Pistlar | 12. september 2023 - kl. 09:08
Það er svo gott að vita til þess og fá að hvíla í því trausti sem fylgir því að fá að ramma daginn og hvert lífsins spor og verkefni inn með signingu og bæn. Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda. Í trausti þess að hann muni yfir vaka og vel fyrir sjá.
Okkur var að vísu aldrei lofuð auðvel ævi. Það eina sem öruggt var þegar við fengum dagsbirtuna í augun var að fyrr eða síðar myndu augu okkar bresta og hjartað hætta að slá. En okkur var lofað, óverðskuldað, með táknrænum hætti, við blessun skírnarinnar, eilífri samfylgd af höfundi og fullkomnara lífsins. Sambandið er þráðlaust og greitt af honum í eitt skipti fyrir öll og mótframlag okkar er ekkert. Aðeins að fá að þiggja það að hvíla í náðarfaðmi frelsarans á ævinnar göngu og inn í dýrð hinnar himnesku sælu þegar ævinni lýkur.
Hvatning og fyrirheit
Hvatningin sem við hins vegar fengum með okkur út í lífið var að elska Guð og virða og þakka fyrir lífið. Að elska okkur sjálf og samferðafólk okkar eins og um okkur sjálf eða sjálfan Guð væri að ræða. "Allt sem þér hafið gert einu minna minnstu systkina, það hafið þið gert mér," sagði frelsarinn Jesús. Og hann sagði líka, "dæmið ekki, svo þið verðið ekki sjálf dæmd. Því með þeim dómi sem þið dæmið munuð þið sjálf dæmd verða." "Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum." "Hví sérð þú flísina í auga náunga þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í þínum eigin augum." "Drag fyrst bjálkann úr eigin auga áður en þú ætlar að fara að finna að verkum náunga þíns." Lifið með fyrirgefandi hugarfari. "Fyrirgefið eins og ég hef fyrirgefið ykkur," sagði Jesús. "Enginn á meiri kærleika en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína." Hvað þá svo þau fái lifað um eilífð.
"Verið í mér, þá verð ég í ykkur." Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja." "Ég lifi og þú munt lifa." Ef þú vilt þiggja þá lífsins náðar gjöf. "Ég verð með ykkur alla daga, allt til enda veraldar." "Sjá, ég geri alla hluti nýja."
Lífið heldur áfram
Markmið eru sett, áföngum er náð, tímamót verða. Fjallið er klifið, toppnum virðist náð. Þá koma í ljós nýir toppar, ný markmið, nýir áfangar.
Þrátt fyrir öll tímamót og fjarlæg markmið sem oft virðast eins og lokatakmark þá heldur lífið alltaf einhvern veginn áfram.
Þrátt fyrir allt mótlæti, torfærur og brekkur, baráttu og ósigra. Og jafnvel þótt ævinni ljúki um síðir. Já, jafnvel þrátt fyrir sjálfan dauðann, sem eru sannkölluð tímamót, þá heldur lífið áfram og ekkert fær það stöðvað.
Líf mitt sé falið þér eilífi faðir. Þér sem heyrir bænir mínar hverjar sem þær kunna að vera. Faðminum þínum ég hvíla vil í.
Þakklæti færi ég öllum þeim sem tilbúin eru að umvefja og styðja, jafnvel í veikum mætti, styrkja og næra með því að reynast lífsins ljósgeislar og englar á ævinnar göngu.
Með umvefjandi samstöðu kærleiks- og friðarkveðju.
Lifi lífið!
Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.