Páskamót 2014
Páskamót 2014
Landsmót STÍ Húsavík
Landsmót STÍ Húsavík
Fjáröflun LGP
Fjáröflun LGP
Pistlar | 08. febrúar 2015 - kl. 11:48
Árið 2015 hjá Skotfélaginu Markviss
Frá stjórn Skotfélagsins Markviss

Árið 2015 verður viðburðaríkt hjá Skotfélaginu Markviss og langar okkur í stjórn félagsins til að fara yfir það helsta sem framundan er hjá okkur.

Almennar æfingar
Stefnt er að því að almennar æfingar verði með svipuðu sniði og undanfarin ár, þ.e. á miðvikudagskvöldum frá 1. júní til 1. september. Hátt í 30% aukning varð í aðsókn á þessar æfingar á síðasta ári frá því árinu áður og vonum við að sú ánægjulega þróun haldi áfram.

Samkvæmt tölum frá Íþrótta og Ólympíusambandi Íslands er skotfimi sú íþróttagrein sem er í hvað örustum vexti hérlendis en iðkendafjöldi hefur tvöfaldast frá árinu 2008 og er nú um 4000 manns, þetta er í samræmi við þróun í öðrum löndum sem við berum okkur saman við.

Mótahald
Fimm mót verða á vegum Markviss í sumar, fjögur af þeim verða haldin á skotsvæði félagsins en það fimmta í samstarfi við Skotfélagið Ósmann á Sauðárkróki.

Páskamót félagsins er fyrsta mót ársins á svæðinu okkar og er það opið öllum sem hafa aldur til notkunar skotvopna, nánari dagsetning verður auglýst síðar.

Landsmót 50+ verður svo haldið hér á Blönduósi með pomp og prakt dagana  26.-28. júní. Keppt verður í skeet og viljum við enn og aftur bjóða allar gömlu kempurnar velkomnar að koma og skjóta með okkur.

Landsmót Skotíþróttasambands Íslands
Skotfélagið Markviss heldur að venju landsmót á Blönduósi helgina 18.-19. júlí, þetta er tíunda sumarið í röð sem við höldum landsmót fyrir sambandið  og hafa þessi mót verið ein af þeim fjölmennustu síðustu ár, en hingað hafa verið að koma um 30 manns til keppni auk þess sem margir eru með fjölskyldur sínar með sér. Vonumst við til þess að þessi tímasetning muni falla vel í kramið og gestir okkar muni hafa gaman af að eyða Húnavöku helginni með okkur hér á Blönduósi.

Norðurlandsmeistaramótið verður haldið í samstarfi við Skotfélagið Ósmann á Sauðárkróki laugardaginn 15. ágúst.

Kvennamótið Skyttan er mót sem hefur verið að festa sig í sessi á undanförnum árum en það mót hefur verið notað til að kynna íþróttina fyrir konum og til að efla kvennastarfið.

Keppt er í nýliðaflokk og lengra komnar og Nýliðinn og Skyttan krýnd að móti loknu. Létt og skemmtilegt mót sem að gaman er að taka þátt í. Og ekki væri nú leiðinlegt að konur á svæðinu kæmu saman og væru með á mótinu.

Gaman væri að sjá bæjarbúa fjölmenna á svæðið þegar mótin eru og styðja okkar fólk.

Keppnisfólk
Að venju er mótaskrá Skotíþróttasambandsins þétt skipuð,en alls eru 16 mót í sumar að meðtöldum Smáþjóðaleikum og úrtökumótum vegna þeirra sem gilda til flokka og meta innan sambandsins.

Fyrsta landsmót ársins verður haldið í Hafnarfirði dagana 18.-19. apríl og svo verða mót flestar helgar fram í september, þannig að líkt og undanfarin ár verður keppnisfólk okkar á faraldsfæti næstu mánuði.

Smáþjóðaleikarnir 2015 verða haldnir á Íslandi og var formaður félagsins Snjólaug M Jónsdóttir valin í úrtakshóp í kvennaflokki síðastliðið haust, því miður bárust ekki nægjanlega margar skráningar frá öðrum þátttökuþjóðum og var því hætt við keppni í kvennaflokk. Til fróðleiks má geta að aðeins vantaði eina skráningu upp á til að keppni í kvennaflokk héldist inni á leikunum.

En von okkar er ekki úti enn um að eiga keppanda frá Markviss á leikunum þar sem Guðmann Jónasson komst inn í úrtakshóp karla eftir að einn keppandi lét sæti sitt laust. Tvö úrtökumót verða haldin á svæði Skotfélags Reykjavíkur í vor, hið fyrra  laugardaginn 25. apríl, og hið seinna verður haldið samhliða landsmóti dagana 2.-3. maí. Eftir þessi tvö mót verður ljóst hvaða tveir keppendur munu skjóta fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum í júní.

Auk móta innanlands mun Snjólaug M. Jónsdóttir taka þátt á alþjóðlega kvennamótinu „Ladies International Grand Prix“ sem fram fer að þessu sinni á Álandseyjum í ágúst, þá standa einnig vonir til að hún fari  til Englands í æfingabúðir hjá skotþjálfaranum Allen Warren sem vann með okkur hér heima síðastliðið haust.

Mikill kostnaður fylgir svona ferðum og hefur Snjólaug hafið fjáröflun til að fjármagna þær, með sölu á ýmsum nytsamlegum varningi fyrir heimili og fyrirtæki. Hægt er að hafa samband við Snjólaugu beint á snjoa.m@gmail.com eða í síma 848-2760

Markmið okkar fyrir komandi keppnistímabil er að keppendur okkar nái enn betri árangri í ár en á síðasta ári, en þá áttum við t.d. Íslandsmeistara í byrjendaflokki karla, sigurvegara í nýliðaflokki á kvennamótinu Skyttunni, Bikarmeistara í kvennaflokki og svo mætti lengi telja.

Uppbygging
En jú fleira þarf að gera en keppa og æfa. Mikil uppbygging hefur verið á svæðinu síðustu tvö ár og verður ekki linnt látum í því þetta árið. Á dagskránni er að þökuleggja skotvöllinn, hellulagnir og sáning, auk þess sem lokið verður við önnur verkefni sem eru í vinnslu.

Margar hendur vinna létt verk og er öll aðstoð við vinnuna vel þegin.

Einnig eins og flestir vita höfum við verið að vinna í aðstöðumálum fyrir riffilskotfimi og vonumst  við til að þau mál muni skýrast sem fyrst.

Uppsetning riffilbrautar er mikið hagsmunamál, bæði fyrir félagið og einnig fyrir þá fjölmörgu sem vantar örugga og góða aðstöðu til æfinga hvort sem er fyrir veiði eða af íþróttalegum toga.

Það segir sig sjálft að hvorki er ásættanlegt né hættulaust að stundaðar séu æfingar á opnum svæðum víðs vegar um bæjarlandið þó að slíkt hafi verið látið óátalið undanfarin ár og því brýnt að koma upp aðstöðu þar sem hægt yrði að stunda æfingar á öruggan hátt. Með tilkomu slíkrar aðstöðu gæti félagið einnig tekið að sér próf fyrir hreindýraskyttur, skotvopnanámskeið auk mótahalds í kúlugreinum.   

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga