Pistlar | 27. mars 2023 - kl. 09:08
Vatnaskógur í 100 ár
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Á þessu ári, það er að segja hinn 3. ágúst verða liðin 100 ár frá því að fyrsti dvalarflokkurinn lagði leið sína á vegum KFUM í Vatnaskóg. Ferðin hafði haft nokkurn aðdraganda og var vel undirbúin eins og lýst er í 60 ára sögu Vatnaskógar sem skráð var af Sigurði Pálssyni síðar sóknarpresti í Hallgrímskirkju í Reykjavík og kom út árið 1983.

Á hundrað árum hefur starfsemin í Vatnaskógi vaxið gríðarlega bæði jafnt og þétt. Ekki síst nú síðustu 30 - 35 árin. Eru nú fjölbreyttir hópar sem dvelja þar í styttri eða lengri tíma allt árið um kring en ekki aðeins yfir sumartímann eins og var fyrstu sjö áratugina eða svo.

Á undanförnum árum hafa árlega komið um sjö til áttaþúsund manns í Vatnaskóg, aðallega börn og unglingar. Á sumrin eru dvalalarflokkar fyrir drengi frá níu ára aldri og komast færri að en sækjast eftir. Þá eru námskeið þar haldin fyrir feðga, feðgin, mæðgin, fjölskyldur og á haustin er sérstakur karlaflokkur. Yfir vetrartímann eru haldin þar afar vinsæl fermingarnámskeið og á vorin og haustin koma leikskólabörn í heimsókn auk annarra skólahópa. Frá 1992 hefur svo hin sí vinsæla vímulausa fjölskyldu hátíð, Sæludagar verið haldnir um verslunarmannahelgina en þá sækja árlega allt að þrettánhundruð manns.

Viðburðaríkir dagar

Í Vatnaskógi er sú góða hefð gjarnan viðhöfð að hefja daginn með signingu og stuttri morgunbæn. Og í sumardvalarflokkunum eru fræðslustundir á morgnana þar sem sagðar eru sögur sem tengjast innihaldi og kærleiks boðskap Biblíunnar og viðstöddum er boðið að æfa sig í að fletta upp í Nýja testamentinu.

Skógurinn hefur upp á ævintýri að bjóða og spennandi þykir að bregða sér út á bát. Boðið er upp á keppni í fótbolta og frjálsum íþróttum, borðtennis og bara nefndu það. Allir finna eitthvað við sitt hæfi og dagarnir gjarnan fljótir að líða. Á kvöldvökunum er mikið sungið og leikið. Þar er oft mikið fjör, sagðar eru sögur og oft hlegið dátt áður en dagurinn er svo endaður með stuttri hugvekju og bæn fyrir svefninn. Sumir þiggja að fá að koma við í kapellunni góðu áður en tennurnar eru burstaðar og gengið er til náða eftir langan og viðburðaríkan dag.

Á afmælisári

Skráning fyrir sumarið hófst nú 2. mars og mun sumarið ilma af afmælisblæ. Síðar í vor mun koma út vegleg bók í tilefni afmælisins þar sem sögunni verða gerð glæsileg skil í máli og myndum, ekki síst myndum. Bókina er mögulegt að tryggja sér með því að hafa samband í gegnum kfum.is. Einnig kom á síðasta ári út geisladiskurinn, Lifi lífið, með lögum Jóhanns Helgasonar við ein tíu ljóð eftir greinarhöfund sem einnig er seldur á skrifstofu KFUM og KFUK til styrktar starfinu í Vatnaskógi.

Hinn 17. ágúst í fyrra var tekin við hátíðlega athöfn fyrsta skóflustungan að nýjum matskála í Vatnaskógi og fór jarðvegsvinna fram í haust. Vonast er til að hægt verði að hefja byggingarframkvæmdir nú sem allra fyrst og draumurinn er að húsið rísi síðan hratt og vel og verði jafnvel risið um verslunarmanna helgina en þá helgi verður stöðug hátíð í tilefni 100 ára afmælisins með fjölbreyttum uppákomum.

Að læra um lífið

Dæmi eru um að í Vatnaskógi hafi dvalið allt að fimm kynslóðir í beinan karlegg. Í Vatnaskógi lærum við um lífið. Um mannleg samskipti, að taka tillit til náungans. Við lærum að höndla sigra og gleðjast en einnig um vonbrigði og sár töp. Við þjálfumst í umgengni, auðmýkt og þakklæti. Að bera virðingu fyrir lífinu, sjálfum sér og öðrum. Þjálfumst í umgengni og að þekkja mörk og síðast en ekki síst að lifa með fyrirgefandi hugarfari.

Guð blessi og vaki yfir starfinu góða í Vatnaskógi hér eftir sem hingað til sem er bæði heilnæmt og gefandi. Þar sem börn og ungmenni fá tækifæri til að þroskast og njóta sín á öllum sviðum sem þau hafa áhuga á. Þar sem dagurinn er rammaður inn með signingu, bæn og söng ásamt jákvæðri og uppbyggilegri fræðslu um innihald og mikilvægi Biblíunnar í daglegu lífi og hin kærleiksríku og lífgefandi, uppörvandi og vonarríku orð frelsarans okkar, Jesú Krists sem býðst til að vaka yfir okkur og leiða í gegnum ævinnar veg og alla leið inn í sína himnesku dýrð þegar yfir lýkur.

Með þakklæti fyrir að hafa verið sem drengur kynntur fyrir starfinu góða í Vatnaskógi og fyrir að hafa síðan verið treyst fyrir að leggja þar mitt af mörkum með því að gefa af mér og miðla á fullorðins árum.

Áfram að markinu.

Kærleiks- og friðarkveðja.

- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga