Blönduóskirkja
Blönduóskirkja
Pistlar | 17. mars 2015 - kl. 14:42
Organistapistill - Lindin tær og ljúfur blær
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Hann er svartur, svipillur
samt er partur heiður,
lítið bjartur landaustur
ljótt er margt í útnorður.

Hreggviður á Kaldrana lýsir þannig veðurhorfunum einhvern tíma um 1800 en þá var hann þrítugur sjómaður út á Skaga þar sem bú hans var um þessar mundir.

Ótíð og kuldabálkar hafa lengi þjarmað að Frónbúum, dregið úr okkur hug, drepið í dróma framtíðaráætlanir og þrengt að kosti fátækra.

Lægðirnar 2015 trufla strætóferðir, rífa þakplötur af húsum og trufluðu Júlíus með morgunmjaltirnar á Torfalæk sem hann hafði lofað að sinna fyrir Jóhannes nágranna sinn.

En sunnudaginn 15. mars var veðrið gengið niður, fermingarstúlkurnar lásu ritningartextana með bravör í morgunmessunni í Blönduóskirkju, stormbáran á Flóanum kyrrðist, Sigurjón bassi tók rútu á Sparidagana í Örkinni í stað þess að hella upp á morgunkaffið handa söngfélögunum og presturinn fór í fjólubláa hökulinn í tilefni föstunnar.

Guðrún frá Syðri-Grund lét sig ekki vanta í kirkjuna, hress og glaðbeitt með 92 ár að baki, en þær mæðgur, hún og Valgerður dóttir hennar skreppa líka stundum fram að Auðkúlu þegar messað er í gömlu kirkjunni þeirra.

Um Grundarfólk segir Björn á Brandsstöðum 1850:

Þorsteinn er mikill bóndi og á börn vel upp örtuð, mannvænleg. Hann er spakur, þó hygginn og útsláttarlaus, í góðu áliti. Í manntali frá sama ári eru hjónin Þorsteinn og Sigurbjörg talin fyrst og síðan börn þeirra, drengirnir fyrst: Ingvar 12 ára, Helgi 10, Þorsteinn 7, Guðmundur 2 og Oddný 9 auk 2ja vinnumann, 2ja vinnukvenna og tökukerlingar hálfáttræðrar.

Áðurnefndur Þorsteinn bóndi á Grund er Helgason og langafi Valgerðar Guðmundsdóttir.

Nóg er komið af ættfræðinni og óðum styttist til páska en söngæfingar urðu stopular í lægðasyrpunni sem enn gengur yfir heiðar og flóa. Í guðsþjónustu á páskadagsmorgun syngjum við eftir venju páskasálmana og hátíðasöng sr. Bjarna, tengdasonar Lárusar sýslumanns á Kornsá. Í kirkjunni verður líka passíusálmalestur á föstudaginn langa og messað verður á skírdag í Baðstofunni/Héraðshælinu.

Kannski hentar lesandanum að koma til einhverrar áðurnefndra athafna.

Vorlega vísu veljum við nú til að enda þennan pistil. Vilhjálmur á Brandaskarði orti:

Röðull hlær og rennur skær
rósin grær á engi.
Lindin tær og ljúfur blær
leikur á skæra strengi.

http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=14396

Björn á Brandsstöðum: http://stikill.123.is/blog/2015/02/27/

Vísa Hreggviðs: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=24922

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga