Pistlar | 29. ágúst 2023 - kl. 21:09
Sögukorn af prestinum í Hindisvík
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

1. Góðir áheyrendur.
Á námsárum mínum í HÍ – fyrir rúmum 50 árum – komu upp fréttir, voru að mig minnir í blöðunum, að prestur á eftirlaunum væri farin að stúdera fornmál við háskólann, gríska var málið, en latínu hefur hann án efa lært á námsárum sínum til stúdentsprófs.

2. Þarna birtist Sigurður Norland, skáldprestur og hugmaður af Vatnsnesi og hafði þjónað Tjarnarprestakalli þar sem prestarnir sátu að jafnaði en óðal Sigurðar horfði við norðri –  við bláma Húnaflóans, seildist til tærra himin- og listalinda þar sem sr. Sigurður bjó við Hindisvík yst á nesinu og þjónaði þaðan sóknarbörnum sínum.

3. Við ysta haf segjum við stundum og hugsum þó enn oftar, stöndum ein við ysta haf, ármenn ættanna, safnarar ljóða, skoðendur skýja og morgunroða, horfum til horfinnar stofu Bessastaða, Bensa Gröndal, Jóns Árnasonar og Sveinbjörns sjálfs með Hómer gríska að bakhjarli en Vatnsnesingurinn Sigurður sat heima í Hindisvík og starfaði þar að menntaskólanámi sínu en Lærði skólinn var líka löngu fluttur til Reykjavíkur.

4. Og skáldið kveður þar í Vík:

Eg hef kvæði kveðið hér
kastað mæði og trega
og í næði unað mér
óumræðilega.

5. Á ensku gat hann ort – og með innrími:

She is fine as morn in May
Mild, divine and clever.
Like a shining summer day.
She is mine forever.

6. Flutt gat Hindisvíkurpresturinn ljóð milli þjóða.
Hér birtist vers frá þjóðskáldi Skota, Róbert Burns í þýðingu Sigurðar:

Hvað er auður, orður, staðir?
Ætli maður hreyki sér?
Ef við njótum ævi glaðir
engu skiptir hver hún er.

7. En hvað er menning kæru Vatnsnesingar og aðrir gestir?
Jú, að varðveita arfinn frá fyrri kynslóðum, gefa skáldum rými – og þögn þegar þau kjósa að hefja andann, en hljóta jafnframt einlægt að vera á verði, því stundum birtast þar vandalar, ryðjast fram á völlinn er hæst hóar.
Verður þá stundum fátt um svör þó skáld eigi orð til alls.
Þau eru ekki alltaf tiltæk.
Menning er að bæta það sem úrskeiðis gengur.
Læknarnir okkar, fyrir einni öld eða tveimur, sóttust eftir að komast í stjórnarstöður, hreppsnefndir, bæjarstjórnir, valdastöður, það þurfti að tryggja hreinleika vatnsbóla og forðast sóttkveikjur frárennslis. Það vissu færri þá en nú. 

8. Jóhannes í Hindisvík, faðir sr. Sigurðar, hafði um skeið nokkra verzlun og var maður söngvinn sem ættmenn hans. Lærði ungur á fiðlu og var með þeim fyrstu í Húnaþingi, er keypti orgel handa heimili sínu.

9. Nágranni þeirra Hindisvíkurmanna austan við flóann, var Pétur Ingjaldsson prestur á Höskuldsstöðum, f. 1911 á Rauðará í Reykjavík, er sá ungur Sigurð á götu í borginni og segir þannig frá:

„Ég sá mann, vel á sig kominn að vallarsýn og fyrirmannlegan, klæddan klæðisfrakka með flauelskraga og harðan hatt. Það var eitthvað hetjulegt við þennan mann og framgangan festuleg. Ég taldi að þar færi útvegsbóndi sunnan með sjó en síðar frétti ég að þetta væri sr. Sigurður Norland prestur í Húnaþingi. Mátti segja að hugmyndir mínar um manninn ættu vel við, því að löngum stunduðu klerkar búskap til sjós og lands, jafnhliða boðun fagnaðarerindisins. Kynni okkar sr. Sigurður Norlands hafa staðið í 30 ár og verið bæði mikil og góð."

10. Þetta skrifaði sr. Pétur Ingjaldsson um nágrannaprest sinn vestur á Vatnsnesi, sem hafði lesið undir stúdentspróf heima í Hindisvík og var nokkuð óráðinn hvað taka skyldi fyrir hendur að því loknu og fór þá í mikið ferðalag vestur um haf árið 1907-1908 og auk þess til Danmerkur og Englands. Er Sigurður kom heim, fór hann á Prestaskólann, lauk þar prófi 1911 ásamt Magnúsi Jónssyni prófessor og voru þeir síðustu guðfræðingarnir frá þeim skóla.

Háskóli Íslands var stofnaður 1911 en þá sameinuðust Presta-, Lækna- og Lagaskólinn. Í prófbók prestaskólans segir:

„Kandidat Sigurður Jóhannesson hefur árin 1908-11 stundað guðfræðinám við Prestaskólann og einkar kostgæfilega fært sér í nyt þá kennslu sem þar hefur verið veitt. Við burtfararpróf fékk hann aðra aðaleinkunn með 71 stigum. Fyrir hegðun sína á skólanum verðskuldar hann hinn besta vitnisburð.

11. Óður, eða kvæði sr. Sigurðar um Akureyri, er góðkunnur. Kom hann þangað norður að kvöldi og vakti við ljóðagerðina um nóttina. Kom hann þá næsta dag til mín, segir sr. Pétur, og þuldi mér fyrstum þetta kvæði. Dvöldum við þar lengi upp í Höskuldsstaða-Núpum og lofuðum gæzku skaparans og fagrar himinlindir.
Var Húnaflói þá hinn fegursti og fagur fjallahringur. Höfðum við þá yfir rímur og sálmaljóð.
Sr. Sigurður rækti starf sitt af skyldurækni. Ræður hans báru vott um lærdóm hans og líka hans viðkvæmu lund, ásamt næmum skilningi á mannlífinu. 
Úr minningagrein sr. Péturs Ingjaldssonar

12. Í Hindisvík ólust upp bræðurnir þrír, sr. Sigurður elstur f. 1885, Jón læknir í Reykjavík og svo Jóhannes, tíu árum yngri en bróðir hans og var lausamaður heima á Vatnsnesi, en bjó annars með Sigurði bróður sínum í Hindisvík.

13. Í Húnaþingi og Skagafirði, varð föðursystir Hindisvíkurklerks mikil ættmóðir, hún Ástríður Helga Sigurðardóttir á Beinakeldu, en börn hennar og manns hennar Erlends Eysteinssonar voru: Eysteinn á Beinakeldu, Jósefína klæðskeri og húsfreyja á Sauðárkróki og bræðurnir á Stóru-Giljá, þeir Sigurður og Jóhannes.

14. Út á Vatnsnes er ég kominn
ýmsan þekki stig.
Þeir sem eiga hérna heima
heilsa upp á mig.

15. En flóinn bjarti stóð hjarta hans næst eins og Guðjón á Ásbjarnarstöðum segir í minningagrein sinni. Í ljóði sínu af Vatnsnesfjalli segir Sigurður:

Húnaflóa Furðustrendur:
firðir, eyjar, sker
þetta er allt í augsýn, stendur
opið fyrir þér.
Lítum austur, opnast geimur
eins og sjónhverfing,
þetta er engin „annar heimur",
aðeins Húnaþing.

16. Sr. Pétur á Höskuldsstöðum, sem ég hef þegar vitnað til og fermdi mig á sínum tíma, hann skrifaði snjalla, persónulega – og séraPéturslega – minningagrein eftir sr. Sigurð vin sinn. Þar segir hann:

17. Við gengum í eldhúsið. Ingibjörg ráðskona tók upp eldinn. Jóhannes settist við píanóið og fór að spila á það og við klerkar sungum. En von bráðar áttaði ég mig á því, að ég átti að ferma við tvær kirkjur næsta dag og það kom á mig ferðasnið. Við klerkar héldumst í hendur er ég gekk út og Sigurður hóf að syngja „Ég horfi yfir hafið" og ég tók undir. Þetta átti vel við. Þennan dag var svalt í lofti, flóinn fagri lífvana með öllu, ís fyrir landi frá fjöruborði og svo langt sem augað eygði. lífvana klakahraun, með dauðakyrrð. En við yzta haf var vorsólin að síga í sæ, líklega við Gjögurtá, lífgjafi vor hér á jörðu. Þessum undraroða brá á loftið, sem er öllum sem við Húnaflóa búa, oft undra fögur dularsýn, eins og til ódáinsheima. Enda sungum við sr. Sigurður áður en við kvöddumst á tröppunum i Hindisvík. 

En fyrir handan hafið
þar hillir undir land,
í gullnum geislum vafið
það girðir skýjaband.

18. Kæru messugestir.
Ljóð handa þjóð má hafa að orðtaki. Og ekki skerst Hindisvíkurklerkurinn þar úr leik fremur en annars staðar. Hann raðaði tignarlegum myndum í stuðla og rómaði fegurð landsins, kvaddi vini sína í ljóði, unni víkinni, nesinu góða og vegferð áa sinna.

19. Sr. Sigurður í Hindisvík sótti burt og þjónaði um tíma suður í Landeyjum, en kom norður aftur til Víkur þar sem ræturnar stóðu og stuðlarnir kvikna.

20. Gunnlaugur Haraldsson sagnfræðingur rekur starfsannál sr. Sigurðar þannig í guðfræðingatali 1847-2002:

Haustið 1911: Vígður aðstoðarprestur að Hofi Vopnafirði
Vorið 1912: Veitt Tjörn á Vatnsnesi
Sumar 1919: Veitt Landeyjaþing
Sumar 1923: Veitt Tjörn.
Sumar 1955: Lausn frá embætti.
Bjó í Hindisvík til æviloka, en dvaldist í Reykjavík á veturna.

21. Það var ekki svo að sr. Sigurður hrósaði bara heimaflóanum, Húnaflóablámanum og víkinni sinni, heldur líka höfuðborginni í Reykjavík og þessari norður við Pollinn í Eyjafirði og áður var nefnd. Hann kvað um einkennishnjúka Skagafjarðar, kónginn Þórðarhöfða og drottninguna Drangey, djásn Skagafjarðar:

1.
Gamli Þórðarhöfði hár
hundrað fjalla virði.
Ríktu heill í ótal ár
yfir Skagafirði.

2.
Þín er drottning Drangey fræg
djarfleg haldið vörðinn,
sleppið engum illum sæg
inn á Skagafjörðinn.

3.
Málmey þér við hægri hlið
hrósar gróðri jarðar.
Þið eruð dýrust, dæmum við,
djásnin Skagafjarðar.

4.
Blóm í haga gullin gljá
glansa faguryrði.
Það er saga að segja frá
sumri í Skagafirði.

22. Órímaður kveðskapur átti ekki upp á pallborðið hjá Sigurði og ekki sparaði hann stuðlana þegar kom að því að láta í ljós álit sitt á þess konar ljóðasmíð:

Rímlaust kvæði að réttum sið
ritgerð fyrr var kallað
en sem kvæði álitið
ákaflega gallað.

Meðan áttir þekkir þjóð
- þagni sláttur nýrri. -
Héðan láttu óma óð
öllum háttum dýrri.

Þeir sem geta ekki ort
af því rímið þvingar
ættu að stunda annað sport
eða hugrenningar.

23. Heilt ljóð orti Sigurður af þessu sama tilefni, nefnist Skáldahróður. Fyrsta erindi af þremur hljóðar svo:

1.
Enginn lærir atómljóð
eða syngur rímlaus kvæði.
Enda þó þau þyki góð
þau eru bara lesin hljóð
án þess svelli í æðum blóð
eða nokkuð fjörið glæði.
Enginn lærir atómljóð
eða syngur rímlaus kvæði.

2.
Beri enginn á það skyn
orð með söng að kveða af munni
mörgum þætti þetta kyn
það er meiri ósköpin
ef svo verður listin lin
lengst og best sem þjóðin unni
beri enginn á það skyn
orð með söng að kveða af munni.

3.
Íslensk þjóð er alltof slyng
að hún hafni sínum kvæðum.
Ýmsir þekkja Íslending
út um heimsins víðan hring
varla telja hann vesaling
vanti sumt af heimsins gæðum
hann er frægur fyrir þing
frægstur þó af eigin kvæðum.

24. Ég hef, áheyrendur góðir, gleymt mér í ljóðum og minningum um sr. Sigurð, en ég vildi svo gjarnan að skáldin gömlu hefðu fengið að senda ljóðin milli sín eins og við getum gert í dag með fésbók.

25. Einörð standa þau vörðinn um Vatnsnes með ljóðum sínum, byggðirnar kringum flóann, vestan frá Látravík og Hornvík, austur að Víkum, Höfnum og Ásbúðum, inn í Forsæludal og að Réttarhóli, austur að Fossum og Kóngsgarði, ármenn og skáld, megi lifa ljóðastundir – og ljóðafundir og varðveita tign og snjalla texta til Húnvetninga og Strandamanna á ókomnum árum.

26. Nú kemur að lokaljóði í þessari samantekt minni af ljóðum og starfi Sigurðar í Hindisvík. Það heitir Inn Húnaflóa og maður skynjar þar fögnuð Víkurdrengsins er háir núpar og lágar strendur birtast sjónum:

1.
Nú beygir fleyið fyrir Horn,
við förum bauginn stundarkorn
en brátt er land á bak og stjór
og blikar sléttur sjór.
Hér Reykjahyrnu syðsta sér,
í sama miðið fjöllin ber
er hér um flóann halda vörð
þau Horn og Drangaskörð.

Við könnumst nú við Geirólfsgnúp
er gengur fram við Strandadjúp.
Af Drangajökli birtu ber
sá bjarmi líkur gulli er
og sveit er dýr
á sumri hýr
en samt hér enginn býr.

2.
Nú strik er sett og stefna bein
við stýrum djúpt af Gjögurshlein
nær miðjum flóa móti sól
á miðum fljóta ból.
En sjómenn knáir koma heim
og konur ungar fagna þeim.
Um nes og vík og Bala bær
er byggður fjær og nær,
í grimmum dal með galdrana
á grundunum úti á Kaldrana
og eins og saga innir forn
við Ennisstiga og Kaldbakshorn,
und felli há
og hyrnu blá
má húsabæi sjá.

3.
Þó víða ennþá vatni lönd,
af víði rís hin lága strönd
hjá Hindisvík og Vatnsnestá
og Vitanes þar hjá.
Þar höfn er fyrir Húnaþing
er hefur fagra innsigling,
til vinstri handar hamrabrún
á hina gróin tún
og úti fyrir eyjar, sund
en inn af vogi sand og grund
og vötn og sléttur víðlendar
hjá Víkurnúp, er starir þar
við heiði hátt
á landið lágt
og lagardjúpið blátt.

Erindi um skáldskap og ævi sr. Sigurður Norland sem flutt var í Hamarsbúð sunnudaginn 27. ágúst sl.
Smáletraða textann flutti ég ekki þó skráður sé en húsfyllir var þar í messukaffinu rétt eins og var í Tjarnarkirkju lítilli stundu fyrr.

Eftirmáli um sumarmessur 2016-2022:
Húnaflóabárur brostu við messufólki – sun. 27. ág. s.l. – og til okkar Guðmundar félaga míns af organistabekkjum í Flóakirkjum syðra, úr masi heitra lauga og ekki síst frá Prestsbakkaviku í fyrrasumar, er við ókum s.l. sunnudag norður yfir heiði til fundar við Vatnsnesinga og kirkjugesti víðs vegar af landinu.

2. Áðurnefndum tónleikum í Prestbakkakirkju í fyrra lukum við með orgeltónleikum í kirkjunni 17. júní og þá kom bariton til liðs við okkur, Jón Elías hafnsögumaður frá Ölvesholti, vinur okkar úr Flóanum, sem hafði stutta viðdvöl þar norður við Húnaflóann, söng og rétt náði að drekka með okkur kirkjukaffi eftir tónleikana og brunaði svo suður í Reykjavíkurhöfn til vinnunnar.

3. Þessi nettu tónleikar, þar á Bakka, áttu að vera – og urðu – eftirspil við nokkrar sumarmessur norður við flóann bláa, er hófust 2016 með tilstyrk sr. Bryndísar á Skagaströnd, sem söng síðsumarsmessu í Hofskirkju það sama sumar, en þar á prestsetrinu Hofi fæddist Jón bókavörður 197 árum áður.
Og okkur sýndist – nokkrum – að við yrðum þannig tilbúnari að hafa aðra messu og meiri – og messukaffi í Skagabúð 17. ágúst 2019 og fagna svo árunum öllum og sögunum sem við höfum lesið í þjóðsögunum og rifja upp stranga ævi þessa iðjusama brautryðjanda á menningar- og listasviðinu.
Jón prestsonur – og Skagakonunnar Steinunnar varð skólamaður, biskups- og bréfaritari og umsjónarmaður þjóðsagnasöfnunar.
Þau hjónin Jón og Katrín Þorvaldsdóttir, studdu til náms og ólu upp Þorvald Thoroddsen náttúrufræðing og kennara við Möðruvallaskóla.
Þorvaldur missti ungur föður sinn, en Katrín var móðursystir Þorvaldar og Breiðfirðingur.

4. En við gleymdust ekki norður á skaganum breiða og söguríka eins og við höfðum búið okkur undir og árið fyrir afmælisár, þ.e. 2018, komu tveir Jónar út á Skaga til liðs við okkur í Jónshirðinni með ávörp sín og kannski lítið eitt af lukku í vösum.
Skagabúð varð að ráðstefnuhöll fyrir afmæli Jóns Árnasonar, tveir snjallir Skagstrendingar gerðu tillögu um undirbúningsnefnd sem hittist með safnstjórum Landsbóka- og Árnasafns, Erni, Rósu og fleiru góðu fólki um haustið suður á Kaffi Vest við Hofsvallagötu og nefndin átti eftir að standa fyrir ekki minna en þremur samkomum fram eftir hausti til að minnast brautryðjenda og tveggja alda. Við Lárus Ægir og Kristján Sveinsson tókum þátt í samkomunni á Skagaströnd á sjálfum afmælisdegi, en söfnin héldu svo hvort sína samkomu síðar um haustið.

5. Við fengum, gesti úr borginni til hátíðarinnar, landsbókavörðinn sjálfan, Ingibjörgu Steinunni og forsetann Guðna Th. Hún kom norður að Hofi, til morgunmessu og þau bæði til Skagastrandar þar sem efnt var til öflugs málþings um miðjan daginn. En þar á Hofi fylltu góðir gestir kirkjuna og heimaprestur, Bryndís Valbjarnardóttir stýrði og predikaði í ellefumessunni með glæsibrag og kvartett Hugrúnar organista blómstraði.

6. Þær urðu fleiri sumar- eða sögumessurnar eins farið var að kalla þær þegar kom vestur á Vatnsnes sumarið 2017 og kvæðamennirnar góðu frá Ásbjarnarstöðum, tóku stemmu í kirkjudyrum rétt eins og s.l. sunnudag, Pálína Fanney organisti æfði kórinn og lék í messunni og Róbert yngri á Geitafelli bauð til kirkjukaffis, en þangað kom Kristín djákni við Prestbakkakirkju og sumarmessurnar eignuðust þar gott skjól hjá sr. Guðna presti á Melstað og Kristínu djákna  á Borðeyri meðan messufært var fyrir kóvídpestinni.

7. Það er yndislegt að messa á sumrin, góðar minningar eru þar við bundnar, frá Bólstaðarhlíðarkirkju, Goðdalakirkju, Tungufells- Hreppa- og Flóakirkjum og nú frá kirkjunum við Flóann bláa þessi síðustu ár.
Stundum masa ég við sagnfræðinginn Jón Torfason og prestsoninn Gunnar, vin okkar og bekkjarbróður Jóns um sumarmessur, t.d. í Stað í Steingrímsfirði. Þá þyrfti kirkjukaffið að vera í fernum og súkkulaðikexi eins og við Guðmundur höfðum það í fyrra til að íþyngja ekki þeim sem þurfa venjulega að sjá um góðgerðirnar við hefðbundnu messurnar, eins og á jólum og páskum.
Við kynntumst því á löngum ferli hagyrðingamóta að mikilvægt er að íþyngja ekki þeim sem þurfa að standa í stafni að jafnaði. Tókst misjafnlega. Dálítið erfitt að minna á þetta, en líklega skárra með skriftum.

8. Já, það svona slapp með kaffiveitingarnar á Prestbakka í fyrra, ég var heppinn að gestafjöldinn var í lægri mörkum, þó venjulega sé góður fjöldi gesta á óskalistanum en enginn bar sig upp yfir súkkulaðikexinu og einni búðartertu, masið gekk liðugt, allir skildu glaðir og sumir nokkru fróðari.

9. Sigurjón frá Fossum átti vini í næsta húsi þar sem hann bjó við enda Árbrautarinnar á Blönduósi. Það voru hjónin Alda og Sigurður en bjuggu áður á Sviðningi og Kálfshamri á Skaga. Þetta góða fólk kom saman með mér til fyrstu sumar- og Hofsmessunnar 2016, voru geiglausir kirkjugestir og einarðir forsöngvarar, óku síðan vestur að Prestbakka og Tjörn á næstu sumrum þegar fjölgaði messunum hjá okkur.
Sigurður og Sigurjón eru nú báðir látnir, blessaðir séu þeir og minning þeirra. Að rifja upp þessa gengnu reisur og ráðagerðir minnir okkur á hverfulleika stundarinnar og tímans þunga nið.
Liðin sjö ár!

10. Heimamaðurinn, Lárus Ægir á Skagaströnd varð lykilmaður í nefndinni, skipulaginu og síðar framkvæmd þegar dagurinn merkti og merki rann upp, laugardagurinn 17. ág. 2019.

11. Sundlaugin og þó sérstaklega heiti potturinn við Íþróttahúsið á Blönduósi átti líka góðan þátt í að efla okkur til að taka vel á móti tvöhundraðasta afmælisdegi Jóns Árnasonar. Bóthildur baráttukona Halldórsdóttir kom út í Skagabúð með Sigríði Ólafsdóttir, móður mina, á Jónsdegi 2018 eins og Bergþóra tengdadóttir á Akureyri sem lagði lykkju á leið sína til höfuðborgarinnar með fylgdarlið sitt og kostaði móður hennar týnd gleraugu sem reyndar komu í leitir nákvæmlega ári síðar en smáupptalning sem þessi segir okkur hve margir lögðu hönd á plóg eða lögðu nokkuð af mörkum og svo kom að 200. afmælisdegi Jóns Árnasonar sem fékk minnismerki við Höfðann undir Spákonufelli eins og við, aðrir landsmenn.

12. Og messan á Tjörn s.l. sunnudaginn var sannarlega sumarmessa, en þó hreint ekki undirbúin af okkur sem hófumst handa á Hofi 2016 og héldum postludium okkar í Prestbakkakirkju 17. júní 2022. En hún kveikti hugleiðingar masara.

13. Sr. Magnús Magnússon á Staðarbakka, sóknarnefnd Tjarnarkirkju og Húsfreyjur á Vatnsnesi eiga allan heiður af stórum og yndislegum messudegi s.l. sunnudag, en stundin sú sem við áttum þar hefur orðið mér tilefni að rifja upp aðrar sumarmessur frá þessum síðustu sumrum sem snerust um að efla okkur sjálf, drífa okkur upp úr drómanum, finna okkur stétt til að standa á ef til þess kæmi að við yrðum útundan eða bara gleymdust í strjálbýlu héraði.

Ítarefni:

SN: Akureyri: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/ljod.php?ID=5440
Messur féllu niður v/kóvíd: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=18321
Ársgömul Hindisvíkursögukorn: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=19437
SN/Nóg er yndi í Norðurlandi: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=14000
Hofsmessa 2016: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13102
Af sumarmessum frá 2016: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=19344
Hátíð á Skaga 2019: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=16098

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga