Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Mánudagur, 15. júlí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Júlí 2024
SMÞMFL
30123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031123
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 05:27 0 0°C
Laxárdalsh. 05:27 0 0°C
Vatnsskarð 05:27 0 0°C
Þverárfjall 05:27 0 0°C
Kjalarnes 05:27 0 0°C
Hafnarfjall 05:27 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
28. júní 2024
Verum upplýsandi
Ég er sólginn í að lesa alls konar fundargerðir, t.d. frá sveitarstjórnum, nefndum og ráðum. Í þeim má finna margt áhugavert og annað minna áhugavert.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Eyjólf Ármannsson
08. júlí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
03. júlí 2024
77. þáttur. Eftir Jón Torfason
01. júlí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
25. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
23. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
21. júní 2024
76. þáttur. Eftir Jón Torfason
15. júní 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Málverk af ósnum, málað af Sigríði Ỏlafsdóttur
Málverk af ósnum, málað af Sigríði Ỏlafsdóttur
Pistlar | 21. júní 2024 - kl. 09:47
Sögukorn frá Blönduósi
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

1. Fyrsta bifreiðin kom til Blönduóss 28. apríl 1923:

1923 Ford vörubifreið – Páll Bjarnason í Ólafshúsi f. 1884
1928 Klemens Þórðarson f. 1888 – hann var afkomandi elsta Klemensar í Hlíð
1928 Zophonías Zophoníasson f. 1906, frá Bjarnastöðum/Æsustöðum
1930 Ágúst Jónsson í Ágústshúsi f. 1901
1932 Ari Jónsson f. 1906 og ók langferðabílum fyrir Bifreiðastöð Akureyrar eftir að teknar voru upp fastar ferðir milli Blönduóss og Akureyrar. Gist var á Blönduósi þar til upp voru teknar eins dags ferðir árið 1936.

2. Væntanlegt ættarmót okkar, afkomenda Ártúnahjóna, nú í lok júní, verður mér/IHJ tilefni til að rifja upp tengingar kringum höfuðstaðinn okkar í austursýslunni, hér var það sem Anna Margrét föðursystir mín bjó með manni og tveim dætrum en Jónas elsti bróðir hennar flutti svo í nýju Björkina sína haustið 1959 og hlaut þar fljótlega stóra vinninginn, konuna úr Hvítársíðu, og verkefnafjöld að leysa. Góðs naut ég af því þegar ég settist á skólabekk næsta haust með Blönduósunglingum, undi með þeim allan þann vetur og deildi litlu herbergi með frænda mínum, þá ennþá miðaldra piparsveini.

Nokkrum árum síðar varð ég svo frægur að hitta einn af sonum þorpsins – af næstu kynslóð á undan, Pétur Sæmundsen bankastjóra, í sjálfri borginni. Ég kom til hans í fylgd annars fræðimanns, Bjarna kennara í Blöndudalshólum en þeir Pétur voru vinir frá gamalli tíð og samherjar í sögurannsóknum. Bak við bankastjórastólinn voru dyr að fræðaherbergi sem hann bauð okkur inn í, þar prýddi fornbréfasafnið hillur og rit um húnvetnska og íslenska sögu – og þar var spjallað. Og yndislegt er að hafa tækifæri að bæta við þáttinn Péturs, hálfrar aldar gamlan, upplýsingum úr  Íslendingabók þar sem nöfn og ártöl streyma að og öllu máli skiptir að miðla hæfilegum skammti áleiðis.

3. Skrásetjararnir okkur gömlu og góðu þurftu meira að hafa fyrir heimildum sínum, jafnvel setjast um kyrrt syðra og grúska og skrifa upp og leita í Þjóðskjalasafninu. Silfurplötur Iðunnar geyma einnig markverðar upplýsingar um kvæðamenningu í Húnaþingi og síðar í borginni. Blönduós er þar stórt nafn, kvæðamenn af Vatnsnesi og sjálft tónskáldið Jón Leifs sem rætur á inn með Svínavatni og Blöndu er stóra blómið á stemmuakrinum.

4. Pétur Sæmundsen segir um fræðslumál:
Fyrsta barnafræðslan á Blönduósi hefur eflaust verið innt af höndum af heimiliskennurum hjá Möller og Sæmundsen og munu önnur börn eitthvað hafa notið góðs af. Árin 1888-89 var Hannes S. Blöndal skáld, kennari á Blönduósi. Hann var einnig verslunarmaður hjá Sæmundsen og bjó á heimili hans.
1900-01&1902-04 kenndi Halldór Halldórsson frá Móbergi
1908-11 Björn Magnússon frá Guðrúnarstöðum, bróðir Kristins á Kleifum og Ásgeirs Magnússonar skólastjóra á Hvammstanga.
1911-16 Bjarni Jónasson síðar kennari í Blöndudalshólum
1916-42 Þuríður Sæmundsen
1920  Steingrímur Davíðsson, skipaður skólastjóri 1921
1959-68 Þorsteinn Matthíasson fyrsti ritstjóri Húnavöku 1961
1966-68 Guðmundur Páll Ólafsson f. 1941
1968-75 Bergur Felixson

5. Við stofnun kauptúnsins var það í 8. læknishéraði, sem var Húnavatnssýsla vestan Blöndu, læknirinn Júlíus bjó á Klömbrum í Vesturhópi, en fyrsti læknir sem sat á Blönduósi var Sigurður Pálsson, skipaður 12. júní 1897.
Júlíus læknir reisti 1901 stórt og vandað hús sem stendur enn, Gamla læknishúsið, var notað fram til 1956 þegar Héraðshælið tók við. Jón Jónsson var læknir 1906-22, Kristján Arinbjarnar 1922-´31, Jónas Sveinsson 1932-33 og Páll Kolka frá 1934.

6. Á sýslufundi í mars 1901 var lagt fram erindi frá Birni Blöndal lækni um styrk til þess, er á Blönduósi vildi taka að sér að hýsa og hjúkra 3-4 sjúklingum og nefndi hann Önnu Þorsteinsdóttur ljósmóður, konu Hjálmars Egilssonar, í því sambandi. Samþykkti sýslunefndin að veita 100 kr. styrk.

7. Sóknarkirkja Blönduósinga var í upphafi Hjaltabakkakirkja. Þegar Blönduós byggðist, var þar prestur Páll Sigurðsson. Árið 1881 var Hjaltabakkaprestakall sameinað Þingeyraprestakalli. Þá var prestur á Hjaltabakka Þorvaldur Ásgeirsson, sem fluttist að Steinnesi og var þar til æviloka 1897. Þá tók sr. Bjarni Pálsson við prestakallinu og gengdi því til dauðadags 1922. Þá tók við sr. Þorsteinn B. Gíslason. Ný kirkja var svo byggð á Blönduósi og vígð af sr. Hjörleifi prófasti á Undirfelli 13. jan. 1895 í „stilltu og indælu veðri" Kirkjugarðurinn var svo fluttur til Blönduóss aldamótaárið. Íbúar Blönduóss fyrir utan ána tilheyrðu Höskuldsstaðasókn og áttu því sóknarkirkju að Höskuldsstöðum en sóttu meira messur til Blönduóskirkju. Prestar á Höskuldsstöðum voru um aldamótin: sr. Jón Pálsson til 1931, síðan sr. Helgi Konráðsson en 1935 kom sr. Björn O. Björnsson.

8. Einn aðalhvatamaður að stofnun Sparisjóðs Húnavatnssýslu 1891 var Pétur Sæmundsen, sem varð gjaldkeri til 1906. Böðvar Þorláksson var frá 1908-22, Hafsteinn Sigurðsson var síðan gjaldkeri í aldarfjórðung, en Árni Á. Þorkelsson á Geitaskarði var bókari sjóðsins 1909-17 og þá Kristófer Kristófersson til 1920, en sagði þá lausu starfinu. Jón Pálmason frá Æsustöðum var þá kosinn og gegndi starfinu til dauðadags 1929. Þá tók Kristófer aftur við og var bókari til 1947. þegar Hafsteinn tók við gjaldkerastörfum var Magnús Jónsson á Sveinsstöðum kosinn formaður og gegndi þeim starfa fram yfir 1940. Sjóðurinn keypti 2 herbergi í samkomuhúsinu 1927 og var þar til húsa.

9. Þegar fyrsti verslunarstjóri Höepfnersverslunarinnar, útibús frá Skagaströnd, lést 1883, tók Pétur Jósefsson Sæmundsen við starfinu. Hann var ættaður frá Stokkahlöðum í Eyjafirði en kjörsonur Ara Sæmundsens umboðsmanns síðast á Akureyri.
Pétur var greiðvikinn og vel látinn, en þótti allíhaldssamur.
Orðheldinn var hann talinn og ef viðskiptamenn hans fengu ekki afsvar, þýddi það loforð, sem stóð eins og stafur á bók. Sögukornin hér að ofan koma úr þætti Péturs Sæmundsen í safnritinu Húnaþing I.

10. Samkomuhúsið í gamla þorpinu – á götuhorninu móti Sæmundsenhúsinu – er mér/IHJ minnisstætt, þar sem Húnavökusamkomur voru haldnar og þar héldu skólakrakkarnir árshátíð á útmánuðum 1961, höfðu leiksýningu, söng og sitthvað til skemmtunar fyrir foreldra og velunnara.
Frá þessum eina vetri mínum þar við Blönduós, á ég enn glöggar minningar um danskennsluna hjá Ragnheiði Brynjólfsdóttur, sem kom á dansæfingarnar út í skóla á íslenska og glæsilega búningnum sínum til að kenna okkur sporið – og stjórna okkur. Þess þurfti nú stundum.  Þorsteinn skólastjóri hvatti okkur til dáða af miklum dugnaði og við, unglingar og börn, urðum sæl með árshátíðina okkar en héldum svo áfram að skrifa enskan stíl, reikna, glíma við réttritun og lesa ljóðin þeirra Jónasar og Matthíasar næsta mánudag.

11. Auðvitað hafði ég komið í bókabúðina til Þuríðar Sæmundsen, en   þetta varð veturinn, annar vetur Jónasar Tryggvasonar með Blönduósingum og Þorsteinn skólastjóri var þegar búinn að virkja hann til starfa með okkur unglingum en eitt sinn undir vor tölti ég alla leið inn fyrir á að finna Jón Björnsson bekkjarbróður og leita aðstoðar í náminu.
Jón átti athvarf hjá frændum, þó frekar frænkum í Sæmundsenhúsi og fór að hjálpa mér við eðlisfræðina en Stefán á Kagðarhóli var búinn að kenna okkur hana og flestar aðrar greinar nema íslensku og sögu um veturinn. Allt þótti mér þetta nokkuð merkilegt eins og reyndar mörg spor okkar, flest gleymd og Jón man ekki minnstu ögn frá upplýsandi og hiklausri kennslu sinni en ég minnist togandi krafta á hægri síðu heftis og uppdráttar sem hann gerði okkur til hægðarauka á krassblað. Ætli ég hafi ekki fengið svona 5,6 í prófinu hjá þeim Stefáni bónda og kennara á Kagaðarhóli og sr. Þorsteini í Steinnesi, prófdómaranum okkar. Einhvers staðar liggur einkunnablað.

12. Börn systkina minna og við öll saman, afkomendur Sigríðar og Jóns í Ártúnum, ætlum að brosa hvert til annars og detta í sögur, kannski syngja lítið lag í hvömmunum við Blöndu nú síðustu dagana í júní. Og því kallaði það á mig að fletta þessum þætti Péturs, spennandi var að rifja upp sögu Blönduóss og þeirra sem ólu þar önn fyrir börnum sínum, öldruðum ættingjum og höfðu kannski greiðasölu í ofanálag.  Íslendingabók erum við öfundsverð af, getum flett upp, tengt og skoðað. Ekki er heldur ónýtt og líta á minningar Ingunnar á Kornsá, Huldu Stefáns, Húnavökunni frá hendi þeirra Þorsteins skólastjóra, Stefáns kennara á Kagaðarhóli, Ingibergs ötula og svo nýju ritnefndinni. Ekki sæmir mér að gleyma sögufélagsstjórninni gömlu með Svipi og sagnir og mikið brautryðjendastarf.
Þakkarefni  er mér veturinn með Blönduósunglingunum, Jónasi frænda, gestum hans, mörgum úr sveitunum en þá voru kynni þeirra Þorbjargar enn ókomin, en þó ekki langt undan. Ekki var heldur farið að rækta í Fagrahvammi neðan við brúna að norðan.

13. „Þar runnu saman tvær hinar bestu ættir í austanverðu Húnavatnsþingi" segir Magnús á Syðra-Hóli um hjónin Ingibjörgu og Illuga, foreldra Jónasar í Brattahlíð, Ingibjörg frá Auðólfsstöðum af Snæbirningum komin og Hafnamönnum, en Illugi frá Gili, af Skeggsstaðaætt, sonarsonur Einars í Þverárdal. En þó ekki ríkismanna, mætti segja, en hlutur Jónasar Illugasonar er stór í sögufélaginu okkar góða í Húnaþingi og sögum okkar, sérstaklega þó úr heimasveitinni í Hlíðarhreppi. Víkjum aftur að texta Magnúsar, hér kemur hluti úr þætti hans:

14.  „Guðrún kona Jónasar Illugasonar hafði tekið til fósturs og uppeldis systurdóttur sína unga, er Guðrún hét, dóttur Engilráðar og Þorkels á Barkarstöðum. Guðrún yngri fylgdi fóstru sinni og nöfnu til Jónasar og var þá fermd. Jónas og kona hans áttu ekki börn. – Guðrún Þorkelsdóttir  var með fósturforeldrum sínum alla stund meðan þau voru við búskap í Brattahlíð. Guðrún Sigurðardóttir húsfreyja lést 16. júlí 1930, hálfáttræð og þótt þar fara merk kona og mikilhæf. Guðrún Þorkelsdóttir tók þá við búsforráðum með fóstra sínum, en hann brá búi tveim árum síðar og flutti til Blönduóss. Þar byggði hann bæ uppi á brekkunni sunnan við kauptúnið og nefndi Fornastaði. Sá bær var reistur í nýræktartúni, er Jónas keypti, því illa kunni hann því að flytja á bera möl, en þarna gat hann haft eina kú eða tvær og ef hann vildi örfáar kindur. En þó hann flytti frá Brattahlíð fargaði hann ekki jörðinni svo fljótt og hafði þar ítök nokkur ár. Hann var þá á sumrum við heyskap þar efra, lengri eða skemmri tíma meðan heilsa hans og þrek leyfði. Þar kom að hann seldi Brattahlíð og er Guðrún fósturdóttir hans giftist Jóni Benónýssyni járnsmið, fékk hann þeim Fornastaði og dvaldist síðan á þeirra vegum til æviloka, fyrst á Fornastöðum, en síðan í húsi því er Jón byggði norðan Blöndu. – Stúlkubarn er Anna heitir Sigurjónsdóttir tóku þau til fósturs, Jónas og Guðrún fósturdóttir hans, og ólu upp. Hún er nú gift kona í Reykjavík.“

15. Sögufélagið Húnvetningur var stofnað vorið 1938 af þeim Magnúsi, Bjarna Jónassyni og sr. Gunnari Árnasyni, en þá voru fáein ár síðan Jónas Illugason flutti til Blönduóss. Magnús á Hóli segir um kynni þeirra, að hann hafi aðeins þekkt hann af afspurn áður en hann flutti þangað og þar hafði hann búið nokkur ár er kynni þeirra hófust að ráði:
„Eftir það sótti ég oftast á hans fund, ætti ég leið á Blönduós og sat hjá honum eins og tími og ástæður leyfðu. Okkur bar margt í tal, en oftast það sem báðum okkar var ofarlega í hug, liðin tíð, ættir, sagnir og hættir genginna kynslóða. Hef ég engan fræðasjó fyrir hitt í þeim greinum, slíkan sem hann, meðal alþýðumanna.“

16. Stella, frænka okkar í Ártúnum, Skaftadóttir bjó lengi á Fornastöðum með Þorbirni manni sínum frá Brekkukoti og ólu þar upp dætur sínar tvær, en áður höfðu búið þar sveitungar okkar úr Svartárdal, þau Imma ljósmóðir frá Gili og maður hennar, Þorsteinn söngstjóri og organisti en þau brugðu búi og fluttu að Fornastöðum líkt og Jónas fyrrum. En nú erum við komin óþarflega nærri nútímanum.
Hverfum aftur um sinn:

17. Silfurplötur Iðunnar Rv. 2004 geyma mikinn fróðleik tengdan Vatnsnesi, Laxárdal og Blönduósi þar sem kvæðamenn skemmtu sér og öðrum á góðum stundum. Gunnsteinn Ólafsson skrifar: „Kveðskaparlistin var vinsælasta dægradvöl þjóðarinnar í margar aldir. Sálmasöngur var að vísu stundaður í kirkjum á helgum dögum en rímnakveðskapur var dagleg iðja fólks á kvöldvökum. Hún virðist hafa verið gríðarlega vinsæl í sumum sveitum í lok 19. aldar og allt fram á 20. öld en þá leið hún næstum alveg undir lok. Merkasti kvæðamaður þjóðarinnar á fyrri hluta 20 aldar var án efa Jón Lárusson kvæðamaður í Hlíð á Vatnsnesi."

18. Jón kvað á alþingishátíðinni 1930 og fræg saga er af ferðalagi, vetrarför hans frá Hlíð suður í borgina Reykjavík ásamt tveim börnum sínum en þá auglýstu þau kvæðamannasöng í Gamlabíói, en þangað kom fjöldi áheyrenda og þannig safnaði þessi snjalli kvæðamaður í sjóð til að greiða fyrir jörðina á Vatnsnesinu, þar sem hann dreymdi um að búa.

19. Gunnsteinn skrifar:
„Ekki var hægt að styðjast við neinar prentaðar heimildir um  kvæðamennina sem lögin eru eignuð. Þeir eru um sjötíu talsins og bjuggu flestir í Breiðafjarðareyjum, á Ströndum og í Húnavatnssýslunum tveimur. Upplýsingar um þá voru mjög slitróttar. Það varð ritstjórninni til happs að fá til liðs við sig Guðmund Sigurð Jóhannsson ættfræðing á Sauðárkróki. Með víðtækri þekkingu á ættum landsmanna leysti hann hverja gátuna á fætur annarri og brátt mátti telja kvæðamenn sem eftir voru á fingrum annarrar handar. Þeirra á meðal voru Ólafur sjóli, Björn nepja, Guðmundur lausi og Sveinn á tólffótunum. Þeir áttu það allir sameiginlegt að tengjast Önnu Halldóru Bjarnadóttur og Hjálmari Lárussyni á Blönduósi. – bróður Jóns Lárussonar."
... Bræðurnir Hjálmar Lárusson f. 1868 og Jón í Hlíð voru synir Sigríðar Hjálmarsdóttur frá Bólu. Hjálmar var trésmiður og myndskeri á Blönduósi, flutti síðar til Reykjavíkur og Anna Halldóra Bjarnadóttir, ekkja hans, miðlaði stemmum til Iðunnarfélaga eftir að stofnað var félag í Reykjavík 1929.
Jón Lárusson í Hlíð f. 1873, alinn upp í Holtastaðakoti eins og bróðir hans, en í gögnum sem hann skildi eftir sig og varðveitt eru á Stofnun Árna Magnússonar gerir hann grein fyrir þeim kvæðamönnum sem hann lærði af á sínum tíma. Þar voru kvæðamennirnir fjórir, sem leitað var að, allir nefndir fullu nafni og lítillega getið um búsetu þeirra. Í ljós kom að þeir höfðu fleiri en eitt viðurnefni og voru allir úr sveitunum í kring um Blönduós. Þegar síðasti kvæðamaðurinn var fundinn og litið yfir sviðið kom það mest á óvart hversu margir þeirra voru úr tveimur afdölum Austur-Húnavatnssýslu; Laxárdal fremri og Norðurárdal. Rúmlega tíu kvæðamenn eru nafngreindir þar á 19. öld og hafa þeir eflaust verið fleiri þó ekki komi þeir hér við sögu.
Hér hefur verið vitnað í grein Gunnsteins Ólafssonar tónlistarmanns og söngstjóra f. 1962, sem tengdur er Vatnsnesi með konu frá Hvammstanga, Eygló Ingadóttur f. 1967.

20. Ljóð og stökur tengd staðnum á Blönduósi:

A
Við sjálfan Ægi hér móðan mynnist
þar mætast armar við bláan sand.
Í köldum straumum hún Kára kynnist
og kröppum bylgjum er herja land.
Þó berjist hrannir, svo björgin skjálfa
ei bugast lætur vor aldna storð.
Hún tryggðir heldur við tröll og álfa
af tökum hafsins ber sigurorð.
Steingrímur Davíðsson/Fagri Hvammur 1. vers

B
Mín þó höndin megi skammt
máttlaus öndin frjósi,
minnislöndin muna samt
margt frá Blönduósi. Bjarni Jónsson frá Gröf

C
Þarna er ljós við brekkubrún
býr þar drósin fögur.
Vítt um Ósinn vefur hún
vonarósakögur. Björn S. Blöndal

D
Augað hrífst við opið svið
en ég gleðst af fleiru
því „bjarkaróm" og Blöndunið
bregður fyrir eyru.
Bjarni Vilmundarson úr kirkjukór Hvanneyrar að heimsækja Bjarkarkórinn á Blönduósi

E
Nú brosir vor í byggðum okkar heima.
Þar blíðlát gola strýkur unga grein.
Létt af brúnum lindir bjartar streyma
ljóðar alda hljótt við fjörustein.

Þar ljómar sólin, lauguð hafsins bárum
um ljósa nótt, er syrgir horfinn dag.
Þar grætur jörðin djúpum daggartárum
frá duldum strengjum ómar kveðjulag.
Þorsteinn Matthíasson 3. & 4. vers úr Móðurminning

F
Dagur nýr á sviði sögu
sviptir myrkri, þoku lyftir
breiðir roða um björg og skriður
brosir grund í daggar flosi.
Angan stígur úr engi og túni
ilma runnar í varma sunnu.
Fagnar tunga, fuglar syngja
fögrum rómi í sólarljóma.

Stírur falla af augum öllum
ólgar dugur í blóði og huga
Æska vakir með vösku bragði
víkur að starfi í nýju ríki
græðir hrjóstrug grundar fleiður
grýttar ryður urðir og skriður
stýrir á miðin fögru fari
feiknavélum stjórnar af leikni.
Páll Kolka/Kvæði flutt Sveini forseta 1. ág. 1944

Ýfast tekur aldan sölt
úti um svið á hausti.
Ljóðasnekkjan lek og völt
liggur upp í nausti. Páll Kolka

G
Þig hefur alltaf auðnan stutt
ökukempan slynga.
Þú hefur margan farminn flutt
fyrir Vatnsdælinga.

Þó að fannir féllu á grund
í ferðum vetrar ströngum
fannstu einhver opin sund
— utan vegar löngum.
Ólafur Sigfússon til Zophoníasar bílstjóra, tvær fyrstu vísurnar.

Það var ekki talað um vetur né byl,
er vöktu þeir Jónas um nótt.
Ef fastur í snjó var á brautinni bíll
það brást ei hann vaknaði fljótt.
Og viljinn að greiða úr vanda hvers manns
það var honum hvatning í raun.
Ef einum fannst ófært, fannst honum það hægt
og hlýtur nú eftir því laun!
Ólafur Sigfússon/Jónas Vermundsson fyrra vers.

H
Feta ég fornar slóðir
finn mína gömlu vini.
Fjallsins heiðríki heimur
heilsar í aftanskini.

Af Brúnum ég lít yfir landið
- liðið er senn að kveldi:
Húnavatn, Hópið og Flóinn
hjúpuð í kveldsólareldi.
Anna Árnadóttir/Af Langadalsfjalli 1.& 6. vísa

Vertu í þínum verkum trúr
vandaðu mál og hugarþel.
Ræktaðu grænan akur úr
eyðisandi og blásnum mel. Anna Árnadóttir

21. Nokkrir Blönduósingar:
Böðvar Þorláksson f. 1857 sýsluskrifari og póstafgreiðslumaður, prestsonur frá Undirfelli, var í fyrstu bóndi á Hofi. Sr. Þorlákur Stefánsson var prestur í Blöndudalshólum en síðar á Undirfelli. Dr. Björg Þorláksson og Jón Þorláksson verkfræðingur og forsætisráðherra frá Vesturhópshólum eru bróðurbörn Böðvars á Blönduósi.

Síðari kona sr. Þorláks á Undirfelli var Sigurbjörg, dóttir Jóns prófasts Péturssonar og Elísabetar frá Bólstaðarhlíð. Synir þeirra átta voru:
Síra Jón á Tjörn, síra Lárus á Felli, síra Arnór á Hesti, Þórarinn málari, Þorlákur í Vesturhópshólum, Björn smiður í Munaðarnesi, Böðvar hreppstjóri og póstafgreiðslumaður á Blönduósi og Sigurður söðlasmiður.
Þeir Þorlákssynir voru flestir með sterku ættarmóti og smávaxnir. Böðvar væri t.d. nægt efni í heilan sagnaþátt, sá ölkæri og orðsnjalli maður, þótt ekki verði honum gerð þau skil hér. Síra Þorlákur var maður minnstur á velli en þó allknár og glíminn, fölleitur í andliti, ljósleitur og hár og eygður vel. Talinn var hann góður söng- og ræðumaður. Voru og sumir synir hans bassamenn ágætir, einkum Böðvar. Eitt sinn hafði einn af drykkjubræðrum Böðvars orð á því við hann, að það yrði að vanda vel til bassans við útför hans, en Böðvar svaraði þegar í stað:„Bölvaður asni ertu, hver heldurðu að syngi bassa þegar ég er dauður?" Úr Föðurtúnum PKolka bls. 259.

Friðfinnur Jónsson f. 1873 hreppsstjóri og smiður, móðurbróðir Jóns í Ártúnum og Jónasar Tryggvason á Blönduósi, ömmubróðir smiðsins, Grétars Guðmundssonar og Áslaugar frá Finnstungu. Friðfinnur er afi Þórunnar á Auðólfsstöðum. Þórunn Hannesdóttir kona Finns var móðursystir Hannesar Guðmundssonar bónda á Auðólfsstöðum en Finnur föðurbróðir.

Pétur Sæmundsen f. 1841 bjó í Sæmundsenshúsi á Blönduósi 1901.

Þuríður Sæmundsen f. 1894, kennari, bóksali og ættmóðir á Blönduósi, alsystir Sigurðar Sigurðssonar landlæknis frá Húnsstöðum.
Hún var móðir Péturs Sæmundsen f. 1925, bankastjóra, höfundar Blönduósþáttar í Húnaþing I, útg. Ak. 1975, sem er grunnur að þessum sögukornum. Maður Þuríðar var Edvald Sæmundsen/Evald Eilert f. 1878, verslunarstjóri og sonur Péturs Sæmundsen

Ragnheiður Brynjólfsdóttir f. 1901, var á Ytri-Ey 1901, tengdadóttir Þórarins alþm. á Hjaltabakka, var í Böðvarshúsi 1957, klæðskeri og handavinnukennari og sinnti gestgjafahlutveri í samkomuhúsinu, tók við rekstrinum 1932 af Ingibjörgu í Ólafshúsi og sinnti því fram til 1943.  

Páll Kolka f. 1895 læknir í Vestmannaeyjum og á Blönduósi. Orti ljóð, safnaði efni og myndum og skrifaði Föðurtún, stóð við stýrið þegar byggt var Héraðshæli Austur-Húnvetninga, tekið í notkun í ársbyrjun 1956.

Kristinn Magnússon á Kleifum f. 1897 kaupmaður og verslunarstjóri hjá KH á Blönduósi.

Sólveig Sövik f. 1912 skólastjóri v/Kvennaskólann, tónlistarkennari og organisti á Blönduósi. Maður hennar Óskar Sövik starfaði við Laxárvirkjun frá fyrstu árum virkjunarinnar. Hann tók okkur dalastrákum virktavel þegar við lentum í vandræðum með lampa eða einhver tæknimál við gítar- og orgelmagnara. Og ekki var þar okrað á okkur.

Ingibjörg Sigurðardóttir f. 1905, móðir Húna bakara á Blönduósi, Þorsteins Húnfjörð, sem byggði Krúttsalinn og seldi kringlur vítt um land. Þau  systkin, IS og Þorsteinn bóndi í Enni komu úr stórum systkinahópi ofan af Laxárdal en Ingibjörg bjó síðar með Jónasi Bjarnasyni, ekkjumanni og fyrrum bónda á Ásum og í Litladal, föður Bjarna kennara í Blöndudalshólum og Ólafs í Litladal og starfaði að kaupfélagsmálum og söguritun. Eftirsóttur var Jónas sem ritari á sýslufundum Austur-Húnvetninga.

Tómas R. Jónsson f. 1903, fulltrúi við kaupfélagið/KH og driffjöður í leikstarfi á Blönduósi. Faðir Ragnars Inga f. 1946, skólabróður okkar frá 1960 og afi Tómasar R. Einarssonar, bassaleikara, rithöfundar og tónskálds úr Sælingsdal.

Zophonías Zophoníasson f. 1906 bílstjóri á Blönduósi, ættfaðir margra Blönduósinga og afi Ragnars Zophoníasar og Kristínar Guðjónsbarna, er starfað hafa að félagsmálum: Kristín mest heima á Blönduósi, en RZG stofnaði Húnahornið, öfluga vefsíðu fyrir rúmlega tuttugu árum og hefur síðan ritstýrt henni, tekið við fjölda greina og tilkynninga úr héraðinu, bætt um og leiðbeint skrifurum sem eiga erindi við Húnvetninga. Þar er mikil sjálfboðavinnu skilað, eins og víðar við rit- og fræðastörf.

Guðbrandur Ísberg sýslumaður: Sá yngri, Jón Ísberg sýslumaður var fæddur 1924 en faðir hans Guðbrandur Ísberg tókst sýslumannsembættið á hendur árið 1932 og gegndi því embætti til 1960. Jón til 1994.
Þegar amma og afi, Jósefína og Ólafur á Mörk, fluttu út að Holti 1948, sem þau keyptu með Pálma syni sínum og konu hans, þá keypti Guðbrandur sýslumaður hluta af Holtslandi, þ.e. nesið sem Laxáin liðast kringum á þrjá vegu og þar höfðu þeir sýslumenn bú, hross og sauðfé.

Þrír öflugir af Ásunum/í Torfalækjarhreppi:
Jón alþm. Pálmason á Akri f. 1888: https://www.althingi.is/altext/cv/is/cv/J%C3%B3n_P%C3%A1lmason/330/?nfaerslunr=330
Þórarinn alþm. á Hjaltabakka f. 1870 https://www.althingi.is/altext/cv/is/cv/%C3%9E%C3%B3rarinn_J%C3%B3nsson/615/?nfaerslunr=615
Torfi Jónsson Torfalæk f. 1915 https://timarit.is/page/6454951?iabr=on#page/n173/mode/2up/search/h%C3%BAnavaka   

Heimild: Pétur Sæmundsen: Húnaþing I/Blönduós, útg. á Ak.  1975
Íslendingabók
Silfurplötur Iðunnar, Rv. 2004
Föðurtún Páls Kolka. 
IHJ/Gömul sögukorn af Jónasi frá Finnstungu/Blönduósi: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=17296

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið