergi við opinber mál og hefur sennilega ekki notið mikillar virðingar. Magnús Björnsson á Syðra-Hóli tilfærir um hana gamanvísu í einni af bókum sínum, raunar frekar ómerkilega, sem kom upp í tilefni af því að sá siður tíðkaðist fyrrum að skrifa á litla miða nöfn gesta sem komu á bæ á jólaföstunni. Um jólin voru nafnamiðarnir síðan lagðir í hatt, húfu eða viðlíka ílát og drógu piltar á bænum nöfn jólameyja en stúlkurnar jólasveina og áttu þetta að vera væntanlegir makar. Vinnumaður á Þingeyrum, gleðimaður mikill og hagmæltur Steinn Guðmundsson að nafni (1811-1840), dró sér eitt sinn nafn piparkerlingarinnar Þórdísar á Skinnastöðum og þótti „ódráttur vera“ eins og Magnús orðar það. Um Þórdísi orti hagmælti vinnumaðurinn þá:

Ég nam finna makann minn,
meður sinnið glaða.
Það er kvinna, þægð búin,
Þórdís Skinnastaða.[10]


[1] Sjá t.d. Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 386-389 og Elínborg Jónsdóttir: „Guð gerir ekki kraftaverk á vorum dögum.“ Húnavaka 1992.
[2] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 341.
[3] Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu C/20. (23. september 1782).
[4] Óljóst.
[5] Ritað ofar línu og mjög óvíst hvernig skal lesa, en í línunni fyrir neðan er strikað yfir orðin: „upp á yðar síðu.“
[6] Ofar línu virðist standa: „að ei hafi getað leitað sér og sínum atvinnu fátækar fátækum,“ en ekki ljóst hvar á að koma inn eða hvort yfirleitt á að standa í bréfinu.
[7] Bps. B V, 12. Bréfabók 1789-1796, bls. 306-307.
[8] Þ.e. „Pro memoria“ eða minnisblað. Í bréfinu er nefnd „kirkju inspection“ en það var sérstök stofnun kirkjumála, mætti kallast kirkjumálaráðuneyti á vorum dögum, sem Kristján VI Danakonungur hafði sett á stofn. Þegar þarna var komið dögum hafði þessi stofnun runnið inn í Kansellíið, dönsku stjórnarskrifstofurnar.
[9] Þ.e. Ísleifur Einarsson sýslumaður.
[10] Magnús Björnsson á Syðra-Hóli: Vísur um jólameyjar. Feðraspor og fjörusprek, bls. 187-188.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga