Fyrri mynd
Nćsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Húnahornið
Open Menu Close Menu
Húnahornið
Mánudagur, 2. október 2023
   m/s
C
Ókeypt
huni.is - RSS-efnisveita
 
Október 2023
SMÞMFL
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
2930311234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 02:10 N 6 3°C
Laxárdalsh. 02:10 N 10 5°C
Vatnsskarð 02:10 NNA 8 4°C
Þverárfjall 02:10 NA 9 4°C
Kjalarnes 02:10 115.0 4 8°C
Hafnarfjall 02:10 ANA15 8°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. september 2023
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
27. september 2023
Eftir Sigurjón Þórðarson
25. september 2023
58. þáttur. Eftir Jón Torfason
24. september 2023
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
23. september 2023
Eftir Bjarna Jónsson
19. september 2023
Eftir Svölu Runólfsdóttur, Elínu S. Sigurðardóttur og Dagnýju Sigmarsdóttur
13. september 2023
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
12. september 2023
N 65° 39' 32.04" V 20° 16' 55.2"
Sigurjón Guðmundsson
Sigurjón Guðmundsson
Pistlar | 16. mars 2023 - kl. 16:30
Sögukorn frá ævi Sigurjóns
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Birt áður á Húnahorni 11. nóv. 2022

 1. Föstudaginn 10. mars s. l. lést Sigurjón Guðmundsson, fyrrum bóndi og fjallskilastjóri á Fossum. Hann hafði búið síðasta aldarfjórðunginn á Blönduósi og lést á Héraðshælinu.
   
 2. Á Húnahorninu birtist sögukorn s.l. haust. Það var frá haustinu 1995 um fjárskaða Sigurjóns er hann missti fjörutíu ær í ána hjá Kóngsgarði. Þá voru þeir sveitarstjórnarmennirnir Sigurjón og Sigurður á Brúnastöðum í borginni syðra, sinntu erindum sveitunga sinna vegna Blönduvirkjunar, kominn vetur og stórhríð gekk yfir seint í október með snjóflóðum og manntjóni.
   
 3. Í vetrarbyrjun ´95 var svo komið að þessi sextugi bóndi á Fossum hafði ráðstafað fjárstofni sínum og atvinnuvegi: Hluta af yngri ánum seldi hann bræðrum sínum, Fossabændunum, Sigurði og Bjössa, 40 fóru í hríðinni, en féð sem þá var eftir flutti hann á sláturhús. Náði því naumlega áður en slátrunartíma lauk, í Neðra húsinu á Sauðárkróki.
   
 4. En lukkan var þó ekki að snúa baki við þessum syni heiðarinnar. Hann lagði mikið undir, hafði ráðstafað eigum sínum, en í ljós kom laust starf við Mjólkurstöðina og Páll Hjaltalín Svavarsson, mjólkurbússtjóri á Blönduósi réði Sigurjón til starfans. Þar hóf hann störf í upphafi árs 1996. En áður en að því kæmi, tók hann sér á hendur ferðalag, keypti sér ferð til Kanarí hjá Ingva Þór, málara og ferðamálafrömuði á Blönduósi.

  Þarna var Sigurjón að fara fyrstu sólarlandaferð sína en áður hafði hann farið tvisvar til Evrópu með Agnari Guðnasyni í Bændaferðum. Lét þessi sextugi bóndi fjárskaðann verða sér vísbendingu um að hér væri komið að kaflaskilum og komið væri að nýrri vegferð, jafnvel nokkru nýstárlegri þeirri fyrri?

  Og svo verður mælirinn bara stundum fullur hvað sem allri forlagatrú líður.

   
 5. Gamla sundlaugin á Blönduósi var áföst skólabyggingunni – Barnaskólanum og Sigurjón fór fljótlega að stunda þar sund eftir búferlin. Svo kom að því að Blönduósingar fengu nýtt íþróttahús og laug og öldungarnir í þorpinu sem og yngri íbúar létu sig ekki vanta, heitu pottarnir urðu vinsæll staður til að masa og heyra morguntíðindin úr samfélaginu, þar mátti kynnast nýju fólki, rifja upp gamla vísu ofan af Laxárdal eða framan úr Forsæludal. Þetta voru nánast menningarsamkomur og kaffiveitingar bárust innan úr húsinu.

  Í þessari góðu og hlýju laug var m.a. rætt um og minnt á þjóðsagnasafnarann og Húnvetninginn Jón Árnason á árunum 2016 – 2019, 17. ágúst var afmælisdagurinn Jóns og minnt var á hann með aprikósu- og ávaxtaveitingum í lauginni.

   
 6. Heima í Bólstaðarhlíðarhreppi hafði Sigurjón gegnt mörgum trúnaðarembættum, s.s. störfum fjallskilastjóra í hreppsnefndinni, formennsku í Húnaversstjórn á því méli er ferðaþjónustan hófst þar suður á túninu/Botnastaðamónum þar sem voru byggðar sturtur og náðhús. Réttarstjóri í Stafnsrétt var Sigurjón líka um árabil.
   
 7. Já, það var sannarlega frá mörgu að hverfa og Sigurjón hafði oft þurft að leggja nokkuð af mörkum til að komast þessa 25 km frá Fossum út að Húnaveri, þar sem voru krossgötur og miðstöð félagslífsins sem og heimili karlakórsins. Og vegurinn um Svartárdalinn var sums staðar mjór, lítt fær stundum og alltaf langur.
   
 8. Sigurjón hóf vinnu við Mjólkurbúið á Blönduósi í ársbyrjun 1996 og tók sér svo frí í vetrarbyrjun og fór þá aðra orlofsferð til Kanarí. Sú ferð varð býsna örlagarík og Sigurjóni mikil hamingjuför því þar hitti hann Helgu Óskarsdóttur, sem varð kona hans og náinn félagi næstu áratugi.
   
 9. Helga var ekkja og hafði ekki verið í neinum ferðahug þegar vinkona hennar, kennarinn Sigrún Guðmundsdóttir sótti eftir að fá hana að ferðafélaga. Eiginmaðurinn Sigrúnar, Kristján Sigtryggsson skólastjóri og organisti átti ekki heimangengt, hefur kannski verið tómlátur um sólarferðir eins og sumir eru. Hátt í þrjátíu ár eru liðin síðan þessi ferð var farin, sögur farnar að flækjast – og fyrnast, fólk hverfur af þessum heimi, færri verða til frásagnar en minningarnar halda þó áfram að miðlast manna á meðal. Og sumar komast á blað – eða vef.
   
 10. En þannig gengu ferðaplön, að þær lögðu upp saman vinkonurnar og lentu þá í hóp með Sigurjóni. Þau Helga kynntust fljótt því fararstjórinn Sigurður Guðmundsson frá Hvanneyri stóð fyrir uppákomum meðal ferðafélaganna, þar á meðal dansleik þegar komið var út til Kanarí, þau Helga og Sigurjón tóku sporið saman og þar hófust kynni sem entust þeim jafnlengi og ævidagar Helgu.
   
 11. Ingibjörg Helga Óskarsdóttir lést í nóvember 2016.
   
 12. Hún Helga fæddist á Lokastígnum 15. jan. 1931 og þangað kom iðulega frændfólk úr Flóanum sem var í bæjarferð og enn haldast kynni Sigurjóns við Rúnu frá Sýrlæk, sem hefur lengi búið á Selfossi og þau Helga heimsóttu meðan hennar naut við. Geir í Byggðarhorni var föðurbróðir Helgu og frændfólk að austan var stundum gestkomandi á æskuheimili hennar þegar farið var til borgarinnar. Helga varð hjúkrunarkona og sinnti því starfi með heimili og barnauppeldi.
   
 13. Helga átti sér heimili í Hlíðunum er leiðir þeirra Sigurjóns lágu saman en húsið hans var norður við Blönduós, þangað sem Helga heimsótti hann, sérstaklega á sumrin. Syðra dvaldi Sigurjón hjá Helgu  þegar næði gafst frá vinnu og félagsmálum sem héldu áfram að vera tímafrek hjá honum þó hann væri fluttur í þorpið. Hann var kosinn í stjórn félags eldri borgara í Austur-Húnavatnssýslu og var síðast formaður með tilheyrandi ferðalögum. Hann gekk líka í kirkjukórinn á Blönduósi og svo var karlakórinn oftast með tvö æfingakvöld í viku.
   
 14. En það mátti segja, að þau Helga byggju í fjarbúð en þau töluðu saman í síma á hverjum degi. Þau héldu líka áfram að sækja til sólareyjar suður á Kanarí og Helga tók þátt í ferðum Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps með Sigurjóni, en kórinn hefur verið víðförull, fór til Norðurlandanna, á Íslendingaslóðir vestur til Kanada 2014 og víðar.
   
 15. Meðal minningagreina eftir Helgu í Morgunblaðinu er að finna þetta kveðjuljóð frá Sigurjóni:

  Til Helgu.

  Á suðrænni eyju er við sáumst fyrst
  það var sólskin og himininn blár.
  Örlagadísirnar ætluðu víst
  að auka okkar vonir og þrár.

  Í heimi fullum af angist og efa
  ákaft ég sakna þín.
  Þú hafðir svo mikla hamingju að gefa
  hjartkæra ástin mín.

  Ástin sem leiðir og eflir hvert par
  ég orðvana fæ ekki lýst.
  Það var hamingja mín að hitta þig þar
  nú er hjarta mitt dofið og níst.

  Ást og tryggð er erfitt að sýna
  hún er eins og stráið sem fauk.
  Ég hefði svo viljað í hendina þína
  halda, er yfir lauk.

   
 16. Ungur að árum hafði Sigurjón farið til náms á Bændaskólann á Hólum, var þar tvö ár í námi, eignaðist þar vini og kunningja sem hann var ötull að halda sambandi við. Sigurjón útskrifaðist frá Hólaskóla 1953 með 1. ágætiseinkunn.
   
 17. Eftir skólagönguna var Sigurjón óbundnari heima en eldri bræður hans svo hann tók að sér farkennslu vestur í Svínavatnshreppi, kenndi þar einn vetur og byrjaði þá að syngja annan bassa með karlakórnum, átti þaðan samleið á æfingar með Svínvetningum sem áttu nú greiða leið austur í Hlíðarhreppinn yfir fremri Blöndubrúna.
   
 18. Og Sigurjón kom sér upp fjárbúi. Bræður hans, Siggi og Bjössi, bjuggu heima á Fossum en Sigurjón sá fyrir sér hús í Kóngsgarðstúni og þar byggði hann stóran bragga 1967 yfir hjörð sína og hey, lét þar liggja við opið, fór einu sinni á dag á húsin til að gefa og líta eftir en annars hafði féð frelsi til að fara inn þegar því líkaði.

  Sauðfé var alla tíð sterki þátturinn í búskap Fossamanna og komst fjöldi þess mest upp um 700 fjár(670) hjá bræðrunum og síðustu Fossabændunum, Sigurði, Bjössa og Sigurjóni. Svo tvöfaldaðist fjártalan að hausti, er lömbin komu með mæðrum sínum af heiðinni. Þá þurfti að grípa í margt hornið.

   
 19. Erfiðar fjárleitir fyrir rúmum 60 árum. – Frásögn Sigurjóns:

  Haustið 1961 var þokkalega góð tíð fram um 20. nóvember. Þá brá til hins verra og fór að snjóa. Við á Fossum vorum þá að ganga frá innréttingum á efri hæð íbúðarhússins og talsvert uppteknir við það.
  Þannig hagaði til að engar afréttargirðingar voru þá komnar. Þær komu ekki upp fyrr en tíu árum seinna. Í góðri tíð sótti fé af dalabæjunum því til heiðarinnar og fór vel um það í grösugum flóanum við Galtará og þar norður af. Þetta fé var aðallega frá Steiná, Hvammi og Fossum.

  Eins og áður segir fór tíð að versna upp úr 20. nóvember. Þess ber að geta að veðurspár voru þá hvergi eins nákvæmar og nú er orðið. Þann 23. nóvember brestur á með norðan stórhríð, með miklu frosti eða yfir 10 gráður. Menn fóru þá að reyna að bjarga fé en gekk illa vegna dimmviðris. Við feðgarnir þrír, pabbi, Bjössi bróðir og ég lögðum upp morguninn 24. nóv. að reyna að smala Fossárdalinn.

  Fossárdalurinn er býsna langur og teygir sig inn til heiðarinnar. Frá Fossum fram á Arnarhól fremst á dalnum er ca. þriggja tíma gangur frá Fossum.

  Við bræður vorum vanir göngumenn og á besta aldri. Ég 26 ára og Bjössi rúmlega þrítugur. Pabbi var afar léttur til gangs fram á gamals aldur. Fossárdalur er afar grösugur heiðardalur og því besta sauðland. Ætlun okkar Bjössa var að ganga fram Háutungur og fram að Dalsmynni og smala síðan niður dalinn að austan. Dalsmynni og Arnarhóll eru suðurmörk
  Kóngsgarðslands og þar eru landamerki Eyvindarstaðaheiðar. Þar suður af taka við Fossárdalsdrög nokkuð inn á heiðina. Austan þeirra er Þingmannaháls meðfram öllu Svartárbugasvæðinu. Pabbi ætlaði að ganga fram vesturbrúnir dalsins fram að svokölluðu Smjörmálsgili (suðurmörk Fossa við heiðarlandið) og smala þaðan niður Fossárdalinn að vestan.

  Við bræður snerum við um kl 12 á hádegi. Norður af Arnarhólnum er mikið og gott hagasvæði er nefnist Hrossengi. Það er allt sundurskorið af lækjum sem falla í Fossána. Þarna var strax reytingur af fé. Veður var þannig þennan morgun að það var hríðarslitringur en ljótur bakki í norðri.Við höfðum ekki lengi farið til baka er á skellur iðulaus stórhríð, með fannburði og hörkufrosti. Ég hef á langri ævi komið út í margar hríðar en ég held að þetta veður sé það versta sem ég man eftir.

  Norðan við Hrossengi taka við hvammar tveir, Norðari og Fremri Nautahvammar. Þá er komið á Kóngsgarðssel og dýpkar dalurinn þá mjög. Þar er foss í ánni ca. 20 m hár. Dimmviðrið var slíkt að við sáum ekkert frá okkur og harðnaði veðrið enn frekar er á daginn leið. Við sáum ekki vitund hvað var á undan okkur en ég var viss um að Forystu-Svört mín myndi leiða hópinn. Og af hverju var ég svo viss um það? Það var vegna þess að hún var í fremsta hópnum sem við fundum og tók strax strauið niður dalinn. Surtla var ættuð austan úr Þistilfirði og mjög góð forystukind.
  Við bræður vorum þaulkunnugir landinu og vissum vel hvar féð myndi helst leita skjóls. Þannig leið tíminn uns við loks náðum á beitarhúsin í Kóngsgarði. Þar var þá orðið rúm fyrir rúmlega hundrað fjár en fjárhópurinn okkar var eitthvað um það bil sú tala.

  Við dokuðum nokkra stund í húsunum yfir fénu áður en við lögðum í síðasta áfangann heim að Fossum. Pabbi var þá fyrir nokkru kominn heim. Hann lenti strax á fé við Smjörmálsgilið og komst með það norður í Dýjahlíð sem er í vesturhlíð dalsins, nokkru framar en Kóngsgarður. Þar var kominn feikna snjór og botnlaus ófærð. Ég tel það afrek af nær sjötugum manni en pabbi var annars engum líkur.

  Við bræðurnir vorum nokkuð þrekaðir eftir daginn, sáum ekki hálfa sjón og vorum sárir og skaðaðir í andliti en ekki kalnir að ráði.

  Veðurhamurinn hélst fram eftir nóttu en var farinn að ganga niður með morgninum.

  Við fórum að vitja um fjárhópinn sem pabbi skildi eftir. Komum með hann heim um hádegi. Það voru um 60 fjár.

   
 20. Í þessu veðri fórst báturinn Skíði HU8 frá Skagaströnd. Með honum fórust tveir bræður. Varðskipið Óðinn leitaði mikið á Húnaflóa, án árangurs. Veður var afar slæmt á öllu Norðurlandi og mikill óróleiki í höfnum.

  Mývetningar voru við smölun á Austuröræfunum og lentu í miklum erfiðleikum. Fengu snjóbíl sér til hjálpar. Næstu dagar fóru í að reita saman fé á nærstöðvum.

   
 21. En menn höfðu áhyggjur af fénu á heiðinni. Eitthvað hafði verið litið til fjárins meðan tíðin var góð. Meginþungi þess var þá í Galtarárflóa og á Kurbrandsmýrum. En raunar var allt svæðið undir, frá Steinárhálsi og öll heiðin fram úr. Var nú eitthvað ráðslagað með þetta.

  Sími var þá kominn á alla bæi. Að kvöldi 26. nóv. komu þeir hér og gistu Sigurjón á Steiná og Þorleifur í Hvammi. Morguninn eftir var ákveðið að skipta liði. Sigurjón Stefánsson og Leifi gengu fram Öfuguggavatnshæðir og áttu að leita fram í Galtarárdrög. Síðan til baka og leita Blönduvatnshóla og Langaflóa út að Galtará. Við Siggi bróðir fórum vestur að Blöndugili og fram með því að Galtará. Ég fylgdi gilinu en Siggi sá um Sporðana sem eru meðfram Refsá áður en hún fellur í Blöndu. Einnig leitaði hann svokallað Brandsdrag er gengur norður úr Galtarárflóa.

  Við sáum stóran fjárhóp í hnapp í miðjum Galtarárflóanum. Ég hef aldrei séð fé eins útleikið eftir nokkurt veður. Ærnar voru í ofboðslegri klakabrynju frá haus og afturúr. Sumar ullarmiklar ær voru svo þungar á sér að þær stóðu varla. Sem betur fer var búið að byggja nýjan skála með áföstu stóru hesthúsi. Það varð okkar helsta ráð að troða öllum hópnum inn í báða skálana, til að reyna að þýða mesta klakann af fénu. Þetta tókst vel og við ánægðir með gott dagsverk.

  Féð reyndist við talningu vera um 260. Sjö kindur höfðu fennt í árgilinu rétt neðan við gamla skálann. Af þeim tók ekki upp fyrr en snjóa leysti um vorið. Þær voru allar frá Steiná.

  Greinilegt var að fjárhópurinn hafði reynt að standa af sér bylinn við skálana. Mátti raunar furðu gegna að fleira skyldi ekki hrekjast niður í árgilið og fenna þar. Nóttin varð okkur félögunum ekki næðissöm og sváfum við næsta lítið. Féð var sífellt að hrista sig og ef maður þurfti út varð maður klofblautur af fénu. Varð okkur helst til dægrastyttingar að segja hvor öðrum lygasögur og yrkja.

   
 22. Gamlar vísur úr heiðarferðum voru rifjaðar upp, t. d. þessi:

  Gengum við í góðu færi
  Guðlaugstungurnar.
  Árangur þó engan bæri
  og ekkert finndist þar.

  Eftir langa og kalda nótt í Ströngukvíslarskála:

  Þá er lokið þessari rímu
  þá er sagan öll.
  Greindum við í grárri skímu
  Gamallarkonufjöll.

   
 23. Loksins kom þó morguninn og var þá farið að hugsa til hreyfings. Mikið hafði þiðnað úr fénu um nóttina en samt var að finna klaka enn í því. Sumar ærnar voru illa farnar eftir bylinn, brynjuslitnar og ullin klofin eftir hrygg.

  Fyrir lá nú langur og strangur rekstur ofan í Fossa. Leiðin rúmlega 20 kílómetrar í mikilli ófærð. Reksturinn tók alls 11 klukkutíma, þó við reyndum að velja snjóléttustu leiðina. Við komum ekki niður að Fossum fyrr en kl. hálf átta um kvöldið. Vorum þá búnir að paufast í myrkri nokkra leið. Var okkur vel fagnað eftir vel heppnaða en erfiða ferð.

  Ekki reyndist unnt að hýsa allt féð og stóð hluti þess í rétt um nóttina. Það var síðan dregið í sundur um morguninn. Allmikið fé vantaði eftir þessa smölun. Því var það úr að 12. desember fóru þeir úr byggð Fossabræður, Siggi og Sigurjón og Sigurjón á Steiná. Leituðu þeir heiðina alla fram að Ströngukvísl. Tveir voru á skíðum en Siggi með hest og hey. Fundu þeir alls níu kindur.

  Flest öll árin þar til afréttargirðingin kom, gekk fé af þessum bæjum fram um heiðina eftir lögskipaðar göngur. Það kostaði oft mörg spor að ná því. Mér varð oft hugsað til þess er vélsleðar komu til nota, að mikill léttir hefði verið að hafa þá við leitir.

  En haustið 1961 er tvímælalaust það erfiðasta sem ég man eftir.
  Það eru við Sigurjón á Steiná þeir einu sem eftir eru af þeim sem mest mæddi á í leitum þessi árin. Hvorugur okkar myndi nú í dag leika það eftir er menn afrekuðu á þessum árum. – Hér lýkur frásögn Sigurjóns.

   
 24. Og þó. Upp kom vísa í huga sögumannsins Sigurjóns eftir nágrannana Sigurjón á Steiná og Sigurð bróður hans á Fossum, sem botnaði:

  Sést nú út í Svartárdal
  senn er búin leiðin
  lokið ferð um fjallasal
  förin geymir heiðin.

  Við Ströngukvísl:
  Alstirndur himinn er úti að sjá
  og öræfin blasa við sjónum.
  Ekkert fegurra augað leit þá
  en einsamalt strá upp úr snjónum. Sigurður á Fossum

  Eg vil eyða oftar dögum
  upp á breiðu heiðunum.
  Bregða á skeið úr byggðahögum
  á býsna greiðu leiðunum. Sigurjón á Fossum

   
 25. Fossamenn – Fossabræður:
  1. Guðmundur Sigurðsson f. 1853
  2. Guðmundur Guðmundsson f. 1893
  3. Siggi: Sigurður Guðmundsson f. 1927
      Bjössi: Guðm. Sigurbjörn Guðmundsson f. 1930
      Sigurjón Guðmundsson f. 1935

   
 26. Sveitungi Fossabræðra – úr ysta hluta hreppsins – Rósberg G. Snædal, kennari, skáld og fræðimaður – samdi þáttinn Göngur á Eyvindarstaðaheiði og birti í bók sinni Skáldið frá Elivogum þar sem hann lýsir heiðinni og réttinni:
   
 27. Stafnsrétt stendur á sléttri eyri fremst í Svartárdal, austan Svartár, spölkorn fyrir innan við bæinn Stafn, sem hún er kennd við. Til austurs liggur Stafnsgil, þröngt og hömrótt og þar um fellur Svartá, en til suðurs Fossárdalur sem liggur langt til heiðar. Um hann fellur Fossá, fremur vatnslítil að jafnaði. Fossárdalur taldi áður fyrr tvo bæi, Fossa og Kóngsgarð. Báðir eru þessir bæir skammt fram í dalnum.
   
 28. Kóngsgarður er framar og austan ár. Á þeim bæ var fæddur Sigurbjörn Sveinsson, hinn vinsæli barnabókahöfundur.
   
 29. Á Fossum er vel hýst og raflýst. Þar er umhverfi sérkennilegt og fagurt þó þröngt sé milli fjalla. Þeir sem til Stafnsréttar fara sér til skemmtunar, ættu líka að sjá Fossa. Sá stutti krókur borgar sig.
   
 30. Fossabændur hafa verið gangnaforingjar á Eyvindarstaðaheiði s.l. 84 ár (þátturinn skráður af RGSn. um 1950) og hefur staða þessi gengið í erfðir, sonur tekið við af föður. Fyrst skal telja Guðmund Sigurðsson, þá Guðmund Guðmundsson og núverandi gangnaforingja, Sigurð Guðmundsson. Þeir hafa allir verið einkjörnir til þessa erfiða og ábyrgðarmikla starfs og hlotnast bæði lán og lof. Vegna nálægðar við heiðina hljóta líka Fossabændur að vera henni flestum kunnugri að öðru jöfnu. RGSn.
   
 31. Í öðrum þætti, Stundir við Stafnsrétt, safnar Rósberg saman vísum tengdum réttinni og birtir í áðurnefndri bók, Skáldið frá Elivogum:

  Hér ég skal til skemmtunar
  skálda fjörug ljóðin
  meðan daladrósirnar
  dansa á bala Stafnsréttar. Símon Dalaskáld

  Haustið býður öllum oss:
  úti er blíða og friður.
  Safnið líður líkt og foss
  Lækjahlíðar niður. –  Rósberg G. Snædal

  Gott er að hafa glaða lund
  geta af fátækt sinni
  dags frá önnum eina stund
  offrað Stafnsréttinni. Jónas Tryggvason

  Bliknar margt og bleik er grund
  blómaskart í valnum
  á þó hjartað óskastund
  innst í Svartárdalnum. RGS

  Fótanettan fák má sjá
  – flýgur um þetta staka.
  Sléttum réttareyrum á
  ýmsir spretti taka. RGS

  Hér er líf og líka fjör
  lagleg víf og jeppar
  heyrast gífuryrði ör
  óðir rífast seppar. RGS

  Léttist þungur þanki minn
  því skal sungið vinurinn.
  Verð ég ungur annað sinn
  er ég Tungubræður finn. RGS

  Svona bras er siður forn:
  sumir hrasa og slaga
  taka í nasir tóbakskorn
  tappa úr glasi draga. RGS

  Mun ei saka dáðadrengi
  dymbilvaka hausts og snjóa
  þó fölna taki fjöll og engi
  finnur stakan græna skóga. JT

  Gleði raskast, vantar vín
  verður brask að gera.
  Ef að taskan opnast mín
  á þar flaska´ að vera. RGS

  Hér má eiga kvæðaklið
  Kitlar eyra staka.
  Stafns- á eyri ætlum við
  eins og fleiri að vaka. RGS

  Kvölda fer um farinn veg
  flestum þorrið tárið.
  Nú er drukkið allt sem eg
  Átti í morgunsárið. JT

  Senn að völdum svefninn fer
  sveit í tjöldin skríður.
  Svona er öldin önnur hér
  er á kvöldið líður. RGS

  Þar er sparkað, kjaftað, kýtt
  Karlar þjarka um hross og skjátur.
  Þar er slarkað, þjórað, spýtt.
  Þá er Marka-Leifi kátur. RGS

  Þó ég bjarta þrái veig
  þreyttur og hjartakalinn
  nú er hart um nýjan fleyg
  niður Svartárdalinn. Bjarni Jónsson frá Gröf.

Heimildir:
Handrit og frásögn Sigurjóns Guðmundssonar Blönduósi/Fossum frá haustinu 2022
Rósberg G. Snædal: Skáldið frá Elivogum og fleira fólk Rv. 1973
Sögukorn af Sigurjóni, birt á Húnahorni 27. sept. ´22: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=19521
Eldri gerð af ofanskráðu sögukorni m/nokkrum myndum frá Stafnsrétt: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=19643

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2023 Húnahornið