Pistlar | 06. nóvember 2023 - kl. 13:03
Lagning bundins slitlags ├í Bl├Ându├│sflugv├Âll
Eftir Bjarna J├│nsson

Blönduósflugvöllur gegnir lykilhlutverki sem sjúkraflugvöllur fyrir íbúa í Húnavatnssýslum og þann fjölda vegfarenda sem þar ferðast um. Öll vitum við að tryggt aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu skiptir miklu fyrir búsetuöryggi. Þar er öruggt sjúkraflug órjúfanlegur þáttur. Þrátt fyrir þá staðreynd, hafa árin verið látin líða eitt af öðru án þess að bundið slitlag hafi verið lagt á Blönduósflugvöll, eða það verið á meðal forgangsverkefna samgönguyfirvalda og er ekki að finna marga jafn mikilvæga flugvelli sem gegna sjúkraflugi á landinu sem eru ekki með bundið slitlag á yfirborðinu.

Við þekkjum að landleiðin inn og út úr héraðinu hefur lokast jafnvel dögum saman og þar fara 700.000 bílar um á ári. Einnig hafa orðið alvarleg hópslys. Vart þarf að minna á að víða um land hefur margvíslegri þjónustu verið hagrætt í burtu eins og veigamikilli bráðaþjónustu. Af þeim sökum er öruggt aðgengi að sjúkraflugi vegna alvarlegra veikinda eða slysa lífsnauðsyn.

Enn vantar að bundið slitlag sé lagt á flugbrautina. Kostnaður við framkvæmdina hleypur á allnokkrum tugum milljóna, en síst vegna þess að í ljós hefur komið að undirlagið er lakara en haldið var, sem er þó ekki há fjárhæð miðað við hve mikið er í húfi. Margt jákvætt hefur náðst fram í að bæta búnað á vellinum síðustu ár. Ekki er langt síðan aðflugsljós voru löguð og komið upp GPS kerfi til að auðvelda flug um völlinn. Það er vel, en til að klára verkið svo Blönduósflugvöllur geti gegnt öryggis hlutverki sínu fyrir svæðið, þarf að ljúka lagningu bundins slitlags á Blönduósflugvöll. Við viljum ekki eiga á hættu að flugvélar sökkvi þar í leðju eða fipist í ótraustu undirlagi.

Samgönguyfirvöld hafa verið of sporstutt undanfarin ár í uppbyggingu varaflugvalla og flugvalla sem skipta einnig sköpum fyrir sjúkraflug, og nefni ég þar sérstaklega Blönduósflugvöll. Það er mikilvægt að  fjármunir sem fást í gegnum varaflugvallargjaldið sem samþykkt var á alþingi síðastliðið vor og tók gildi 1 nóv. sl. skili sér í uppbyggingu þessara flugvalla og búnaðar til að auka öryggi þeirra. Áætlað er að varaflugvallargjaldið geti skilað um 1,5 milljarði árlega, en gæta þarf þess að þeir fjármunir skili sér sannarlega beint í þau verkefni sem þeim er ætlað, uppbyggingu flugbrauta og búnaðar til að bæta flugöryggi.

Eftir þrotlausa og áralanga baráttu heimamanna og okkar sem hafa lagt þeim lið, hyllir nú loks undir að bundið slitlag verði lagt á Blönduósflugvöll á næstunni,  þó við höfum misst frá okkur enn eitt sumarið til þeirra framkvæmda. Til þess að það gangi eftir er ástæða til að brýna alla til að fylgja því máli vel eftir allt til enda.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna í NV kjördæmi og formaður umhverfis og samgöngunefndar Alþingis

 

 

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga