Fyrri mynd
Nćsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Húnahornið
Open Menu Close Menu
Húnahornið
Sunnudagur, 3. desember 2023
   m/s
C
Ókeypt
huni.is - RSS-efnisveita
 
Desember 2023
SMÞMFL
262728293012
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 01:10 N 4 -8°C
Laxárdalsh. 01:10 A 4 -7°C
Vatnsskarð 01:10 ASA 3 -5°C
Þverárfjall 01:10 NA 6 -4°C
Kjalarnes 01:30 0 0°C
Hafnarfjall 01:10 VSV 2 -5°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. nóvember 2023
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
27. nóvember 2023
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
21. nóvember 2023
62. þáttur. Eftir Jón Torfason
18. nóvember 2023
Ingi Heiðmar Jónsson
11. nóvember 2023
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
08. nóvember 2023
Eftir Bjarna Jónsson
06. nóvember 2023
61. þáttur. Eftir Jón Torfason
04. nóvember 2023
N 65° 39' 32.04" V 20° 16' 55.2"
Húnabraut 26 á Blönduósi. Mynd: Húnavaka 1984 / timarit.is
Húnabraut 26 á Blönduósi. Mynd: Húnavaka 1984 / timarit.is
Pistlar | 12. október 2023 - kl. 12:48
Sögukorn: Mér var sjálfum í mun að reyna
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

1957

1.    Jónas Tryggvason fær orðið í þessum sögukornum, hann hélt dagbók út árið 1959:

2.    Nýársdagur. Nýja árið heilsar með björtu og kyrru veðri og ofurlitlu frosti. Það var annars kyrrt og gott veður yfir hátíðarnar og allt annað en á jólaföstunni.
      Það var messað á Bergsstöðum og Nonni fór þangað með séra Birgi. Það má heita sæmilegt bílfæri eftir öllum Svartárdal, en sums staðar orðið dálítið hált. Snjórinn er ekki til fyrirstöðu á vegunum. Blöndudalur er fær fram í botn og Auðólfsstaðaskarð upp að á, en það er óvanalegt á þessum árstíma.

3.    2. jan.: Í kvöld verður kvöldvaka kórsins í samkomuhúsi Svínavatnshrepps. Veður og færi er upp á það allra besta og er sennilegt að þarna verði fjölmennt úr þessum tveim sveitum, en samkoman var ekki auglýst utan þeirra. Vitað er um a.m.k. 60 manns sem ætla hér ofan fyrir ána og verður fullskipað í 12 bíla en sumir verða að fara tvær ferðir. Trúlegt er, að ekki verði færri samkomugestir úr Svínavatnshreppnum og þannig 120-150 manns, sem þarna verði í kvöld.

4.    Það er ætlunin að halda aðra kvöldvöku með svipuðu sniði hér í sveitinni, væntanlega seint í þessum mánuði eða snemma í febrúar.

5.    3. jan. Kvöldvaka kórsins í gærkveldi tókst vel eftir atvikum. Undir hálft annað hundrað manns sóttu samkomuna og var fólkið yfirleitt mjög ánægt. Sumir sögðu að þetta væri best heppnaða samkoma, sem þarna hefði verið haldin um fjölda mörg ár. Kórinn söng tíu eða ellefu lög, tríó söng dægurlög með gítar og harmónikuundirleik, tveir menn lásu upp og loks var þessi þáttur okkar Jósefs, sem að vísu fór ekki eins vel úr hendi og við hefðum viljað vera láta.
      Um helmingur samkomugestanna var hér austan yfir, en annars var vel sótt úr Svínavatnshreppnum, einkum af ýmsu því fólki, sem annars sækir ekki samkomur ýkja mikið. Ein kona kom nú t. d. í fyrsta sinn í samkomuhús sveitar sinnar, en það var þó byggt fyrir 20-30 árum síðan.
      Við megum vera ánægðir með hvernig þetta tókst.

6.    7. jan. Ég skrapp að Varmahlíð í gærkveldi á þrettándasamkomu Heimis. Mikið fjölmenni var í Varmahlíð nú eins og löngum áður, en sagt var, að þetta yrði síðasta samkoman þar áður en húsinu yrði lokað vegna viðgerðar og endurbóta.
      Söngur kórsins var tæpast eins góður og í fyrra um þetta leyti en annars er kórinn góður eins og hann hefur nú verið í mörg ár. Það er mun meiri festa og öryggi í söng Heimis en hjá okkur hér og raddirnar eru flestar miklu samstæðari.
      Það var gaman að skreppa þetta, en ég kom ekki heim fyrr en um fjögurleytið í nótt og hef satt að segja verið í latur í dag og litlu komið í verk.
      Í kvöld er vegafélagsfundur í Austurhlíð og söngæfing annað kvöld og rekur þannig hver vökunóttin aðra því allt gengur þetta meira og minna fram á nótt.

7.    9. jan. Þessa dagana ætti sólina að fara að sjá hér, en það er skýjað loft á degi hverjum og sér ekki til sólar. Í nótt snjóaði talsvert og er jafnasnjór í dag, laus að vísu, en allmikill fyrirferðar.
      Það kyngdi niður í gærkveldi á svo sem tveim tímum, meðan við vorum á söngæfingunni svo að óakandi var þegar flytja átti Svartdælingana heim. Máttu þeir Nonni og séra Birgir snúa við hjá Gili, en þeir gengu áfram sex framan úr dalnum. Hvorttveggja var, að skafkófið var þá upp á það mesta og svo hitt, að það sá naumast fyrir veginum vegna fannarinnar. Það gekk svo tiltölulega vel til baka og heim, en varð að aka mjög gætilega til þess að halda veginum.
      Þessi söngæfing var betur sótt en aðrar æfingar í vetur, vantaði aðeins einn mann, enda varð nú mun meira gagn að kvöldinu en löngum áður. Ákveðið var að reyna að koma á kvöldvöku hérna megin árinnar, helst seint í þessum mánuði. Stjórnarkosning fór fram og þeir séra Birgir, Jósef á Torfustöðum og Mundi bróðir.
      Í kvöld voru lesin fjögur kvæði mín í útvarpið. Höskuldur Skagfjörð las og þótti mér ekki vel lesið hjá honum, auk heldur las hann skakkt, hvað eftir annað. Það kom til tals með þennan upplestur þegar ég var fyrir sunnan í vetur og óskaði ég þá eftir ákveðnum upplesara, en það hefur einhverra hluta vegna ekki gengið fyrir sig.

8.    13. jan. Í dag var hér rólegt og lítið um að vera nema hvað Hjörleifur/Marka-Leifi kom um miðjan dag og hefur síðan ekki slegið mikið slöku við kasínuna. Enn er hann á hnotskóg eftir óskilaskepnum og hefur nú þegar fengið augastað á einu trippi a. m. k. sem hann telur vera að norðan. Það fer löngum svo, að honum berst einhver reki á fjörurnar á þessum ferðalögum sínum.

9.    14. jan. Leiðindaveður hefur verið í dag, hvass suðvestan í nótt, en vestanstormur og raunar rok með morgninum og var eitt mesta veður, sem hér gerir af þeirri átt. Frostlaust hefur verið, en það klessti í í nótt og er ekki sérlega aðgengilegt til jarðarinnar eins og er. Spáð er sunnanátt og þíðviðri í nótt.
      Ég byrjaði að vinna í götukústum í morgun og kom miklu í verk, dró í rúmlega 70 stykki. Ég þarf að herða mig við að koma þessu frá mér, fyrstu sendingunni til SÍS núna í þessum mánuði.

10.    15. jan. Það var jafnblítt og fagurt veðrið í dag og það var leiðinlegt og hryssingslegt í gær, suðlæg gola með allt að 5 stiga hita og loftléttu. Sólina sá hér í rúman klukkutíma.

11.   16. jan. Í fyrsta sinn á þessum vetri mættu nú allir á söngæfingunni í gærkveldi og var þetta allgóð æfing.

12.   19. jan.  Tvenn merkisafmæli eru hér á næstu grösum í dag. Runólfur á Kornsá sjötugur og Guðmundur á Guðlaugsstöðum fimmtugur. Nonni fór í Vatnsdalinn í dag, en aðrir halda víst kyrru fyrir hér.
      Þau eru hér Holtshjónin, Jósefína er búin að vera rúma viku, en Ólafur kom í gærkveldi. Það er ætlunin að spila eitthvað í kvöld og halda þannig til jafns við veislugestina, a.m.k. hvað vökuna snertir.
      Miklir skaðar hafa orðið í vestanofsanum þessa viku, einkum á Vestfjörðum, en þar má heita, að ofviðri hafi verið af og til alla vikuna.

13.    20. jan. Sunnudagur og skemmtifundur hjá ungmennafélaginu í kvöld, þar sem boðið er ungmennafélagi Svínvetninga. Sennilegt að þetta verði allvel sótt. Við spiluðum fram til klukkan þrjú í nótt eða þangað til Nonni kom heim úr afmælisfagnaðinum á Kornsá. Þar hafði verið margt manna og góður gleðskapur – og þó allt í hófi. Á Guðlaugsstöðum sátu menn einnig í góðum fagnaði fram eftir nóttu, en minna mun þar hafa verið um hinar dýru veigarnar.

14.    21. jan. Alþingi kom saman í dag að loknu jólafríi þingmanna. Er þess nú að vænta, að ekki hafi þetta langa jólafrí verið látið hjá líða í algeru aðgerðaleysi og að þess sjáist nú, fyrr en seinna, einhver merki í þinginu.

15.    22. jan. Mágkona mömmu, Þórunn Hannesdóttir, dó í nótt í Reykjavík, 83 ára að aldri, hún hafði legið alveg rúmföst síðan snemma í haust og oft mjög þungt haldin. Hér hefur góð kona lokið sínum starfsdegi, ein þeirra kvenna, sem kallast mega englar á jarðríki.

16.    23. jan. Nú hefur snjóað mikið sunnanlands og er látið mikið af samgönguerfiðleikum í Reykjavík og nágrenni. Hér er enn aðeins smáföl á jörð og allir vegir færir sem um sumardag væri.

17.    24. jan. Norðurleiðabíllinn, sem fór suður í gær og var hér á ferð á venjulegum tíma, enda færð ágæt norður undan, kom ekki til Reykjavíkur fyrr en klukkan hálfsjö í morgun.

18.    25. jan. Þorri heilsar ekki kuldalega með suðaustlægri átt og þýðviðri þótt sennilega verði nú fremur stutt í hláku í þetta skiptið, loftvogin stendur með allægsta móti, komst niður fyrir 950 mb.
      Það er skákæfing í kvöld á Brandsstöðum, en þeim hefur verið haldið uppi nokkurn veginn reglulega í hverri viku í vetur og þátttakendur oftast 12-16.
      Á morgun er aðalfundur Framsóknarfélagsins og ætla nokkrir menn hér framan að.

19.    27. jan. Sunnudagur. Við Nonni fórum í gærkveldi til Blönduóss á aðalfund í Framsóknarfélaginu. Fundurinn var ekki ýkja fjölsóttur, um 30 manns eða rúmlega það, en stóð alllengi og voru umræður skemmtilegar á köflum.
      Að fundinum loknum bauð karlakórinn Húnar okkur fjórum hér úr kórnum á kaffikvöld sem þeir höfðu þá um kvöldið. Vorum við í þeim fagnaði fram yfir miðnætti og skemmtum okkur vel.
      Í kvöld er söngæfing hjá okkur og ákveðin kvöldvaka næstkomandi laugardagskvöld í Bólstaðarhlíð.

20.    28. jan. Aftur hafa vegir teppst sunnanlands og var stórhríð víða um Suðvestur og Vesturland í nótt ...
      Norðurleiðarbíllinn fer ekki norður á morgun og ekki fyrr en eitthvað skipast með veður og færð.

21.    29. jan. Ekki opnuðust vegir sunnanlands nema einhverja stund í dag og urðu ófærir á ný í kvöld. Ýmsum samkomum var aflýst í Reykjavík í kvöld vegna ófærðar og illviðris. Strætisvagnaferðir lögðust ýmist niður eða voru óreglulegar og um sjöleytið biðu hundruð manna á Lækjartorgi eftir því að komast heim með vögnunum.
      Enn hefur ekkert snjóað hér svo teljandi sé og hvergi talað um slæmt færi á vegum.

22.    30. jan. Það er verið að hugsa um að æfa Hreppsstjórann á Hraunhamri eftir Loft Guðmundsson í vetur og komum við saman á Gili í dag í þessu tilefni.
      Það fór sem fyrr að allir vegir lokuðust í nágrenni Reykjavíkur síðdegis í dag og fer nú að versna hljóðið í höfuðstaðarbúum ef þessu heldur fram lengi, enda er það að vonum.

23.   1. febr. Ég kom allmiklu í verk þennan fyrsta mánuð ársins, næstu helmingi meira en í janúar í fyrra, en salan varð hins vegar mun minni en þá og stendur það til bóta. Ég hraða mér nú ekkert við afgreiðslu, enda býð ég eftir verðlagsákvæðum um framleiðslu mína og fæ ég þetta vonandi bráðlega. Ég verð að fá hækkun sem svarar efnishækkun s.l. árs, en léti mér það nægja, þótt vinnulaunin hækkuðu ekki.

24.   Frá IHJ: Þau urðu aðeins 67 æviár Jónasar Tryggvasonar. Hann var elstur í hópi fjögurra systkina.
      Þeir þekkja sem þekkja mætti segja við þá sem skoða þessi gömlu dagbókarbrot JT iðnaðarmannsins í sveitinni, bróður bóndans og söngstjórans Jóns í Ártúnum þar sem bræður þrír, fjórir með Tryggva föður sínum og Guðmundur aðalsmiðurinn, höfðu reist tvílyft hús, Jónas var sjálfur söngstjóri fyrrum, vígsla Húnavers í vændum er sumraði, þ. 7.7.57, en hvað sáu fyrir þeir sem börðust við ótíð og ótíðindi vetrarmánaða.
      Nokkrir fylgipóstar verða að fylgja þessum 64 ára samtímaheimildum, þ.e. dagbók Jónasar Tryggvasonar. Um mitt sumar ´57 var nýja félagsheimilið vígt, en samkomur og æfingar eru enn í Þinghúsinu sem ungmennafélagið reisti fyrir 1930.
      Fjölmennt heimili er í Ártúnum í ársbyrjun 1957: Hjónin Sigríður og Jón Tryggvason, Jónas bróðir hans sem dagbókina semur, Guðrún móðir þeirra bræðra átti herbergi sitt á efri hæðinni þar sem vinnustofa Jónasar var og börnin á heimilinu voru orðin 5: Margrét yngst, Klara Sólveig, Guðrún Þóranna, Tryggvi og Ingi Heiðmar elstur og skrifar þessar línur.
      Jónas, föðurbróðir okkar, var einstakur í samhentri fjölskyldu, Tungufjölskyldunni, sem stækkaði og greindist nokkuð um miðja öldina, bræðurnir Jónas og Jón fluttu niður að Ártúnum 1948, Anna Margrét, yngst þeirra systkina, giftist út á Blönduós, en Guðmundur og foreldrar þeirra, Guðrún og Tryggvi bjuggu áfram í Finnstungu.
      Tryggvi lést í árslok 1952 og var jarðsettur í heimagrafreit. Upp úr því flutti Guðrún niður að Ártúnum en hún lifði mann sinn í tæp tólf ár og við ömmubörnin nutum þess að eiga bæði ömmu og iðinn frænda við burstagerð á efri hæðinni í Ártúnahúsinu.
      Jónas flutti svo til Blönduóss haustið 1959, einhleypur Blöndælingur, í nýbyggt hús sitt við Húnabraut 26, sem gefið var Tónlistafélagi A-Hún eftir fráfall hjónanna, Þorbjargar kennara frá Fljótstungu og Jónasar.

   En þau kynntust fljótlega eftir búferli Jónasar, Þorbjörg Bergþórsdóttir sem starfað hafði sem kennari og starfað á Blönduósi frá 1956.

1958 

25.    Nýársdagur.
      Árið heilsar með norðanfjúki og skafrenningi, en þó hefur létt til og lygnt með kvöldinu.
      Það hreyfa sig fæstir mikið í dag.
      Séra Birgir afboðaði messurnar á Svínavatni og Auðkúlu. Hann kemur ekki bílnum fram á veginn, auk heldur lengra. Það mun eiga að moka eitthvað á morgun.

26.    2. jan. Langidalur var mokaður í dag og mjólkurbíllinn fór ferða sinna, þ.e.a.s. hann fór ekki í Blöndudalinn lengra en að Brúarhlíð.
      Sem stendur er stillt veður en það á að hvessa af suðaustri á morgun og þá er sennilega búið gagnið af þessum mokstri.
      Karlakórinn hefur lofað að syngja við jarðarför á Höskuldsstöðum á laugardag, en svo getur auðvitað farið, að ekki verði hægt um vik að komast þá út eftir ef hann fer að skafa strax aftur.
      Ef af þessu yrði, ætlaði ég að gera eina ferðina að því og hitta lækni um leið. Það er ómögulegt að hanga svona óhress vikum saman

27.    3. jan. Sunnanskafrenningur í nótt gerði alla vegi ófæra á ný. Í kvöld var aftur mokað og Norðurleið fór bæði suður og norður.
      Tvær stúlkur, Magga á Eyvindarstöðum og stallsystir hennar, sem kom norður með henni í jólafríinu, biðu hér á sjötta klukkutíma eftir norðanbílnum, en þær komust loks af stað um áttaleytið í kvöld.

28.    9. jan. fimmtud. Ég hef verið að heiman síðan á laugardag, varð eftir á Blönduósi á laugardagskvöldið þegar við komum frá Höskuldsstöðum. Í gærkveldi útskrifaðist ég úr rannsókninni ... ég hef líklega lítið haft upp úr þessu annað en eyða þarna nokkrum dögum í hóglífi.

29.   Ég byrjaði aftur að vinna í dag, hálflatur að vísu, en það tjáir ekki að fast um það. Það liggur nú fyrir talsvert að gera, þótt fyrir jólin kæmi ég endunum saman.
      Það hefur verið æði mikið frost suma síðustu dagana, komist upp í 17 stig hér en víða um land hefur frostið orðið mun meira, þannig var það 32 stig í Möðrudal á Fjöllum nú einhverja nóttina, en 28 stig aðra. Er þetta líklegast meira frost en komið hefur um mörg undanfarin ár hér á landi.

30.    11. jan. Heiðmar litli lagði af stað suður í dag. Hann var hreint ekkert banginn við brottförina og mun hressari en þegar hann fór suður í haust og var þó mamma hans með honum þá. Hann á að góðu að hverfa fyrir sunnan, en það er nú samt svo með börn á þessum aldri, þau hljóta þegar þau fara að heiman að fara einhvers á mis, sem ekki verður bætt að fullu, jafnvel þótt hjá slíku ágætisfólki sé, sem Heiðmar er nú hjá.
      Mamma fór með Nonna til Blönduóss í dag. Hún hefur ekkert verið hjá Önnu síðan seinni partinn í fyrravetur, en oftast hefur hún annars verið út frá einhvern tíma að haustinu eða fyrri part vetrar.
      Í dag fækkar því fólkinu á bænum og verður svona dauflegra, en það á nú kannski við að nýloknum hátíðum.

31.    Sunnudagur. Það var ekki flogið í gær og Heiðmar litli var í Holti í nótt. Í dag var svo flogið undir rökkur svo að frændi litli er nú vonandi kominn á sinn stað í Kópavoginum í kvöld.
      Í kvöld er kvenfélagssamkoma í Húnaveri, innansveitar, eða öllu heldur fyrir hreppana tvo. Það á að spila Framsóknarvist og svo dansa á eftir, en það er útlit fyrir mjög fátt fólk. Það hefur skafið í slóðir og veðrið er beggja blands. Þessari samkomu var frestað í gærkveldi, en þá hefði hún sennilega orðið fjölsóttari því að veðrið réðst þá betur en á horfðist.

32.    13. jan. Það er alltaf öðru hvoru verið að tala um það við mig, að ég eigi að fara að gefa út kvæðin mín. Ég hef ekki haft mikinn hug á þessu en svo má lengi brýna deigt járn að bíti.
      Það er nú komið svo, að ég er farinn að róta í þessu rusli mínu, vinsa úr því og skrifa upp á ný það tilkippilegasta. Ég er svo að hugsa um að senda séra Gunnari syrpuna, en honum treysti ég öðrum betur til þess að velja úr þessu það sem til greina kæmi til útgáfu.
      Þetta verður lítið að vöxtum, en það gerði að vísu ekki svo mikið til, ef það væri þá ekki líka lítið á annan hátt.
      Ég held, að ég sé nú búinn að skrifa upp 23 kvæði, en hálfsmeykur um að ég hendi aftur einhverju úr þeim, áður en ég sendi þau, en það má einnig vera, að ég bæti þarna einhverju við af gömlu kvæðunum, þeim sem ég gerði á árunum fyrir 1940. Frá þeim tíma er til dálítil syrpa hjá mér, en mér finnast þau kvæði flest eitthvað gölluð, meira eða minna.
      Svo varð mér naumast ljóð á munni um tíu ára skeið. Yngri kvæðin eru flest frá síðastliðnum sex árum, oftast þetta eitt, tvö eða þrjú kvæði á ári nema ef vera skyldi á árunum fyrir 1940 þegar ég var rúmlega tvítugur. En það er líklegast bættur skaðinn þótt ég hafi fæst skrifað niður af því sem ég þá orti.

33.    14. jan. Leiðinda tíðarfar, bleytukrassi ... Þeir Höllustaðafeðgar ráku í fyrradag stóð sitt í hagagöngu í Æsustaðafjalli. Þar og í Hlíðarfjalli mun jörð verjast lengur en víðast annars staðar hér um slóðir.

34.    15. jan. Í kvöld átti að vera raddæfing hjá báðum bössum karlakórsins. Árni ætlaði að koma og verða hér vestra nokkra daga. Þeir Nonni og séra Birgir fóru að sækja hann, en lentu í versta veðri á fjallinu, hringdu heim frá Vatnshlíð og töldu þá óvíst um framhald ferðalagsins. Var æfingin afboðuð og er líklegast að þeir komi ekki heim í kvöld því það er orðið ólátaveður, einnig hér niðri.

35.    16. jan. Vestanstórhríð var í nótt og í dag hefur enn gengið á með dimmum éljum, þótt hægara væri.
      Þeir eru enn ókomnir heim, norðurfararnir og maður veit raunar ekkert um þá, því að símasambandslaust er við Blönduós og þar með norður yfir fjallið. Annað tveggja sitja þeir allan tímann í Vatnshlíð eða þeir hafa haft sig áfram norður yfir í gærkveldi og eru þá væntanlega á Víðimel. Í dag mun hafa verið versta veður á fjallinu og ekki trúlegt, að þeir hafi lagt í hann fyrr en þá í kvöld, en frá því um sjöleytið hefur raunar verið sæmilegasta veður.

36.    17. jan. Þeir komu að norðan í gærkveldi á fyrsta tímanum, lögðu af stað frá Víðimel klukkan sjö og gekk sæmilega upp hjá Vatnshlíð en þaðan allt stirðara. Gengu þeir síðast af bílnum á háfjallinu.
      Í dag var sækjandi veður og er fyrirhuguð raddæfing í kvöld.

37.    18. jan. Á æfinguna í gærkveldi komu 12 af 17 sem mæta áttu, vantaði helminginn í annan bassa.
      Í dag fellur víst alveg niður allt söngstarf vegna veðurs og færðar.
      Það var mikil óheppni að lenda í þessari ótíð, úr því Árni var kominn vestur yfir, en það er langlíklegast, að þetta verði slitrótt næstu dagana. Þar er hríðarveður á hverjum degi og bætir alltaf á snjó, en svo er það í ofanálag að síminn er bilaður og næst helst ekkert út úr sveitinni, hvorki upp á Skörðin, né vestur yfir ána. Enn er engu betra hljóð í veðurspánni og viðbúið að ótíðin haldist fyrst um sinn.

38.    19. jan. Sunnudagur. Árni er hér um kyrrt og hefur lítið að starfa, að því er honum finnst.
      Þeir Nonni fóru vestur að Stóradal í kvöld og var von til þess að flestir vestanmenn gætu mætt þar. Það er að vísu gott, það sem það nær, en þó eru þessir menn úr þrem röddum og vinnst illa að tímanum með svo margar raddir samtímis, en fáa menn í hverri.
      Það snjóar í hverjum sólarhring og skefur meira og minna. Færðinni fer því ekki fram.

39.    20. jan. Þeir mættu allir Svínvetningarnir í gærkveldi og sungu í eina sex klukkutíma eða til klukkan fjögur í nótt.
      Í dag kom fyrsti bassinn hingað, en að vísu aðeins fjórir menn af sjö. Þetta gengur allt heldur böslulega og er sennilegast, að maður verði alveg að leggja niður skottið, ef ekki stillir til alveg næstu dagana.

40.    21. jan. Í dag var rýrasta eftirtekjan hjá Árna, þrír menn úr tveim röddum, sem komu saman á Höllustöðum. Er nú hugsað að ná saman annað kvöld í Húnaveri, þeim sem komið geta og hætta síðan að óbreyttri veðráttu.

41.    23. jan. Í gærkveldi var samæfing í Húnaveri og mættu 14 eða réttara sagt helmingur kórmannanna.
      Í dag hefur bílalest verið á ferð utan Langadalinn og lagði á Vatnsskarðið um tíuleytið í kvöld. Árni tók sér fari með þessum bílum eftir vikudvöl hér vestra – með minni árangri en hann hefði óskað. Það var einstök óheppni að lenda svona í þessu, því að áreiðanlega gat orðið stórmikið gagn að dvöl Árna hér í viku til hálfan mánuð ef menn hefðu getað mætt nokkurn veginn reglulega og samkvæmt áætlun.
      Hefði allt gengið skaplega átti hver maður í kórnum að mæta til þjálfunar fjórum til sex sinnum, en nú komu sumir aldrei, flestir aðeins einu sinni, en nokkrir tvisvar eða þrisvar.
      Líklegast er búið með söngkennsluna á þessum vetri og þó er ekki alveg útilokað ef veðurfar batnaði að fá Árna aftur vestur yfir.

42.    24. jan. Ég byrjaði aftur að vinna eins og maður í dag, en ég hef raunar ekki haldið mig neitt að verki þessa daga, sem Árni var hér. Það voru eins konar sæludagar, hlaðnir músík frá morgni til kvölds, en raunar dálítið blandaðir áhyggjum yfir því hve illa gekk það, sem vera átti aðalstarf þessara daga.
      Það var mokaður Langadalsvegurinn í gærkveldi ...
      Eitthvað mun hafa fjölgað hagagönguhrossum í Æsustaðafjalli þessa dagana.

43.    25. jan. Líklegast ekki sem verst Pálsmessuveðrið þótt lengst af væri skafkóf og ekki sem bjartast með jörðinni, því að loftlétt var og heiður himinn þegar kom upp úr skafrenningnum.
      Það var verið að flytja stúlku frá Litladal út á sjúkrahús í gær og nótt og fór sólarhringur í ferðalagið þótt snjóbíll kæmi á móti upp að Geitaskarði.
      Mjólkurferð hefur ekki verið síðan á þriðjudag (21. jan.) og er nú helst rætt um að fá ýtu með sleða til þess að flytja mjólkina.

44.    29. jan. Það var að kalla þýtt í dag ... Kórinn tekur aftur upp þráðinn og er boðuð samæfing í kvöld. Sennilega verður þó ekki vel mætt að þessu sinni.

45.    30. jan. Það vantaði ekki nema þrjá á æfinguna í gærkveldi og mátti teljast gott. Það er hált að fara og stóð tæpt með einn bílinn á bunkanum utan við túnið í Bólstaðarhlíð.
      Í gær var byrjað að moka Langadalinn og lokið við það í dag. Sandur var borinn á verstu bunkana svo að nú ætti að vera allgott færi. Nonni fór til Blönduóss eftir hádegið og lét sæmilega af færinu en hálka er þó talsverð.

46.    31. jan. Janúar hefur orðið mér heldur lítill mánuður á ýmsan hátt. Ég hef lengst af ekki verið vel hress og þó betri nú upp á síðkastið. Það hefur því löngum orðið lítið úr verki hjá mér og er þetta þannig einhver lélegasti mánuður um fleiri ára bil. En maður verður að reyna að setja rögg á sig og gera febrúar betri.
      Ég er öðru hverju að sanka einhverju inn á handritið sem ég ætla að senda séra Gunnari. Enn eru kvæðin ekki orðin nema 28 og engan veginn víst að þeim fjölgi að mun úr þessu, en þó hefði ég endilega viljað ljúka við nokkur kvæði, sem vantar aðeins herslumuninn. En það er ekki nóg að hafa viljann.
      Þegar öllu er á botninn hvolft er það líklegast vitleysa að vera nokkuð að hugsa um útgáfu núna. Hún er held ég ekki tímabær enn og kannski verður það aldrei.

47.    Frá IHJ: Eftir því sem fleiri færslur JT ber fyrir augu, rifjast fleira upp frá samvistarárunum í Ártúnum, dagur Jónasar hófst snemma og svo var morgunmatur þegar komið var úr fjósi og þannig leið á daginn en tími hans fyrir dagbókarskrif var um fimm, sexleytið, þá hætti hann að draga í burstana, snýtti sér hressilega uppi á skörinni áður en hann kom niður stigann, fór inn í stofu, tók upp ritvélina og settist við stofuborðið fram að kvöldmat sem framreiddur var í eldhúsinu eins og aðrar máltíðir í húsinu. Ekki mátti heldur missa af kvöldfréttum í útvarpinu, en útvarpið eina á:: heimilinu átti einmitt átti sinn stað í stofunni.
      Í dagbók Jónasar frá sumrinu ´57 segir hann frá vígslu Húnavers 7. júlí og kynnum þeirra Guðmundar skálds Frímanns frá Hvammi sem hófust á þessum hátíðardegi, vígsludegi félagsheimilis sveitarinnar og þeir ræddu um ljóð og sjálfsagt líka menningu í sveit og borg.
      Harpan mín í hylnum, ljóðabók Jónasar, kom út undir jól 1959, um líkt leyti og hann flutti í nýja húsið við Húnabraut 26.
      Þannig verður stundum margt senn!
      Kópavogur og Heiðmar litli koma hér við sögu en þangað hafði prestsfjölskyldan frá Æsustöðum flutt sumarið 1952 og hjá þeim dvaldi Ingi Heiðmar heilan vetur, þá tíu ára, sótti sjúkraþjálfun í Íþróttahús Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu, naut skjóls og góðgerða hjá Stefönu frænku sinni og saumakonu v/Bergsstaðastræti, stundaði heimanám með aðstoð prests og Auðólfs menntaskólanema en yngstu systkinin tvö, þau Auðólfur og Hólmfríður Kolbrún, urðu stúdentar frá MR vorið 1958. Stefán Magnús, bróðir þeirra, bjó líka enn í foreldrahúsum auk Þóru elstu systurinnar, sem var heima þennan vetur en bjó annars úti í Svíþjóð. Og þar bjó þá bróðirinn, Árni Gunnarsson.
      Á Digranesvegi 6 var oft þétt setið, gestagangur mikill, sungið við orgelspil inni í stofu og oft varð kátt í borðstofu við kaffidrykkju eða þegar lokið var kvöldverði, prestur sestur í ruggustól sinn undir stofuklukkunni og orðið var laust.
      Árni Jónsson, söngstjóri og organisti á Víðimel í Skagafirði, kom vestur til að liðsinna karlakórnum, yfir fjallveg var að fara svo ferðalög – þar og heima í dölunum – urðu stundum tafsöm um hávetur.
      Sóknarpresturinn sem tók við af sr. Gunnari, Akureyringurinn Birgir Snæbjörnsson, settist að á prestsetrinu á Æsustöðum, kom sér upp fjárbúi og tók strax mikinn þátt í starfi Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps.
      Um Æsustaðaskriður þótti snjóþung leið en nágrannarnir í Ártúnum og á Æsustöðum fundu þá leið milli bæja með því að fara Svartá á ís líkt og vegurinn hefur verið lagður síðan.

1959

48.    Nýársdagur
      Árið heilsar með stilltu og björtu veðri, en frost er vaxandi.
      Það var messað í Bólstaðarhlíð í dag og nær 40 manns við kirkju. Það þótti til tíðinda, að læknishjónin frá Blönduósi, þau yngri, voru þarna við kirkju og komu fram eftir gagngert til þess.
      Mamma fór með þeim upp að Tungu í kvöld og ætlar að verða þar nokkra daga. Þeir bræðurnir þar eru orðnir jafngóðir eftir mislingana, en systurnar liggja enn, en eru að verða hitalausar. Mislingarnir eru nú aðeins á tveim bæjum, í Tungu og á Eyvindarstöðum, en það er líklegt, að þeir geti orðið alllengi að lámast hér um slóðir.

49.    2. jan. Ég byrjaði að vinna við burstagerðina eftir jólafríið í dag og gerði góðan þennan fyrsta dag ársins, vann í tíu tíma og afkastaði 700 króna verðmæti, en það er langt yfir meðallag. Fyrir liggur nóg verkefni næstu vikurnar og raunar næstu mánuðina.
      Í fyrradag fékk ég útborgað lánið frá Tryggingastofnuninni, 60 þúsund krónur til 10 ára og vextir eru 6 af hundraði. Þetta gengur að mestu leyti til kaupfélagsins og mun þó verða þar 70-80 þúsund króna skuld um áramótin. Samtals eru skuldirnar hjá mér komnar upp í 270 þúsund, en í húsið/Húnabraut 26 mun verða komið nálægt 350 þúsundum um áramótin. Nákvæmlega liggur þetta ekki fyrir enn.

50.    3. jan. Ég gerði einnig þenna dag mjög góðan í burstunum. Kannski verð ég duglegur að vinna á þessu nýja ári. Ekki mun af veita.

51.    4. jan. Sunnudagur. Það hefur gengið til norðanáttar með nokkurri snjókomu og talsverðu frosti, allt að þrettán stigum í dag.
      Karlakórsæfing var í kvöld, ekki vel sótt og heldur léleg æfing.
      Heimir ætlar að halda þrettándafagnað sinn í Húnaveri að þessu sinni, en eins og stendur lítur ekki sem best út með samkomuhald, ef færð fer að spillast. Í kvöld er hann að ganga upp á norðaustan og mun skafa þar sem snjór er kominn.

52.    5. jan. Það horfir ekki sem best fyrir Heimi með þrettándafagnaðinn annað kvöld. Það hefur bætt talsvert á í dag og veðurspá er ekki góð, en þeir auglýsa enn af kappi.

53.    6. jan. Þá er kominn þrettándinn og þetta flýgur áfram. Ég lauk við fyrsta dívaninn á þessu ári í kvöld og svo fer maður líklegast á þrettándafagnaðinn hjá Heimi. Það er sagt ágætt færi í Skagafirði og verður sennilega margt að norðan. Hér er gott færi að vestan en Langidalur hefur ekkert verið farinn síðustu dagana.
      Nú er kyrrt veður, ofurlítið fjúk og minnkandi frost.

54.    7. jan. Það var fjölmenni á samkomunni í gærkveldi, mikið fjör og mikið drukkið eins og oft hjá Skagfirðingum, en þeir voru þarna eflaust í meirihluta.
      Söngurinn hjá Heimi var allgóður og hefur þó stundum verið betri. Fleiri skemmtiatriði voru hjá þeim, en maður naut þess ekki að fullu vegna þrengsla. Það komust ekki líkt því allir í sæti.
      Ég var hálfslappur í dag og vann lítið, kannski eftir mig eftir rallið í gærkveldi og þó, varla eingöngu það því að ég var heldur ekki duglegur í gær.

55.    9. jan. Ég fór til Blönduóss í gær og kom aftur heim í kvöld. Það var ýmiskonar uppgerð um áramótin og þó minna en ég hefði viljað ...

56.    10. jan. Ég vann af kappi í dag, enda hafa nú að mestu fallið úr hjá mér þrír dagar og ég er orðinn langt aftur úr minni áætlun, sem ég geri fyrirfram fyrir hvern mánuð og jafnframt árið allt. Á árinu sem leið var framleiðsluáætlunin 85 þúsund, en ég fór full 20% fram úr áætlun og vann vörur fyrir 104 þúsund. Á þessu ári hef ég sett mér fyrir að að vinna fyrir 120 þúsund og ég á að geta staðið við þá áætlun, verði ég frískur og ekkert sérstakt komi til sögunnar. Ég þurfti að komast í 9 þúsund í janúar, en núna, þ.10 er ég enn nokkuð fyrir neðan þriðjung. Kannski herði ég mig betur seinni part mánaðarins.
      Enn komst frostið í 18 stig í dag, en veðrið er kyrrt og bjart.

57.    12. jan. Í gær var allt að 17 stiga frost, en í dag dró mjög úr því og var ekki nema 3-7 stig. Veðurstofan spáir suðlægri átt og þíðviðri.
      Bílaumferð er nú öll um Svínvetningabraut og Langidalur ekki farinn af öðrum bílum en mjólkurbílnum.

58.    13. jan. Enn sama stillan og mikið frost.
      Ég vinn af kappi og hef að mestu jafnað metin vegna slæpins í síðustu viku.
      Í kvöld verður karlakórsæfing í Húnaveri. Dálítið hætt við, að hún verði ekki vel sótt, mönnum gangi misjafnlega að koma bílnum í gang í frostinu.

59.    14. jan. Það vantaði átta á æfinguna í gærkveldi og þannig verða æfingarnar aldrei nema að hálfu gagni.

60.    15. jan. Kristvina frá Eiríksstöðum dó í nótt á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki. Hún var til heimilis í Álftagerði síðustu árin, veiktist skyndilega fyrir tæpri viku og var flutt á spítala þá þegar. Um bata var ekki að ræða og því gott hvað þetta tók fljótt af.

61.    16. jan. Það var ekkert sérstakt um þennan dag. Sigurjón kom seinni partinn frá Tungu en þar var hann í tvær nætur. Hann spilaði dálítið í kvöld, en var annars ekki sem hressastur.
      Í gærkveldi tefldi Eggert Gilfer fjöltefli á Blönduósi. Teflt var á 33 borðum og vann Gilfer 15 skákir, gerði 9 jafntefli og tapaði 9. Má þetta heita góð útkoma hjá Húnvetningum. Fjórir eða fimm fóru hér framan að og stóðu sig ekki sérstaklega vel.

62.    19. jan. Mamma fór fram að Hólum í dag og ætlar að verða þar um kyrrt fáeina daga. Það er tilbreyting fyrir hana, en hún er að verða ósköp ódugleg að hafa sig upp að heiman.

63.    20. jan. Karlakórsæfing í Húnaveri. Vantaði fimm en þó varð þetta sæmileg æfing. Á laugardagskvöld verður æfing vegna jarðarfarar Kristvinu, sem sennilega verður um miðja næstu viku.

64.    22. jan. Það er hver dagurinn öðrum líkur hjá mér nú um sinn. Ég hef verið í götukústum samfleytt í viku og lýk nú loksins við þá í kvöld og því er ég feginn. Þeir hafa alltaf í för með sér svo mikið ryk og óþrifnað.
      Ríkey á Eyvindarstöðum var flutt á spítalann í gær, en hún hefur legið í mislingum og verið illa haldin. Hannes á Auðólfsstöðum er alveg nýkominn heim af spítalanum. Hann var fluttur þangað stuttu eftir áramót og var þá alllangt niðri, en hefur nú aftur tekið gleði sína.

65.    23. jan. Séra Birgir kom í kvöld úr vikuferð til Reykjavíkur. Hann fór m.a. til þess að útvega peninga vegna bygginga á Æsustöðum, fjárhúsanna í sumar sem leið og svo viðgerðarinnar á íbúðarhúsinu, sem nú er ákveðið að verði framkvæmd á þessu ári. Honum gekk allvel um þetta og betur en ætla hefði mátt að óreyndu eins og nú er allt í pottinn búið í fjármálunum.

66.    24. jan. Við förum fram að Eiríksstöðum á söngæfingu í kvöld, en færi er víst slæmt fram eftir, einkum á Fjósaklifinu. Verst er, að þótt mokað verði í kvöld, er eins víst að aftur verði orðið ófært á þriðjudag, en þá er jarðarförin ákveðin.

67.    25. jan. Sunnudagur og Pálsmessa. Ekki var víst veðrið eins og vera bar, þykkt loft og sunnanhláka, en þó eru menn glaðir yfir hlákunni því að það hefði ekki verið gott að fá nú spilliblota. Það hefur tekið talsvert upp í nótt og í dag og sennilega verður þítt eitthvað áfram, þótt enn spái veðurstofan norðvestanátt með éljum á morgun.
      Við fórum í Eiríksstaði í gærkveldi og voru lengi á leiðinni fram eftir, tæpa tvo tíma. Það varð að moka talsvert í Fjósaklifinu, en þó mun minna vegna bleytunnar, sem var að koma í snjóinn. Til baka gekk allt slyndrulaust, en við komum ekki heim fyrr en á þriðja tímanum í nótt.

68.    27. jan. Jarðarför Kristvinu fór fram í dag að viðstöddu yfir 70 manns. Margt var að norðan yfir fjallið. Veðrið var eins og best gat orðið og það mátti heita sæmilegt að fara veginn ef keðjur voru á, en víða er hált og óslétt undir í skafltröðunum.
      Séra Birgir og séra Gunnar í Glaumbæ töluðu báðir í kirkjunni, Sigurður á Skeggsstöðum flutti ljóð og Klemens sagði að lokum nokkur orð.
      Við fórum þrjú héðan fram eftir, við bræðurnir og mamma og komum heim um sexleytið í kvöld.  

69.    31. jan. Fyrsti mánuður ársins á enda. Þetta var góður mánuður í minni atvinnu. Ég framleiddi vörur fyrir 11400 kr. og seldi fyrir tæpar 12 þúsund, hvorttveggja mun Meira en í janúar í fyrra. En nú fer efnisskorturinn að segja til sín í sumum burstategundunum, ef ég fer ekki að fá efnissendinguna, sem pöntuð var í haust. Ef árið verður allt að sínu leyti jafn gott byrjuninni, má ég vera ánægður.

70.    31. okt. Ég er búinn að sofa fyrstu nóttina á nýja heimilinu og þetta gekk allt saman sæmilega. Ef til vill varð mér þó eitthvað að vöku umfram það sem venja er hjá mér.

71.    Frá IHJ: Ár umskiptanna gekk í garð, Jónas flutti úr dalnum út að ósnum, þar sem hann eignaðist góða konu, átti fyrir höndum að taka þátt í tónlistar-, félags- og stjórnmálalífi Blönduóss. Gestkvæmt var á heimilinu, Jónas vann að iðn sinni á neðri hæð hús, en nú var farið upp í kaffi og mat.
      Þorbjörg kona hans fór til kennslu árdegis, en aðstoðaði blindan mann sinn þegar heim kom, sérstaklega við bólstrun húsgagna og félagsmálin, sem hún sjálf var líka mikill þátttakandi í.
      Ástdís Guðmundsdóttir, Jóninna Steingrímsdóttir, fleiri húsmæður og góðir grannar í nágrenninu unnu líka með Jónasi eftir að hann var fluttur á Húnabrautina og bólstrun varð stór hluti framleiðslunnar.

1960

72.    19. mars
      Hvað er orðið af ljóðadísinni minni?
      Hún vitjar mín sjaldan í vetur, veit kannski ekki hvar mig er að finna. Ekkert kvæði síðan í fyrravor, naumast nokkurt brot, aðeins örfáar stökur, teljandi á fingrum annarrar handar.
      Ekki tjáir um þetta að sakast, bara bíða og vona að úr rætist þótt síðar verði.

Til þeirra sem halda að ég sé skáld

Þið sögðuð ég ætti að yrkja ljóð
og ávaxta svo mitt pund
og mér var sjálfum í mun að reyna.
Það mistókst þó alla stund.

Ég kaus mér hörpu með háum streng
en hafði ´hennar lítil not.
Hún flutti aðeins einróma tóna
og undarleg stefjabrot.

Þá skipti ég um og lágstemmd lög
ég lék nú á streng minn einn.
Þeim hæfði víst ekki að heyrast víða
enda heyrði þau sjaldnast neinn.

Svo gafst ég upp, því engum er fært
að ætla sér þyngra en hann ber.
Ég kastaði hörpunni af hendi í dýpsta
hylinn við fætur mér.

Og harpan mín liggur í hylnum enn
þó heyri ég stundum óm
frá strengjum hennar, sem hvíslað í eyra
með hálfkæfðum sorgarróm.

Þá verða mér löngum ljóð á vör
og lauskveðnar hendingar
sem fæðast við störf mín í fjósi og hlöðu
fæðast og deyja þar.

Mitt ljóð er augnabliks-ævintýr
í einsemd hins þögla manns.
Það geymist í dag, en er gleymt á morgun
og grafið í vitund hans.

Nú megið þið skilja að skáld er ég ei,
þar skortir svo mikið á.
Og eitt er að lofa Ólaf konung
og annað að heyra hann og sjá. Jónas Tryggvason

Ítarefni:
Sögukorn af Jónasi og Þorbjörgu: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=17296 
Sögukorn: Jónas: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=18652
Sögukorn úr Tunguplássi 1953: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=19794

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2023 Húnahornið