Pistlar | 12. október 2023 - kl. 10:27
Me├░ krabbamein ├ş 10 ├ír
Eftir Sigurbj├Ârn ├×orkelsson

Það reynist hverjum sem greinist með krabbamein þungbærar fréttir. Sérstaklega þegar viðkomandi er á miðjum aldri eða yngri. Eins er það mikið áfall fyrir fjölskyldu viðkomandi. Þá ekki síst að fá þau tíðindi að undangengnum uppskurði og þrjátíu og fimm skipta geislameðferð að meinið hafi sloppið út í kerfið og sé komið til að vera. Dagarnir og lífið verður öðruvísi og ekkert eins og áður var.

Þá er ekkert dýrmætara en gott utan um hald. Að eiga góða að. Jafnvel sístækkandi fjölskyldu og vini sem ekki yfirgefa, þótt á móti blási.

Einnig vil ég minnast á heilbrigðiskerfið okkar, starfsfólk Landspítalans. Alla þá frábæru lækna sem þar starfa að ég tali nú ekki um hjúkrunarfræðingana og teymin í tengslum við krabbameinsgöngudeildina.

Þá ber að þakka fyrir þær lyfjaframfarir sem orðið hafa á undanförnum árum þar sem úrvalið og meðferðarmöguleikarnir verða æ fjölbreyttari og skila sínu í mörgum tilvikum, þrátt fyrir margvíslegar aukaverkanir að vísu. Og þótt virkni lyfjanna virðist oft aðeins til skamms tíma ef endanleg lækning er ekki í sjónmáli.

Barátta og ótti, bjartsýni og þakklæti

Ég minnist þeirra sem þurft hafa að láta undan í baráttunni við krabbameinin sín og bið Guð að blessa fólkið þeirra og öll þau sem eftir standa og syrgja og sakna. Einnig bið ég fyrir þeim sem enn standa í baráttunni og þrá að fá að vera með í lífsins leik enn um sinn.

Um leið og ég þakka fyrir þau öll sem fengið hafa bót og lækningu meina sinna og gengið út í daginn með bros á vör en leyfa sér þó mögulega ekki að fagna um of af ótta við að meinið geti tekið sig upp að nýju.

Að fá að hvíla í faðmi frelsarans

Það besta er að fá að hvíla í faðmi frelsarans og vera leiddur í gegnum dagana og öll lífsins tíðindi af honum. Og það er svo merkilegt hvað hægt er að upplifa spennandi og jákvæða hluti í flestum kringumstæðum, þrátt fyrir allt. Því er það svo mikilvægt að taka eftir öllum litlu blessununum sem maður fær að upplifa og eru allt í kringum mann fremur en að einblína á eitt stórt kraftaverk. Því þegar allt kemur til alls eru það allar litlu og smáu blessanirnar sem mynda hvert púsl í lífsins kraftaverki.

Takk fyrir lífið og allar þess undursamlegu gjafir í stóru sem smáu.

Með einlægri baráttu- samstöðu- og kærleikskveðju.

- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga