Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Föstudagur, 1. mars 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Mars 2024
SMÞMFL
252627282912
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 05:12 0 0°C
Laxárdalsh. 05:12 0 0°C
Vatnsskarð 05:12 0 0°C
Þverárfjall 05:12 0 0°C
Kjalarnes 05:12 0 0°C
Hafnarfjall 05:12 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
69. þáttur. Eftir Jón Torfason
25. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
25. febrúar 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
25. febrúar 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
19. febrúar 2024
Frá Leikfélagi Dalvíkurbyggðar
16. febrúar 2024
68. þáttur. Eftir Jón Torfason
11. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
11. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
08. febrúar 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Húsið Sandgerði og bryggjustubbur. Mynd: Gerður Hallgrímsdóttir/Héraðsskjalasafn A-Hún
Húsið Sandgerði og bryggjustubbur. Mynd: Gerður Hallgrímsdóttir/Héraðsskjalasafn A-Hún
Pistlar | 29. nóvember 2023 - kl. 17:16
Sögukorn frá Ágústi á Hofi II
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
 1. Mannlýsingar Ágústs eru skemmtilestur og að fylgjast með ályktunum þessa gróna Vatnsdælings, sem segir frá Jóel langafa sínum í Saurbæ, hvernig móðir Jóels hafi sent hann í vinnumennsku vestur í Melrakkadal, vissi þar um tvær systur, sem taldar voru góð konuefni. Og önnur þeirra varð kona Jóels Jóelssonar.
   
 2. Bogi Brynjólfsson varð sýslumaður á Blönduósi haustið 1918 og Ágúst hefur orð á því hve Bogi hafði mikla fyrirlitningu og ömun á löngum kærum og masmiklum. Hann átti þá til að fleygja þeim í bræði sinni út í horn og neita að lesa þær allar.
   
 3. Þá voru þingmálafundirnir mikill og vinsæll vettvangur sveitarskörunganna og liðsforingjanna í landsmálaátökunum. Það hafði lengi verið föst venja að halda þingmálafundi í Húnaþingi. Þeir voru haldnir áður en þingmenn fóru til þings. Þar ræddu menn þau mál er efst voru á baugi og báru fram óskir sínar við þingmenn og tillögur um framgang mála. Ályktanir þær, sem þessir fundir samþykktu, voru sendar Alþingi og lagðar fram á lestrarsal og þingmenn töldu sig að nokkru bundna af þeim og skylt að flytja málin.
   
 4. Og Ágúst heldur áfram:
  Sá sveitarhöfðingi, sem mér er einna skýrastur í minni frá þessum árum, er ég fór fyrst að taka eftir sýslufundum og þingmálafundum, er Árni Þorkelsson á Geitaskarði, eftirminnilegur maður með merka sögu að baki. Hann var ættaður framan úr Svartárdal og kom að Skarði ráðsmaður til Hildar, ekkju Bjarna sýslumanns, sem var tólfti sýslumaðurinn á Geitaskarði.

   
 5. Þau hjón höfðu búið þar langa hríð og voru synir þeirra merkismenn, svo sem Páll sýslumaður í Stykkishólmi og Brynjólfur í Þverárdal. Þar var kallað gestrisnasta heimili í Húnaþingi og um það kvað Þorsteinn Erlingsson.
   
 6. Hildur sýslumannsfrú var dóttir Bjarna amtmanns og skálds á Möðruvöllum.
   
 7. Þegar Árni kom í Geitaskarð var þar ung heimasæta að vaxa upp. Hún hét Hildur og var fósturdóttir Hildar sýslumannsfrúar. Árni gerðist þegar búmaður mikill, sá öllu vel farborða og honum voru snemma falin trúnaðarstörf. Sagt var að sýslumannsfrúin hefði gjarnan viljað giftast honum, en hugur Árna hneigðist til heimasætunnar, Hildar yngri og fór svo að lokum að þau bundust heitum. Eftir það fór sýslumannsfrúin alfarin brott og að Þverárdal þar sem hún dvaldist hjá syni sínum langa hríð og var ætíð nefnd: Frúin í Þverárdal. Hún kom aldrei í Geitaskarð framar.
   
 8. Hildur yngri var fríðleikskona. Til þess bendir eftirfarandi vísa, sem utanhéraðsmaður kastaði fram, er hann sá hana nýgifta:

  Hildur gagntók huga minn
  á hana ég lengi starði.
  Ó að væri uppnuminn
  Árni á Geitaskarði.

  Sú saga er sögð, að eitt sinn er Árni á Skarði kom til messu í Holtastaði, spurði hann prestinn, séra Eggert Ó. Bríem, hressilega er þeir höfðu heilsast:„Út af hverju ætlar presturinn að leggja í dag? “ Séra Eggert svaraði kíminn og leit fast á Árna: „Ætli það sé ekki best að leggja út af sögunni um rangláta ráðsmanninn.“ Árni þagði við.

   
 9. Sveitarvöld færðust síðar æ meira á Árna, svo að segja mátti, að hann bæri sveitina á herðum sér, oddviti, hreppsstjóri og sýslunefndarmaður.
  Til voru þeir, sem reyndu að hnekkja sveitarveldi Árna á Skarði. Meðal þeirra var Eggert Leví, þá ungur bóndi á Efri-Mýrum, síðar á Ósum. Hann bauð sig fram gegn Árna en féll. Bjarni bóndi Frímannsson á Efri-Mýrum reyndi þetta líka síðar, en það fór á sömu leið. Traust manna á Árna var óhagganlegt. Bjarni varð þó síðar valdamaður í sinni sveit, en hans tíma var ekki kominn.

   
 10. Þegar Árni varð sjötugur, héldu sveitungar og aðrir vinir í héraði honum veglegt samsæti. Þar flutti Elivoga-Sveinn honum drápu mikla og líkti honum við forna kappa. Árna þótti kvæðið gott, seildist í vasa sinn og tók upp hundrað krónu seðil og bað menn rétta skáldinu yfir borðið. Honum þótti hæfa að greiða sæmileg skáldalaun.
   
 11. Jónatan á Holtastöðum var snemma álitlegur maður og fór ungur til útlanda. Hann kom úr þeirri för lærður búfræðingur og kunnáttusamur reikningsmaður. Hann var hæglátur og ekki framgjarn úr hófi, kunni sér takmörk og þekkti sjálfan sig betur en margir aðrir. Brátt hlóðust á hann trúnaðarstörf fyrir sveit og hérað og hefur annast bókhald fyrir ýmsar stofnanir, þar á meðal Kvennaskólann á Blönduósi.
   
 12. Eitt þeirra mála, sem kaupmennirnir á Blönduósi beittu sér mjög fyrir, var bryggjugerð innan við ána, þar sem þeir höfðu flestir búðir sínar og vildu hafa aðstöðu til skipaafgreiðslu. Þorsteinn Bjarnason barðist mjög fyrir því máli og kom því fram. En þetta var hið mesta óráð. Hvort tveggja var, að þarna gat bryggja ekki staðið og raunin varð sú, að sjórinn og áin sáu fyrir þeim stúf, sem gerður var. Þessi framkvæmd tafði líka fyrir bryggjugerð utan við á, þar sem betri hafnarskilyrði voru og bryggja gat komið að gagni.
   
 13. Einhver lagnasti aðdráttarmaður Sjálfstæðisflokksins á Blönduósi var Friðfinnur Jónsson, hreppsstjóri og trésmiður, frændi Jóns S. Baldurs. Heimili hans og Þórunnar Hannesdóttur konu hans var annálað fyrir greiðasemi og hjálpfýsi. Friðfinnur var enginn bardagamaður, en hann var allra vinur og allir urðu vinir hans. Hann tók hverjum manni með falslausri alúð og reyndi að leysa vanda þeirra. Hann var öllum lagnari við að leiða menn að settu marki án þess að þeir tækju eftir því sjálfir. Slíkir menn hafa líka hæfileika til þess að ráða yfir atkvæðum, ekki síður en umsvifamiklir garpar.
  Friðfinnur smíðaði um langt skeið utan um flesta Húnvetninga, sem lögðu leið sína yfir landamærin og kistulagði marga.
  Friðfinnur var aldavinur okkar Hofsmanna og þar áttum við annað heimili á Blönduósi. Ég hef sjaldan séð eins viðfelldin heimilisbrag og þar eða eins fallega vanin börn. Þar þurfti aldrei að hasta á neinn eða banna neitt. Allt féll í ljúfa löð af sjálfu sér.

   
 14. Meðal hinna umsvifamestu liðsforingja í landsmálum, sýslumálum og hreppsmálum var Steingrímur Davíðsson, skólastjóri á Blönduósi. Hann var gunnreifur framsóknarmaður lengi fram eftir árum og dró ekki af sér. Hann er á margan hátt sögulegur maður og miklum hæfileikum búinn, ítækur ræðumaður en gat verið illkvittinn og einstaklega laginn að reita menn til reiði. Hann var um skeið áhrifamaður í hreppsmálum og oddviti og hann var yfirverkstjóri við vegagerð og viðhald í héraðinu. Slíkur maður hafði mikil völd og góð tækifæri til áhrifa á fólk. Svo fór, að eigin flokksmenn Steingríms þoldu hann ekki fullkomlega, enda var hann allráðríkur. Ýmis brögð voru þá höfð í tafli í valdabaráttunni á Blönduósi, bæði gegn Steingrími og öðrum.
   
 15. Einhver stórbrotnasti og víðfeðmasti persónuleiki á hinu húnvetnska leiksviði þessara liðnu ára var Páll Kolka, læknir, enda er hann skörungur til orðs og æðis og þjóðkunnur maður. Hann kom í Húnaþing sem héraðslæknir á Blönduósi 1934, en við höfðum af honum nokkur kynni áður. Þegar „Stóru bombunni“ eða geðveikimálinu gegn Jónasi Jónssyni var hæst lyft 1930, kom Kolka norður á Blönduós og efndi til fundar, þar sem hann hélt erindi um þessi mál og rökstuddi það, að Jónas ráðherra væri „ekki normal“ eins og Helgi á Kleppi orðaði það. Framsóknarmenn tóku þeirri heimsókn ekki með þegjandi þögninni. Þeir ætluðu að rífa þakið af húsinu, þegar Kolka var að tala, hrópuðu og stöppuðu, svo að allt lék á reiðiskjálfi. Það var enginn friðarfundur.
   
 16. Kolka vatt sér í stríðið jafnskjótt og hann kom til Blönduóss og var í framboði til sýslunefndar árið eftir á móti Kristni Magnússyni. Hann gekk fram með þeirri hörku sem honum var eiginleg og sigraði. Ég man eftir skemmtilegum framboðsfundi, sem ég var á ásamt Magnúsi á Sveinsstöðum fyrir þessar kosningar. Við vorum staddir á Blönduósi í einhverju mæðiveikiragi. Ég man tvennt best frá þeim fundi – frúrnar í fallegu kápunum á fremstu bekkjum og Pál Kolka æðandi um sviðið í bardagaham. Hann losnaði ætíð úr ræðustólnum, þegar honum hitnaði í hamsi, sem oft bar við og sveiflaði sér þá aftur og fram um sviðið og maður bjóst hálfvegis við, að hann tæki flugið þá og þegar.
   
 17. Það var margt líkt með þeim Kolka og Guðmundi Hannessyni. Báðir voru fluggáfaðir, hugkvæmir og miklir málafylgjumenn, en hvorugur laginn að afla sér fylgis eða halda því. Eiginlega fannst mér alltaf, að það yrði okkur Sjálfstæðismönnum til óþurftar, þegar Kolka talaði á fundum eða skrifaði grein í kosningabaráttu svo seinheppinn var hann og þegar Jón á Akri hafði fengið þá báða á hlið við sig, Steingrím og Kolka fannst mér sem honum yrði stundum um og ó þegar mestur var gusturinn á þessum víkingum hans.
   
 18. Öðru máli gegndi um konu Páls, Björgu Kolka. Það var kona, sem hafði annað lag við að koma ár sinni fyrir borð. Hún var ein af valkyrjum Jóns og Hannes Pálsson sagði, að ógerlegt væri að fella Jón á Akri, meðan hann hefði þessar kerlingar með sér.
  En Hannes átti líka sínar „kerlingar“ svo sem Guðrúnu á Guðrúnarstöðum og Sesselju í Sauðanesi, sem hann kvað einhverja hina vitrustu konu, sem hann þekkti, og ól marga og mannvænlega syni sína upp í ósviknum vinstri anda. II 103

Heimildir og ítarefni: 
Ágúst á Hofi lætur flest flakka Rv. 1971
Sögukorn frá Ágústi á Hofi I: https://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=20643
Bogi Brynjólfsson: https://baekur.is/bok/dfdd721a-e63f-489d-a5e1-c12615debb70/6/86/Islenzkar_aeviskrar_fra#page/n85/mode/2up
Árni á Geitaskarði – mynd : https://atom.skagafjordur.is/index.php/mynd-55
Drápa Elivoga-Sveins um Árna: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/ljod.php?ID=5783
Steingrímur Davíðsson skólastjóri – mynd: https://atom.skagafjordur.is/index.php/mynd-366
Blaðaviðtal/SD á áttræðisafmæli: https://timarit.is/files/57568357 og https://timarit.is/files/57568387
Fleiri myndir af bryggjunni og Sandinum – Héraðsskjalasafn A-Hún, ljósmyndarar: Gerður Hallgrímsdóttir, Sigríður Ragnarsdóttir og Björn Bergmann: https://atom.hunabyggd.is/index.php/informationobject/browse?topLod=0&sort=relevance&query=bryggjan+%C3%AD+Sandinum+&repos=  

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið