Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Föstudagur, 1. mars 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Mars 2024
SMÞMFL
252627282912
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 03:44 0 0°C
Laxárdalsh. 03:44 0 0°C
Vatnsskarð 03:44 0 0°C
Þverárfjall 03:44 0 0°C
Kjalarnes 03:44 0 0°C
Hafnarfjall 03:44 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
69. þáttur. Eftir Jón Torfason
25. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
25. febrúar 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
25. febrúar 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
19. febrúar 2024
Frá Leikfélagi Dalvíkurbyggðar
16. febrúar 2024
68. þáttur. Eftir Jón Torfason
11. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
11. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
08. febrúar 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Hof í Vatnsdal. Björn Bergmann / Héraðsskjalasafn A-Hún.
Hof í Vatnsdal. Björn Bergmann / Héraðsskjalasafn A-Hún.
Pistlar | 27. nóvember 2023 - kl. 13:10
Sögukorn frá Ágústi á Hofi I
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
 1. Þegar ég fór í fyrstu göngurnar tólf ára, var Lárus í Grímstungu einnig með í för, lítið eitt eldri en ég og hann mun þá þegar hafa farið nokkrum sinnum í göngur á heiðarnar því að Björn Eysteinsson, faðir hans, var ekki hlífinn við syni sína. Björn hafði eitt sinn ungan dreng með sér í göngur og sagði að þeir saman væru sem tveir menn fullgildir og mun það hafa verið látið gott heita, þótt öðrum væri ekki þolað slíkt.
   
 2. Í náttstað skiptumst menn á um að gæta hesta, tvær stundir í einu og við Lárus áttum eina hestavöku saman. Þá var kalt í veðri, en Lárus kvað hástöfum, þótt ungur væri og mun hafa byrjað á þeirri íþrótt snemma, enda varð hann annálaður kvæðamaður og synir hans eru listamenn í þeirri grein.
   
 3. Hér er gripið ofan í fyrri bók Ágústs á Hofi – Ágúst á Hofi leysir frá skjóðunni sem Andrés Kristjánsson, ritstjóri og Þingeyingur, reiddi fram eins og segir á titilsíðu. Í bókum Ágústs er margt tíðinda úr héraði, afbragðs tungutak og rifjuð upp margvísleg atvik úr hversdagslífi og eins hinu þegar meira var við haft.
   
 4. Andrés ritstjóri segir um Ágúst í formála: Honum varð ætíð tíðræddara um aðra en sjálfan sig og því er þessi bók að langmestu leyti um annað fólk, fjölda fólks víða um land, alþýðufólk jafnt sem höfðingja og ekki farið í manngreinarálit. ...
  Hann hefur alla ævi verið á könnunarferð, gengið til hverra nýrra kynna við fólk með eftirvæntingu og opnum hug, jafnvel forvitni, komið til móts við það í opinskárri einlægni og oftast hlotið gjald í sömu mynt. Það sem hann geymir úr þessum kynnum, eru ekki stórviðburðirnir, heldur smámyndir lífsins, glitrandi tilsvör, kímileg smásaga eða sérstæð viðbrögð, sem lýsa fólki í sveipleiftri miklu betur en langar orðræður.

   
 5. Ágúst segir: Foreldrar mínir giftust aldrei, þótt þau byggju saman eins og bestu hjón langa ævi. Ég veit ekki gerla hvernig á því stóð, en að sjálfsögðu voru þeir til, sem ekki töldu þetta nógu siðsamlegt líferni. Séra Hjörleifur á Undirfelli mun hafa reynt að tala um fyrir þeim og fá þau til að ganga í hjónaband, en það mun varla hafa átt við skap föður míns að láta undan þeim eftirgangsmunum. Varð af þessu einhver þykkja þeirra í milli en þó jafnaðist hún að fullu síðar á ævi.
   
 6. Börn Jóels og Þórdísar í Saurbæ, er hér koma við sögu, voru:
  Jónas, Jón afi minn, Jóhann og Sigurlaug.
  Jónas var faðir Sigfúsar bókbindara í Forsæludal. Hann var hinn merkilegasti maður, meðal annars mesti vísnasafnari, sem hér fara sögur af. Kona hans var af ætt Bólu-Hjálmars og er margt skáldhneigt fólk af þeim komið.
  Jóhann varð faðir Jónasar, föður þeirra alkunnu bræðra, Guðmundar í Ási, Bjarna á Eyjólfsstöðum og Hafsteins á Njálsstöðum. Ég segi því stundum í gamni og alvöru, að út af Jóel í Saurbæ séu komnir mestu ráðamenn í Vatnsdal og við frændur gætum þar öllu ráðið ef við stæðum saman.

   
 7. Faðir minn fór í vinnumennsku um fermingaraldur, fyrst sem smali að Ási og var næstu árin hjá þeim Ásfeðgum, Jónasi Guðmundssyni og Guðmundi syni hans.
  Faðir minn sagði mér síðar margt af Ásverjum hinum eldri. Þeir voru engir hversdagsmenn. Ás var þá sem oft fyrr og síðar mannmargt heimili og rausnargarður. Þar var nokkur kostur góðra bóka og faðir minn var lestrarfús og stálminnugur.

   
 8. Faðir minn fór vinnumaður að Hjaltabakka til prestsekkju sem Hansína hét. Hún var ekkja eftir séra Þorvald Ásgeirsson. Það ár kynntist hann móður minni, Valgerði Einarsdóttur, Andréssonar frá Bólu. Hún var þá í vist á Blönduósi. Þau fluttust síðan vorið 1891 að Gilsstöðum, fengu hálfa jörðina til ábúðar.
   
 9. Einar var skáld gott og margfróður gáfumaður og spunnust um hann þjóðsögur. Þótti ekki allur þar sem hann væri séður. Hann var talinn gæddur fjarsýnigáfu, sem hann gæti beitt til að koma upp um þjófa og knýja þá til að skila þýfi aftur. Einar taldi sig eiga draumkonur tvær, er sögðu honum margt fyrir og stundum hvarf hann að heiman á gamlárskvöld og var þá talinn fara á fund álfkonu í Bólugili.
   
 10. Ég man eftir ýmsu, sem gerðist á Gilsstöðum, þótt ég væri aðeins á fimmta ári, er ég fluttist þaðan að Hofi. Á Gilsstöðum var stór bær og fornlegur. Einhver fyrsta minning mín er af öldrukknum lausamönnum sem komu þangað lausríðandi og þágu kaffi hjá móður minni. Faðir minn var ekki heima. Yfir kaffibollunum sló í brýnu og lauk svo að gestirnir flugust á í illu þarna í eldhúsinu. Ég stóð uppi á búrkistu stórri og horfði svo óttasleginn á atganginn, að ég mátti mig ekki hræra. Þessa minningu hefur óttinn meitlað í barnshugann.
   
 11. Foreldar mínir fluttust að Hofi vorið 1896. Bústofninn var 2 kýr og 48 ær, sem þau höfðu þangað með sér, en þriðjungur þeirra drapst úr bráðapestinni næsta vetur.
   
 12. En loks kom bóluefnið rétt fyrir aldamótin og þótti ekki lítið til koma.
   
 13. Baðstofan á Hofi var í fjórum hólfum. Þar var Norðurhús, Litlahús, Miðbaðstofa og Suðurhús. Í Suðurhúsinu var lítil eldavél og húsmennskuhjón höfðu þar gjarnan ofurlitla heimilisaðstöðu. Bærinn á Hofi var í stærra lagi, því að Björn Sigfússon, síðar á Kornsá, bjó þar ein tvö ár um 1880 og byggði stofuna góðu. Björn og Ingunn kona hans voru miklir brautryðjendur í menntunarmálum kvenna og stofnuðu Kvenmenntunarsjóð Undirfellssóknar.
   
 14. Fyrsti vísir að kvennaskóla Húnvetninga var á Undirfelli en næstu vetur einn eða tvo á Hofi í skjóli Björns og Ingunnar. Til þess skólahalds byggði Björn stofuna. Björn keypti viðinn úr Grímstungukirkju, þegar hún var lögð niður og flutti hann til Hofs. Af þeim viðum reis gamla stofan sem raunar var framhús bæjarins.
   
 15. Í valdstíð Björns Blöndal voru hýðingar og húðlát enn algengustu refsingar við afbrotum og var þeim dómum fullnægt á manntalsþingum eða heima hjá sýslumanni. Björn hafði fastráðinn böðul hjá sér í Hvammi. Hét sá Steinn, þótti dusilmenni, en var býsna hreykinn af embættinu og taldi sig embættisbróður sýslumanns. Hann var oft í ferðum með sýslumanni og hafði gaman af að sýna vendi sína, nostra við þá, vefja og lagfæra svo að þeir væru jafnan tiltækir í hinu besta standi. Þetta voru stórgerðir hrísvendir, vel reyrðir og kunnáttusamlega. Í sumum vöndum voru hafði nálaroddar á hrísinu til þess að rífa húðina til blóðs og sára. Þær hýðingar voru nefndar húðlát, en munu hafa verið að mestu aflagðar í tíð Björns og allar hýðingar orðnar miklu mildari en áður var.
   
 16. Kona Björns Blöndal í Hvammi var Guðrún Þórðardóttir kaupmanns á Akureyri, hin mesta skörungskona. Hún var smá vexti, en þegar hún þurfti að reka vinnumönnum kinnhest, fékk hún sér kassa til þess að jafna hæðarmuninn.
   
 17. Tveir synir sýslumannshjónanna áttu gildan þátt í sögu Vatnsdals næstu áratugi, Lárus sýslumaður á Kornsá og Benedikt í Hvammi. Benedikt var sá eini sona Björns sem ekki hlaut neina skólamenntun, en hann var búhöldur mikill, hreppsstjóri og amtráðsmaður, umboðsmaður klausturjarða og oft fjárhaldsmaður ekkna og munaðarlausra, þótti nokkuð harðdrægur og sérgóður í fjármálum, en traustur og skilríkur í öllum viðskiptum. Hann var fjáður vel, enda er talið að spesíupokinn, sem kom til skipta eftir gamla sýslumanninn í Hvammi hafi verið allþungur.
   
 18. Lárus sýslumaður var röggsamt yfirvald og fór flest vel úr hendi hans. Hann var söngmaður mikill og gleðimaður, einkum á yngri árum og það orð fór af Blöndölum flestum, einkum þeim sem gengu menntaveg. Haft var eftir knæpumanni í Kaupmannahöfn: Brímarnir eru góðir að borga, en Blöndalarnir að syngja.
   
 19. Lýkur hér að sinni sögum Ágústs á Hofi en harla auðvelt er að gleyma sér við frásagnir hans og mannlýsingar þegar opnuð er bókin hans, sú fyrri, en önnur fylgdi á næsta ári þar sem Björn á Löngumýri fær margar blaðsíður í deilum við Vatnsdælinga vegna afréttarmála og um skimpingar þeirra Guðjóns á Marðarnúpi. Þingmaður Húnvetninga, Jón á Akri, og ýmsir félagar hans fá þar gott rúm og væri gaman að safna sögukornum frá Ágústi í fleiri pistla.

Heimild og ítarefni:
Ágúst á Hofi leysir frá skjóðunni Rv. 1970
Saga af orgeli og aðdráttarafli Kvennaskólans: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=19495
Um samkomuhúsið á Móhellu e. Benedikt Blöndal Lárusson: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=18904
Kristján kennari á Brúsastöðum eignaðist konu af Blöndals- og Snæbirningaætt. Hann var líka ágætt skáld: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=20068

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið