Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Þriðjudagur, 19. mars 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Mars 2024
SMÞMFL
252627282912
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 04:30 0 0°C
Laxárdalsh. 04:30 0 0°C
Vatnsskarð 04:30 0 0°C
Þverárfjall 04:30 0 0°C
Kjalarnes 04:30 0 0°C
Hafnarfjall 04:30 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Bjarna Jónsson
17. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
15. mars 2024
Eftir Bjarna Jónsson
11. mars 2024
70. þáttur. Eftir Jón Torfason
09. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
03. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Torfalækur um 1922. Myndin er úr bókinni Ættir Austur-Húnvetninga III. bindi, bls. 1199.
Torfalækur um 1922. Myndin er úr bókinni Ættir Austur-Húnvetninga III. bindi, bls. 1199.
Pistlar | 06. mars 2023 - kl. 09:16
Þættir úr sögu sveitar: Svipleg afdrif feðga
43. þáttur. Eftir Jón Torfason

Flestar jarðir í Torfalækjarhreppi heyrðu undir Þingeyraklaustur eða kirkjur en Torfalækur einn fárra jarða í hreppnum sem voru í einkaeigu. Bændur þar voru þó lengi leiguliðar, eins og annars staðar, og þegar jarðabók Árna og Páls var tekin 1706 skiptist eignarhaldið í fimm staði en ábúandinn var þó einn. Lengst af 18. öld og fram yfir miðja þá nítjándu var hér tvíbýli og stundum þríbýli.

Nafni jarðarinnar bregður fyrir í Alþingisbókum þegar eigendaskipti urðu á einhverjum hlutum jarðarinnar en ekki er þó hægt að fá samfellt yfirlit um eigendasöguna. Árið 1770 bjó hér Guðmundur nokkur Erlendsson (f. um 1730) og mun hafa átt hálfa jörðina en á móti honum bjuggu þá Þórður Helgason og Ásta Pálsdóttir sem síðar verður nánar getið. Guðmundur átti einn óegta son, Erlend (um 1757-1805) sem erfði hans hlut og keypti árið 1794 hálfan Torfalæk (20 #) og hefur þá átt alla jörðina.[1] Eftir lát hans eða öllu heldur ekkju hans skiptist eignarhaldið aftur í nokkra parta.

Guðmundur faðir Erlendar dó veturinn 1777 og kom upp deila um arf eftir hann sem er rakið í þætti nr. 35, Erfðamál Orrastaðasystra. Faðir þeirra systra, Guðrúnar og Sigríðar á Orrastöðum, var Hákon Erlendsson bróðir eða hálfbróðir Guðmundur á Torfalæk og töldu þær sig réttbornari til arfs en óegta-sonurinn Erlendur. Lok þeirrar þrætu urðu þau að Erlendi var dæmdur allur arfur eftir föður sinn og bjó eftir það á Torfalæk.

En fleira hékk á spýtunni. Grunur lék á að Guðmundur hefði fargað sér sjálfur en þá hefði arfur eftir hann fallið í konungsgarð að fornum sið. Helgina 28.-29. mars 1777 að nýliðnum jafndægrum að vori hafði Guðmundur lagt leið sína niður að Húnavatni og fannst þar dauður að morgni sunnudagsins. Á manntalsþingi um sumarið, þann 20. júní, þegar öðrum verkum þingsins er lokið spyr Magnús Gíslason sýslumaður hvað menn viti um dauða Erlendar og segir svo í þingbókinni:

         Eftir spurði sýslumaðurinn þingsóknarmenn um kringumstæður og fráfall þess nú burtdauða Guðmundar Erlendsson:

         1. Hvört hann hefði verið með fullu ráði og viti á umliðnum vetri? Hvar til sumir svara að hann eftir sem sýnst hafi með fullu ráði verið, en nokkrir ekki.
         2. Hvar var Guðmundur þessi fundinn dauður? Svar: 4 álnir frá sjó á Hjaltabakkasandi ofan og út undan Húnsstaðahólma.
         3. Hvað [m]enn[2] þingsóknarinnar þenki um hvört Guðmundur þessi eftir áður sögðu hafi fyrirfarið sér sjálfum í sjónum? Svarast af Illuga Björnssyni[3] á Hjaltabakka, að hann hafi séð hann vaða í sjóinn í mitti en hann síðan frá vikið af orðsök, að hann þenkt hefði hann mundi sig hræðast, en hafi á sandbrekku[4] fyrir neðan Lestavað áskynja orðið um að hann væri þá upp kominn úr sjónum.
         4. Nær skeði þetta? Á laugardagskvöldið fyrir páska og nálægt dagsetri. Þórður Helgason hér verandi á Torfalæk og Guðmundur Árnason[5] ásamt öðru hér verandi heimilisfólki segja hann hafi stundum með ráði verið, stundum ekki.
         5. Hvað lengi hafði Guðmundur í burtu verið frá bænum til þess hann fannst dauður við sjóinn? Svar: Frá laugardagsmorgni til sunnudagsmorguns.
         6. Hvörnin stóð á sjó? Svar: Fjara hefur verið annað hvört lítið út eður að fallandi sjór.
         7. Hvörnin lá Guðmundur þá hann fannst? Með höfði vendandi til sjóar á grúfu og höndum niður lögðum með síðunum og tveimur vettlingum á annarri hendinni, samt prjónhettu á höfði niður flettri.
         Þar ekkert fleira fram kemur slúttast þessi þingsakt með sýslumannsins og tilkvaddra þingsvita nöfnum.

         Actum ut supra.
         Magnús Gíslason
         Jón Þorvarðsson, Kristján Björnsson, Jón Jónsson, Illugi Björnsson, Hannes Jónsson, Jón Sveinsson, Þórður Helgason, Þorsteinn Benediktsson[6]

Það má heita regla að fólk, sem ber vitni fyrir rétti á þessum árum, hefur lítið fram að færa, hefur fátt séð eða heyrt og á það við í þessu máli að menn eru ekki einhuga um andlegt ástand Guðmundar. Í málsskjölunum út af arfinum er talað um „eenslags vildelse og sindets uröelighed“ en hér fyrir ofan telja sumir sveitarmenn að hann hafi verið með fullu ráði þegar aðrir mæla því í mót, líka að stundum hafi hann verið með réttu ráði en stundum ekki. Ekki virðist dauða hans þó hafa borið að með saknæmum hætti eins og það er orðað nú á dögum, enda engir Barnaby-frændur eða miss Marple búandi í sveitinni sem gætu rótað upp grunsemdum um málið. Virðist helst talið hann hafi króknað þarna á sandinum og ekki fundið leið til bæjar, sem er þó ekki ýkja langur spölur.[7]

Óneitanlega vekur það spurn hvað maðurinn var að gera þarna niður við sjó, langt utan við landareign Torfalækjar. Vísbending um það fæst löngu síðar í máli út af rekamörkum milli Hjaltabakka og Þingeyra en forsvarsmenn beggja staðanna telja veiði í Húnaósi tilheyra sér.

Árið 1810 gaf Benedikt Einarsson á Geirastöðum vitnisburð um leigu á selveiði í Húnaósi á sinni tíð en hann hafði lengi búið á Geirastöðum. Af vitnisburðinum má ráða að þeir feðgar, Erlendur og Guðmundur, hafi haft selveiðina að austanverðu í ósnum á leigu. Að vísu hefur Guðmundur varla verið í veiðiferð um miðjan vetur, en gæti hafa verið að athuga aðstæður ef hann var þá ekki á einhverju ráðleysisflakki. Vitnisburður Benedikts er svohljóðandi:

         Svolátandi vitnisburð gef ég undirskrifaður, að árið 1791 byggði sálugi notarius Oddur Stefánsson mér jörðina Geirastaði og með henni selveiði vestan til í Húnaósi, eins og minn formaður, Jón, hafði hana frá Þingeyrum til leigu. En austan til í ósnum hafði sálugi Erlendur á Torfalæk hana til leigu frá Þingeyraklaustri.

         Þennan minn vitnisburð skal ég með eiði staðfesta ef þurfa þykir.
         Geirastöðum þann 21. maí 1810.
                        Benedikt Einarsson[8]

Í sáttabók Vatnsdalsumdæmis er skráð sátt vegna einhverra leiðindaorða eða ásakana sem fóru milli þessara manna, Erlendar og Benedikts á Geirastöðum. Inn í það rifrildi hefur blandast Sveinn Sveinsson vinnumaður á Þingeyrum og virðast þeir félagar, Benedikt og Sveinn, hafa ásakað Erlend um að hafa stolið frá sér tveimur selanótum haustið áður. Líklega hafa þeir verið drukknir, gátu a.m.k. ekki sannað ummæli sín og tóku þann kost að greiða litla sekt til fátækrakassa hreppsins til að jafna málið.

         Anno 1800, þann 9. janúar, var forlíkunar samkoma haldin undir Felli í Vatnsdal til að fyrir taka og friðstilla eitt misklíðarefni millum eftirskrifaðra manna, nefnilega mr. Erlendar Guðmundssonar á Torfalæk svo sem þess er ákærir og bóndans Benedikts Einarssonar á Geirastöðum og Sveins Sveinssonar vinnumanns á Þingeyrum svo sem ákærðra; hvert missætti þar af rís af, að mr. Erlendur hefur klagað yfir því að hann að kvöldi þ. 6. desember næstliðins árs hafi af fyrrnefndum mönnum verið áreittur með of nærgangandi ósæmdar orðum í einu óvissu og óbevísuðu efni, rísandi út af tveimur selanótum er þeir segjast misst hafa í Húnaós á næstliðnu hausti, hvern sinn missir þeir (kannski fyrir annarra ógrundaðan framburð) hafa eignað mr. Erlendi. Hér fyrir uppástendur hann tilstrækkelegt gottgjörelse af þeim og að þeir endilega aftur kalli þær beskyldningar sem þeir hér fyrir hafa honum gefið.
         Hér upp á svarar Benedikt, að jafnvel þó mr. Erlendur hafi einnig ávarpað sig óþægilega vilji hann samt finna sig í hans uppástandi með nokkur útlát, svo sem sá sem af ótilþenktu bráðræði varð upphafs orsök í þeirra missætti.
         Undirgengst svo Benedikt góðlátlega að svara 1 rd. til fátækra í Sveinsstaðahrepp, hvar með mr. Erlendur gjörir sig við hann ─ fyrir góðar tillögur ─ fyllilega ánægðan án frekari ákæru.
         En Sveinn ─ hvern mr. Erlendur skuldar fyrir enn frekari grófyrði, meðkennir sig kófdrukkinn verið hafa, svo hann ei muni hvað talað hafi, sem og líka er af hans viðurparti að nokkru leyti tilstaðið ─ frá fellur nú viljugur sínum ósæmdar orðum fyrir hver, jafnvel þó hann kynni álítast til ríflegra útláta, þá samt hans fátæktar vegna eftir gefur mr. Erlendur honum allt útláta tilkall fyrir sína persónu, en hann betalar einasta til fátækra í Torfalækjarhrepp 48 sk. upp á hér greind kjör. Verða svo áðurnefndir partar öldungis forlyktir, ut supra.
         Páll Bjarnason, Þorleifur Þorleifsson, Erlendur Guðmundsson, Benedikt Einarsson, Sveinn Sveinsson[9]

Það er svo annað mál að í júlí 1805 lést Erlendur niður við Húnavatn, ásamt sambýlismanni sínum, Ólafi Benediktssyni. Lík Ólafs fannst og var jarðað á Hjaltabakka en lík Erlendar hefur aldrei fundist, hefur trúlega borist til hafs en straumur getur orðið stríður í Húnaósi við fallaskipti. Þeir munu hafa verið við selveiðar, sbr. vitnisburðinn hér að ofan. Málið var ekkert rannsakað svo vitað sé enda ekki hægt um vik þar sem engin vitni voru til staðar.

Síðar komust á fót kviksögur um að Erlendur hefði komið heim um nóttina, sótt peninga og stokkið vestur á Strandir og síðan alið manninn í Trékyllisvík.[10] Enginn fótur mun þó fyrir þessum sögum.


[1] Á manntalsþingi 5. júní 1795 þinglýsi Erlendur Guðmundsson eign sinni 40 hundruðum í Torfalæk sem er þá jörðin öll (ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/2, örk 4. Dóma- og þingbók 1788-1796).
[2] Mjög óljóst.
[3] Illugi bjó á Hjaltabakka um þessar mundir en flutti síðar að Meðalheimi. Kona hans hét Ranghildur Vigfúsdóttir og koma þau bæði við sögu síðar.
[4] Hugsanlega er þetta örnefni en Lestavaðið var á Laxá neðarlega móts við Húnsstaði.
[5] Guðmundur átti heima á Húnsstöðum um þessar mundir, er minnst lítillega á hann í 16. þætti, Við bakka Húnavatns.
[6] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/2, örk 2. Dóma- og þingbók 1770-1881, bls. 276-277.
[7] Jón Helgason ritstjóri minnist á þetta dauðsfall í þáttum sínum um Torfalækjarmál, sbr. Tíminn Sunnudagsblað 4. mars 1962, bls. 30. Endurprentað í „Vér Íslands börn“ II, Reykjavík 1970.
[8] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GB/2, örk 3.
[9] ÞÍ. Sáttabók Vatnsdalsumdæmis 1799-1902 (A/1).
[10] Sbr. Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga II, bls. 458-459.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið