Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Fimmtudagur, 30. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 00:37 0 0°C
Laxárdalsh. 00:37 0 0°C
Vatnsskarð 00:37 0 0°C
Þverárfjall 00:37 0 0°C
Kjalarnes 00:37 0 0°C
Hafnarfjall 00:37 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
75. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
19. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
17. maí 2024
74. þáttur. Eftir Jón Torfason
09. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
07. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Refasveit, Húnafjörður og Hópið Ljósmynd: Róbert Daníel Jónsson
Refasveit, Húnafjörður og Hópið Ljósmynd: Róbert Daníel Jónsson
Pistlar | 11. nóvember 2023 - kl. 11:57
Sögukorn Lopapeysa á Laxárdal 1920
Ingi Heiðmar Jónsson
 1. Elín Kristín Guðmundsdóttir/síðar Snæhólm hafði kynnst fjölskyldu ættaðri úr Húnavatnssýslu, kom vestan af Ísafirði, en það hafði orðið kært með henni og þessari fjölskyldu og ættingjar fyrir norðan höfðu skrifað vestur og beðið að útvega sér tvær kaupakonur að vestan – því það orð lá á að stúlkur að vestan væru sérlega duglegar.
   
 2. Guðrún systir hennar – hafði verið hjá frú Olgeirsson lengur en vitað var um aðrar stúlkur þar – á undan henni – og var ekki laust við að hún fyndi dálítið til þess – en nú fannst henni nóg komið af slíkri vinnu og vildi breyta til – og fara í kaupavinnu.
   
 3. Guðrún vildi nú kanna ókunna stigu og ráða sig norður í Húnavatnssýslu og vill að Elín verði hin kaupakonan sem beðið var um – en Elín segir henni að þetta geti ekki orðið. Þær viti báðar hvað móðir þeirra sé oft lasin og farin að heilsu og er með drengina tvo – bræður þeirra unga að árum – þær myndu verða allt of langt í burtu frá henni og drengjunum ef eitthvað yrði að, en Guðrún sannfærði systur sína að það muni ekkert verða að – og þetta verði nú bara yfir sumarið.
   
 4. Elín rifjar upp í blaðaviðtali kjör kvenna: Það var ekki um margs konar vetrarvinnu að ræða. Helst var það vistir í húsum. Þar höfðu stúlkur í kaup 15-20 krónur yfir veturinn. Hins vegar heyrði ég sagt, að vantaði stúlku á Hótel Nordpolen eins og það var kallað. Þar væri vetrarkaupið 30 krónur en ónæðissamar þóttu vistir þar. Ég freistaðist samt af háa kaupinu og réði mig þar. Sölvi Thorsteinsson hafnsögumaður rak veitingahúsið. Þar var ég um veturinn en ráðningartíminn var til sumarmála.
   
 5. Nú varð hún af litlum efnum að leggja í heilmikil útgjöld vegna fyrirhugaðs ferðalags norður í land – m.a. að verða sér úti um ferðakistu – undir farangurinn sinn – en hún kostaði fimm krónur og var hin ágætasta hirsla, með járnhönkum á göflunum, grámáluð að lit með lítið eitt ávölu loki – og þremur svörtum listum eftir endilöngu lokinu. Elín varð að fá sér kápu – hún kostaði 15 krónur. Fargjaldið frá Ísafirði til Blönduóss – með skipinu – kostaði 7 krónur.
   
 6. Einar þrjár krónur voru þá eftir af vetrarkaupinu hennar, en hún hafði fengið 7 krónur í þjórfé yfir veturinn á hótelinu og var svo heppinn að ekkert brotnaði hjá henni af leirtaui, sem hún hefði annars orðið að borga sjálf. Gufuskipið Skálholt lá við Edinborgarbryggju – hún var að hjálpa frúnni á hótelinu við uppþvottinn þegar skipið flautaði til brottfarar í fyrsta sinn – og þá varð hún að fara að kveðja.
   
 7. Þær voru fljótlega sóttar til Blönduóss – Guðrún var ráðin að Grímstungu en Elín að Refsteinsstöðum og kunni strax vel við fólkið. Ekki var hægt að byrja að vinna á vellinum fyrr en rúmri viku eftir að hún kom þangað.
   
 8. Þrír gengu að slætti um sumarið og þrjár voru að raka, Hólmfríður, móðir bóndans, rakaði líka stundum, hún vildi endilega vinna við heyskapinn þótt hún væri orðin öldruð kona og var töluvert dugleg. Guðmundur sonur hennar lét okkur bera ofan af fyrir hana, því það var henni of erfitt.
   
 9. Helga húsfreyja gekk ekki að heyvinnu, hún hafði nóg að gera við matargerð heima við, hún gaf fólkinu sínu mikinn og góðan mat. Hún sá sjálf um silungsveiðina, niður undan túnfætinum – við Hópið – og hafði oft silung í matinn.
   
 10. Það var farið á fætur kl. sjö á morgnana. Með morgunkaffinu var alltaf brauð og matarmiklir partar, með nýju smjöri, en þessir svokölluðu partar voru búnir til úr kleinudegi, kannski aðeins þykkari og bakaðir eins og kleinur sem oftast voru bakaðar um leið.
   
 11. Þegar við unga fólkið – segir Elín – opnuðum augun á morgnana brást það ekki að aldraða konan, hún Hólmfríður væri sest upp með prjónana sína – og  búin að setja á sig skotthúfuna. Ég dáðist að þessu. En hún kom ekki að rakstri fyrr en eftir morgunmatinn. Hólmfríður var óvenju hraust – komin á þennan aldur – og vinnugleðin með afbrigðum – allt hennar fas svo blæþýtt að manni hlýnaði í návist hennar.
   
 12. Guðmundur á Refsteinsstöðum lét aldrei raka þegar rigning var – hann taldi heyið þá þurfa lengri þurrk. Þá vorum við stúlkurnar látnar þvo þvott – bæta skó – og gera nýja skó á piltana og okkur sjálfar – mjólka kýrnar og ýmis önnur störf sem hægt var að geyma til rigningardaganna.
   
 13. Á sunnudögum vann ég fyrir sjálfa mig – ef ekki þurfti að grípa í að þurrka hey – sem stundum kom fyrir. Einn sunnudag opnaði ég ferðakistuna mína og tók þar upp bandhnykil sem móðir mín hafði spunnið og vandað mikið til – og gefið mér. Ég átti að prjóna úr honum peysufataskotthúfu handa mér – þegar ég hefði tíma til – en ég hafði áður prjónað skotthúfu. Ég var búinn að geyma þennan hnykil lengi – og ég hafði með mér prjóna sem voru í hæfi við bandið.
   
 14. Það var skemmtilegt að vinna á Refsteinsstaðaengjunum – allt rennislétt og mest valllendi – eins og tún væri. Féð sótti líka þangað að vorinu, eða var beitt á engjarnar og varð því líka að hreinsa þær – og tók það verk nærri viku fyrir okkur fjögur. Kríuvarp var með fjörunni, út við Hópið og út að Víðidalsánni, en þar var einu sinni um vorið tekin full fata af kríueggjum.
   
 15. Ekki man ég nú, segir Elín, hvað engjaheyskapurinn var mikill – allt í allt – en einn daginn bundum við heim úr sætum og tveimur flötum flekkjum af engjunum hundrað og tíu hesta af þessu góða – næstum töðugæfa heyi. Árni fór á milli með heybandið – en húsbóndinn var heima og tók á móti heybandinu ásamt Helgu konu sinni. Við heybindinguna voru bara Þórarinn og við stúlkurnar þrjár – við settum á reipin og tókum utan úr sátunum – en Þórarinn batt – síðast tókum við svo saman flekkina sem voru nokkuð stórir – og lokið var við að þurrka þennan sama dag.
   
 16. Frá Guðrúnu systur sinni fékk Elín bréf, með ferðamanni – framan úr Grímstungu – þar sem hún hvatti systur sína til að ráðast til veturvistar að Forsæludal í stað þess að snúa aftur vestur. Það gekk eftir og þar kynnist hún Halldóri frá Sneis, sem var þar vetrarmaður.
   
 17. Í viðtali í Tímanum 1974 segir Elín: Við giftumst haustið 1914 og fórum að Sneis. Mér leið vel i Laxárdal, þó að snjóþungt væri oft. Vorið 1916 var allt í kafi og fé stóð inni fram á sauðburð, fjórar vikur af sumri. Maðurinn minn var hneigður til félagslífs og vann talsvert að félagsmálum, formaður ungmennafélags o. fl. Það veitti ýmsar yndisstundir, en hinu er ekki að neita, að með sjálfri mér fannst mér, að hann eyddi í félagsmálin meiri tíma en hann hefði ráð á. En svo bilaði heilsa hans, svo að við urðum að hætta búskap. Annars hefðum við líklega aldrei farið frá Sneis. Það var vorið 1925, sem við brugðum búi og fluttum á Blönduós . Við höfðum eignast 4 börn en eitt af þeim misstum við. Afkoman á Blönduósi var ekki glæsileg. Að vetrinum var þar enga atvinnu að fá, nema við Fossana, þegar þeir komu, en það var auðvitað stopult og strjált.
   
 18. Þau Sneisarhjón fluttu af Laxárdalnum eftir 11 ára búskap, fyrst til Blönduóss og 2 árum síðar til Akureyrar þar sem þau keyptu hús og blett úti í Glerárþorpi. Rúmum 11 árum síðar flytja þau til Reykjavíkur – eða haustið 1938 og sennilega er Halldór kominn þangað þegar hann hugsar, yrkir og ætlar norður, tekur sér til þess orlof:

  Minna kjara brýt ég band
  best það svarar geði.
  Nú skal fara í Norðurland
  nú skal vara gleði. HHS

   
 19. Það er haustið 1913 sem Elín ræður sig að Forsæludal þar sem hún kynnist Halldóri Snæhólm frá Sneis en síðan lá leið ungu hjónanna upp á Laxárdalinn.  Rifjum upp – svona af handahófi – nokkur þeirra, sem komu að vestan á ókunnar slóðir, bættu mannlíf og efldu samfélagið á ströndum eða í dölunum við Flóann bjarta, s.s.: Halldór Bjarni bóndi í Finnstungu 1979-99, fjallamaðurinn Róbert Daníel ljósmyndari og forstöðumaður við Íþróttahús og sundlaug á Blönduósi, Valgerður Jónatansdóttir húsfrú í Gautsdal ´52-´95, skáldið Hjörtur Gíslason sem kom að vestan, giftist Lilju Sigurðardóttur frá Steiná og þau fluttu til Akureyrar, Jakobína G. Þorleifsdóttir kom frá Bolungarvík og giftist Gísla Ólafssyni skáldi frá Eiríksstöðum, bjuggu í Hólabæ, Blönduósi og síðar á Sauðárkróki.

  Nærri var ég búin að gleyma ljósmóðurinni Sólveigu frá Fossi í Arnarfirði sem kom í skólann á Ytri-Ey, eignaðist mann og son og fór í ljósmóðurnám, en lengst bjuggu þau í Selhaga áður en þau fluttu til Akureyrar, rétt eins og Sneisarhjónin. Sonur Sólveigar, Sigurður Halldórsson f. 1898, safnaði vísum Húnvetninga og annarra góðra vísnasmiða og gaf safn sitt til Héraðsskjalasafnsins á Blönduósi meðan Pétur í Miðhúsum hélt þar um stjórnartaum – svona 10-15 árum fyrir aldamótin.

   
 20. Harpa Hreinsdóttir spyr hvenær konur byrjuðu að prjóna úr lopa (óspunninni kembdri ull) og þá er yfirleitt vitnað í dæmi af Elínu Guðmundsdóttur Snæhólm, sem bjó á Sneis í Laxárdal í Austur-Húnavatnssýslu. Elín gerði tilraun til að prjóna beint úr lopaplötu á prjónavél árið 1920 og sagði frá tilrauninni í grein í Hlín 1922, seinna í Húsfreyjunni. Aðrar heimildir nefna að fyrsta tilraun til að prjóna í höndunum úr plötulopa hafi verið gerð í Mýrasýslu á árunum 1916 – 1918. Sjá krækju í heimildaskrá.
   
 21. Manntal frá Refsteinsstöðum 1910
  1. Guðmundur Guðmundsson húsbóndi óg. 57 ára
  2. Helga Þórarinsdóttir ráðskona hans óg. 47 ára
  3. Andrea Sólveig Bjarnadóttir 13 ára
  4. Árni Guðjónsson fósturbörn húsb. 12 ára
  5. Hólmfríður Bergþórsd. móðir húsb. 75 ára
  6. Bergþór Guðmundsson húsmaður 36 ára
  7. Elínborg Jóhannsdóttir hjú hans 37 ára
  8. Steinunn Guðmundsdóttir húskona 72 ára
  9. Jóhann Friðrik Sakkeusson hjú húsb. 62 ára
  10.-11. Aðkomandi mæðgin ekkja og 2ja ára sonur

   
 22. Manntal 1920 frá Sneis í Holtastaðasókn
  1. Halldór H. Snæhólm húsbóndi g. 34 ára
  2. Elín Kristín Guðmundsdóttir g. 26 ára
  3. Jónína Sigurbj. Filipusdóttir barn 11 ára
  4. Alda H. Snæhólm barn 4 ára
  5. Njörður H. Snæhólm barn 3 ára

Heimildir og ítarefni:
Húnvetningur ársrit Húnvetningafélagsins í Reykjavík 1985
Hótel Nordpolen: https://www.facebook.com/174627206716/posts/10157305110136717/
Refsteinsstaðir 1910: http://www.manntal.is/leit/refsteinssta%C3%B0ir/1910/1/1910
Sneis á Laxárdal 1920: http://www.manntal.is/leit/sneis/1920/1/1910/
Viðtal við Elínu Snæhólm í sunnudagsblaði Tímans 18/2 1974:
https://timarit.is/page/3562683?iabr=on#page/n11/mode/2up/search/sneis
Laxárdalur – kvæði eftir Halldór Snæhólm í sama sunnudagsblaði: https://timarit.is/files/65583767
Vettlingur – úr höndum Elínar Snæhólm: https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=2268002
Að vinna beint úr lopaplötu, Elín Guðmundsd. Snæhólm: http://www.islandia.is/boknord/Ad%20koma%20ull%20i%20fat%20texti.htm
Lopapeysa á Laxárdal um 1920: https://harpahreins.com/blogg/2010/08/17/islenska-lopapeysan/
Vísur og ljóð Halldórs Snæhólm á vefnum: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/hofundur.php?ID=15888  

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið