Pistlar | 17. desember 2014 - kl. 17:59
Organistapistill - Að gefa og þiggja gjafir
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Á jólunum fæddist Jesús
í jötu hann lagður var.
Gjafir þar honum gáfu
gráhærðir vitringar.

segir Guðmund Kristjánsson frá Steinnýjarstöðum í Jólaljóðum sínum. Ljóðið hans birtist ásamt ljóðum og vísum 99 annarra skálda og hagyrðinga í ljóðasafninu Íslensk alþýðuskáld.

Jólaföstu- og jólatími verður löngum tími ljóða og annarra skáldamála. Aðventa, saga Gunnars Gunnarssonar, hefur, góðu heilli, komist á klassíska bekkinn á síðustu árum, Pétur Eggerz hefur verið að leika verk sitt eftir sögunni í Möguleikhúsinu. Í Mjóddinni, biðu svo saman eftir síðasta strætó til Selfoss á öðrum sunnudegi aðventu pistilritari og kollegi hans, Trausti Steinsson fyrrum kennari á Húnavöllum og Dalvík. Trausti var þá að koma sæll og ánægður af sýningu í Möguleikhúsinu. http://moguleikhusid.is/leiksyningar/adventa/

Annað sjónarhorn til þessa verks og hinnar köldu ferðar þremenninganna eru myndatökur Sigurjóns Péturssonar, sem fór með konu sinni og helsta samstarfsmanni, Þóru Hrönn Njálsdóttur, austur á Hólsfjöll, þar sem þau gistu nótt og nótt í sæluhúsinu við Jökulsá en þó mun oftar heima í Grímstungu. Mynd Sigurjóns af rammgerða sæluhúsi hefur orðið nokkurs konar tenging við þetta skáldverk Gunnars. 

Á Blönduósi gengur lífið með venjubundnum hætti, þeir sem ekki eru lengur bundnir í fastri vinnu hittast árla dags í heita pottinum, lauginni væri nú réttara að segja og flestir fá sér sundsprett, börn og unglingar hafa skreytt skólann sinn fagurlega, fjölsótt var á öðrum sunnudegi til aðventusamkomu í kirkjunni,  kór Þingeyra- og Blönduóskirkna söng, en oddvitinn í Húnavatnshreppi, Þorleifur í Sólheimum rifjaði upp glaðar minningar frá bernskujólum. Júlíus bóndi í Meðalheimi, traustur söngmaður og góður félagi varð fimmtugur á jólaföstunni. Vinum sínum, gangnamönnum og kórfélögum gerði Júlíus glaðan dag frammi í Dalsmynni og þar var mikið sungið. Heimilisiðnaðarsafnið stóð fyrir myndarlegri bókakynningu með ljúffengu súkkulaði. Þangað kom sagnfræðingurinn, Jón Þ. Þór til að minna á Húnvetninginn Valtý Guðmundsson og bók sína um hann: Dr. Valtý.

En Guðmundur frá Steinnýjarstöðum lýkur jólaljóðum sínum svo:

Gefa og þiggja gjafir
ganga í kringum tréð
og inni í hugum allra
er afmælisbarnið með.
http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?ID=4268

Gleðileg jól!

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga