Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Mánudagur, 17. júní 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Júní 2024
SMÞMFL
2627282930311
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
30123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 22:16 0 0°C
Laxárdalsh. 22:16 0 0°C
Vatnsskarð 22:16 0 0°C
Þverárfjall 22:16 0 0°C
Kjalarnes 22:16 0 0°C
Hafnarfjall 22:16 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
76. þáttur. Eftir Jón Torfason
15. júní 2024
Eftir Guðmund Inga Guðbrandsson
15. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
13. júní 2024
Eftir Ásgerði Pálsdóttur
09. júní 2024
Eftir Dagnýju Rósu Úlfarsdóttur
05. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
03. júní 2024
75. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. maí 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Gömul sveitakirkja, uppdráttur eftir danska byggingarmeistarann H.H. Schÿtte, frá 1847.
Gömul sveitakirkja, uppdráttur eftir danska byggingarmeistarann H.H. Schÿtte, frá 1847.
Pistlar | 20. maí 2024 - kl. 10:18
Þættir úr sögu sveitar: Hjaltabakkakirkja
75. þáttur. Eftir Jón Torfason

Hjaltabakkaprestakall var með fátækari brauðum í landinu, a.m.k. það tekjurýrasta í Húnaþingi, þótt ekki munaði að vísu miklu.[1] Sóknin var hins vegar lítil, taldi aðeins 11-13 bæi (eftir því hvort Hjaltabakkakot og Klifakot eru talin með), þannig að ætla má að skyldur prestsins hafi ekki verið ýkja mæðusamar. Að vísu var prestssetrið á sóknarenda, eða réttara sagt, í norðvesturhorni sóknarinnar, en engar verulegar torfærur voru á leiðum milli bæja, þótt Laxá hafi stundum orðið skeinusöm vegfarendum að vetrarlagi.

Kirkjan átti heimalandið, það er allt Hjaltabakkaland, en hlunnindum jarðarinnar er lýst svo í biskupsvísitasíu 1. ágúst árið 1750:

         Eftir[2] þeim authoriseruðu Auðunar biskups máldaga á hún allt heimaland, allt að Klifum, öll Hrútey, selför í Sauðadal, öll fiski að helmingi í Laxá. Alla selveiði í Húnavatnsós upp til Brandaness. Allan reka frá Blönduósi og á móts við Giljármenn. Alla þá hálfa veiði í Blönduósi er liggur til Klifa. Og í fríðu tvö kúgildi.

Helstu gæðin fólust í jörðinni sjálfri, sem skv. jarðabók Árna og Páls, sem tekin var 1706, gat fóðrað 7 kýr, 30 lömb og 120 fjár, en í öðru lagi var svo veiðin í Blöndu, Húnavatni og Laxá. Umboðsmenn Þingeyraklausturs seildust eftir siðaskiptin 1550 til að leggja þá veiði undir klaustrið (og þar með efla sinn eigin hag) og urðu langvinn málaferli vegna laxveiði í Laxá um miðja 18. öld þegar séra Björn Þorláksson (1695-1767) freistaði þess að ná hluta hennar undar prestakallið en beið lægri hlut fyrir ofríki Bjarna Halldórssonar sýslumanns á Þingeyrum. Svo fór þó að lokum átta árum eftir dauða séra Björns að Danakonungur úrskurðaði að Hjaltabakki skyldi njóta laxveiðinnar fyrir sínu landi.[3]

Síðar varð einnig ágreiningur um selförina í Sauðadal og selveiðina í Húnaósi en lítið var deilt um rekann eða réttindi prestakallsins í Blöndu og Hrútey en lengi virðast straumiðurnar í Blöndu hafa torveldað mönnum að nýta sér gæði Hrúteyjar.

Séra Björn var kynsæll og hafa sumir afkomendur hans verið nefndir framar í þessum þáttum. Þegar leið á sjöunda áratuginn var heilsan farin að bila og hann réði sér því kapellán, Rafn Jónsson (1735-1807), oft kallaður hinn „rauði,“ því hann reið stundum á rauðri kápu um sveitirnar. Verður rætt um hann síðar en nú vikið að kirkjunni sem líklega hefur frá upphafi staðið á túninu skammt sunnan við núverandi bæjarstæði og er þar nú lítill minningarreitur um hana og kirkjugarðinn. Hús á Norðurlandi stóðu að jafnaði lengur en byggingar sunnanlands þar sem var votviðrasamara, a.m.k. ef húsin fengu sæmilegt viðhald. Þannig stóð t.d. timburkirkja á Þingeyrum, sem var reist um eða upp úr 1700, fram yfir 1820, þ.e. meira en hundrað ár, en var þá að vísu mjög úr lagi gengin, hafði líka fengið lítið viðhald.

Það má ráða af vísitasíum biskupa og prófasta að kirkjan á Hjaltabakka hafi lengstum verið með svipuðu lagi og á 17. öld og framan af þeirri átjándu mun hún hafa verið í þokkalegu ástandi. Áðurnefndur séra Björn Þorláksson lét reisa nýja kirkju á Hjaltabakka sumarið 1749, en notaði talsvert af viði úr þeirri sem áður stóð, m.a. fjórar burðarstoðir úr eik. Viðhaldssögu kirkjunnar má lesa úr annars vegar biskupsvísitasíum og hins vegar kirkjustól kirkjunnar en í hann eru prófastsvísitasíur færðar ásamt reikningum kirkjunnar.[4] Þessari kirkju er lýst svo í áður ívitnaðri vísitasíu Halldórs biskups Brynjólfssonar árið 1750:

Hún er af æruverðigum sóknarherranum, séra Birni Þorlákssyni, 1749 uppgjörð öll undir einu formi í 5 ½ stafgólfi, hvar af kórinn er 1 ½ en framkirkjan fjögur, með tilhlýðilegum stöfum, bitum, sperrum og greyptu þili til beggja hliða milli syllna og áfellum yfir, frá hvörjum að er reisifjöl yfir þrem langböndum hvörs vegar á mæniás. En til beggja stafna er tvílægt þil upp úr gegn með vindskífum yfir. Gluggi er á gaflþili yfir bita með 15 rúðum, 3 blýlappaðar og 1 brotin, en á framþili er hurð á járnum með tilhlýðilegum umbúningi, skrá, lykli, laufi og járnhring, hvört allt er nýtt og viðir kirkjunnar fyrir utan fjóra eikarstafi, nokkuð af þili og fremst af reisifjöl. Milli kórs og kirkju eru nýir dyrastafir og kvennamegin þiljað undir miðslá frá aurstokk en að sunnan prédikunarstóll með sínum staf hvörs vegar og einni fjöl undir miðsyllustykki, fimmkantaður, með listum, á einum fæti.

         Í kórnum er altari gamalt, laslegt, þó fóðrað, með lítilfjörlegri gráðu fyrir og þverlögðu lausu fjalagólfi en sunnan þess er hálffóðraður krókbekkur til prédikunarstóls, frá honum hálffóðruð skör til bríkar við kórdyr. Hins vegar lofar presturinn öðrum eins krókbekk. Í framkirkju er ófóðraður krókbekkur, langbekkur með hliðvegg að prédikunarstól, yfir hvörs enda að er glergluggi með 7 stórum og 4 litlum rúðum, hverra 1 er brennd. Kvennamegin eru 6 stólar og eitt forsæti fyrir utan bríkur á undirstokk að framan en langslá að ofan. Veggir og þak kirkjunnar er nýtt og hún svo öll vel gjörð að utan sem innan.

Kirkjan hefur staðið í miðjum kirkjugarðinum og er nokkrum sinnum nefnt í vísitasíum að halda þurfi garðinum við eða endurhlaða hann en þarna um miðja öldina virðast garðveggirnir í ágætu lagi.

Ekki er alveg einfalt að meta stærð þessa guðshúss. Stafgólf var vanalega talið 3 álnir, um 1,80 metrar. Við vísitasíu Gísla biskups Magnússonar 1758[5] kemur fram álnamál á kirkjunni. Hún er 15 álnir á lengd, 5 á breidd og 3 3/8 alin á hæð undir bita. Hér kemur upp sá vandi að ekki er víst hvort miðað er við „íslenska“ alin eða „danska“ sem var farið að nota sífellt meira á síðari hluta 18. aldar. Íslenska alinin var tæpir 58 cm en sú danska um 63 cm, þannig munaði um 5 cm á þeim. Miðað við íslensku alinina hefur kirkjan verið um 9,57 m metrar á lengd en um 3 á breidd sem gerir tæplega 30 fermetra flatarmál.[6] Hæð undir bita var um 2 metrar og hefur það verið alveg nóg því menn voru lávaxnari á þeim öldum en nú er.

Húsið er alþiljað. Það má heita víst að framþilið hafi náð frá gólfi upp í ris og verið tvöfalt, sömuleiðis kórþilið. Má sjá í vísitasíu prófasts 1775 að kórþilið er farið að fúna, „sem kemur af vatni er þar við að jafnaði niður fellur og orðsakast af því að ei hafa þénanlegir skurðir þar frá skornir verið sem æruverðugur staðarhaldarinn [þ.e. séra Rafn] aðvarast hér eftir bót á að gjöra eftir því sem mögulegt vera kann, svo kirkjunni ei framar til skaða verði.“ Prófastinum, séra Bjarna Jónssyni á Undirfelli, hafa verið ljós þau sannindi að vel þyrfti að lota um timburklæðninguna og koma í veg fyrir að rakt torf lægi upp að timbrinu. Hann er þarna að velta fyrir sér svipuðum hlutum og nú er gert með svokölluðum jarðvegslögnum eða þerrilögnum umhverfis hús til þess að leiða yfirborðsvatn frá húsgrunnum.

Til beggja hliða hafa verið þykkir torfveggir en hliðveggir kirkjunnar eru þiljaðir að innan og þilviðirnir felldir í gróp á syllum og aurstokk, þ.e. fótstykkið í húsgrindinni. Svona þil vildu smám saman gisna og þurfti þá að reka þau saman svo þau yrðu þétt. Sama átti við um stafnþil og ef vel átti að vera þurfti að þétta þau með hampi og bika reglulega. Á húsinu er reisifjöl á langböndum sem þýðir að þakið hefur líka verið timburklætt. Í kórnum er timburgólf en moldargólf í framkirkjunni. Kirkjan hefur því í raun verið timburhús með hliðveggjum úr torfi. Það er hugsanlegt að kórveggurinn hafi líka síðar meir verið hlaðinn úr torfi upp til miðs en timburþil þar fyrir ofan, en sumt er óljóst um umbúnað kórveggsins.

Milli kórs og kirkju var hálfþil. Hæðin er ekki tiltekin en reikna má með 1,20 til 1,30 metra hæð. Hægra megin var prédikunarstóllinn, fimmkantaður og „af íslenskum gjör,“ eins og segir í síðari vísitasíum, á einum fæti og fjalir felldar að honum til að mynda kórþilið karlmannamegin í kirkjunni. Í miðjunni voru svo dyr inn í kórinn og hafa dyrastafir náð frá gólfi upp í þverbita.

Altari er sagt gamalt og gráðan lítilfjörleg en umhverfis í kórnum voru bekkir sem ætlaðir voru betri bændum. Presturinn hefur því ekki haft ýkja mikið rými til sinna athafna. Í framkirkjunni eru nefndir 6 stólar kvennamegin, þ.e. vinstra megin, en karlmannamegin langbekkur með hliðvegg inn að prédikunarstól. Við kirkjudyrnar er krókbekkur, þ.e. stuttur bekkur fast upp við framþilið. Það er því óvíst að til hafi verið sæti fyrir öll sóknarbörnin.

Útidyrnar eru rammbyggilegar og virðast hafa haldið sér nokkuð vel allt fram yfir aldamótin 1800. Járnverkið við þær mun vera smíðað af einhverjum hagleiksmanninum í héraði, skrá á hurðinni og lykill, lamir og lauf sem var járnskjöldur kringum skráargatið, oft talsvert skreyttur eða flúraður. Stundum er þessi skjöldur kallaður „fluga.“ Á framþilinu eru vindskeiðar og á þilburstina er negldur trékross. Þessi kross hafði fokið af við úttekt 1768 þegar séra Rafn tók við kirkjunni eftir lát séra Björns (d. 1767) og kemur ekki glöggt fram hvort og þá hvenær hann var settur upp aftur.

Á kórgaflinum er nefndur 15 rúðna gluggi sem hefur þá verið allstór en rúðurnar að vísu smáar og ein rúðan brotin og síðar brotnuðu fleiri. Á súðinni yfir prédikunarstólnum var einnig lítill gluggi, 11 rúðna. Þessi gluggi var sunnanmegin í kirkjunni yfir prédikunarstólnum og hefur birtan úr honum gert prestinum auðveldara fyrir að lesa prédikunina eða valda kafla úr Biblíunni þegar að slíku kom kom. Skv. vísitasíu biskupsins 1758 er þá kominn nýr gluggi með fjórum stórum rúðum á kórþilið. Þakglugginn var talsvert laskaður 1758 en það hafði verið lagað tveimur árum síðar. Gallinn við þakglugga var (og er raunar enn) að þeim hættir til að leka og í vísitasíu[7] biskups 1790, þegar kirkjan er raunar orðin 40 ára gömul, er nefnt að súðarglugginn sé ónýtur og að farið sé að leka með honum sem muni skemma þakviðina út frá sér.

Í vísitasíunni 1750 er nefnd „lítil klukka á rambhaldi í miðri kirkju, heil og sæmileg.“ Eiginlega ætti klukkan að hafa hangið við útidyrnar en fyrst talað er um „miðja kirkju“ er líklegt að rambaldið hafi verið fest við bita inni í framkirkjunni. Hæpið er að klukkan hafi verið í kórdyrunum því væntanlega hefði verið tekið fram ef svo hafði verið. Klukkan hangir þarna inni í a.m.k. 20 ár en í vísitasíu 1775 kemur fram að presturinn hefur látið reisa sérstakt klukknaport og eru komnar tvær klukkur í það. Þetta port hefur verið í sáluhliði kirkjugarðsins og kirkjugestir væntanlega gengið um það inn í garðinn og síðan í helgidóminn.

Í biskupsvísitasíum 1750, 1758 og 1763 er tekið fram að moldir, þ.e. veggir kirkjunnar, séu í góðu lagi, svo og þakið en þó kemur fyrir að það sé nokkuð sólbrunnið að sunnanverðu, sem var einmitt veikleiki torfþekjunnar fyrr og síðar, og er oft áréttað í vísitasíum prófasts að laga þurfi þakið að sunnanverðu eða þekja það að nýju.

Sýnilega hefur húsið sem var byggt 1749 verið vel úr garði gert upphaflega. Þegar kemur fram um 1780 fara að koma fram gallar vegna fúa, þiljurnar gisna og fjalir að losna úr þeim. Hólabiskupinn, Sigurður Stefánsson, skoðaði kirkjuna rækilega 23. júlí 1790. Hann tíundar ýmsa galla og hefur sumra verið getið hér að ofan:

Þilið í innsta stafgólfi framkirkjunnar sunnan fram við prédikunarstól er nú á milli stafa og syllna úr fallið. ... Reisifjölin í framkirkjunni sama megin upp yfir kirkjuhliðar glugganum, eins og í hinu fremsta stafgólfi norðan fram, niður sigin. Mænirtróðan brostin og inn svignuð í tveimur stafgólfum framkirkjunnar, líka er reisifjölin sloppin af efsta langbandi í tveimur fremstu stafgólfum til syðri hliðar og auðsjáanlega við mænirtróðu víðast fúin. Standþilið á kórbaki er og einnig mjög lasið, einkum sunnan fram við altarið, hvar mest allt þilið er að neðanverðu grautfúið. Skarað standþil er beggja megin kirkjudyra, eins og upp yfir þeim sjálfum, allt á sperrur. Stafirnir eru beggja megin flestir skemmdir af fúa, eins og áfellan í þriðja stafgólfi frá kirkjudyrum kvennamegin.

Mesti skaðvaldurinn sem orsakaðist af rakanum er fúinn, sem hefur feyskt og veiklað kórþilið og suma stafina í grindinni, líka fjalir í þiljunum. Mænitróðan, eða mæniásinn, hefur brostið og svignað inn á parti undan þunga þaksins og þá kemur fljótt að því að reisifjalirnar í þakinu gangi til hliðar eða sleppi af langböndum. Sumt af viðunum virðist þó enn heillegt og biskup telur að kirkjan geti staðið enn um sinn með tilteknum viðgerðum. Það þarf að laga gluggann yfir prédikunarstólnum en þar lekur, einnig vantar vindskeiðar á stafna til að varna því að regn eða snjó skæfi inn á þakið undir torfklæðninguna. Loks mælist hann til þess að sóknarfólkið hlaði „hærri stétt á kórbaki“ til að hlífa kórþilinu sem er orðið svo lélegt að varla er „inni verandi á vetrardag“ í kirkjunni. Næstu ár er oft nefnt að kórþilið hafi verið gisið og kófað inn um það á vetrum. Orðið „stétt“ merkir vanalega hellu- eða steinlagða gangbraut eða plan framan við eða umhverfis hús. Hér er samt helst að skilja að átt sé við hlaðinn vegg sem ætlað sé að hlífa timburþilinu kórgaflsins.

Eftir þennan júlídag 1790 er saga kirkjunnar nánast samfelld sorgar- og hnignunarsaga þótt séra Rafn reyndi eitthvað að spyrna við fótum. Veturinn 1791 fauk klukknaportið um koll en var lagfært sumarið eftir sem kostaði 1 rd. og 36 skildinga með efni og kaupi smiðsins. Sömuleiðis er presturinn byrjaður að draga að „og inn kaupa þénanlega viðu, jafnvel þó ófært virðist að leggja hönd á verkið fyrr en materialia eru fullfengin, sem torvelt reynist á þessari þungu hallæris tíð.“

Það liggur í augum uppi að tekið hefur nokkur ár að jafna sig á áföllum móðuharðindanna 1783-1785. Um þessar mundir var verslunin á Skagaströnd líka í miklu ólagi og sífellt kvartað yfir vöruskorti þar, líka er tekið fram í vísitasíum prófasts að illa gangi að afla rekaviðar sem notaður var í aflviði í byggingum. En 1797 hafa þó verið keypt 10 furuborð í höndluninni sem ætluð eru til viðhalds kirkjunni. Árið eftir kemur á daginn að timbri, sem átti að koma til Skagastrandar, hefði verið skipað upp vestur í Stykkishólmi.

Um aldamótin hefur verið keypt til viðbótar af útlendu timbri 10 borð, 10 plankar og eitt stórtré og kostaði þetta 14 ríkisdali. Sóknarfólkið hefur flutt þennan við heim, en stórtréð varð eftir á Skagaströnd enda óþjált í flutningi og virðist svo að það tré hafi á endanum farið að „óskilum“ eins og það er orðað og kom kirkjunni víst aldrei að neinu gagni. Þá er svo komið að vegna fyrningar og fúa „virðist að enginn stafur verði tækilegur til hennar nýbyggingar, bitar ekki heldur nema í sperrur, slagþil utan og framan gætu þó kannski að nokkru leyti þénað til reisifjalar, og ætti þetta hér áminnst sér í lagi að virðast[8] nær kirkjan verður tekin, en allt hið ringara og fánýtara í öðru lagi sem ei getur þénað til hennar nýbyggingar,“ segir í vísitasíu 1801.

En í sömu vísitasíu er bætt við: „Einn af bændum sóknarinnar, blindur maður Jón Jónsson á Smyrlabergi, hefur skenkt kirkjunni fríviljuglega í tilliti til hennar hrörnunar og fátæktar 1 rd. courant. Leggur nú prófasturinn góð orð til við fjáðari sóknarbændur að ei láti sér miður fara við þeirra hrörlegu og fátæku sóknarkirkju, hvörju enginn þeirra neitar og ekki heldur lofar að þessu sinni.“ Hinn sljóskyggni bóndi á Smyrlabergi[9] sá sum sé betur en nágrannar hans hvað kirkjan var illa komin. Það er eins og prófasturinn, Jónas Benediktsson á Höskuldsstöðum, verði innblásinn af frumkvæði hins blinda bónda því hann hvetur staðarhaldarann til að ráðast í nýbygginguna og beinir því til sóknarfólks á næstkomandi sumri, „sameiginlega og tregðulaust að færa upp að nýju vinstri hliðvegg kirkjunnar til fyrirgreiðslu og léttis, svo heila torfverkið kirkjunnar verði því annars ekki síðan of þungt og örðugt á sama misseri, líka vill og máske kirkjan hér þurfa að breikkast og hennar hægri hliðveggur, þá hér næst hlaðinn verður, færast suður betur til nokkurs munar.“ Það má minna á að sóknarfólki bar að annast torfverkið á eigin kostnað, bæði hlaða veggi kirkjunnar og þekja þak og sömuleiðis annast hleðslu og viðhald kirkjugarðsveggja.

En prófasturinn talar fyrir daufum eyrum og ekkert gerist. Það virðist vera eitthvert slen eða doði yfir séra Rafni síðustu æviárin og framkvæmdir dragast og dragast. Bæjarhús á prestssetrinu eru líka orðin afar hrörleg og viðhaldslaus og eftir andlát Rafns 1807 þarf dánarbúið að greiða stórfé í álag á kirkju og bæjarhús.

Borðviðurinn til endurbótanna mun hafa verið geymdur inni í kirkjunni en húsið haldið áfram að hrörna. Þó eru smáviðgerðir á gluggum og áhöld og skrúði lítillega lagfærð en ekkert annað. Sumarið 1807 var gamla kirkjan loksins rifin og byggð ný enda var þá kominn á staðinn annálaður dugnaðarforkur og smiður, Halldór prestur Ámundason. Nýja kirkjan var í svipuðu formi og sú gamla, álíka löng og há en nokkru breiðari, svo munaði hátt í metra á breiddinni. Viðurinn, sem keyptur hafði verið, nýttist í nýbygginguna en einnig var hægt að nota sitthvað úr þeirri gömlu. Þessi kirkja stóð til 1843.

Að lokum skal minnst á hleðslu kirkjugarðs. Sumarið 1795 var einstökum pörtum garðsins skipt milli sóknarbænda eða bæja og var farið eftir jarðardýrleika og lausafjártíund:

Bóndi eður bændur á Torfalæk hlaði 6 faðma.
Búendur í Holti hlaði 5 ½ faðm.
Bóndi á Hnjúkum hlaði 3 faðma.
Bóndi í Sauðanesi hlaði 5 faðma.
Bóndi í Köldukinn hlaði 5 faðma.
Bóndi á Smyrlabergi og bóndi á Húnsstöðum hlaði báðir til samans 5 faðma.
Bóndi á Kagaðarhóli hlaði 3 ½ faðm.
Bóndi á Hurðarbaki hlaði 4 faðma.
Bóndi í Meðalheimi hlaði 3 faðma.

         Ofanskrifaðri deild af kirkjugarðinum byrjar sérhvörkum taldra jarða ábúanda að koma í stand og halda því sama stykki við sæmilega framvegis.

Samkvæmt þessari skýrslu hefur garðurinn verið 40 faðmar að lengd. Ekki er ljóst hvers vegna Smyrlabergi og Húnsstöðum er steypt saman í þessu yfirliti. Kleifakot hefur trúlega verið í eyði þetta ár og því ekki nefnt, en ábúendum á Hjaltabakka líklega ætlað að sjá um klukknaportið eða hliðið á garðinum miðað við það sem tíðkaðist í öðrum sóknum.

Þetta lítur ágætlega út á pappírnum en lítið eða ekkert varð þó af framkvæmdum fyrr en haustið 1805 en þá koma sóknarbændur og hlaða upp kirkjugarðinn, væntanlega hver sína faðma eins og mælt var fyrir um. En hér sannast hið fornkveðna að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkur hennar og einn bóndinn, Jón í Kleifakoti, hefur brugðist í því að hlaða sinn part, „tveggja faðma langt stykki af garðinum sem enn er opið austanvert,“ en látið loforð um að gera það nægja og stóð svo nokkur ár, að þetta skarð stóð opið og ófyllt.

Biskupsvísitasíur á Hjaltabakka.


[1] Sbr. Brauðamat á Íslandi 1854. Skýrslur um landshagi á Íslandi II, bls. 754-755.
[2] ÞÍ. Bps. B III, 16. Vísitasíubók Halldórs biskups Brynjólfssonar 1747-1850.
[3] Sjá: Páll S. Pálsson og fleiri: Laxá á Ásum (Reykjavík 1989), bls. 15-19.
[4] ÞÍ. Kirknasafn. Hjaltabakki AA/2. Kirkjustóll 1750-1827. Nokkrum sinnum hér á eftir eru teknar upplýsingar úr þessum kirkjustól án þess að getið sé sérstaklega um það.
[5] ÞÍ. Bps. B III, 17. Vísitasíubók Gísla biskups Magnússonar, Jón biskups Teitssonar og Sigurðar biskups Stefánssonar 1757-1794.
[6] „Sé lengd kirkjunnar tekin til viðmiðunar, væri hún 1750 skv. ísl.al.: 0,58x3x5,5=9,57 m; skv. d.al.: 0,63x3x5,5=10,34. Árið 1758 væri hún skv. ísl.al.: 0,58x15=8,70 m, skv. d.al.: 0,63x15=9,45 m. Skv. þessu sýnist mér að 1750 sé notuð ísl.al. en 1758 d.al. Á 9,57 og 9,45 munar ekki nema 12 cm sem er innan skekkjumarka.“ Ábending frá Þorsteini Gunnarssyni arkitekt, sem er sérfræðingur í viðgerðum á og umsjón með gömlum húsum með meiru.
[7] ÞÍ. Bps. B III, 17. Vísitasíubók Gísla biskups Magnússonar, Jón biskups Teitssonar og Sigurðar biskups Stefánssonar 1757-1794.
[8] Þ.e. metast til peningaverðs þegar kirkjan er „tekin“ en með því er átt við viðgerð eða endurbyggingu hennar. Síðan átti að meta „allt hið ringara og fánýta“ í öðru lagi sem hefði þá væntanlega verið lægri upphæð.
[9] Þessi maður var Jón Jónsson (1747-1822) og er nokkur grein gerð fyrir honum í þætti nr. 68. Blinda og barnafjöldi.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið