Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Föstudagur, 1. mars 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Mars 2024
SMÞMFL
252627282912
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 05:28 0 0°C
Laxárdalsh. 05:28 0 0°C
Vatnsskarð 05:28 0 0°C
Þverárfjall 05:28 0 0°C
Kjalarnes 05:28 0 0°C
Hafnarfjall 05:28 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
69. þáttur. Eftir Jón Torfason
25. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
25. febrúar 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
25. febrúar 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
19. febrúar 2024
Frá Leikfélagi Dalvíkurbyggðar
16. febrúar 2024
68. þáttur. Eftir Jón Torfason
11. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
11. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
08. febrúar 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Jói og Klausturmosinn.
Jói og Klausturmosinn.
Teikningar eftir Jóa
Teikningar eftir Jóa
Teikning eftir Jóa
Teikning eftir Jóa
Pistlar | 17. janúar 2024 - kl. 14:37
Stökuspjall: Ljóðadísin lýsti Jóa

I.

1. Hagyrðingar halda af stað
haldnir öngum kvíða. ÓJ
Kirkjubæjar koma í hlað
kvöldsins glaðir bíða. JG

Hagyrðingar halda af stað
haldnir öngum kvíða ÓJ
Krota stöku á bögglað blað
Braga ætíð hlýða. IHJ

Hagyrðingar halda af stað
haldnir öngum kvíða ÓJ
Ferskeytlur þeir færa á blað
sem fara munu víða. GM

Hagyrðingar halda af stað
haldnir öngum kvíða ÓJ
Yrkja skal nú, karlinn kvað:
Á Klaustri er veðurblíða. GM

2. Að byrja Jóamas og stökurabb á Klaustri er ágætur kostur, heimur Jóa hafði teygst vítt um land, þessi Skagfirðingur – af húnvetnskum ættum eins og Bríet og sr. Arnljótur – átti orðið víða vini eða aðdáendur, en þessi Klausturferð var farin 15 árum eftir för okkar Jóa á fyrsta hagyrðingamótið, sem átti bara rétt si svona að verða kunningjakvöldverður á Hótel Dagsbrún á Skagaströnd 1989 og ánægjulegt mótvægi við þungbúna brottför hans að norðan nokkrum misserum áður.

3. Förin sú dró dilk á eftir sér enda var etið lambaket á öllum mótunum.

En á fyrsta mótið komu 11 manns, við Jói komum sunnan af Flúðum, hjónin, Reynir Hjartar og Margrét komu norðan af Akureyri, þrír Blönddælingar birtust: Jón í Ártúnum og Austurhlíðarhjón Guðríður Bjargey og Friðrik bændur þar, Kristján Hjartarson var heimamaðurinn, nafni hans frá Gilhaga og Rósa kona hans komu úr Varmahlíð og sr. Hjálmar af Krók. Allgóð dreifing.

4. Fyrsta vísa á þessu fyrsta móti kom hjá Jóa eins og oftar:

Létt svo verði ljóðagrín
á ljúfri kvæðavöku.
Flytjum þangað vatn og vín
og virðulega stöku. JG

5. En eins og við sjáum nú þegar við horfum yfir liðna áratugi, átti þessi norðurferð, sú fyrsta hjá Jóhanni eftir að hann flutti suður í heldur þungum hug, átti eftir að sýna að hann var komin á nýjan sjó, horfinn frá álasi og aggi fámennisins og átti eftir að fylkja saman hagyrðingum og vísnavinum úr öllum landshornum, sbr. vísurnar í upphafi spjallsins, en að Klausturferðinni komum við betur síðar.

6. Jói hvarf endanlega frá búskap við þessi búferli, það verkefni hafði orðið útundan hjá honum, jörðin Stapi lítil og óhæg, greiðasemin sat einlægt í fyrirrúmi hjá honum og nú sneri Jói sér alfarið að smíðum, fór að vinna hjá Guðmundi Lárussyni frá Skagaströnd, góðum vini frá fyrri dögum, sem hafði flutt til borgarinnar á undan Jóa.

7. Jói átti hesta, fékk inni í hesthúsunum í borginni, kynntist Jóni í Skollagróf, þar kom annar hagyrðingurinn til sem laðaði Jóa úr borgarysnum austur í sveitir, hann fór byggja fjós og hlöðu í Skollagróf, byggði á fleiri bæjum, sólstofu fyrir Ingibjörgu á Blesastöðum, hænsnakofa fyrir Kristínu dóttur hennar, stórt og smátt gat hann gert, fór víða um.

8. Jói hafði herbergi hjá Oddrúnu systur sinni í Kópavogi, en hjá fjölskyldu minni eða í Þjórsárholti þegar hann var austanfjalls.

9. Jóhann í Stapa byggði svo aftur hús fyrir mig, okkur Hörpu og fjölskylduna – meðan enn lifði áratugur af síðustu öld – dálítið sumarhús, 36 fermetra stórt í sléttu túni út undir merkjum Skeiðháholts og Blesastaða þar sem nú hefur vaxið Taglaskógur síðan.

10. Saman stagla stuðla vann
stöðugt bagl og smátt um vit
en aldrei Tagla tilveran
tengist ragli og grannakryt. JG

 11. Hagyrðingamótin árlegu sem stóðu 24 haust  og vörðu þannig í nær aldarfjórðung, hófust s.s. með áðurnefndri ferð okkar Jóa norður á Skagaströnd 9.9. 1989 og ólu af sér ýmsa fleiri stikla eins og fjölsótta samkomu hjá Hauki skólabróður hans í nýju ferðaþjónustuhúsi heima á Snorrastöðum, ferð út í Flatey og Skáleyjar að heimsækja bræðurna Jóhannes og Eystein  og ferð frá Selfossi austur að Klaustri 17. jan. 2004 þar sem safnast var saman í stórri rútu. Bílstjórinn þaulvani, Óli Jörundsson, kynjaður af Snæfellsnesi ók okkur vinum sínum án gjalds auk þess að koma með fyrripart sem margir prjónuðu við eins og sjá má af fyrstu vísum spjallsins.

12. Og það var ort um Kötlu:

Klakabrynjan kalda geymir
Kötlu og reynast helstu varnir.
Eflaust hana illa dreymir:
Af því stafa jarðskjálftarnir. Jói í Stapa

13. Norðan af Skagaströnd sendi Rúnar Kristjánsson kveðju til þessa aukamóts/mótsagnar á Klaustri:

Gæfa er jafnan geði að blanda
góða við og fögnuð tjá.
Skaftfellingar eiga í anda
eld sem jörðin kringum þá. RK

14. Ragnar Böðvarsson varð mikill liðsmaður móta og undirbjó af snilli og alúð mótið á Efri-Vík 2010, þ.e. 6 árum síðar. Ragnar kvað að þessu sinni á Klaustri:

Rímnahallir rísa í hvelli
róminn allir brýna snjalla.
Hvorki gallar eða elli
eru að hrella þessa kalla. RB

II.

15. Blandan Jóns er býsna sterk
bágt er henni að kyngja
kannski hún geri kraftaverk
og komi mér til að syngja. JG

16. Við kynntumst í söng, Jóhann Pétur Guðmundsson, búfræðingur frá Hvanneyri og bóndi í Stapa, en starfaði þó oftar og meira að smíðum og sumarið 1975 steypti hann upp með vinnuflokki sínum húsin við Lækjarbakka nr. 9, 11 og 13 sem við hugðumst búa í – og gerðum – kennarar og starfsmenn við Steinsstaðaskóla, allt eigendur húsanna, jæja, meira skuldarar.

17. Jói byrjaði þetta sumar sitt í Steinsstaðabyggðinni á því að slá upp fyrir húsinu mínu, því syðsta við Lækjarbakkann, þ.e. nr. 13, líklega hef ég verið fyrstur að panta, m.k. fyrstur að ákveða mig, studdur af góðum grönnum og söngbræðrum og minnisstætt er mér að sjá þá feðgana, Jóana, koma ofan brekkuna ofan við Lækjarbakkann árla morguns um Jónsmessuna, bíllinn fór þá ekki í gang hjá þeim uppi í Stapa svo þeir tóku þá bara sprettinn þessa 3 - 4 kílómetra og komu hlaupandi til að hefja verkið. 

18. Já við kynntumst í söng, en nágranni okkar Jóa, garðyrkjubóndinn í Laugarhvammi hugðist stofna kór veturinn/útmánuðina áður en þetta mikla framkvæmdasumar fór að ljóma – og gerði – stofnaði sönghóp með þeim sem lítt höfðu verið söng tengdir og aldrei til kvadddir og þar var Jói í flokki, en ég var gerður að söngstjóra.

19. Þetta voru s.s. ráð Friðriks í Laugarhvammi, sem fór milli sveitunganna að bjóða þeim að taka þátt og réð – öllu heldur – hafði ráðið söngstjórann áður en framkvæmdir hófust. Og söngstjóralaunin urðu óvenjuleg og hlýleg og hugmyndin kom upp þegar byggingarráðagerðir komu í ljós. Sérhver kórfélaga gaf vinnudag til byggingar hússins á nr. 13 og komu fleiri þar til s. s. Jón Kári Jóhannsson, einhleypur bóndi á Syðra-Vatni, Jón á Vatni, sem kom í allar steypurnar með traktor sinn, ég tek skófluna með, svaraði hann mér þegar ég hringdi og leitaði liðsinnis. Ekki man ég hvort ég fékk eitthvað að greiða honum eða Jóhannesi á Ytra-Vatni og fleiri góðir grannar komu með steyputunnur sínar og vélar og húsin á melnum, þ.e. á Lækjarbakkanum þutu upp – nánast.

20. Guðmundur Tryggvason í Finnstungu, frændi minn, tók svo til hamars í ágúst, setti á þak og gerði húsið fokhelt enda var flutt inn í fyrstu herbergin upp úr áramótunum, 1976 var gengið í garð.

21. Jói hafði ekki – um dagana – gefið sér mikinn tíma til að starfa í kórum en hann kom til liðs við Friðrikskórinn og hélt þar – með fleiri félögum – uppi vísnafjöri og var óumdeildur meistari, bæði að hugkvæmni og bragfimi.

22. Það var hugur í Lýtingum um þessar mundir, félagsheimilið í Árgarði var vígt 1. des. 1974 og nafn hússins var dregið af merkisárinu sem víða var fagnað, 1000 ár frá upphafi landnáms. Bridgeklúbburinn settist þar að með spil sín og gesti vestan úr Hlíðarhreppi, margvísleg störf kvenfélags og fundir fóru þar fram og kirkjukórinn æfði í Árgarði í staðinn fyrir Laugarhúsi og svo Friðrikskórinn, jafnaldri hússins, jæja varla, hann hóf upp raust sína eftir áramót og náði að æfa á útmánuðunum áður en hann hélt sína fyrstu árshátíð eins og grónu kórarnir í héraðinu.

23. Sem varð reyndar eina árshátíð þess kórs, því konurnar slógust í hópinn næsta vetur og farið var að kalla kórinn Heilsubótarkór – fram að Rökkurkór 1979, kór í öllu framhéraðinu og æfði í Miðgarði, en þá voru Blöndhlíðingar og Varmahlíð með Englakór Margrétar á Löngumýri komin í hópinn.

24. Hugmyndin að nafni Árgarðs kom frá sr. Ágústi Sigurðssyni á Mælifelli en þau hjónin Guðrún Lára og Ágúst Sigurðsson höfðu fluttst að Mælifelli 1972 og Guðrún Lára tók strax mikinn þátt í félagslífinu í sveitinni, s.s. kvenfélaginu, og eins að safna fólki til að vinna með iðnaðarmönnum við lokafrágang félagsheimilisins. En Jói í Stapa og yngri Jói sonur hans komu til liðs við prestshjónin á Mælifelli þegar þau fluttu þangað, en þriggja hæða steinhús, þurfti sitt viðhald og Jói kunni auk þess á flestu skil þegar bæta þurfti úr. Á þessum tíma gistu þeir oft þar á Mælifelli svo ekki þyrfti að eyða tíma í milliferðir og matseld á tveimur stöðum. 

25. En við Jói höfðum gott félag með Jóni frá Breið, sem vísan hér í upphafi kaflans var ort um, hann hafði litla íbúð í skólanum með góðum vestur- og eldhúsglugga, blasti við vegfarendum þegar komið var á melinn vestan ár og brúar og við félagar stóðum fyrir Sumarlokasamkomum í Árgarði í þrjú haust, frá 1982 sem áttu í prinsippinu að vera sérstakar árshátíðir fyrir piparmenni og einhleypinga en hjónafólk var reyndar í miklum meirihluta þar eins og gengur í mannlífinu.

26. Smáútúrdúr – og þó! Í Tunguhlíð bjuggu Sigurveig Jóhannesdóttir og Jón Dal fram yfir miðja síðustu öld, Silla og Jón voru þau kölluð af sveitungunum en þessum góðu hjónum kynntist ég í borgarferð, sumardvöl og afleysingavinnu sem mér var útveguð hjá Sambandinu, SÍS v/Sölvhólsgötu. Seinni vikurnar leysti ég næturvörðinn af, safnaði ruslapokunum af hverjum gangi og harkaði af mér myrkfælni því komið var fram í ágúst og nóttina tekið að lengja. Oft tók ég fyrsta strætó upp á Háleiti en þá kom annar næturvörður í vagninn hjá Þjóðminjasafninu. Við fórum úr vagninum á sama stað en það var ekki fyrr en síðustu vinnunóttina mína, réttara sagt morguninn sem við lentum í slagtogi, ég og þessi stórvaxni nágranni og kollegi og upplýsist þá að við þekktum hvor til annars og Jói Rokk sonur hjónanna var kunningi úr Húnaveri þar sem ég afgreiddi appelsín og sígarettur á böllum, unglingur í Ártúnum.

En að því kom að þau fluttu gömlu hjónin eftir að hafa búið í kjallara á Háaleitinu í áratugi og fengu vísu frá Jóa:

Það veit reyndar þjóðin öll
á þessu kalda Fróni
að Silla líka í hárri höll
hefur skjól hjá Jóni. JG

Vísan ber með sér að vera svar eða framhald á annarri um búferli þessara vinahjóna minna, í aðra háu blokkina suður af Mjóddinni. Hér birtist sú:

Reykjavíkur rámu köll
rekast um vog og grundir
þar sem Jón úr hárri höll
horfir um þessar mundir. IHJ

27. Eflaust fýsa margan má
manninn vísu að hræra.
Okkar lýsir leiðir þá
ljóðadísin kæra. JG

28. Metur dall og mjólkurskál
músa- snjall við glímur.
Kann að spjalla kisumál
kötturinn Skallagrímur. JG

Vísuna þessa orti Jói fyrir Bergþóru í Ártúnum, litla stúlku og dapra því verið var að senda haustdilkana í sláturhúsið en með vísunni fékk Jói hana til að beina huganum að þeim er lifendi voru. Um þær mundir vann Jói að smíðum hjá Tryggva bónda, föður hennar og bróður mínum, sem var þá að stækka fjós og byggja yfir haughús.

29. En frú Lukka lét sér ekki nægja að leggja saman leiðir okkar Jóa á útmánuðum 1975 í Árgarði, heldur endurtók hún leikinn, þegar Jói réðst til Sigurðar Jónssonar í Skollagróf um þær mundir sem við Harpa og Halla Ósk, eldri dóttir okkur fluttum að Flúðum vorið 1988. Haustið eftir skruppum við á Skagaströnd og upptaktur að hagyrðingamótunum var þannig sleginn, fullkomlega óafvitandi.

Þau fengu sinn takt sem breyttist þegar frá leið. Jói hringdi í skólabræður sína, þessi gat verið veislustjóri, annar kom í Sælingsdal 1991 og bauð öllu gillinu norður til sín í Skúlagarð. Svo birtist þar einn enn, Hallgrímur á Þorbrandsstöðum og bauð okkur til Austurlands næsta haust og fann okkur stað við hjarta landsins, á Hallormsstað 1993.

30. En Jói sparaði ekki að skopast að sjálfum sér ef það var í boði, skoðum vísuna:

Einn er hér líka sem af engu vill tapa
hinn alþekkti flækingur Jói á Stapa
á matgogginn minna vill hann.
Listin ei bregst þó að líði á vöku
hann laumar fram af og til hálfkveðnri stöku
mannasið karlinn ei kann. JG

Jói lauk með þessari vísu heillöngu og glæsilegu ljóði til okkar Hörpu og flutti það á brúðkaupsdegi okkar þ. 3. sept. 1988.

31. Stórhríð var á sjötugsafmæli Jóa sem hann hélt upp á í Árgarði, heimahúsi sínu en við Jón í Skollagróf fórum norður með rútunni, að Ártúnum þar sem við fengum far yfir fjallið og síðan gistingu og rútuna suður aftur.

32. Hundraðasti afmælisdagur Jóa verður má. 22. jan., ég legg til að við spörum bensín í ár, en lyftum kannski glasi með góðum vini/vinum sem þekktu Jóa, snilli hans og mannkosti. Kannski munaði minnstu að orðstír Jóa lenti í rökkurum.

En við skulum gleðjast yfir því sem áleiðis snýst, nóg er af hinu. Jói átti prýðisvist með Sunnlendingum, Gustmönnum og stuðning frá heimili Oddrúnar systur hans í Kópavogi meðan hún lifði og var svo tekið höndum tveim og fagnað þegar hann sneri aftur í Skagafjörðinn. Síðustu árin bjó hann í lítilli íbúð í húsi Stefáns heitins Gíslasonar söngstjóra og Margrétar Guðbrandsdóttur konu hans og var ekki á betra kosið.

33. Við hittumst tvenn hjón og fornvinir Jóa eftir útför hans frá Löngumýrarkapellu og lyftum glasi. En ekki þarf að hreyfa víni þó við minnumst hans, sem gerði mun meira af því að yrkja um vín en drekka á hérvistardögum sínum, gekk þar á undan með góðu fordæmi eins og á fleiri sviðum. 

34.
Vísan snjalla veitir lið
víst það kallast gaman
ef stuðlafallastrengi við
stillum allir saman.

Létt með blakið, ljúf og hrein
lífgar slaka strengi
fæðist stakan ein og ein
ef menn vaka lengi. JG

Vísan nr. 27 og hér á 34 eru frá öðru mótinu sem var haldið við frumstæðar aðstæður á Hveravöllum, í skála með mörgum kojum og eldhúsi í stíl. En Jói hafði undirbúið þessa mögnuðu lofgjörð til stökulistar í nokkrum vísum og hér birtast þrjár síðustu vísurnar.

35. 
Hagyrðingamótin hýstu:

1989 Skagaströnd
1990 Hveravellir
1991 Laugar í Sælingsdal
1992 Skúlagarður
1993 Hallormsstaður
1994 Flúðir
1995 Reykjavík – Bændahöllin
1996 Núpur
1997 Varmahlíð
1998 Seyðisfjörður
1999 Laugaland í Holtum
2000 Reykjavík – Akogeshús
2001 Hvanneyri
2002 Akureyri
2003 Djúpivogur
2004 Hvolsvöllur
2005 Reykjavík
2006 Hólmavík
2007 Blönduós
2008 Smyrlabjörg
2009 Efri-Vík – Hótel Laki
2010 Reykjavík
2011 Stykkishólmur
2012 Húsavík
2013 Borgarfjörður eystri og fauk á haf út, féll niður mótið.

36. Við sögu í þessum minningarorðum koma:

1. Jói sjálfur f. 1924, lést 20. okt. 2020.

2. IHJ f. 1947, búsettur á Lækjarbakka 13 áratuginn 1975-´85 og segir hér frá.

3. Jón Bergmann Guðmundsson f. 1918, d. 2005, lengi bóndi á Breið, en flutti á efri árum út í Steinsstaðabyggðina. Jón var fremur lágur þéttvaxinn, hægur í framkomu og lágmæltur. Vel látinn og eftirsóttur til starfa meðal sveitunganna. Hann notaði meira vesturgluggann, en sjónvarpið og vinir hans gátu fylgst með háttumálum hans um haust og vetur, þegar hann slökkti í eldhúsinu og gekk til náða.

4. Friðrik Ingólfsson í Laugarhvammi, f. 1924, bjó þar á hluta gömlu Steinsstaða, var þar upprunninn, hafði byggt sér gróðurhús yfir rósir, tómata og gúrkur, en ræktaði stundum gulrófur í stórum stíl, stjúpur, morgunfrúr og fleiri sumarblóm og keppti við kollega í Eyjafirði, en afgreiddi og sendi blómapantanir til Siglufjarðar og Ólafsfjarðar á vorin.

5. Sigríður Magnúsdóttir f. 1925, kona Friðriks var frá Sauðárkróki/dótturdóttir Helga á Ánastöðum og systurdóttir Moniku og hafði ung iðkað söng og æft í kór hjá tónskáldinu sjálfu, Eyþóri Stefánssyni á Sauðárkróki. Kórastarf var iðulega umræðuefni við eldhúsborðið í Laugarhvammi þar sem við Jói sátum stundum með Laugarhvammshjónunum og fleiri úr stóru fjölskyldunni þeirra.

6. Jón Kári Jóhannsson Syðra-Vatni f. 1923, d. 2003, einhleypur bóndi á Efribyggð, kom með dráttarvél sína – og steyputunnu til að rétta okkur Lækjarbakkamönnum hönd við húsbyggingarnar.

37. Öflugir stólpar mótanna urðu:

6. Ragnar Böðvarsson Selfossi f. 1935, d. 2014 tók góðan þátt í vísnagamni sem varð til í kringum Jóa í Stapa og hagyrðingamótin og eins Sigurður Sigurðarson dýralæknir f. 1939 sem varð driffjöður í hópferðum, sagnameistari og skemmtanastjóri yfirleitt á mótum vítt um land.

7. Stefán Vilhjálmsson Akureyri f. 1949 kom til liðs við landsnefndina fyrir mótið á Akureyri 2002 og lagði síðan mikið af mörkum fyrir mótin. Hann útvegaði – kannski með bridgekunnáttu sinni – úrvals mann fyrir Austurland sem var Þorsteinn Bergsson Unaósi.

8. Sigrún Haraldsdóttir Reykjavík f. 1953 er komin af Snæbirningum frá Grímstungu eins og jöfurinn sjálfur, Jói í Stapa.

Hún er Húnvetningur, snjall hagyrðingur, gott skáld og undirbjó seinni hagyrðingamótin í Reykjavík af mikilli hugkvæmni, en þau urðu viðamest eins við mátti búast. Þangað kom fólk í hundraðatali meðan mótin út um land töldu svona 70 - 140. Tveimur fyrstu mótunum í Reykjavík stjórnaði Sig.Sig. dýralæknir f.´39 af miklum dugnaði og metnaði. Hann var einhver mesti og öflugasti styrktarmaður mótanna. Sjá nr. 57.

9. Fleiri hagyrðingar:

Gísli Magnússon f. 1938 kennari á Selfossi
Rúnar Kristjánsson f. 1951 skáld á Skagaströnd
Óli Jörundsson f. 1933, d. 2021 bílstjóri á Selfossi

III.

Vísnasafn

38. Þó ég ljóði á þennan mann
þá er engu að tapa.
En að kveða enginn kann
eins og Jói í Stapa. Jón Karlsson

39. Best er kunnur bragartón
beitir hlunnum rúna.
Ferskeytlunnar fremsta ljón
fór að sunnan núna. Sigurður Hansen

40. Jón í Koti og Sigurður á Kringlumýri, ortu ofangreindar vísur upp á Hveravöllum haustið 1990 en þá hafði Jói flutt vísur sínar, ætlaðar þessu móti, voru alls sjö og hófust með þessari:

Bragsnillingum bjóðast völd
burt skal þvinga amann.
Hefjum slyngir hér í kvöld
hagyrðingagaman.

En fleiri gátu sett saman stöku:

41. Frægu skáldin fara á stjá
flíka ljóðum snjöllum
Andinn kemur yfir þá
uppi á Hveravöllum. Jón Karlsson

42. Um fjallasal er förin greið
fátt sem okkur þvingar
Mætast hér á miðri leið
miklir hagyrðingar. Friðrik Ingólfsson

43. Skrafað er margt á skáldaþingum
skiptst á rökum þar.
Hingað er boðið hagyrðingum
og hollvinum stökunnar. Jón Guðmundsson frá Eiríksstöðum

44. Á þriðja mótinu – á Laugum í Sælingsdal – birtust Vestfirðingar fyrsta sinni, Elís Kjaran og hjónin Þuríður og Guðmundur Ingi, Sigvaldi kom frá Húsavík og Guðmundur afabróðir, Guðmundsson frá Dalsmynni og kvað fyrir okkur Lækjavísur Gísla frá Eiriksstöðum.

45. Það er ljúft í munni og maga
mínum þetta lambaket.
Illa held ég endi saga
yfir mig af því ég ét. Guðmundur Ingi Kristjánsson

Vestfirðingurinn og skáldið Guðmundur Ingi sló í glas og flutti tvær stökur til að þakka fyrir veislumat, hér kom sú fyrri, en þegar öldungurinn snjalli og hokni reis úr sæti sínu, birtist mér menningartindur á þessari vegferð sem tveggja ára haustferð okkar Jóa til Skagastrandar var orðin og stöðugt að taka á sig skýrari mynd. Seinna um kvöldið birtist Sigurjón frá Skollagróf, búsettur á Selfossi og nýorðinn faðir og Sigvaldi Jónsson, skólabróðir og vinur Jóa sló í glas og bauð þessu nýja fyrirtæki, árlegu hagyrðingamóti norður í Skúlagarð næsta haust. Þarna risu tindar við tind, greinilega var góður staður þarna í Dölunum, eins og fleiri skáld og listamenn hafa komið orðum að.

Iðunnarfélagar úr Reykjavík slógust þarna í hópinn. Þar var Sigurður Sigurðarson dýralæknir fremstur í fylkingu eins og löngum síðar og stóð fyrir hópferðum á mótin, eftir því sem hringur þeirra stækkaði.

Hér birtast fleiri vísur úr Sælingsdal:

46. Upp skal hefja andans flug
út er runninn frestur.
Hægð og dofa hrinda á bug
halda í Dali vestur.

Úrg þó veður iðki grát
enn er farsælt leiði
lystin góð og lundin kát
Laxárdals á heiði. Kristján Stefánsson frá Gilhaga

47. Eg er nefndur Óli Run
upp þarf kjark að herða.
Í hópi þekktra manna mun
minnstur allra verða. Ólafur Runólfsson frá Berustöðum

Óli kynnti sig með 10 vísum, þetta var sú fyrsta, hinar eru í kverinu góða sem Guðmundur Ingi prentaði á Dalvík. Hann var systursonur Jóa og kom fyrst á mótið ´92, þ.e. í Skúlargarð.

48. Í fjögurra vísna kynningu Jóns Gissurarsonar í Víðimýrarseli segir hann:

Hefjum tal við hal og frú
hérna skal því trúa
hópur valinn hefur nú
heimsótt Dalabúa.

49. Stuðlum tapa fjöldinn fer
falska skapa línu
Jói í Stapa ennþá er
ögn að skapi mínu. Andrés Valberg

50. Gæðabréf með góðar fréttir
glöddu lítinn hagyrðing.
Menn eru eflaust mjög vel settir
sem mega sitja skáldaþing. Sigvaldi Jónsson Húsavík

51. Látum hlátur hljóma
heyrum glaða óma
berast eins og blíðan vind.
Lesum kímin kvæði
kynngimögnuð gæði.
Bergjum hér á lífsins lind.
... Elís Kjaran Þingeyri

52. Jói í Stapa kveður hópinn með þessum orðum:

Hlýju og risnu höldum frá
hugann engir fjötrar þvinga
heil svo aftur hittumst á
heimaslóðum Þingeyinga.

53. Þegar Jói flutti af Suðurlandinu heim í Varmahlíð, kom kom góður granni, Helgi Friðriksson og Sigga kona hans, til liðs með hestakerru sínu, en Jói lét vera að bílflytja hrossin, en rak þau norður yfir landið þvert:

1. Áfram ríð ég ótrauður
öllu hafna grandi
yndi er að vera áttræður
uppi á Sprengisandi.

3. Æskufjör í æðum leynist
enn má þungum huga lyfta.
Meðan andinn ungur reynist
árin litlu máli skipta. JG

54. Fjórða mótið, undirbúið af Sigvalda skólabróður, var á heimaslóðum Þingeyinga, í Skúlagarði 1992 svo segja má að aftur hafi verið komið á heimaslóðir Þingeyinga á Húsavík 2012, sem reyndist verða lokamót.

55. Til mótsins norður við Skjálfanda 1992 komu þrír menn frá Dalvík á þessu merkiskvöldi og sá sem forystu hafði um þá för, var Guðmundur Ingi Jónatansson, náfrændi Jóa í Stapa og átti eftir að leggja mikið af mörkum til mótanna, hann rak litla prentsmiðju á Dalvík, var sjálfur hagorður og ágætur penni og tók að sér að gefa út kver með vísum eftir hvert mót. Þarna bættist við að vísu mikið aukaálag á forstöðumenn mótanna en þó mest á Guðmund Inga sem lagði síðustu hönd á þetta efni og prentaði. Samband hans við landsnefndir mótanna urðu farvegur fyrir rit sem safnað var í vísum frá flestum mótanna.

56. Guðmundur Ingi var lærður kennari og með réttindi til húsasmíða, vann við hvorutveggja, mest kennsluna en var sívinnandi að menningarmálum og hafði þar lagt mikið af mörkum þegar illvígur sjúkdómur lagði hann að velli 4. des. 2015.

57. Þar við Öxarfjörðinn, í Skúlagarði 1992 tók Þorfinnur á Ingveldarstöðum móti gestum og vísaði stjórn mótsins til veislustjórans, Björns skólastjóra á Grenivík.

Það verði kátt við kvæðafar
kyngimáttur orðsnilldar.
Æðasláttinn örvum þar
undir háttum stökunnar.

Virkjum andans orðsins brand
allrahanda gaman.
Þingeyskt land og ljóðaband
leysa vandann saman.

Hætti lestri og brjóti blað
best mun gleðja vini.
Boltanum því beini að
Birni Ingólfssyni.

Þorfinnur Jónsson var svo heiðursgestur á mótinu síðasta, á Húsavík 2012, en þar var Ósk Þorkelsdóttir veislustjóri.

58. Sigurður dýralæknir í Grafarholti Sigurðarson varð fljótt einn af traustustu vinum Jóa og samstarfsmaður eftir að hann flutti suður. SigSig. stóð fyrir hópferð Kvæðamannafélagsins Iðunnar á þriðja mótið vestur í Sælingsdal 1991 og Sigurður tók þetta sama verkefni flest árin eftir það þegar vegalengdin frá borginni fór að mælast í hundruðum kílómetra.

Þáttur Sigurðar í velgengni og vinsældum mótanna var geysistór og vinátta þeirra Jóa stóð traust og trú alla þeirra tíð.

IV.

Félagar í Friðrikskór í Árgarði á útmánuðum 1975

Tenór:
Indriði Stefánsson Álfgeirsvöllum
Kristján Kristjánsson Lækjarbakka 9(óbyggt þá)
Eyjólfur Pálsson Starrastöðum
Hreinn Ingólfsson Litladal

Bariton:
Björn Sveinsson Varmalæk
Björn Ófeigsson Reykjaborg
Indriði Sigurjónsson Hvíteyrum
Margeir Björnsson Mælifellsá

Bassi:
Friðrik Ingólfsson Laugarhvammi 
Sigurður Friðriksson Laugardal
Rúnar Friðriksson Laugarhvammi
Jóhann Guðmundsson Stapa
Jóhann Jóhannsson Stapa
Indriði Jóhannesson Reykjum

Stjórnandi: IHJ Lækjarbakka 13(óbyggt þá)

Margir kórfélagarnir héldu áfram í blandaða kórnum næsta haust, svo sem Friðrik, Jóhann eldri, Sigurður, Hreinn, Rúnar, Kristján, Björn Ófeigs, Björn Sveins, Indriði Stefáns, Indriði Sigurjóns og Eyjólfur en konur sem komu til liðs næstu árin voru auk fleiri karla:

Klara Sólveig Jónsdóttir Laugardal ´75
Rósa Stefánsdóttir Reykjum ´75 - ´78
Sigríður Jónsdóttir Lækjarbakka 9 ´75
Ragna Efemía Guðmundsdóttir Lækjarbakka 11 ´75 - ´78
Lovísa/Lísa Sveinsdóttir Varmalæk ´75
Gíslíana/Jana Guðmundsdóttir Ytra-Vatni ´75 - ´78
Heiðbjört Jóhannesdóttir Hamrahlíð ´75 - ´78
Ingigerður Sigurjónsdóttir Hamrahlíð ´75 og oftar
Sigurjón Sigurbergsson Hamrahlíð ´75 - ´78
Rósmundur Ingvarsson Hóli ´75, ´76
Margrét Stefánsdóttir og Guðmundur Pétursson Sölvanesi ´75
Kolbeinn Sigurðsson Stapa ´76
Elín Þórdís Elísdóttir Stapa ´76
Helga Þorsteinsdóttir Steinsstaðaskóla ´76 - ´78
Svandís Marinósdóttir Álfgeirsvöllum ´76 - ´78
Elín Sigurjónsdóttir Hamrahlíð ´76 - ´78
Eydís Indriðadóttir Hvíteyrum ´76
Hjördís og Stefán í Stekkjarholti ´76
Rósa Björnsdóttir Hvíteyrum ´77
Helgi Friðriksson Úlfsstöðum ´77 - ´78
Birna Guðmundsdóttir Krithóli ´78
Kjartan Björnsson Krithóli ´78
Svana Daðadóttir Reykjaborg ´78
Fríða Eðvarðsdóttir Þorsteinsstöðum ´78
Jónína Friðriksdóttir Laugarmýri ´78
Pétur Víglundsson Lækjarbakka 11 ´78 og oftar

Í stjórn Heilsubótarkórs voru tvö kosin að hausti en þau nutu ráðgjafar stofnanda fyrri kórsins, Friðriks Ingólfssonar garðyrkjubónda í Laugarhvammi.

1975      Klara Jónsdóttir og Björn Sveinsson
1976      Rósa Stefánsdóttir og Eyjólfur Pálsson
1977      Helga Þorsteinsdóttir og Jói í Stapa
1978      Ragna/Ebba Guðmundsdóttir og Sigurður Friðriksson

en haustið 1979 var hafin starfsemi Rökkurkórsins í Varmahlíð og kórfélagar komu þar til liðs ásamt stjórnandanum IHJ og Sveini Árnasyni á Víðimel sem varð stjórnandi kórsins annað starfsár hans en IHJ undirleikari. Jói í Stapa lét sig ekki vanta til þessara söngiðju og kom þar að auki til liðs við Heimi, karlakórinn þar sem Pétur Víglundsson, góður félagi hans starfaði með á þessum árum.

Gestalisti frá mótinu á Hveravöllum 1990

Jón Guðmundsson frá Breið
Jón Sigurðsson Skollagróf
Jón Guðmundsson Eiríksstöðum
Jón Jakobsson Varmalæk
Jón Tryggvason Ártúnum
Jón Karlsson Gýgjarhólskoti
Sigurjón Valdimar Jónsson frá Skollagróf
Lára Bjarnadóttir Selfossi
Birgir Hartmannsson Selfossi
Guðríður B. Helgadóttir Austurhlíð
Friðrik Brynjólfsson Austurhlíð
Ingi Heiðmar Jónsson Flúðum
Stefán Þór Theódórsson Merkjalæk
Hanse Hansson Úlfsstöðum(Svíþjóð)
Sigríður Viggósdóttir Úlfsstöðum
Helgi Friðriksson Úlfsstöðum
Guðmundur Gils Einarsson Auðsholti
Eiríkur Jónsson Dýrfinnustöðum
Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum
Sigurður Hansen Kringlumýri
Ragnhildur Magnúsdóttir Gýgjarhólskoti
Reynir Hjartarson Brávöllum
Hallur Reynisson Brávöllum
Soffía Sæmundsdóttir Ytra-Vallholti
Hafsteinn Lúðvíksson Ytra-Vallholti
Friðrik Ingólfsson Laugarhvammi
Grímur Gíslason frá Saurbæ
Jóhann Guðmundsson Stapa

og frá mótinu á Laugum 1991

Jóhann Guðmundsson Stapa
Haukur Sveinbjörnsson Snorrastöðum
Ingibjörg Jónsdóttir Snorrastöðum
Andrés H. Valberg frá Mælifellsá
Guðmundur Erlendsson Hafnarfirði
Guðrún Jónsdóttir frá Fagurhólmsmýri
Þuríður Jónsdóttir frá Fagurhólmsmýri
Margrét Guðjónsdóttir Dalsmynni
Guðm. Guðmundsson Dalsmynni
Sveinn Jónsson Reykjavík
Einar Kristjánsson fv. skólastjóri Reykjavík
Laufey Samsonardóttir Reykjavík
Kristbjörg Stefánsdóttir Reykjavík
Alfa Guðmundsdóttir Reykjavík
Ormur Ólafsson Reykjavík
Magnea Halldórsdóttir Reykjavík
Sigurður Sigurðarson Grafarholti
Ólafur Runólfsson Reykjavík
Kristján Jónsson Húsavík
Sigvaldi Jónsson Húsavík
Sigmundur Magnússon Vindheimum
Ingigerður Pétursdóttir Vindheimum
Kristján Stefánsson Varmahlíð
Rósa Helgadóttir Varmahlíð
Ingi Heiðmar Jónsson Flúðum
Ólafur Jónsson Skeiðháholti
Katrín Árnadóttir Hlíð
Steinar Pálsson Hlíð
Jakob Jónsson Varmalæk
Magnús Gestsson Laugum
Jóhann Gunnarsson Víkingavatni
Kristmundur Jóhannsson Giljalandi
Bjargey Steinarsdóttir Tröð Kolbeinsstaðahreppi
Guðmundur Símonarson Görðum
Jón Gissurarson Víðimýrarseli
Björn R. Alfreðsson Kópavogi
Ingibjörg Erla Jósefsdóttir
Páll Steinarsson frá Hlíð Kópavogi
Jón Jakobsson frá Varmalæk
Hjörtur Þórarinsson Selfossi
Elís Kjaran Friðfinnsson Þingeyri
Guðmundur Ingi Kristjánsson Kirkjubóli
Þuríður Gísladóttir Kirkjubóli Bjarnardal
Jón Benediktsson Höfnum
Jón í Skollagróf
Sigurjón V. Jónsson frá Skollagróf

Ítarefni:
Jói í Stapa, á 98. afmælisdegi: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=18788
Á Hveravöllum – hagyrðingamót haustið 1990 https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/ljod.php?ID=5803
Jói í Varmahlíð, Sigfús nágranni: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=17487
Skúlagarður, Gljúfur björt: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=18788
Skúlagarður: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=18771
Jói og Óskar í Meðalheimi: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=18665
Guðm.Ingi prentari: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=16978
Klaustursferð 2004: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=19875
Áttræður á Sprengisandi: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/visur.php?VID=33820

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið