Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Laugardagur, 20. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 14:23 0 0°C
Laxárdalsh. 14:23 0 0°C
Vatnsskarð 14:23 0 0°C
Þverárfjall 14:23 0 0°C
Kjalarnes 14:23 0 0°C
Hafnarfjall 14:23 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
27. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Jói og Klausturmosinn.
Jói og Klausturmosinn.
Pistlar | 02. febrúar 2023 - kl. 17:30
Stökuspjall úr Klaustursferð árið 2004
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Hagyrðingamótin árlegu sem náðu tölunni 24 og stóðu nær aldarfjórðung, hófust með haustferð okkar Jóa í Stapa norður á Skagaströnd 1989 og ólu af sér ýmsa stikla eins og fjölsótta samkomu með Hauki skólabróður hans heima á Snorrastöðum við Eldborg, ferð út í Flatey og Skáleyjar að heimsækja bræðurna Jóhannes og Eystein og ferð frá Selfossi austur að Klaustri 17. jan. 2004 þar sem safnast var saman í stóra rútu. Bílstjóri var þaulvanur, Óli Jörundsson og ók okkur vinum sínum launalaust auk þess að koma með fyrripart sem margir prjónuðu við:

Hagyrðingar halda af stað
haldnir öngum kvíða. ÓJ
Kirkjubæjar koma í hlað
kvöldsins glaðir bíða. JG

Hagyrðingar halda af stað
haldnir öngum kvíða ÓJ
Krota stöku á bögglað blað
Braga ætíð hlýða. IHJ

Hagyrðingar halda af stað
haldnir öngum kvíða ÓJ
Ferskeytlur þeir færa á blað
sem fara munu víða. GM

Hagyrðingar halda af stað
haldnir öngum kvíða ÓJ
Yrkja skal nú, karlinn kvað:
Á Klaustri er veðurblíða. GM

Hagyrðingar halda af stað
haldnir öngum kvíða ÓJ
Skáldin munu skrá á blað
hvað skeður neðan hlíða. BA

Á sandinum núna sæll ég ek
sést til Kötlu illa
Með háreysti ei hana vek
og hrotum vil ei spilla. GM

Bíllinn reikaði nokkuð í hálku í Eldhrauni:
Við erum hér á hálum ís
held ég verði að segja.
Óli Jör. því vertu vís
við viljum ekki deyja.

Annar botn frá Bjargeyju:
Við erum hér á hálum ís
held ég verði að segja.
Góð er okkur vistin vís
verði mál að deyja. BA

Klaustrið bíður kveðskaps fríða kórsins.
Þar er veður giska gott
garpa seður spað í pott. BA

Myrkur olli erfiðleikum við vísnaskrif:
Yrkingar við ekkert ljós
eru kannski úr neðra.
Vísan fær þó verðugt hrós
verst er hana að feðra. EM

Í vetrarhörku víst með snilli
vegi þræðir manna best.
Hress með stýri handa milli
hefur Óli löngum sést. BA

Katla

Katla hefur kosti og galla
kraumar sífellt grjót að malla.
Hristir oft sinn hvíta skalla
hennar líf mun engum falla. EM

Fítonskraft á freðin snót
til friðar viljum mæla.
Oft er Katla ansi fljót
þá á sér lætur kræla. BA

Klakabrynjan kalda geymir
Kötlu og reynast helstu varnir.
Eflaust hana illa dreymir:
Af því stafa jarðskjálftarnir. JG

Á fimmtíu ára fresti dimm
feiknagos hún Katla gefur.
En nú, í áttatíu ár og fimm
algjörlega fjallið sefur. ÓÓ

Kúrir undir köldum ís
Katla og blæs í glæður.
Einhvern tíma aftur gýs
almættið því ræður. RR

Spurt er að og spáð þar í
hvort spennulíf ég kjósi.
En hvenær skyldi koma að því
að Katla gamla gjósi? RR

Víst er satt að vil það sjá
og vera ofar foldu.
Síðan Katla sáldra má
sandi á mína moldu. RR

Klausturlíf

Munkar gengu beina braut
af blíðu vildu ei tapa.
Ábótinn þá ástar naut
upp við Systrastapa. PE

Daglega með Drottins orð á tungu
þær drúptu höfði yfir bænakveri.
Í helli einum sætlega víst sungu
og seiddu til sín munkana í Álftaveri. GM

Eldklerkar

Við hamfaranna villta veldi
virtir klerkar háðu stríð.
Nú í virkum orðaeldi
eiga þeir í seinni tíð. JG

Eldprestur með andans glóð
við ofraun Guðs var sáttur.
Stöðvaði hraun og stemmdi glóð
sterkur trúarmáttur. ÓÓ

Inni heyrðist einhver gnýr
allt í fumi og flaustri.
Elda kynnti alveg nýr
eldklerkur á Klaustri. RR

Nokkrir fyrripartar:

Það má reyna að yrkja óð
allavega í flaustri HBG
Nóttin oft var næðisgóð
nunnunum á Klaustri.

Eftir blíðan bænasjóð
og birtu af mána í austri GÓS
Nóttin oft var næðisgóð
nunnunum á Klaustri.

Þó vinirnir á vesturslóð
vissu kátt í austri. BA
Nóttin oft var næðisgóð
nunnunum á Klaustri.

Sögn er til um fallið fljóð
og fríðan munk í austri. BB
Nóttin oft var næðisgóð
nunnunum á Klaustri.

Svæfði fossins fagra hljóð
fljóð í gæslu traustri. EM
Nóttin oft var næðisgóð
nunnunum á Klaustri.

Munkar kváðu kátan óð
með keli og mjaðaraustri. StV
Nóttin var ei næðisgóð
nunnunum á Klaustri.

Munkar gengu grýtta slóð
til góðfunda í austri. SR
Nóttin oft var næðisgóð
nunnunum á Klaustri.

Munkar hittu fögur fljóð
á ferðum sínum í austri. EF
Nóttin oft var næðisgóð
nunnunum á Klaustri.

Sýnileg var munkaslóð
að Sönghelli í austri. EF
Nóttin oft var næðisgóð
nunnunum á Klaustri.

Á Glennum hlaupa göfug fljóð
er glampar sól í austri. BJ
Nóttin oft var næðisgóð
nunnunum á Klaustri.

Þokan huldi þeirra slóð
þegar birti í austri BJ
Nóttin oft var næðisgóð
nunnunum á Klaustri.

Abbadísin aldrei stóð
við atvik nein í flaustri.
Nóttin oft var næðisgóð
nunnunum á Klaustri.

Traustum fótum trúin stóð
sem til vor kom úr austri ÓHÓ
Nóttin oft var næðisgóð
nunnunum á Klaustri.

Atlot eru yndisgóð
með ungum sveini á hausti. ÓÓ
Nóttin oft var næðisgóð
nunnunum á Klaustri.

Löngum fjarri ástaróð
og í vörslu traustri. JG
Nóttin oft var næðisgóð
nunnunum á Klaustri.

Rammi um miðju:

Löngum traustur, líka hraustur
laus við flaustur, káf og hik.
Senn í Klaustur ætla eg austur
efalaust þá hleyp í spik. HBG

Löngum traustur, líkamshraustur
laus við flaustur, káf og hik.
Senn í Klaustur ætla eg austur
upphef raust með stikluvik. StV

Lifa kaustu lengi hraustur
laus við flaustur, káf og hik.
Senn í Klaustur ætla eg austur
áfram braust og hélt mitt strik. BA

Ljúfur, hraustur, laginn, traustur
laus við flaustur, káf og hik.
Senn í Klaustur ætla eg austur
aðeins gestur augnablik. EM

Ljúfur drengur, líka traustur
laus við flaustur, káf og hik.
Senn í Klaustur ætla eg austur
eftir nokkur augnablik. BJ

Óttalaust og löngum traustur
laus við flaustur, káf og hik.
Senn í Klaustur ætla eg austur
eta í nausti ket og spik. BB

Í lund er ég traustur og líkaminn hraustur
laus við flaustur, káf og hik.
Senn í Klaustur ætla eg austur
með ögrandi raust og heillandi blik. ÓÓ

Léttur skaust hann, lipur, hraustur
laus við flaustur, káf og hik.
Senn í Klaustur ætla eg austur
ísinn traustur, þráðbeint strik.

Löngum hraustur, ljúfur, traustur
laus við flaustur, káf og hik.
Senn í Klaustur ætla eg austur
efalaust það bætir mik. ÓHÓ

Fyrri/seinnipartur:

Ketill fíflski kirkju reisti
kom úr Suðureyjum.
Ennþá kviknar ástarneisti
oft hjá Klaustursmeyjum. HBG

Ketill fíflski kirkju reisti
kom úr Suðureyjum.
Heilög regla hegðun treysti
heitin tók af meyjum. BA

Ketill fíflski kirkju reisti
kom úr Suðureyjum.
Trúarþörf úr læðing leysti
landið nam og byggðir treysti. BB

Ketill fíflski kirkju reisti
kom úr Suðureyjum.
Löngum trúar- leynist neisti
í litlum Eyjapeyjum. EF

Ketill fíflski kirkju reisti
kom úr Suðureyjum.
Vel þar málin vanda- leysti
hjá villtum, spilltum meyjum. EF

Ketill fíflski kirkju reisti
kom úr Suðureyjum.
Vel af hendi verkið leysti
vistaður hjá meyjum. BJ

Ketill fíflski kirkju reisti
kom úr Suðureyjum.
Sinn á guð og gæfu treysti
og glaðlegt bros frá meyjum. JG

Ketill fíflski kirkju reisti
kom úr Suðureyjum.
Á Kirkjubæ hann kristni treysti
karlinn horskan segjum. ÓHÓ

Hógværðarhendingar af Síðunni

Skaftfellingar löngum láta
lítið yfir sínum högum.
Aldrei þeir af eigin státa
atgervi á kvæðadögum. JG

Skaftfellingar löngum láta
liðsmenn syngja snjallan brag.
Aldrei þvingar þvílík gáta
þá sem hingað koma í dag.

Skaftfellingar löngum láta
lítið vilja hrósa sér.
Aldrei kvarta, aldrei gráta
alla styðja neyð þá er. ÓHÓ

Skaftfellingar löngum láta
lítið hrósa vilja sér.
Aldrei neita eður játa
öllum hjálpa neyð þá er. ÓHÓ

Skaftfellingar löngum láta
lítið yfir gáfum sín.
Aldrei mikið af því státa
að yrki ljóð og drekki vín. BA

Skaftfellingar löngum láta
lánið stjórna sínum gerðum.
Aldrei vötn né veður máta
vaska menn á þeirra ferðum. EM

Skaftfellingar löngum láta
lítið á sér bera.
Aldrei neita, engu játa
alltaf hrúta skera. SR

Skaftfellingar löngum láta
lítið á sér bera.
Aldrei máta, engu játa
og eru ekki fyrir þér. SR

Skaftfellingar löngum láta
lítið yfir orðnu tjóni.
Aldrei þeir af störfum státa
stoltir þó af honum Jóni. BB

Skaftfellingar löngum láta
lítið yfir sér
Aldrei neita, aldrei játa
en þeir svara þér. ME

Skaftfellingar löngum láta
lítið yfir sinni mekt.
Aldrei hvika, af ýmsu státa.
Ekki er það neitt merkilegt. BJ

Skaftfellingar löngum láta
lítilræði ei trufla sig.
Það er ekki þeirra að gráta
þokkinn vel þeim fer. PE

Í huganum flýg ég en hika þó við
því horfin er stúlkan við fljótið.
En Skaftafellsþingum ég blessunar bið
og bið fyrir kveðju á mótið. BB

Málfar Skaftfellinga

Allir stökka ykkað hér
aðrir slökka ljósið.
Ýmsir sida sýnist mér
svo þeir högga líka vel. BJ

Ýkjur máls er engum tamt
orðu um kappa slynga.
Undarlegt finnst okkur samt
afrek Skaftfellinga. JG

Eftir kveðskap Sig. Sig. dýralæknis og Júlíusar Einarssonar

Rímnahallir rísa í hvelli
róminn allir brýna snjalla.
Hvorki gallar eða elli
eru að hrella þessa kalla. RB

Til Jóns Ingvars Jónssonar vegna óska um bætt rúm í Efrivík:

Hér er laus við heimsins glaum
hjá ´onum ást er vakin.
Í Efrivík hann á sér draum
allvel hress en nakinn. PE

Kominn er að Klaustri enn
og kann því vel sem forðum.
Frá staðreyndum hér segja menn
í sárafáum orðum. GM

Ekkert nei og ekkert já
orð sem hugsun þvinga.
Mér finnst sem þau muni tjá
málfar Skaftfellinga. JG

Bergdís Jóhannsdóttir var frá Giljum í Vesturdal:

Þó að leið mín liggi hér
um langar, bjartar hæðir
oft í huga annað fer
ein í ró og næði.

ef læðist ég um liðna tíð
og lít á Vesturdalinn.
Öll ég veit þar eru mín
æskusporin falin.

Oft var glatt á hjalla hér
við hljóm frá lækjarniði.
Ótal leiki átti ég
uppi í stalli og klifi.

Uppi í stalli, úti á grund
ótal margar ferðir
að drullumalla um morgunstund
margoft það ég gerði.

Inni í bæ var móðir mín
mat að elda og sauma
stoppa í sokka, strjúka lín
stöðugt var ´ún heima.

Marga sögu hún sagði mér
svo var kveðin vísa.
Allt það sem ég átti hér
ekki er gott að lýsa. BJ

Eitthvað er ég orðafár
og enginn bragardugur.
En fái ég úr flösku tár
frjórri verður hugur. JGÓ

Enn er hægt að yrkja ljóð
þótt allt sé gert í flaustri.
Aðbúðin var afar góð
öll á þessu Klaustri. ÓÓ

Það komu að sunnan kátir menn
með kyngi og mikla snilli.
Þeir eru að syngja og yrkja enn
þótt enga fái hylli. ÓÓ

Eftir flutning Hjálmars B. Gíslasonar á kvæði um sólina og Aðalvík orti Bjargey:

Ellin skæða aðra kaus
ennþá dável sást það
þeir sem sljóan hafa haus
Hjálmari hljóta að dást að. BA

Á mótið sendi Rúnar Kristjánsson vísur að norðan:

Verði ykkur listin léð
leiks með hætti slyngum
að kveða og syngja á Klaustri með
kátum Skaftfellingum

Gæfa er jafnan geði að blanda
góða við og fögnuð tjá.
Skaftfellingar eiga í anda
eld sem jörðin kringum þá.

En fleiri búa að góðum gæðum
geyma kosti þjóðarbands.
Sýnið þeim með söng og kvæðum
sannar menntir Norðurlands! RK

Vísur úr Skaftártungu, Hilmar Gunnarsson flutti:

Skrýtilega er skapað fólk í Skaftártungu.
Óskeggjaðir yngissveinar
eru þar sem meyjar hreinar.

Fram að Ásum fór sá krásabelgur.
Söng þar yfir sítt með skegg
síðan mé hann uppí vegg.

Fram að Ásum fór sá vel útbúinn.
Söng þar yfir sítt með skegg
samt var úti mikið hregg.

Ungu fljóðin ekki treg
ástarljóðin sungu
kempan þegar konungleg
kom úr Skaftártungu.

Á heimleið

Í Seglbúðum hjá sæmdarþjóð
sælt er kaffi að þiggja.
Sem þakklæti hér lítið ljóð
læt ég eftir liggja. GM

Hérna yndi í mig fæ
yngist heldur betur.
Í Seglbúðum er sál í bæ
sumar um miðjan vetur. PE

Er á barmi anganrós
anda þyrstum veisla
þegar sárþjáð sólarljós
sendir bjarta geisla. BA

Í gærkveldi var alveg ágætt grín
sem á að þakka.
En nú er mál að halda heim til sín
og hætta að flakka. RB

Vísnasmiðir: Óli Jörundsson bílstjóri, Jói í Stapa er JG, Gísli Magnússon kennari, Bjargey Arnórsdóttir, Sigrún Ásgeirsdóttir kennari, Eygló Markúsdóttir, Ólafur Ólafsson Hvolsvelli, Reynir Ragnarsson Vík, Pálmi Eyjólfsson, Hjálmar B. Gíslason, Guðm. Óli Sigurgeirsson, Bjarni Böðvarsson, sem sendi vísnaparta og sömuleiðis Stefán Vilhjálmsson, Salóme Ragnarsdóttir, Elín Finnbogadóttir, Bergdís Jóhannsdóttir, Hjörtur Þórarinsson sendi, Óskar H. Ólafsson sendi, Margrét Einarsdóttir, Jón Geir Ólafsson, Rúnar Kristjánsson sendi, Ragnar Böðvarsson og Ingi Heiðmar höfundur spjallsins.

Þó aðeins séu 18 ár frá þessari vel heppnuðu skemmtiferð austur á Klaustur þá er flest fallið í gleymsku af því sem þar gerðist. En vélritaðar arkir með vísunum hafa geymst, hafa líklega verið fjölfaldaðar og dreift til nokkurra umsjónarmanna. Ég þykist þekkja handbragð Ragnars Böðvarssonar á þessu verki, sennilega hefur hann safnað vísunum og útbúið vísnapartana eða átt þátt í því sem hafa aukið mjög á sköpunargleði og vísnagerð gestanna og heimamanna. Þetta ár átti hagyrðingamótið að verða á Hvolsvelli í umsjón Ólafs Ólafssonar og þeir Ragnar og Jói í Stapa fóru með Ólafi austur á Djúpavog til að leggja honum lið við undirbúning mótsins. Ragnar tók svo við keflinu og undirbjó mótið í Efrivík 5 árum seinna.

Sigurður Sigurðarson dýralæknir hefur kveðið á samkomunni á Klaustri og svo var komið við í Seglbúðum á heimleiðinni næsta dag. Sjá líka mótaskrá hér neðan við.

Síðasta hagyrðingamótið var á Húsavík 2012, vel sótt þó Jói sjálfur, þá búsettur í Varmahlíð, treysti sér ekki með okkur Gils Einarssyni sem komum samdægurs sunnan frá Selfossi og organistinn IHJ þurfti að ná aftur heim um nóttina.

Mótaskrá: Skagströnd 1989 – Hveravellir 1990 – Laugar í Sælingsdal 1991 – Skúlagarður 1992 – Hallormsstaður 1993 – Flúðir 1994 – Bændahöllin Rv. 1995 –  Núpur 1996 – Varmahlíð 1997 – Seyðisfjörður 1998 – Laugaland í Holtum 1999 – Akoges Rv. 2000 – Hvanneyri 2001 – Akureyri 2002 – Djúpivogur 2003 – Hvolsvöllur 2004 – Reykjavík 2005 – Hólmavík 2006 – Blönduós 2007 – Smyrlabjörg 2008 – Efri-Vík 2009 – Reykjavík 2010 – Stykkishólmur 2011 – Húsavík 2012 – en 25. árið fauk mótið út á sjó, en átti vera á Borgarfirði eystra haustið 2013. Óveður um allt land þessa helgi.

Aðra tilraun gerðum við með mót á Skeiðunum haustið 2014, að Hótel Heklu á Brjánsstöðum, en þátttaka varð ekki næg, eða þá hitt að ekki var nægilegt að kynna og auglýsa mótið í hinu útbreidda og vel lesna Bændablaði. Það varð orðið erfiðara með árunum að fá nýja liðsmenn til að undirbúa mótin, sem tók margar vikur og fundi.

Jóa í Stapa misstum við 20. okt. 2020 – í miðjum kóvídbylnum.

En ljóðið lifir.

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið