Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Föstudagur, 1. mars 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Mars 2024
SMÞMFL
252627282912
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 03:42 0 0°C
Laxárdalsh. 03:42 0 0°C
Vatnsskarð 03:42 0 0°C
Þverárfjall 03:42 0 0°C
Kjalarnes 03:42 0 0°C
Hafnarfjall 03:42 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
69. þáttur. Eftir Jón Torfason
25. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
25. febrúar 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
25. febrúar 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
19. febrúar 2024
Frá Leikfélagi Dalvíkurbyggðar
16. febrúar 2024
68. þáttur. Eftir Jón Torfason
11. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
11. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
08. febrúar 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Gömul bæjarhús á Torfalæk í byrjun aldarinnar. Mynd: Tíminn, sunnudagsblað 4. mars 1962, bls. 31.
Gömul bæjarhús á Torfalæk í byrjun aldarinnar. Mynd: Tíminn, sunnudagsblað 4. mars 1962, bls. 31.
Pistlar | 09. apríl 2023 - kl. 22:01
Þættir úr sögu sveitar: Fleira fólk á Torfalæk
46. þáttur. Eftir Jón Torfason

Ásta Pálsdóttir (1714-1795) og Vigfús Ívarsson bjuggu á Torfalæk um miðja 18. öldina. Vigfús dó 1758 eða 1759. Þau eignuðust eina dóttur, Ragnhildi að nafni (1741-23. september 1799). Hún giftist Illuga Björnssyni (f. 1729) og bjuggu þau fyrst á Hjaltabakka (1773-1780), fóru þaðan að Meðalheimi (1780-1790) en voru nýflutt að Hæli þegar Illugi lést 27. nóvember 1790 og verður þeirra síðar getið.

Eftir lát Vigfúsar giftist Ásta Þórði Helgasyni (f. 1731) og eignuðust þau tvö börn sem upp komust, Steinunni (1759-20. júlí 1843) og Helga (1761-20. apríl 1828) silfursmið á Brandsstöðum í Blöndudal. Allmargir gripir eru enn til eftir Helga, t.d. kaleikur og patína í Breiðabólstaðarkirkju og Vesturhópshólakirkju; Auðkúlukirkju og Undirfellskirkju.[1]

Þau Ásta og Þórður voru leiguliðar og var þeirra jarðarpartur í eigu ýmissa þar til Erlendur Guðmundsson eignaðist alla jörðina 1794 eins og fyrr er rakið. Eiginlega er fátt vitað um búhag þeirra fyrr en í lok aldarinnar. Þó má finna í reikningum verslunarinnar á Skagaströnd yfirlit um úttekt þeirra árið 1763.  Þetta ár virðist Þórður gera sér tvær ferðir í kaupstaðinn, 22. ágúst og aftur 8. september, og keypti m.a. eina og hálfa tunnu af mjöli og eitthvað af brauði, ýmis konar vefnaðarvöru,  en einnig nokkuð af tóbaki og rúma 6 lítra af brennivíni.[2] Alls keypti Þórður vörur fyrir 4 hundruð og 117 álnir. Verður að ætla að hann hafi lagt inn ull og unnið prjónles á móti þessari úttekt.

Tíðarfar á næsta áratug var rysjótt og það sem jafnvel verra var, nú tók fjárkláðinn (fyrri sem kallaður er) að breiðast út um landið og svo gaus Hekla 1766 og varð af mikið öskufall í Húnaþingi. Þórður og Ásta virðast einhverra hluta vegna hafa orðið harðar úti en nágrannar þeirra sumir því um sumarsólstöðurnar 1773, nánar tiltekið 26. júní, var bú þeirra skrifað upp, að ætla má vegna einhverra skuldaskipta. Þá eru skepnurnar magrar og illa útlítandi, búsgögnin meira og minna ónýt og konan að heita fatalaus svo að hún „kemst naumlega til kirkju“ eins og segir í uppskriftinni:[3]

         Anno 1773, þann 26. júní, vorum vér til staðar á Torfalæk hreppstjórar í Torfalækjarhrepp, Ólafur Jónsson og Einar Gíslason, til að virða og uppskrifa alla þá fémuni, fríða og dauða, Þórðar Helgasonar og komu fyrir sjónir þessir fémunir, sem hér greinir:

                                                                                Hundruð         Álnir
Þrjár kýr, ein þeirra er í gildi en hinar tvær magrar
og illa útlítandi og önnur kálflaus                                                    2               60
Tveir hestar ungir                                                                          1
Þrír hestar undir tvítugt                                                                 1
Tveir færleikar miðaldra                                                                                  40
Sextán ær með lömbum, magrar og ullarlausar                               2
Ellefu kindur veturgamlar                                                                                90
Spónamatar búsgagn allt ónýtt og óbrúkanlegt, utan tvö trog, þrjár fötur            10
Einn strokkur gamall                                                                                         5
Tveir pottar gamlir og brunnir, bættur annar og brotið af eyra                             50
Ein vættarkisa nýleg og tvö kistuskrifli, járnalausar með þunnum botni               20
Kvenfatnaður er hér enginn sem skrifandi eður virturverður
svo að konan kemst naumlega til kirkju.

Karlmannsfatnaður: Brjóstadúkur og peysa, gamalt og slitið,
einnin mussa brúkanleg og buxur slitnar og bættar                                           40
Lítilfjörlegur vefstaður                                                                                    15
Reiðtygi engin að gagni
Þrír klifberar gamlir með lítilfjörlegum reiðskap, 
tvenn bandreipi, ein ólarreip                                                                           15

Á þessum framanskrifuðum fjármunum lýsir Þórður skuldum, nefnilega:

Í kaupstað                                                                                                         48
Til Jóns í Köldukinn                                                                                             10
Til Andrésar Bjarnasonar                                                                                       8
Til Halldórs Bjarnasonar                                                                                        5
Til Sigríðar Jónsdóttur                                                                                         20
Til Gísla Eyleifssonar                                                                                             5

Fólk er á hans heimili átta að tölu, þrír sem verkfærir eru, ef ei bagaði bjargleysi, og fimm ómagar.

      Torfalæk 26. júní 1773
      Ólafur Jónsson, Einar Gíslason

Skuldirnar eru samtals upp á 96 álnir en áður taldar eignir eru metnar á 8 hundruð og 102 álnir. Svo torsótt sem er að bera verðlag í byrjun 19. aldar saman við verðlag á vorum dögum þá er það ennþá snúnara þegar kemur aftur á 18. öldina. Af listanum má þó ráða að kýr í fullu gildi og/eða hestur eru metin á 1 hundrað og annað þá eftir því.

Þótt ástandið virðist ekki björgulegt þarna munu Þórður og Ásta hafa rétt úr kútnum og bjuggu 20 ár enn á Torfalæk. Fór meira að segja svo að Þórður var gerður að hreppstjóra í hreppnum um árabil en það hefði hann naumast orðið nema honum hefði auðnast að rífa sig upp úr örbirgðinni. Í móðuharðindunum fengu þau eins og aðrir skell en þrátt fyrir hækkandi aldur og lúa rétta þau sig upp að nokkru skv. búnaðarskýrslunum, eru árið 1790 með 2 kýr, kvígu og kálf, 17 mjólkandi ær en 24 sauðkindur alls, og loks 2 hesta. Þetta er ekkert stórbú en þess er að gæta að þau búa bara á hálfri jörðinni og eru ekki nema þrjú í heimili, þ.e. Þórður 67 ára, Ásta kona hans 76 ára og Kristín Jónsdóttir vinnukona 43 ára, sögð lesandi, vinnusöm og sæmilega kunnandi. Kristín þessi var fædd 1749 skv. islendingabok.is og mun hafa fylgt Þórði eftir lát Ástu þegar hann flutti til Helga sonar síns upp að Brandsstöðum. A.m.k. er hún  þar í manntalinu 1801.

Ásta Pálsdóttir dó 26. ágúst 1795 og upp úr því hefur Þórður ákveðið að hætta búhokrinu og flytja að til Helga. Búið var skrifað upp strax þann 30. september og gengið frá skiptunum viku síðar, 5. október. Uppskriftin og skiptagjörðin fylgja hér með í viðhengi.

Eignirnar voru ekki miklar, námu rúmum 86 rd. og fólust einkum í kúm og kindum og nokkru af búshlutum og meira að segja inneign í versluninni á Höfðakaupstað 4 rd., 59 sk. Skuldir voru um 8 ½ rd. þannig að til skipta komu 77 rd., 61 sk. Meðal skuldakrafna var legkaup og líksöngseyrir sem var greitt með 9 pörum sokka, metið á 81 skilding.

Erfingjarnir voru Þórður sjálfur, Helgi sonur hans gullsmiður á Brandsstöðum, Steinunn Helgadóttir húsfreyja á Húnsstöðum, gift Jóni Gíslasyni (1733-3. desember 1807), og Ragnhildur Vigfúsdóttir, dóttir Ástu af fyrra hjónabandi, hafði verið gift Illuga Björnssyni en var nú orðin ekkja og dvaldi hjá Steinunni systur sinni á Húnsstöðum. Helgi fékk í sinn hlut snemmbæra kú en hálfsysturnar nokkrar kindur hvor og öll fengu þau einhverja búsmuni.

Segir nánar af Steinunni og Ragnhildi síðar en um Helga má vísa í stórfróðlegt rit Þórs Magnússonar þjóðminjavarðar um íslenzka silfursmíð og silfursmiði.[4]

Þórdís Ragnhildardóttir Illugadóttir mun fædd 1767 eða 1768 en ekki er víst hvar því nokkuð óglöggt er um uppruna Illuga Björnssonar föður hennar en hún var dóttir Ragnhildar Vigfúsdóttur og Ásta Pálsdóttir þannig amma hennar. Hugsanlega er Þórdís fædd á Hjaltabakka því þar bjuggu foreldrar hennar um árabil en talsverð óvissa er um húsráðendur á bæjum í Torfalækjarhreppi á sjöunda áratug 18. aldar. Hún fylgir væntanlega foreldrum sínum þegar þau fluttu upp í Meðalheim en í fyrstu húsvitjun, sem varðveist hefur úr Hjaltabakkasókn frá árinu 1785, er Þórdís sögð niðurseta á Torfalæk, „18 ára, lesandi, þæg og hlýðin“ og er að læra fermingarkverið. Hún er skráð á heimili Erlendar og Guðrúnar Skúladóttur en á næsta heimili og í sömu baðstofu, þ.e. í sama herbergi, hafa þau komið sér fyrir Þórður Helgason og Ásta amma Þórdísar. Þórdís er fermd árið 1787, talin 19 ára. „Kann bænir [og] sálma. Les í bók“ segir í prestsþjónustubókinni af því tilefni. Hún er að vísu orðin nokkuð fullorðin, en margt fleira en fermingarundirbúningur barna og unglinga fór úr skorðum í móðuharðindunum. Eftir ferminguna er Þórdís áfram á Torfalæk en hefur nú „hækkað í tign“ ef svo má segja og er titluð vinnukona. Þeim status heldur hún næstum tvo áratugi, er t.d. talin vinnukona hér í manntalinu 1801.

Nú verða breytingar á högum Þórdísar. Ragnhildur móðir hennar deyr á Húnsstöðum 1799, Ásta amma hennar hafði dáið 1795 og Þórður (stjúp)afi hennar flutt upp að Brandsstöðum. Einhvern tíma eftir aldamótin giftast Þórdís og Ólafur Benediktsson frá Geirastöðum (1769-3. júlí 1805). Það er í raun mjög stutt milli þessara bæja, aðeins Húnavatn og Skinnastaðir á milli og hugsanlega einhver samgangur eða samvinna við selveiðar í Húnaósi. Ólafur var sonur Benedikts þess sem sagt er frá að deildi við Erlend Guðmundsson út af selanótum við Húnavatn (sjá þátt nr. 43. Svipleg afdrif feðga). Færslu kirkjubókanna hjá séra Rafni á Hjaltabakka var mjög ábótavant um tíma og er árum saman sleppt að færa inn prestsverk, þar á meðal giftingar. Í Hjaltabakkakirkju hljóta þau Þórdís og Ólafur að hafa gift sig því ekki gerðu þau það í Þingeyrakirkju, enda var sú forna og fyrrum glæsilega kirkja þar vart fokheld lengur. Þau Ólafur hafa ekki verið gift lengi, kannski innan við ár því Ólafur virðist ekki hafa verið krafinn um tíundargreiðslu til Torfalækjarhrepps og Þórdís er talin fyrir búi þeirra haustið 1805.

Eins og fyrr var rakið dó Ólafur niður við Húnavatn 3. júlí 1805 og Erlendur Guðmundsson sem með honum var að selaveiðum hvarf í ósinn. Gísli Konráðsson rekur sögusagnir um að fundist hafi blóðdreifar í sandinum  og þar með er gefið í skyn að Erlendur hafi orðið Ólafi að bana, síðan er bætt við að hann hafi um nóttina sótt peninga heim til konu sinnar og strokið á Strandir. Undirrótin var þetta venjulega, „lagðist orð á að Erlendur fífldi konu hans.“[5] Sá fótur gæti verið fyrir þessu slúðri að Þórdís var alin upp á Torfalæk, að miklu leyti undir handarjaðri Erlendar. Verður hver að trúa því sem hann vill um þetta mál.

Ekkjurnar Guðrún Skúladóttir og Þórdís Illugadóttir voru taldar hvor fyrir sínu búi næstu árin þar til Guðrún fékk Ólaf Ingimundarson fyrir framan hjá sér en Þórdís Jón nokkurn Einarsson en skv. manntali 1816 er Jón fæddur á Ossabæ í Árnessýslu og þannig aðkomumaður í héraðið. Giftust báðar húsmæðurnar á Torfalæk þessum heiðursmönnum sama dag, 19. október 1809. Hreppstjórinn Þorsteinn Steindórsson í Holti var svaramaður við bæði brúðkaupin.

En efnamunur hefur verið mikill á heimilunum. Þórdís og síðar Jón Einarsson telja fram til lausafjártíundar 4 hundruð flest árin, stöku sinnum 5 hundruð, en Guðrún og síðar Ólafur þrisvar sinnum meira, frá 12-15 hundruð sömu ár.

Heimili Þórdísar var líka snöggum minna, stundum voru þau aðeins talin tvö hún og Jón og ekki mun þeim hafa orðið barna auðið. Umsagnir prestsins í húsvitjunum um þau eru stuttaralegar og svipaðar ár frá ári, þau eru „lesandi og skikkanleg.“ Til viðbótar má nefna einn skjalfestan vitnisburð um Þórdísi sem unglingsmaður, Sigurður Gíslason, ritar en hann var lengi samvistum við hana á Torfalæk og segir að hún „væri fróm og ráðvönd til munns og handa.“[6] Af öðru fólki á heimili þeirra er ekki annað að telja en Rósu Gunnarsdóttur (1795-1857) vinnukonu á ýmsum bæjum  og Kristján Jóhannesson (f. 1799). Kristján er talinn „meðgjafarbarn“ en þó er ekki greitt með honum úr hreppssjóðnum. Verður hugað nánar að honum síðar í þessum þáttum ef það verður Guðs vilji, eins og stundum er sagt.

Vorið 1813 verða breytingar á högum þeirra, þau flytja austur yfir Blöndu og setjast að á Blöndubakka þar sem þau bjuggu næsta áratug, en Þórdís dó 2. desember 1822. Nú hefur það líka gerst að Margrét (1774-1864)  yngri systir Þórdísar er komin að Hnjúkum, fyrst sem „ráðsstúlka“ hjá Sveini Halldórssyni árið 1809 en er orðin eiginkona hans árið eftir og tekin að fjölga mannkyninu með honum heldur betur hressilega. Efnin voru ekkert of mikil hjá þeim á Hnjúkum svo Þórdís hleypur undir bagga með systur sinni og tekur Kristófer (f. 5. febrúar 1815) að sér og elur hann upp. Kristófer varð síðar bóndi í Enni (d. 28. nóvember 1873) og ættfaðir margra góðra manna og kvenna í héraðinu. Kristófer er hjá þeim á Blöndubakka í manntali 1816. Þórdís er þá sögð 50 ára og Jón 48 ára. Eftir lát Þórdísar fór Kristófer aftur heim til sín að Hnjúkum en Jón var áfram á Blöndubakka en nú sem húsmaður. Hann varð úti í kyndilmessubylnum 2. febrúar 1825, „fannst rotaður á svelli“ segir Gísli Konráðsson.[7]

Meðal vinnufólks á Torfalæk er talinn árin 1811-1812 Ísleifur Jóhannesson frá Breiðavaði (1787-1829) og fær heldur góðan vitnisburð, er „lesandi og skrifandi,“ en álit manna á honum breyttist síðar og hann endaði ævina í þrælabúðum Kaupmannahafnar sem kunnugt er.

Árið 1813 eru komin hingað Sigurður Sveinsson (1781-28. júní 1825) og verðandi kona hans Þórunn Þorláksdóttir (1789-4. janúar 1856) með son sinn Þorlák (1811- 18. maí 1865). Ferill þeirra er nokkuð dæmigerður fyrir ungt fólk sem er að leita sér að staðfestu. Þórunn var bróðurdóttir Þorsteins hreppstjóra í Holti og þar kynntust þau Sigurður þegar hann kom þangað sem vinnumaður. Þau eignuðust Þorlák 1811 og er hann þannig fæddur í frillulífi þótt þess sé ekki getið í prestsþjónustubókinni. Þar kann vinátta milli prestsins á Hjaltabakka og hreppstjórans í Holti að hafa haft nokkuð að segja því barneign í frillulífi var saknæm og varðaði sektum. Þau flytja sig að Torfalæk 1813, Sigurður vinnumaður en Þórunn húskona en „búa“ enn saman í óvíðri sambúð. Þórunn er tíundar 3 hundruð í lausafé árið 1813 sem ætti að samsvara því að hún hafi átt 18 ær eða samsvarandi bústofn. Þau skötuhjúin eru sum sé að „vinna sig upp,“ koma sér upp bústofni en þau vantar jarðnæði til að geta gifst. Eftir giftinguna, 25. janúar 1814, líður samt enn eitt ár í vinnumennsku og húsmennsku  en síðan komast þau að Akri og eiga þar heima upp frá því.

Sigurður varð ekki langlífur, lést 1825, og skömmu síðar giftist Þórunn  Pétri Guðmundssyni (1795-1845) og bjuggu þau lengi á Akri og Þorlákur sonur Þórunnar og Sigurðar eftir þeirra dag.

Af öðru fólki má nefna vinukonuna Málmfríði Hannesdóttur (1766-3. janúar 1840) Jónsonar sem kom hingað frá Hæli 1815 og var hér með hléum fram til 1828. Hún var ekki ókunnug í sveitinni og verður getið nánar við Hurðarbak en nokkuð var rætt um Hannes Jónsson föður hennar í þætti nr. 6 (Af harðabónda ættinni).

Einnig skal talinn Svein Jónsson (14. júlí 1799-13. janúar 1845), sonur Þórunnar Kráksdóttur í Köldukinn. Sveinn var viðloða hér á Árunum 1816-1823 en varð síðar bóndi í Köldukinn og á Efri-Mýrum á Refasveit. Hann var bróðir Gísla Jónssonar (1797-1887) lengi bónda á Húnsstöðum.


[1] Þór Magnússon: Íslensk silfursmíð II, bls. 81. Sbr. Kirkjur Íslands 33. bindi, bls. 287.
[2] Lbs. Reg 140. Box 2. Skagaströnd 1763, bls. 271. (Þetta eru myndir af verslunarskjölum á filmum, aðgengileg á Landsbókasafni. Titillinn er: Krambodsböger for Island og Finmarken). Sbr.: Helga Hlín Bjarnadóttir: Þarflegir hlutir og þarflitlir. (Ó)hófsemi Húnvetninga 1770–1787 og íslensk neyslusaga á 18. öld. 2014. Aðgengileg á skemman.is. Slóðin er: https://skemman.is/handle/1946/18341. Það er þrælsnúið að lesa þessar krambúðarbækur, letur dauft og mikið um skammstafanir.
[3] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED2/3. Þessi og næstu þrjá uppskriftir eru heftar saman, og er stundum svo þétt bundið í kjölinn að einstök orð eru óljós, einkum tölur.
[4] Þór Magnússon: Íslenzk silfursmíð II, bls. 81.
[5] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 458. Sbr. einnig: Jón Helgason: Torfalækjarmál.  Tíminn Sunnudagsblað 4. mars 1962, bls. 30.
[6] Sjá þátt nr. 25. Harmleikur á Hnjúkum.
[7] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 619. Þakka Jóni Arasyni upplýsingar og ábendingar um Kristófer Sveinsson.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið