Staðföst lögregludrótt í Hafnarfirði
Staðföst lögregludrótt í Hafnarfirði
Pistlar | 03. september 2023 - kl. 20:19
Stökuspjall: Stuðlaföll hjá kumbli Jóns
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

1. Þó að leiðin virðist vönd
vertu aldrei hryggur;
það er eins og hulin hönd
hjálpi er mest á liggur. Jón S. Bergmann 1874-1927

2. Þessi hughreystandi vísa áskotnaðist mér einhvers staðar á vegferð minni meðan ég sat í öðrum bekk unglingadeildar á Blönduósi 1960-61, hljóp í boltaleik með Gumma Ara, Gesti Þóra og öllum hinum í löngu frímínútunum, á vellinum markalausum í brekkunni fyrir utan skólann og sigurinn fólst í því að halda boltanum á vallarhelmingi mótherjanna meðan skólabjallan hringdi inn. Voru auðveldar reglur og spöruðu dómara.
En stundum var ég, og við jafnvel 2-3 strákar, inni í þessum frímínútum með stelpnahópi og skólastjóranum Þorsteini sem spilaði á skólaorgelið og við sungum Fyrr var oft í Koti kátt og önnur æsku- eða ættjarðarlög. Svo var stundum ekki annað í boði en vera úti í boltanum eða iðka aðra hreyfingu sem var sannarlega enginn vandræðakostur.

3. Í yngri unglingabekknum, fyrsta bekk, voru stelpur í góðum meirihluta og þær – og líklega við nokkuð mörg – komum okkur upp minningabókum þegar leið á veturinn og vorum að biðja skólasystkinin að skrifa í og þá greip ég oft til þessarar vísu Jóns sem birtist hér efst í þessu stökuspjalli. Svo var auðvitað sjálfsagt að setja m. k. einu sinni á síðuna: Mundu mig, ég man þig. Vísuna – Allar stundir okkar hér, er mér ljúft að muna. Fyllstu þakkir flyt ég þér – fyrir samveruna – notuðu líka ýmsir og kannski ýtti það undir mann að sækja í og leita uppi nýja vísu og minna notaða.

4. Skáldið góða úr Miðfirði, Jón S. Bergmann, kom enn og aftur upp í hugann þegar ég kom inn á Byggðasafn Hafnarfjarðar annan dag septembermánaðar sl. í haustferð Iðunnar, kvæðamannafélags borgarbúa og nágranna frá 1929.
Þeir sem stjórna safnhúsum þar í Hafnarfirði völdu lögregluþema fyrir þetta ár og þar var líka vörpulegt og álitlegt fólk að störfum, svartklæddar gínur, þolinmóðar að hætta slíkra stöðumanna svo við gestir fengum ýmislegt að skoða og létum okkur ekki liggja á þegar við gengum um hæðir þrjár í aðalhúsi safnsins.

5. En hagyrðinginn snjalla, Jón Sigurð Sigfússon Bergmann, kynnir Íslendingabók þannig:
Var á Króksstöðum Staðarbakkasókn 1890.
Sjómaður í Miðhúsi Útskálasókn 1901
Sjómaður, lögreglumaður og skáld í Hafnarfirði.

6. Sívertsenshús í Hafnarfirði var sömuleiðis skemmtilegt að skoða, en við Iðunnarfélagar vorum í upphafi heimsóknarinnar boðin velkomin af fróðum safnverði með stuttum úrdrætti úr byggðar- og verslunarsögu Hafnarfjarðar þar sem Bjarni riddari Sívertsen, f. 1763, kom mjög við sögu.

7.  Um Stephan G. Stephansson, bóndann og skáldið í Vesturheimi, orti Jón S. Bergmann:

1. Stefjadísin stórlyndan
Stefán kýs til þinga
manninn vísa og vaskastan
Vestur-Íslendinga.

2. Frónskur sveinn í ferðum þeim
fer ei seinna en dagur
svífur einn í söngvaheim
sem er hreinn og fagur.

3. Stuðlaföllin frjálsa leið
fram úr öllu greiddu
álfa’ og tröll um árdags skeið
út úr fjöllum seiddu.

4. Vestra hallar hlýju dags
hrímtár falla í skjóli.
Sóley kallar: „Komdu strax
Klettafjalla sjóli!“ JSB

8. Þekktastur var Jón fyrir snjallar stökur:

Ástin blind er lífsins lind,
– leiftur skyndivega –
hún er mynd af sælu og synd
samræmd yndislega. JSB

9. Að mér hrapa háð og spé
hrekkjum napurt glapinn.
Ég hef tapað frægð og fé
fyrir gapaskapinn. JSB

10. Jón S. Bergmann kvaddi vísnasafnarinn og hagyrðingurinn, Sigurður Gíslason með nokkrum vísum:

1. Liðin Bergmanns ævi er
enduð hetjusaga
manns er átti andbyr hér
alla sína daga.

6. Hræddist ekki græðgisgný
glott né yggling brúnar
– þar til lögðust unnir í
efstu sigluhúnar. SG

11. Skáldbróðir Jóns af Vatnsnesi, Valdimar K. Benónýsson, minntist hans með snjöllum hringhendum:

1. Feigðin leggur björk og blóm
blandar dregg í skálar.
Nærri heggur dauðadóm
dult á vegginn málar.

2. Dögum hljóðum dregur að
dofnar gróður Braga.
Jóns við ljóð er brotið blað
Bergmanns þjóðarhaga.

3. Hinstu njólu fékk ´ann frið
feginn bóli náða.
Bernsku hólinn heima við
hlúði skjólið þráða.

4. Ylur vaknar muna manns
margt úr raknar leynum.
Allir sakna söngvarans
svellin slakna á steinum.

5. Þjóðin finnur að hún á
yl frá kynningunni.
Ljóðin vinna löndin hjá
ljúfu minningunni.

6. Margan bjó hann góðan grip
gjarnan sló í brýnu.
Á það hjó hann sverðsins svip
sem hann dró í línu.

7. Beina kenndi lista leið
lag til enda kunni.
Orðin brenndu og það sveið
undan hendingunni.

8. Hans var tunga hröð og snjöll
hneigð að Braga sumbli.
Standa farmanns stuðlaföll
stolt hjá dáins kumbli.

Meira efni og heimildir:
Jón S. Bergmann: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/hofundur.php?ID=15321
Minnisvarði um JSB 2014: https://www.feykir.is/is/frettir/minnisvardi-um-jon-s-bergmann
Byggðasafn Hafnarfjarðar: https://byggdasafnid.is/
Sívertsenshús: https://byggdasafnid.is/syning/sivertsens-husid/
Valdimar K. Benónýsson: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/ljod.php?ID=5872
Sigurður Gíslason: Eftirmæli um JSB: https://bragi.arnastofnun.is/ljod.php?ID=5943
Kvæðamannafélagið Iðunn: https://www.rimur.is/

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga