Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Laugardagur, 15. júní 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Júní 2024
SMÞMFL
2627282930311
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
30123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 11:51 0 0°C
Laxárdalsh. 11:51 0 0°C
Vatnsskarð 11:51 0 0°C
Þverárfjall 11:51 0 0°C
Kjalarnes 11:51 0 0°C
Hafnarfjall 11:51 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
76. þáttur. Eftir Jón Torfason
15. júní 2024
Eftir Guðmund Inga Guðbrandsson
15. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
13. júní 2024
Eftir Ásgerði Pálsdóttur
09. júní 2024
Eftir Dagnýju Rósu Úlfarsdóttur
05. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
03. júní 2024
75. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. maí 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Spegill úr Arnarfirði. Mynd: Ingi Heiðmar Jónsson
Spegill úr Arnarfirði. Mynd: Ingi Heiðmar Jónsson
Pistlar | 02. nóvember 2023 - kl. 13:08
Sögukorn: Fyrir vestan Bjarg og Skor
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
 1. Mömmu var ákaflega minnisstæður veturinn 1918-19 þegar spænska veikin herjaði í bænum. Hún veiktist aldrei en var í hópi þess hjálparfólks, sem gekk hús úr húsi, hjúkraði veikum og veitti dánum nábjargir. Fullveldisfundurinn fyrir framan Stjórnarráðshúsið yljaði henni um hjartarætur, en hvarf þó í skugga pestarinnar sem jafnvel felldi heilu fjölskyldurnar.
   
 2. Mamma leit alltaf á þau séra Þorvald og Magdalenu í Sauðlauksdal, sem einstakt velgjörðarfólk sitt og taldi þau hafa forðað sér frá grimmum örlögum sveitarframfærslunnar og leitt sig út úr skugganum inn í ljósan dag.
   
 3. Áratugum seinna – mamma dvaldist þá um hríð á heimili prestshjónanna í Hafnarfirði – spurði hún frú Magdalenu hvað hefði ráðið því að þau hjónin sóttu hana, umkomulaust barn inn á Barðaströnd og gerðu hana að hálfgerðri fósturdóttur sinni. Magdalena svaraði um hæl að hún hefði ekki getað hugsað sér að dóttir hennar Jónu á Vaðli yrði látin vinna af sér þá styrkómynd sem hreppsnefndin á Barðaströnd hefði með kotungsbrag lagt til uppeldis hennar.
   
 4. Um lengri eða skemmri tíma var í Sauðlauksdal skotið skjólshúsi yfir einstæðinga, börn og og gamalmenni, sem hvergi áttu höfði að halla og af þeirri mannúð og hjartahlýju, sem þar birtist í verkunum, mætti segja langa sögu.
   
 5. Sigurjón Einarsson, lengi prestur og prófastur á Kirkjubæjarklaustri, rifjar upp æskuár sín í Ketildölum í bókinni Undir hamrastáli. Prestshjónin í Sauðlauksdal, fósturforeldrar Kristjönu Vigdísar Andrésdóttur, móður hans, voru afi og amma Vigdísar forseta, en Finnbogi faðir hennar var jafngamall móður Sigurjóns. Þegar prestshjónin fluttu frá Sauðlauksdal orti skáldkonan Marta Stefánsdóttir nokkrar vísur, sú fyrsta er:
  1. Yfir svífa örn og valur
  auðum döprum höfðingsrann.
  Svipdaufur er Sauðlauksdalur
  síra Þorvald missti hann.
  5. Ef þangað liggja leið mín ætti
  litust mér það raunaspor.
  Nú fer að fækka um fína drætti
  fyrir vestan Bjarg og Skor.

  En hér kemur nú að norðurferð og skólagöngu Sigurjóns:

   
 6. Dag nokkurn var ég að gramsa í bókakassa uppi á pakkhúslofti á Fífustöðum. Ein bókanna, sem kassinn varðveitti, var lúin og velkt skólaskýrsla frá Menntaskólanum á Akureyri. Ég fór strax að fletta og skoða hana.
   
 7. Mér þótti innihaldið svo forvitnilegt að ritningar lukust upp.
   
 8. Þarna sá ég meðal annars hvaða bækur voru kenndar í öllum bekkjum skólans. Ég ákvað strax að útvega mér bækurnar sem kenndar voru í fyrsta bekk.
   
 9. Eftirtektarvert er að ekki hvarflaði að mér að fara í héraðsskóla. ... Þótt ég væri Framsóknarunglingur, altekinn af hugsjónum ungmennafélaganna, tryði á ræktun lands og lýðs, var þetta ekki minn stíll. Þar kom til hvað mér leiddust landbúnaðarstörfin. Mig langaði í sollinn eins og sveitafólk kallaði einhverja óskilgreinanlega samveru ungs fólks í þorpum og bæjum.
   
 10. Sr. Jón Kr. Ísfeld varð prestur á Rafnseyri ´42. Hann ávann sér fljótt vinsældir og virðingu. Slíkt var ekki síst sprottið af því að hann var svo duglegur að ferðast á sjó. Hann var hvorki sjóhræddur né sjóveikur, enda vanur sjómennsku frá uppvaxtarárum sínum á Austfjörðum. Þegar bára ýfði fjörð skellti hann sér í sjóstakk, lék við hvern sinn fingur og hafði gaman af að stýra. Mikið féll Arnfirðingum vel við svona prest.
  Þetta þóttu góð tíðindi í héraði þar sem sjórinn var enn aðalsamgönguleiðin.

   
 11. Sr. Jón Ísfeld og Auður kona hans komu síðan norður í dalina okkar húnvetnsku. Það var á menntaskólaárum mínum, hann var prestur í Æsustaðaprestakalli ´61-´70 en þau fluttu síðar í nýbyggt prestsetur á Bólstað í Botnastaðatúni þar sem við Haraldur Eyjólfsson urðum verkamenn, m.a.s. samverkamenn, hann að hverfa frá búskap í Gautsdal en ég á leið í landsprófsdeild MA. Það var sumarið 1961 og Þór Þorvaldsson frá Blönduósi var smiðurinn og Pétur Guðmundsson á Eiríksstöðum handlangari. Þrír voru þeir í hádegismat hjá Önnu húsverði í Húnaveri en ég hafði nesti sem mamma tók til fyrir hvern dag og lærði þar af leiðandi að kroppa svið. Þau urðu vinsæl hjá mér, sem fékk klukkutíma matartíma í skjólgóðum kaffiskúr sem Þór byrjaði á að slá upp þegar þessar framkvæmdir hófust. Þetta var nú útúrdúr vegna sr. Jóns.
   
 12. En Sigurjón naut undirbúnings hjá Jóni Ísfeld fyrir menntaskólanám sitt, þó nokkuð yrði afsleppt, en prestlaust var á Bíldudal svo margan dag var Rafnseyrarprestur afbæjar en höf. skrifar:
   
 13. Daginn áður en ég fór að Rafnseyri reið ég út í Selárdal til Elíasar Melsted á Grund, sem var einn af hárskerum sveitarinnar, enda þörf á að laga lubbann. Þegar ég áði á Litluhlíðarbökkum var ég bæði glaður og eftirvæntingarfullur. Ég horfði yfir fjörðinn minn með augum ungs manns sem var að kveðja. Ég kenndi einskis trega.
   
 14. Aldarfjórðungi síðar spurði ég pabba hvað hann hefði hugsað í trillunni þennan frostkalda janúardag, á heimleið frá því að flytja mig yfir að Rafnseyri.
  Hann mundi ferðina mjög vel.
  Mundi að á heimleiðinni yfir fjörðinn hugsuðu þeir Haraldur um það eitt að ná landi sem fyrst. Bæði til að halda á sér hita og til að flýta ferð réru þeir til skiptis. Sýnilegt var að óveður var í aðsigi og trillan farin að ísa. „Mig langaði að hafa þig heima", sagði pabbi og bætti við:„Ég hlakkaði til að flytjast að Bakka næsta vor og með Bakkakaupunum fannst mér ég vera að búa í haginn fyrir okkur báða. Samt átti mér að vera ljóst að þú varst fráhverfur búskap og hlaust að ráða þinni ferð. Skömmu eftir að ég kom heim skall á blindbylur."

   
 15. Skólameistari MA tók mér ákaflega vinsamlega, spurði um uppruna minn og ætt, talaði um arnfirska galdramenn og hvort ég væri ekki kominn af þeim. Minnugur þess að ég gat rakið ætt mina til Bjarna galdramanns á Baulhúsum játaði ég því í sakleysi mínu. Þá skellihló meistari og beraði stórar gular tönnur. Hann skellihló – og það var hýrt blik í augum hans.
   
 16. Í skrifstofu hans varð mér mjög starsýnt á vel pússaðan hryggjarlið úr hval og þóttist þar þekkja sjálft hvalbeinið sem séra Jón Ísfeld hafði sagt mér frá. „Að vera tekinn á beinið er sko ekkert grín" sagði Rafnseyrarprestur, þagði um stund og gaf sig á vald fornum minningum. Mér stóð stuggur af hvalbeininu og vonaði að ég þyrfti aldrei að setjast á það. Eftir stutt samtal fylgdi meistari mér svo til dyra og kvaddi mig með handabandi. Ég hafði aldrei fyrr tekið í svo mjúka karlmannshönd. 

  Þetta var Sigurður skólameistari frá Mjóadal Guðmundsson, sonarsonur Erlends í Tungunesi.

   
 17. Einn fyrsti nemandinn sem ég kynntist þetta vor í fyrsta bekk, var Sveinn Skorri Höskuldsson, síðar prófessor í íslenskum fræðum. Ég hafði ekki setið marga daga í fyrsta bekk þegar hann dró mig út í horn til að forvitnast um pólitíska afstöðu mína. Það gladdi okkur, að báðir vorum við sama sinnis, sanntrúaðir Framsóknarmenn.
   
 18. Ósköp þóttu mér kennararnir einkennilegir í háttum. Sumir gerðu sér far um að leita að snöggum blettum á nemendum sínum og aldrei mætti maður vinsemd hjá þessum fjarlægu lærifeðrum. Allir virtust vera á verði, nemendur hver gegn öðrum og kennarar hver gegn öðrum.
   
 19. Jóhann Lárus Jóhannesson, síðar bóndi á Silfrastöðum kenndi dönsku og stærðfræði. Hann var vandaður kennari en uppvöðsluseggir bekkjarins gerðu honum lífið leitt svo að vart var vinnufriður í tímum. „Látið þið ekki svona strákar," sagði hann hógvær og lítillátur, jafnvel ögn feiminn og varnarlaus.
  Mér fannst Páll S. Árdal enskukennari stinga í stúf við alla aðra kennara. Einn kennara þúaði hann okkur og var okkur bæði hlýr og vinsamlegur. Hann beitti hljóðlátum og hollum aga og lét engan komast upp með múður.

   
 20. Strax fyrstu dagana sem ég sat í skólanum varð mér ljóst að hér var engrar miskunnar að vænta og flest á aðra lund en mig hafði órað fyrir. Nú kom sér vel að hafa óharðnaður róið úr vörum Arnarfjarðar og orðið að standa skil á sínu verki. Hér þurfti engu síður að bíta á jaxl en í andófinu undir legulóð eða við línudrátt á steinbítsmiði. Prófárangur minn var ákaflega misjafn í fögunum en allt um það flaut ég yfir prófið, lenti réttu megin við „skurðinn." Það var ekki af stóru að státa en dugði.
   
 21. Daginn eftir að ég kom heim, fór ég að róa á Örninni hjá pabba. Við beittum kúfiski og plægðum einu sinni í viku á Hólssandinum.
   
 22. Á úthallandi vetri í 3 bekk fór Framsóknarstefnan að missa sinn skæra hljóm í brjósti mínu. En hvers vegna. Mér fannst hún geld og stöðnuð og málflutningur talsmanna hennar vera sem hvellandi málmur og gellandi bjalla. Lestur bóka þeirra Halldórs Laxness og Þórbergs Þórðarsonar lauk upp nýjum ritningum og eftir því sem ég sótti meira sjóinn á sumrin kynntist ég viðhorfum sjómanna, baráttumálum þeirra og framsækni í nýsköpun sjávarútvegs.
   
 23. Minnisstæð er mér fjallganga okkar nokkurra bekkjabræðra á Súlur í páskaleyfinu. Við vorum fimm saman, auk okkar Hans Magnússonar frá Bolungavík, Svavar Hjörleifsson frá Kimbastöðum, Sveinn Skorri og Jóhann Þórðarson síðar lögfræðingur úr Ísafjarðardjúpi. Hvatinn að för okkar var Heklugosið sem þá var í algleymingi.
   
 24. Bekkurinn okkar var samhentur. Skólastofan í svokölluðum beitarhúsum en það var annexía, örskammt frá skólanum. Þetta voru nær sömu nemendur og í öðrum bekk en um haustið bættust þó fjórir Laugvetningar í hópinn. Þeir voru allir eldri en við og puntuðu heilmikið upp á bekkjarsamfélagið, þ.á.m. Tómas Guðmundsson síðar prestur og Örn Guðmundsson síðar kennari. Laugvetningarnir bjuggu í Gilinu eins og ég, en miklu ofar.
   
 25. Sigurjón greiddi skólanámið með launum fyrir sumarvinnuna, á togaranum Verði frá Patreksfirði, faðir hans flutti hann til móts við skipið út Arnarfjörð:
   
 26. Þegar við komum út á Rifið renndum við færum. Við urðum strax varir og höfðum dregið nokkra fiska þegar við sáum til togarans. Fyrst sáum við reykinn sem lagði aftur af kolakyntu skipinu. Svo kom sjálft skipið í ljós, stórt, svart skip sem stækkaði eftir því sem það kom nær. Þótt ég væri dálítið kvíðinn lét ég ekki á neinu bera. Ég minntist þess með sjálfum mér að einmitt hér á Rifinu vorum við pabbi svo oft í vor. Hér lögðum við línuna og renndum færum meðan við biðum þess að fiskurinn biti á línuönglana. Það voru góðir dagar, oft stillilogn eins og í dag. Stundum vorum við tveir, þá vorum við svo nálægir hvor öðrum feðgarnir, þar sem við sátum á þóftunum trillunnar og úðuðum í okkur brauði og hveitikökum og drukkum heitt kaffið úr brúsunum. Þótt við töluðum fátt nutum við þeim mun betur nærveru hvor annars.
   
 27. Á menntaskólaárunum var skemmtilegt að sigla með strandferðaskipunum norður á haustin. Ég var sjóhraustur og naut ferðarinnar, hlakkaði til að koma við á hinum ýmsu höfnum, en víðast hvar hitti maður skólasystkini sem voru að stíga um borð og sigla norður eins og ég. Oft sátum við í hóp í sal skipsins – gripum í spil og sögðum hvert öðru fréttir frá sumrinu sem nú var að baki.
   
 28. Þegar við komum í fjórða bekk þóttumst við menn með mönnum að vera sest í menntadeild, full eftirvæntingar að kynnast nýjum kennurum sem flestir voru ágætir en auðvitað misjafnlega eftirminnilegir.
  Með hlýjum huga minnist ég Aðalsteins Sigurðssonar, Friðriks Þorvaldssonar, Hermanns Stefánssonar, Jóns Árna Jónssonar og Vernharðs Þorsteinssonar auk þeirra sem áður hafa verið nefndir.

   
 29. Í endurminningunni um kennarahópinn rís þó hæst bónaður skallinn á Brynleifi Tobíassyni. Þessi roskni lærifaðir gengur stuttum og settum skrefum inn skólaganginn með svartan harðan hatt í annarri hendinni, silfurbúinn staf í hinni. Hann gekk alltaf eftir miðjum ganginum og allir viku hljóðlega til hliðar. Hann heilsaði með litlu nikki til beggja handa. Þótt við værum ung og fávís skynjuðum við að þarna fór persónugervingur virðuleikans og uppfræðingarinnar í þúsund ár. Harður flibbinn og hvítt stífað skyrtubrjóstið sat einkar vel á fremur stuttum hálsinum og hvelfdum brjóstkassanum en stífpressaðar buxurnar og gljáburstaðir skórnir, ásamt svörtum þykkum frakkanum, gáfu persónunni sterk og ógleymanleg einkenni.
   
 30. Það er fyrsti latínutíminn í fjórða bekk. Við sitjum prúð í sætum okkar, örlítið upphafin yfir hátíðleik stundarinnar að vera komin í menntadeild. Þegar Brynleifur birtist í bekknum sprettum við öll á fætur, stöndum grafkyrr eins og við hersýningu meðan hann gengur að kennarapúltinu og lyftir hendi til merkis um að við megum setjast.
   
 31. „Nah, læra latínu," sagði Brynleifur enn. „En þá þurfa líka allir að vita áður en námið hefst, að hér dugir engin multiplikasjón eða diversjón, hér þarf bæði að deklinera og konjúgera," hélt hann áfram. Svo varð stutt þögn. Í laumi skutum við augum hvert til annars. Enn leit hann yfir bekkinn og sagði:„Nah, nú, fyrst þetta er alvara þá er best að byrja." Hann opnaði kennslubókina, leit upp undan gleraugunum og sagði:„Nah, munið að við beygjum nafnorð en hneigjum sagnir. Sem sagt," hann rétti sig upp í sætinu - „spurt verður: hvernig beygist orðið, hvernig hneigist sögnin?" Svo hófst kennslan. Við fórum að hneigja amo og beygja rosa.
   
 32. Brynleifur var engum líkur. Okkur þótti öllum vænt um hann. Ég held hann hafi aldrei mismunað nemendum sínum, hvorki í einkunn né með framkomu sinni. Þó gerði hann góðlátlegt að þeim sem voru að leika. Kallaði þá „skuespillere" og sagði kónga jafnan hafa haft slíkt fólk við hirð sína:„Nah, svona til að skemmta, voru stundum kölluð hirðfífl, en slíkt kallar nú öldin leiklist."
   
 33. Þórarinn Björnsson, sem varð skólameistari þegar Sigurður Guðmundsson hætti í ársbyrjun 1948, kenndi okkur frönsku í fimmta og sjötta bekk. Þórarinn var ákaflega vandaður og góður kennari, jafnan líf í kennslustundum hans. Hann gerði miklu meira en láta okkur lesa og þýða og glíma við málfræðiþrautir. Hann hreif okkur með sér, sagði frá – við hlustuðum og gleymdum stund og stað. Hann hafði unun af að segja okkur frá Parísardvöl sinni þegar hann var í Svartaskóla. Hann sagði okkur frá kaffihúsunum í Latínuhverfinu og opnaði okkur glugga franskrar menningar. Hann sagði okkur frá jafnaldra sínum, Jean-Paul Sartre og frá existensíalismanum, löngu áður en maður las um slíkt í bókum eða blöðum.
   
 34. Ég hef ætíð verið honum þakklátur fyrir orðin sem hann lét falla um Stefán Zweig og verk hans en þau urðu kveikjan að því að ég tók að lesa bækur hans og vissi ekki fyrr en hann var orðinn eftirlætishöfundur minn. Enn liðu þó áratugir þar til mér hlotnaðist sú unun að heimsækja slóðir hans í Salzburg, ganga upp Stefán Zweigsveg, horfa á gula húsið hans uppi á Kapuzinerberg og standa undir minnismerki hans hjá klaustrinu litlu ofar.
   
 35. Haustið 1947 fékk ég húsnæði í heimavistinni. Herbergið var kallað Undirveggur og var í kjallara skólans. Kostur þess var sá, að þetta var tveggja manna herbergi en ekki þriggja, ókosturinn aftur á móti hinn að það var gegnt salernunum og því jafnan nokkur erill á ganginum. Herbergisfélagi minn var Erlendur Jónsson, síðar bókmenntagagnrýnandi og kennari. Við vorum bekkjarbræður og góðir kunningjar. Við kynntumst í öðrum bekk þegar við vorum saman í vegavinnuflokki skólans undir styrkri stjórn Hermanns Stefánssonar íþróttakennara en hann var þá að láta leggja akfæran vegarslóða upp í Útgarð, skíðaskála skólans á Glerárdal. Við unnum þarna í eina fjóra daga, slógum upp balli í Útgarði og dönsuðum við stelpurnar fram á nótt í hlýju haustmyrkrinu en veðrið var einstaklega blítt þótt komið væri fram í október.
   
 36. Kynni okkar Erlendar entust vel og lengi. Í þriðja bekk mæltum við okkur stundum mót á Hótel KEA eftir skóla, þömbuðum molakaffi eins og við ættum lífið að leysa og ræddum um bókmenntir, okkar sameiginlega áhugamál. Síðan hófust spásseringar um miðbæ Akureyrar, hring eftir hring. Þessi kynni og kaffidrykkja leiddu til þess að við óskuðum eftir því að deila saman herbergi í fjórða bekk.
   
 37. Á þessum árum var Erlendur miklu róttækari en ég, enda höfðu hugsjónir ungmennafélagshreyfingarinnar aldrei gripið hann sterkum tökum. Hann var betur lesinn í skáldskap hinna róttæku höfunda, einkum þeirra Kiljans og Þórbergs. Ég nýkominn að vestan var þrautlesinn í Guðmundi Hagalín, taldi hann fremstan íslenskra höfunda og hafði á hraðbergi tilvitnanir í bók hans, Kristrúnu í Hamravík. Mér þótti Sturla í Vogum mikil hetjusaga en Erlendur hafði sogað í sig þá kenning að hún væri afskaplega vond bók og varð ekki lítið hreykinn þegar við í grúski okkar á Amtsbókasafninu rákumst á hina frægu vísu prófessors Jóns Helgasonar sem hann orti að loknum lestri þeirrar bókar:

  Í þúsund ár höfum við setið við sögur og ljóð
  menn segja um þá íþrótt að hún sé oss runnin í blóð.
  En samt eru ennþá til menn hér af þessari þjóð
  sem þykir bókin um Sturlu í Vogum góð.

  Ég sat nú samt við minn keip og lofaði Hagalín sem var Arnfirðingur eins og ég.

   
 38. Í fimmta bekk bjuggum við Erlendur saman uppi á efsta lofti heimavistarinnar, í herbergi sem kallað var Innri baðstofa. Varla höfðum við borið upp föggur okkar þegar þráðurinn var tekinn upp. Nú sökktum við okkur niður í skáldverk Jóns Trausta, einkum söguna um Höllu og heiðarbýlið og lofuðum hina miklu frásagnargáfu skáldsins. En við lásum ekki aðeins innlend skáldverk heldur og erlendar bókmenntir. Vinsælustu höfundar okkar voru John Steinbeck og Ernst Hemingway að ógleymdum hinum franska Voltaire en sögu hans Birting sem Halldór Laxness þýddi, lásum við allir.
   
 39. Það var engin furða þótt kennslubækurnar yrðu stundum að þoka.
   
 40. Erfitt er, lesari góður, að hverfa frá minningum sr. Sigurjóns, sem ég/IHJ reyndar aldrei sá, en við fórum í Húnvetningarútunni vestur í Arnafjörð í sumar og þar beið okkar glæsilegt landslag og veðurblíða, þaðan kom ljósmóðirin góða, Sólveig í Selhaga, sem kom upphaflega í Kvennaskólann á Ytri-Ey og ól af sér vísnasafnarann Sigurð Halldórsson sem ekki gleymdi sveitungum sínum í Hlíðarhreppi og safnaði vísum í mikið safn sem Sigurður tók með sér – að leiðarlokum – vestur á Blönduós til að gefa Húnvetningum og Pétur í Miðhúsum, sögufélagsmaðurinn góði og safns, tók á móti og skilaði áfram til okkar sem nú göngum þar um sali.
  Og vinur sr. Sigurjóns, Erlendur Jónsson frá Geithóli í Hrútafirði, varð vinur minn eftir að ég kynntist Tómasi Gunnari í Hrútatungu, en Erlendur hélt mikilli tryggð við sveitina sína án þess að troða sveitungum sínum um tær, gisti á Reykjaskóla en Gunnar kynntist honum og fékk frá honum hvatningu til að skrifa ævisögu sína. Erlendur sendi mér 7 eða 8 eintök af ágætri ævisögu sinni, Að kvöldi dags og ég kom þeim í dreifingu norður í sveitir. Og neitaði að taka greiðslu fyrir.
  Sr. Jón Kr. Ísfeld var sóknarprestur sveitunga minna í Æsustaðaprestakalli meðan ég skundaði gegnum menntaskólann og sr. Birgir Snæbjörnsson, sóknarprestur Akureyringa og húsráðandi á Eyrarlandsvegi 16 bar mér skilvíslega boð frá honum um æskulýðsnámskeið og fundi niður í kirkju – og þangað fór ég, kynntist þannig sr. Gylfa sem líka var góður skólabróðir í MA og hefur nú dvalið með Skagfirðingum og biskupnum, konu sinni, fjölda ára undir Hólabyrðu, þannig fer mörgum sögum fram og frú Lukka reyni lengst að halda í hönd með okkur, hvort sem við höfum nú til þess unnið. En sr. Sigurjón fær síðustu orðin í þessum sögukornum:

   
 41. Og veturinn í sjötta bekk brunaði áfram. Fyrr en varði tók að vora um Eyjafjörð og fyrstu brumin skreyttu trén í Lystigarðinum. Fram undan var langt upplestrarfrí fyrir stúdentsprófið. Sumir okkar vöknuðu þá við vondan draum.Við Halldór Þ. Jónsson og Guðfinnur Magnússon lásum saman undir prófið í herberginu í Þrastalundi. Þar var gott næði og veitti ekki af fyrir okkur trassana. Nú var kapp í körlum. Við grúfðum okkur yfir skólabækurnar og mikill var sá léttir þegar við stormuðum út úr skólanum eftir síðasta próf. Þá var sem fargi væri af okkur létt. Við kærðum okkur kollótta þótt frammistaðan hefði mátt vera betri. Fram undan blöstu við nýir dagar. Við „bruddum mélin" og hlökkuðum til að takast á við lífið.

Um Möðruvallaskóla: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=19545
Um Möðruvallaskóla og MA: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=19532
Um Sólveigu ljósmóður og son hennar Sigurð frá Selhaga: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=19495
Spánska veikin 1918: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=18849

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið