Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Mánudagur, 15. júlí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Júlí 2024
SMÞMFL
30123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031123
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 06:56 0 0°C
Laxárdalsh. 06:56 0 0°C
Vatnsskarð 06:56 0 0°C
Þverárfjall 06:56 0 0°C
Kjalarnes 06:56 0 0°C
Hafnarfjall 06:56 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
28. júní 2024
Verum upplýsandi
Ég er sólginn í að lesa alls konar fundargerðir, t.d. frá sveitarstjórnum, nefndum og ráðum. Í þeim má finna margt áhugavert og annað minna áhugavert.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Eyjólf Ármannsson
08. júlí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
03. júlí 2024
77. þáttur. Eftir Jón Torfason
01. júlí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
25. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
23. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
21. júní 2024
76. þáttur. Eftir Jón Torfason
15. júní 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Kolkumýrar, Svínadalsfjall, Sauðadalur og Vatnsdalsfjall. Mynd: HAH/Björn Bergmann.
Kolkumýrar, Svínadalsfjall, Sauðadalur og Vatnsdalsfjall. Mynd: HAH/Björn Bergmann.
Pistlar | 23. apríl 2023 - kl. 08:06
Þættir úr sögu sveitar: Dánarbússkipti á Hæli
47. þáttur. Eftir Jón Torfason

Um miðja 18. öld bjuggu á Hæli Hálfdan Grímsson (1728-1805) og Guðrún Jannesdóttir (1730-1800) en síðar alllengi í Brekkukoti. Meðal barna þeirra var Magnús Hálfdánarson (1760-8. september 1832) sem síðar verður getið við Holt og Hurðarbak. En 1773 komu hingað Magnús Björnsson (1725-30. nóvember 1784) og Rannveig Helgadóttir  (1749-30. apríl 1834) sem bjó lengi á Skinnastöðum eftir lát Magnúsar (sjá þætti nr. 40-42. Kvenhetja á Skinnastöðum). Í móðuharðindunum drapst næstum allt sem drepist gat svo vorið 1784 tórðu einungis tvær ær á Hæli en á líkbörunum lá húsbóndinn Magnús og 12 ára gamall sonur þeirra Rannveigar, enda hrökklaðist hún nú burtu.

Þá tóku við jörðinni hjónin Jón Gíslason (1745-3. desember 1807) og Steinunn Þórðardóttir (1759-20. júlí 1843) og voru hér á árunum 1786-1790 en fluttu þá búferlum að Húnsstöðum og verður gerð nánari grein fyrir þeim þar. Hjá þeim byrjaði viðreisnarstarfið. Kýrnar voru tvær árið 1787 og mjólkandi ær 13, veturgamlar gimbrar fjórar og einn taminn hestur. Árið eftir hafði fénu fjölgað lítillega og með þær skepnur fluttu þau að Húnsstöðum.

Eftir burtför Steinunnar og Jóns komu á jörðina Illugi Björnsson (1729-27. nóvember 1790) og Ragnhildur Vigfúsdóttir (1741-23. september 1799). Þau höfðu áður búið á Hjaltabakka og í Meðalheimi. Illugi var orðinn mjög þjakaður af holdsveiki sem dró hann til dauða strax um haustið og fær hann raunar smávægilega meðgjöf úr fátækrasjóði hreppsins flutningsárið 1790.

Þetta fólk er meira og minna skylt og tengt og er hugsanlegt að tilflutningarnir hafi staðið í sambandi við veikindi Illuga þótt hvergi finnst stafur um það skráður. Ragnhildur Vigfúsdóttir er hálfsystir Steinunnar Þórðardóttur, dóttir Vigfúsar Ívarssonar og Ástu Pálsdóttur sem áður bjuggu á Torfalæk en Ásta var móðir Steinunnar. Frá Húnsstöðum  flutti  árið 1790 fram í Vatnsdal ─ hugsanlega til að rýma fyrir Steinunni og Jóni ─ Guðmundur Árnason (1751-19. ágúst 1825) en Árni faðir hans var Pálsson (1712-19. mars 1785) og hafði lengi búið á Húnsstöðum og foreldrar hans á undan honum. En Árni þessi var einmitt bróðir Ástu Pálsdóttur á Torfalæk. Það má svo rifja upp, að Þórdís Illugadóttir Björnssonar og Ragnhildar Vigfúsdóttur er í æsku tökubarn á Torfalæk, síðan vinnukona og loks húsmóðir (sjá 46. þátt), var sum sé dótturdóttir Ástu Pálsdóttur og hefur þannig komið þangað í skjól til ömmu sinnar, trúlega vegna veikinda föður síns. Þórdís er í húsvitjunarbókinni kölluð „niðurseta“ árin 1785 og 1786 en eftir það vinnukona og kann að vera að hreppurinn hafi getið eitthvað með henni þessi neyðarár þótt ekkert finnst nú bókað um það.

Í Meðalheimi höfðu þau Illugi og Ragnhildur misst nánast allan sinn bústofn, áttu eina kú,  eina kvígu og fimm ær árið 1788 og hafði lítið fjölgað við flutninginn að Hæli, töldu þar fram tvær kýr árið 1790, sex ær og tvær gimbrar. Fjölskyldan er að vísu ekki stór, hjónin Illugi og Ragnhildur og Margrét dóttir þeirra (1774-30. nóvember 1864) að komast á táningsaldurinn. Illugi hefur hins vegar mátt sín lítil, þegar þarna var komið sögu, hann deyr 27. nóvember 1790 (63 ára) og er dánarmeinið sagt „holdsveiki og vatnssótt“ og bætt við: „Lá 3 ár í kör.“

Eftir lát Illuga bjó Ragnhildur eitt ár á Hæli en flutti þá burt. Hér truflar nokkuð að sóknarmannatal í Hjaltabakkasókn var ekki fært á árunum 1791-1806 en það virðist nokkuð ljóst að þær mæðgur hafi dvalið á Húnsstöðum  hjá Steinunni Þórðardóttur hálfsystur Ragnhildar, en hin dóttirin Þórdís var á Torfalæk en þetta eru allt nágrannabæir. Margrét Illugadóttir er fermd 25. maí 1794 og er þá talin 18 ára, „kann bænir, les í bók.“ Hún er talin vinnukona á Húnsstöðum í manntali 1801 en varð um síðir seinni kona Sveins Halldórssonar á Hnjúkum.

Rannveig Vigfúsdóttir hefur skv. tíundarskýrslum hreppsins verið húskona á Húnsstöðum, þ.e. ekki rétt og slétt vinnukona heldur með nokkurt sjálfstæði, enda er engin ástæða til að halda að systrunum hafi ekki komið vel saman. Rannveig tíundar jafnan 1 hundrað í lausafé sem samsvarar því að hún hafi átt sex kindur og hefur hún þá trúlega heyjað handa þeim sjálf og unnið sér fatnað úr ullinni.

Ragnhildur lifði tæp 10 ár í skjóli systur sinnar á Húnsstöðum, dó þar haustið 1799, dánarmein „uppvisnun og máttleysi.“ Tekið er fram í prestsþjónustubókinni að hún hafi átt sex börn og hafa þá sum sé aðeins dæturnar tvær komist til fullorðinsára.

Svo vel vill til að uppskrift á dánarbúi Illuga Björnssonar hefur varðveist í skjölum sýslumannsembættisins í Húnavatnssýslu, skrifað upp 30. desember 1790.[1] Sem löngum fyrr er tölulegur samanburður torveldur en hafa má til viðmiðunar að ein ær (mjólkandi) er metin á rúmlega 60 skildinga en 96 skildingar voru í einum ríkisdal.

Þarna eru þrjár bækur, m.a. grallari sem er eins konar sálmabók og handbók til að hafa með í kirkjuna og Hallgrímssálmar sem munu vera passíusálmarnir. Fatnaður, sem er framvísað, er lítið annað en ígangsklæði svo sem tvennar buxur, aðrar bættar en hinar lítt nýtar,  rauðkemdir sokkar og skinnpeysa með götum og sýnist manni að það séu eiginlega einu karlmannsfötin, enda hefur Illugi kannski ekki þurft mikinn klæðnað ef hann hefur legið rúmfastur í karareymd sinni.  Kvenfatnaðurinn er líka slitinn, þó er þarna talin síðhempa metin á 54 skildinga, blá peysa með hnöppum, væntanlega verið til spari og loks er nefndur hattur metinn á 24 skildinga sem manni finnst nokkuð hátt verð. Síðan er vaðmálssæng gömul með fiðri, gamalt brekán, rekkjuvoðir og koddi og er þá upptalið það sem var vefnaðarkyns í búinu.

Búsáhöldin er léleg, strokkurinn varla brúkanlegur, tveir askar og vættarkista [ein vætt var ca. 35-40 kg], hefur væntanlega geymt kornmat heimilisins. Til að sjóða matinn var einn tveggja fjórðunga [fjórðungur um 4,5 kg] pottur en að vísu með tveimur götum. Verkfæri til að heyja handa kúnni og kindunum voru eitt orf og grasljár, metið á 18 skildinga, og tvær hrífur og að auki tvö bandreipis slitur. Loks eru talin sög og hefill og exi og nokkrar spýtur. Síðast er bústofninn færður til bókar, kýr kálflaus, sex ær og ein gimbur. Samanlagt verðmæti þess sem var skrifað upp nam 16 ríkisdölum og 51 skildingi. Þetta hefur líklega hreppstjórunum í Torfalækjarhreppi, sem skrifuðu upp reytur dánarbúsins, þótt vera frekar lítið og spurðu nú nánar, eins og segir í skjalinu:

Hér hjá var ekkjan aðspurð undir votta hvort engvir fjármunir tilheyrðu þessu sterbúi framar, hvar til hún segir: Nei. Hér með var aðspurt hvort sterbúið ætti nokkrar skuldir hjá öðrum, hvar til hún svarar: Nei. Síðan var aðspurt hvurjar skuldir sterbúið ætti að gjalda, hvar til þessum eftirfylgjandi er lýst:                                                                                                                                                               Rd.      Sk.

Landskuld til hr. [Odds Stefánssonar] notari                                 1         84
Ljóstollur                                                                                             26
Til sr. Sæmundar [Oddssonar á Þingeyrum]                                            49
Til sr. Rafns [á Hjaltabakka] legkaup og líksöngseyrir                               81
Til Erlendar Guðmundssonar                                                                  32
Til Þórðar [Helgasonar] fyrir kistusmíðið                                                 32
Túngarðs sekt næstliðið ár                                                                    80
Til hr. sýslumannsins þinggjald í vor                                                       12
Til sr. Sæmundar [Oddssonar] dagsverk                                                 16
Til uppskriftarmannanna eftir hr. sýslumannsins ályktan[2]                                
[Samtals]:                                                                               5          28
Sama stað sem fyrr greinir,
Erlendur Guðmundsson, Sigurður Gíslason

Þessi skuldalisti er allrar athygli verður, gömul saga og ný að fátækum ekkjum sé ekki hlíft við að greiða sín gjöld. Fyrst skal hugað að liðnum „Til uppskriftarmannanna“ sem eru laun þeirra Sigurðar og Erlendar sem undirskrifa gjörninginn og kann vel að vera að þeir hafi gefið þau laun eftir, nema inni í því séu 32 skildingarnir sem Erlendur á að fá. Þórður Helgason á Torfalæk hefur smíðað líkkistu yfir Illuga sem var (stjúp)tengdasonur hans og virðist ekki dýrseldur, 32 skildingar fyrir kistu er ekki mikið gjald.

Hæli var í Þingeyrasókn og þar var prestur séra Sæmundur Oddsson. Dagsverkið ógoldna til hans (16 skildingar) og 49 skildingarnir eru líklega eftirstöðvar af preststíundinni sem þeim Ragnhildi og Illuga bar að gjalda til hans. Sæmundur hefði líka átt að jarða Illuga og dauðdagi hans og jarðsetning er skráð í prestsþjónustubók Þingeyra. Það verður því að ætla að gjaldið til séra Rafns sé vegna þess að hann hafi annast útförina í einhverjum forföllum séra Sæmundar. Ljóstollurinn er gjald til kirkjunnar, vanalega borgað í tólg sem var ætlað til að lýsa upp kirkjuna við messur og á hátíðum. Loks er eftir að borga landskuldina því Ragnhildur var landseti Þingeyraklausturs umboðs og Oddur Stefánsson leigusalinn. Þetta er talsverð upphæð, 1 rd., 84 skildingar, en ég hef fengið þá tilfinningu að Oddur hafi ekki verið harðdrægur þegar kom að því að innheimta landskuldirnar. Það kemur raunar fram hér á eftir að ekkjunni tekst að borga hluta af skuldinni til hans um veturinn.

Athyglisverðasti skuldaliðurinn er „túngarðs sekt næstliðið ár, 80 sk.“ Á seinni hluta 18. aldar urðu miklar framfarir í landbúnaði í Danmörku og til býsnin öll af bókum og bæklingum um landbúnaðarumbætur frá þeirri tíð, komst raunar margt í framkvæmd og bætti hag bændafólks þar í landi. Sú framfaraviðleitni barst einnig til Íslands, að vísu með misjöfnum árangri en það var þó verið að reyna. Eitt af því var nýbýlatilskipunin 1776 þar sem mönnum var heitið verðlaunum og afslátti af skattgjaldi ef þeir reistu sér nýbýli. Liður í því að auka afrakstur af túnum var að skylda menn til að hlaða túngarða til að verja túnin fyrir beit, og var, skv. umræddri tilskipun, gert ráð fyrir að árlega væri hlaðinn 8 álna langur garður fyrir hvern verkfæran heimilismann.  Þar sem yfirvöld þekktu vel tregðu landsmanna til að tileinka sér nýjungar, ef eitthvert erfiði fylgdi, voru lagðar við sektir ef menn uppfylltu ekki garðhleðslukvótann. Manni finnst alveg ótrúlega nöturlegt að sjá tiltekið í búnaðarskýrslum áranna í kjölfar móðuharðindanna að margir hreppsmenn uppfylla þessa skyldu, þótt þeir væru nánast klæðlausir, skepnulausir eða með afurðalítið ef ekki afurðalaust búfé, örugglega sársvangir flesta daga. Sumir sýslumenn reyndu að framfylgdu þessu valdboði og beittu sektunum óspart, en upp úr 1790 var víðast hvar hætt að reyna það og þessi umbótatilraun virðist hafa mistekist að miklu leyti. Hugmyndin var alls ekki slæm en kannski hefði verið heppilegra að veita mönnum verðlaun fyrir slíkar hleðslur en beita sektum.

Ekki var við því að búast að Ragnhildur hafi hlaðið mikla garða hvorki í Meðalheimi né á Hæli með húsbóndann liggjandi í kör og deyjandi af holdsveiki og vatnssýki sem líklega hefur verið sullaveiki. En sektin stóð og sýslumaðurinn vildi fá sitt.

Sumarið eftir, þann 19. júlí 1791, komu menn saman á Torfalæk til að ganga frá dánarbúinu enda var Ragnhildur nú flutt frá Hæli. Hér er einfaldast að taka upp orðrétt það sem stendur í skiptaskjalinu:

Fyrst var ekkjan Ragnhildur Vigfúsdóttir sjálf nálæg aðspurð, hvört við áminnsta hreppstjóranna uppskrift ei hefðu gleymst neinir fémunir sem sterbúinu tilheyrði og nú ættu til skipta að koma, hvörju hún neitar, fyrir utan það nokkuð lítið hafi verið til af kvenfatnaði sem ei hafi verið uppskrifað og sem hún hafi ætlað dóttur sinni, Margrétu, á móti því sem hennar eldri dóttir, Þórdís, hafi með farið af fatnaði frá sér.

Þar næst var hún (ekkjan) aðspurð hvört nokkrar fleiri skuldir væru á sterbúinu en þær sem uppskriftin um getur, hverju hún einnig neitar, heldur sé hún allareiðu búin, með tóvinnu í vetur, að betala af þeim þar áminnstu, nefnilega til prestsins, sr. Rafns 81 sk., og til notarius Stephanssonar allt að 46 sk. sem ennnú eftir standi; til sr. Sæmundar hafi hún betalað 27 sk., en ennnú sé hún honum skyldug um 38 sk.

Ekkjan hafði sum sé ekki talið fram allan kvenfatnaðinn í dánarbúinu, heldur hélt einhverju eftir sem hún ætlaði Margréti til að jafna upp það sem Þórdís hafði áður fengið í sinn hlut. Þetta virðist skiptarétturinn samþykkja.

En af síðari klausunni sést hvað Ragnhildur hafðist að um veturinn eftir dauða Illuga. Hún hefur setið við að vinna úr ullinni og prjóna sokka til að borga með skuldirnar. Hún hefur alveg gert upp við séra Rafn á Hjaltabakka, greitt meginhlutann af jarðarafgjaldinu til Odds Stefánssonar og næstum helminginn af því sem hún skuldaði séra Sæmundi. Ég held allir hljóti að samþykkja að ekkjan hafi staðið vel við sína pligt eftir því sem henni var unnt.

Þar sem nú var komið fram á sumar virðist sem bústofninn sé endurmetinn, bæði kýrin og ærnar hækka lítillega í verði og verðgildi dánarbúsins að sama skapi. Einnig kemur fram nýr gripur, upphár pottur „sem tekur hér um 10 merkur og er nú virtur fyrir 34 sk.“ Skuldastaðan er þú þessi: 
                                                                                                        Rd.         Sk.

Til hr. notarius Stephenssens                                                                46
Til sr. Sæmundar 38 sk.; til Erlends Guðmundssonar 32 sk.                     70
Til Þórðar fyrir kistusmíðið 32 sk.; fyrir túngarðssekt 80 sk.        1           16
Fyrir ljóstoll 26 sk.; fyrir þinggjald í vor 12 sk.                                        38
Til hreppstjórans, Sigurðar Gíslasonar fyrir uppskriftina                            12

   Summa skulda                                                                        2         86

Erlendur Guðmundsson gefur nú eftir sína kröfu og Þórður Helgason gefur líka eftir laun sín við líkkistusmíðið. Einnig er ekkjunni eftir gefinn helmingur af sektinni fyrir vænrækslu að hlaða túngarðinn. En það er ekki hægt að afskrifa allar skuldir og eftirfarandi munir eru af henni teknir til að jafna skuldaskilin og þá skipt milli kröfuhafanna:

Síðhempa af einskeptu með uppslögum af bláu klæði, forn                         54
Gatslitin mussa með hnöppum                                                                  27
Buxur bættar með hnöppum                                                                     16
Hattur, 24 sk.; 2 askar 8 sk.                                                                     32
Tveggja fjórðunga pottur með tveimur götum                                             68
Tvenn bandreipaslitur                                                                                 9

         Til samans:                                                                          2         14

Ekki var samt allt búið, því eftir var að greiða kostnaðinn við búskiptin eða „skipta umkostningar:“

Nefnilega: Skiptasalarium og forsiglings peningar, 20 sk., og fyrir skiptabréfið upp á 3 ark[ir], 1 rd., 39 sk.; til samans 1 rd., 59 sk. Hvar upp í útleggst:

1 ær [metin á] 1 rd., 6 sk.; páll lélegur 10 sk.                                  1         16
Reka lítt brúkanleg 10 sk.; grallari rotinn 10 sk.                                           20
2 hrífur og 1 kláruskaft                                                                                7
Hallgrímssálmar og Hugvekjusálmar                                                ___       16

         [Samtals]:                                                                              1        59

Þessir munir koma í hlut sýslumannsins, sem skiptaráðanda, og má ætla að hann hafi rekið með sér ána frá skiptafundinum, stungið sálmabókunum í hnakktöskuna en hlýtur að hafa bundið amboðin (pál og reku, 2 hrífur og kláruskapt) upp á reiðingshest og þumlungast þannig upp móagöturnar heim til sín.

Eftir stóðu í dánarbúinu sléttir 20 ríkisdalir sem ekkjan og dæturnar skiptu með sér. Það hefur glatast aftan af skiptagjörningnum þannig að ekki er vitað hvað hver þeirra fékk nema Ragnhildur fékk kúna í sinn hlut og gamla vaðmálssæng.

Dánarbú Illuga Björnssonar á Hæli 1790


[1] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED2/48.
[2] Engin upphæð er færð um þessa skuld.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið