Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Miðvikudagur, 24. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 07:55 0 0°C
Laxárdalsh. 07:55 0 0°C
Vatnsskarð 07:55 0 0°C
Þverárfjall 07:55 0 0°C
Kjalarnes 07:55 0 0°C
Hafnarfjall 07:55 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Kolkumýrar, Svínadalsfjall, Sauðadalur og Vatnsdalsfjall. Mynd: HAH/Björn Bergmann.
Kolkumýrar, Svínadalsfjall, Sauðadalur og Vatnsdalsfjall. Mynd: HAH/Björn Bergmann.
Pistlar | 07. maí 2023 - kl. 08:56
Þættir úr sögu sveitar: Enn eru ábúendaskipti á Hæli
48. þáttur. Eftir Jón Torfason

Á eftir Rannveigu Vigfúsdóttur voru hér eitt ár mæðgur úr Skagafirði, ekkjan Ingiríður Finnbogadóttir og dóttir hennar Hólmfríður Jónsdóttir, en 1792 komu hingað Þórarinn Guðbrandsson (f. 1745) og Sólveig Jannesdóttir (1747-8. október 1819). Sólveig var systir Guðrúnar Jannesdóttur, konu Hálfdanar Grímssonar sem voru hér fyrr eins og nefnt var í síðasta þætti. Þórarinn og Sólveig bjuggu hér til 1807 en fluttu sig þá að Kringlu í húsmennsku (sbr. Þátt nr. 14. Fáfróð systkini á Kringlu). Þau eignuðust eina dóttir, Guðnýju, en hún mun hafa dáið í æsku.

Um búskap Þórarins og Sólveigar er helst að skoða tíundarskýrslur, þau tíunda 4 hundruð fyrstu árin, sem er í lægri kantinum, en komast í 8 og 9 hundruð árin 1798 og 1799. Hins vegar er eins og þau séu slegin niður í harðindunum eftir 1800 því tíundin hrynur niður í 2 hundruð 1804. Aðeins er til ein búnaðarskýrsla úr búskapartíð þeirra á Hæli, frá 1803, og hafa þau þá tvær kýr, 10 ær mylkar og fjögur lömb, en þessi skýrsla er einmitt gerð í miðjum harðindakafla. Upp úr þessu hættu þau sjálfstæðum búskap og réðust í húsmennsku að Kringlu sem fyrr er rakið.

Ekki er margt um annað fólk að segja frá árum Þórarins og Sólveigar. Þar eru stundum húskonur með börn sín en aldrei vinnumaður, stöku sinnum vinnukona en stundum engin. En þau Þórarinn ala upp Sigríði Jónsdóttur (14. september 1789-1859) systurdóttir Sólveigar Jannesdóttur. Faðir hennar var Jón Einarsson. Sigríður varð húsfreyja á Breiðstöðum í Gönguskörðum í Skagafjarðarsýslu.

Ein mæðgin sem hér dvelja fá athyglisverð ummæli. Halldóra Guðmundsdóttir (f. 1765). Hún hafði með sér son sinn Jens Jensson, 2 ára, stundum nefndur Valinnglaðsson. Verður nánar rætt um þau þegar kemur að Kleifum eða Kleifakoti en þar lauk Halldóra sinni jarðarvist 1807. Séra Sæmundur á Þingeyrum hefur skrifað í húsvitjunarbókina um Halldóru: „Kemur aldrei hér að kirkju.“ Ef til vill var hún einhvers konar fríþenkjari á undan sinni samtíð og að einhverju leyti hefur henni tekist að smjúga um greypar yfirvaldanna. Jens sonur hennar hinn laungetni komst hins vegar síðar í kynni við yfirvöldin „en var vel viti borinn og skáldmæltur.“[1]

Á árunum 1807-1815 bjuggu hér Björn Björnsson (1780-2. mars 1827) og Þórdís Björnsdóttir (1786-7. febrúar 1851). Þau fóru búferlum að Orrastöðum og voru þar 1815-1818 en fluttu þá að Efra-Núpi í Miðfirði.

Ein búnaðartafla er til úr sýslunni frá tíð þeirra á Hæli, frá árinu 1814, og er bústofninn ekki ómyndarlegur, tvær kýr og kvíga kálffull; 54 ær mjólkandi en veturgamlir sauðir og gimbrar voru 46 talsins og lömbin 54. Einnig eru þar tveir eldri sauðir. Féð taldi því 152 hausa og að auki voru níu hross á bænum. Féð og hrossin hafa vísast meira og minna verið á útigangi yfir veturinn. Í jarðamatsskýrslu frá 1849 segir um Hæli, sem er þá talin 12 hundraða jörð: „Túnið er meira greiðfært en þýft, sæmilega grasgefið og töðugott, fóðrar tvær kýr. Slægjur eru litlar og reitingslegar en sumpart ekki heyslæmar eða mjög snöggvar en ekki erfiðar afflutnings. Sumarhagar ekki notaslæmir, vetrarbeit góð og hæg. Landið er fremur lítið en grösugt.“ Það má vel hafa lánast að fleyta öllum þessum peningi á útigangi í góðum árum, því landið á Hæli er gróðursælt, hart hefur það þó verið í vetrarhörkum.

Þetta ár, 1814, er heildartala sauðfjár í hreppnum 1044 ær, 954 lömb, 92 sauðir og 471 veturgamalt þannig að að meðaltali koma um 120 kindur á hvert heimili í hreppnum, en þau töldust 20 eða 21. Bú Björns og Þórdísar hefur því verið í góðu meðallagi.

Svipað er að segja þegar hugað er að lausafjártíundinni hjá þeim hjónum. Fyrstu árin er hún 6-8 hundruð, fer í 11 hundruð 1810 og er komin í 13 hundruð 1814 og 1815 en þá flytja þau í Orrastaði. Þar lækkar tíundin lítillega en er 11 ½ hundrað 1817 þegar þau flytja vestur í Miðfjörð. Þetta viðmiðunarár eru 9 framteljendur með hærri tíund er Björn, 6 eru lægri en 4 mega teljast á pari við Björn. Skv. því er bú Björns og Þórdísar rétt fyrir neðan meðallag í hreppnum í tölulegum samanburði.

Móðir Björns, Guðrún Símonardóttir (1741-12. október 1813), var á heimilinu og dó hér. Guðrún þessi var „orðlögð söngkona á sinni tíð og þótti raddfögur mjög“[2] og hafði átt allviðburðaríka ævi. Einnig var hér um árabil Jósevæn Björnsdóttir (1781-11. ágúst 1846) systir Björns, og bregður henni oftar fyrir sem vinnukonu á ýmsum bæjum í sveitinni.

Jarþrúður Eiríksdóttir (1761-1818) hét kona, dótturdóttir séra Björns Þorlákssonar á Hjaltabakka. Hún átti mann er Jóhannes hét Guðmundsson og bjuggu þau m.a. í Holti, á Blöndubakka og víðar en eftir lát Jóhannesar var Jarþrúður vinnukona á ýmsum bæjum, m.a. hér eitt ár á Torfalæk, síðar húskona á Skinnastöðum en á Stóru-Giljá dó hún.

Björn Björnsson dó 1827 og bjó þá í Hrútatungu í Hrútafirði og hefur bú hans þá heldur skroppið saman frá fyrri árum en fram kemur í skiptabókinni[3] að hann hafi lengi legið veikur. Hann átti þrjú börn á lífi með Þórdísi, Björn (1805-1843) bóndi síðast á Skarði í Haukadal í Dalasýslu, Gunnlaug (1812-1867) bóndi í Hrútatungu og á Óspaksstöðum, og Hólmfríði (1819-1904) síðar húsfreyja í Dalasýslu og á Ströndum. Auk þess mætti við skiptin Magnús Pétursson á Orrastöðum (síðar í Holti) og krafðist sjö ára meðlags fyrir uppeldi Samsonar Björnssonar (17. október 1815-1. mars 1893), sem var hjásonur Björns heitins og Margrétar Þorsteinsdóttur (1793-4. júlí 1846) sem nú var kona Magnúsar. Fékk hann úr skiptunum fola, tvær ær að vorlagi og nokkrar ær aðrar, sem var metið á 20 rd. og virtust allir sáttir við þann gjörning.

Þessi uppeldiskrafa átti sér þá forsögu, að Margrét var dóttir Þorsteins Steindórssonar hreppstjóra í Holti, er þar t.d. talin 1807, 15 ára og „lesandi.“ Hún er síðan heima hjá sér til 1815 en gerist þá hún vinnukona á Orrastöðum hjá Þórdísi og Birni. „Viðværilega lesandi. Fær gott orð að öllu. Viðværilega kunnandi,“ segir um hana í húsvitjunarbókinni. En nú varð samdráttur með vinnukonunni ungu og Birni bónda og þeim fæddist umræddur sonur, Samson, um haustið. Margréti var komið fyrir á Hjaltabakka hjá prestinum með son sinn ungan en var fáum árum síðar látin giftast áðurnefndum Magnúsi og fljótlega komin aftur að Orrastöðum en nú sem húsfreyja.

Magnús Björnsson á Syðra-Hóli segir nokkuð frá „samdrætti“ Magnúsar Péturssonar og Margrétar Þorsteinsdóttur ef svo má kalla. Hann nefnir að Margrét hafi í vinnukonustöðu sinni á Orrastöðum eignast soninn Samson með Birni bónda. Samson ólst upp með móður sinni og stjúpa, barst austur í Þistilsfjörð á fullorðinsárum og fór að lokum vestur um haf, sagður hafa verið efnilegur maður, „hagmæltur og hafði smiðshendur.“ Þorsteini föður Margrétar var umhugað að ná henni frá Birni á Orrastöðum, enda var það í samræmi við lög og reglur þess tíma að stía sundur ógiftu fólki sem eignaðist börn í lausaleik.

Tregða var í Margréti að fara og Björn sleppti henni nauðugur. Og með því að Þorsteini þótti stúlkan full nærri Birni á Orrastöðum í vist á Hjaltabakka ... vildi hann koma henni lengra á brott og helst í örugga höfn. Hann hafði spurnir af því að ungur maður, álitlegt búmannsefni, var að hefja búskap í Víðidal, ókvæntur og svipaðist um eftir konuefni. Þeir Þorsteinn og séra Einar Guðbrandsson á Hjaltabakka bentu Magnúsi á Margréti og buðu honum konuna. Hann tók því vel. Þarf ekki að orðlengja það er á eftir fór. Margrét fór til hans á krossmessu um vorið ... Magnús og Margrét gengu í hjónaband þegar að afstöðnum lýsingum svo sem venja var til. Feður brúðhjónanna voru svaramenn og gekk þetta allt fljótt og vel.[4]

Magnús á Syðra-Hóli var sonarsonur Magnúsar Péturssonar af síðara hjónabandi hans (ekki sonarsonur Margrétar) og ætti því að hafa öruggar heimildir um þennan framgangsmáta. Það er undanskilið í þessari frásögn að Margrét er ekki spurð hvað hún hefði viljað gera eða hvert fara enda átti hún ekki margra kosta völ, eignalaus vinnukona með barn í farteskinu. En henni er lýst svo að hún „hafði verið snotur kona álitum, lágvaxin og nokkuð gild. Búkona góð.“[5]

Faðir Björns Björnssonar hét Björn Ólafsson (1727-1816) og átti fyrir fyrri konu Helgu Hallsdóttur (1727-1777). Þau áttu m.a. soninn Ólaf (1765-12. ágúst 1825) sem bjó lengi á Hrafnabjörgum í Svínadal. Björn yngri var hins vegar sonur Björns Ólafssonar og Guðrúnar Símonardóttur og er hennar áður getið. En upp úr aldamótunum 1800 hefur gamli Björn verið kominn á áttræðisaldur, virðist a.m.k. þrotinn að kröftum og er komið á framfæri Ólafs sonar síns á Hrafnabjörgum. Svo fór að Ólafi á Hrafnabjörgum þótti framfærsla föður síns nokkur baggi og bað Björn á Hæli, hálfbróður sinn, ásjár en undirtektir voru ekki miklar. Loks skrifar Ólafur sýslumanni, sem þá var Sigurður Snorrason, og bað hann ásjár.

         Pro memoria[6]

Þar sem ég hefi nú í undanfarin átta ár undirhaldið minn gamla föður án þess að fá nokkurn styrk af systkinum mínum honum til framfærslu, hann þó verið um fyrrtéðan tíma ómagi vegna aldurs og lasleika. Að sönnu kom hann til mín með fjármuni bestandandi í tveimur hestum og nokkrum skildingum og mjög lítilfjörlegu og lélegu rusli. Þetta allt hefði kunnað að hlaupa það allra ýtrasta upp á auma 20 r[íkis]dali. Bróður míns, Björns á Hæli, hefi ég mörgsinnum leitað og það í téðu efni alltíð til forgefins. Að sönnu hefur hann nýlega uppáfallið að eiga undir yfirvaldsins úrskurði í téðu efni, en svo lengi afsagt föður sínum nokkurt tillag eður framfæri að veita. Neyðist ég því til að framfylgja ofanskrifuðu Björns uppástandi og begjöri hér með auðmjúklegast af mínu yfirvaldi, hr. sýslumanni Sigurði Snorrasyni, álits og úrskurðar í millum okkar bræðra í ofanskrifuðu efni, og forblíf með undirgefni yfirvaldsins auðmjúkur þénari.

         Hrafnabjörgum, d. 26. mars 1808,

         Ólafur Björnsson

Um þessar mundir mun Sigurður sýslumaður á stundum hafa legið í þunglyndi og kann það að hafa orsakað að hann aðhafðist lítið eða ekkert í þessu máli. Næstu 6 ár hafa sennilega liðið með látlausu jagi milli bræðranna á Hæli og Hrafnabjörgum og kom loks svo að þeir hittust fyrir sáttanefnd í Tinda sáttaumdæmi sem tók yfir Torfalækjar- og Svínavatnshrepp. Þar er bókað vorið 1814:[7]

Eftir stefnufyrirkalli af 14. apríl 1814 komu fyrir forlíkunarcommission á Reykjum, þann 20. ejusdem, bændurnir Ólafur Björnsson á Hrafnabjörgum og bróðir hans, að föður til, Björn á Hæli á Ásum. Er þeirra tvistunarefni, að Ólafur leitar eftir meðgjöf hjá Birni með karlægum föður þeirra, sem hann undirhaldið hefur umliðin 6 ár, sem einkanlega talast um, að engin meðgjöf hafi með komið af Björns álfu, nema 2 ær með lömbum. Er nú uppástand Ólafs eftir margt millital, að Björn skuli árlega tilleggja, að skilja fyrir undanfarna nefnda tíð, ei minna en 40 álnir í ám eður þénanlegu jafngildi, hverju Björn neitar og vill ei leiðast til um meir en hálfdelinn hér af, eða 20 álnir fyrir ár hvert, en býður sig til frá þessum tíma, að taka og annast föður sinn í sínum húsum hans lífstíð hér eftir upp á sömu meðgjöf af Ólafs hendi fyrir ár hvert. Þessu tilboði sýnir Ólafur sig að sönnu ei mótfallinn, en efar um að kallinn það hann snertir fáist til að sæta vegna einræðis.

         Verða þá þessi málalok, eftir marga forgefins tilraun og umbreytingu í samkomulags skilmálum, að Ólafur vill nú hætta á að innganga fullkomna sátt upp á hér innfærða síðustu skilmála og accord, fyrir commissioninnar langa og þolinmóða milligöngu, en á er skilið að Björn leggi alúð á sjálfur einnin að ávinna föður sinn til að taka þessum vistaskiptum og báðir styrki sem bræður til færslu og framkvæmdar skilmálanna grundvelli.

         Upp á þetta skilja þá partarnir sáttir og undirskrifa sín nöfn, á stað, degi og dato sem upphaflega greinir.

         Jón Jónsson, Ólafur Björnsson; Ólafur Björnsson, Björn Björnsson

Sáttanefndarmennirnir voru séra Jón Jónsson á Auðkúlu og Ólafur Björnsson á Beinakeldu (Mála-Ólafur). Má ráða af færslunni í sáttabókinni að tekið hafi drjúgan tíma að sætta bræðurna. Nú eru kirkjubækur því miður nokkuð götóttar en svo virðist sem gamli Björn hafi verið næsta ár á Hrafnabjörgum hjá Ólafi syni sínum en líklega einhvern tíma árið 1815 flutt sig til Björns, sem var kominn á Orrastaði. Þar lést þessi „þungi“ ómagi bræðranna 18. febrúar 1816, 89 ára. „Lá karlægur 2 ár, dó af elliveikindum,“ segir í prestsþjónustubók Þingeyraklausturs.

Það eru til úttektir af jarðarhúsum á Hæli þegar Björn tekur við jörðinni 1807 og líka þegar hann skilur við hana 1815. Í úttektum var megináherslan á timbrið, einkum máttarviði húsanna og uppreftið, þ.e. það sem var lagt ofan á sperrur undir torfklæðninguna. Húsakynni virðast ekki sérlega reisuleg, í báðum tilfellum er viður víða sagður fúinn og veggir óstæðilegir, einkum 1807 svo líklega hefur Björn verið góður vegghleðslumaður. Ætla má að baðstofan hafi verið rifin og byggð að nýju, því veggir eru nýlegir 1815 og hún hefur líka verið minnkuð lítillega. Sennilega hefur lítið verið átt við búrið og eldhúsið og þar er uppreftið gisið og sýnilega lélegt 1815. Göngin hafa hins vegar verið lengd og svo virðist sem Björn og Þórdís hafi byggt nýtt fjós í sinni ábúðartíð.

Texti úttektanna fylgir með í viðhengi en hér í lokin dregið fram niðurlagið á úttektinni frá 1807 en þar segir: „Uppástóð svo Björn að gjört sé 40 ríkisdala ofanálag á jörðina til þess að hún yrði gerð ábúðarfær, hvað undirskrifaðir álykta að vera skuli og Þórarinn [Guðbrandsson] tilstendur að vísu of mikið, en segist ómögulega geta það betalað allt en lofar að betala svo mikið af téðu ofanálagi sem honum sé mögulegt að missa frá sinni lífsbjörg.“

Álagið á jarðarhúsin er mjög hátt og hæpið að Þórarni hafi tekist að greiða það af fátækt sinni. En þetta var kerfi sem jarðareigendur höfðu smám saman komið á, þ.e. að leiguliðarnir bæru ábyrgð á viðhaldi bæjarhúsanna. Það fyrirkomulag mun hafa haft mikil áhrif á tregar framfarir í landbúnaði og lífskjörum þjóðarinnar á sinni tíð.

Úttekir á Hæli 1807 og 1815.


[1] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 497.
[2] Skagfirskar æviskrár 1850-1890 II, bls. 196.
[3] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED1/2. Skiptabók 1826-1828, bls. 122-128.
[4] Magnús Björnsson frá Syðra-Hóli: Feður mínir. Feðraspor og fjörusprek, bls. 59-60.
[5] Magnús Björnsson frá Syðra-Hóli: Feður mínir. Feðraspor og fjörusprek, bls. 64.
[6] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/1, örk 9.
[7] ÞÍ. Skjalasafn sáttanefnda XVI, E. Tinda sáttaumdæmi.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið